Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verðbólgan dæmir stjórnvöld

Enn æðir verðbólgan áfram og ekkert virðist geta hamið hana.  Engar verðbólguspár virðast halda sama hver semur.  Hvers vegna?

Verðbólgan er ansi góður mælikvarði á gæði hagstjórnar, nokkuð sem allir Þjóðverjar vita og eru sammála um.  Aðeins þjóðir sem temja sér góða hagstjórn geta búið við lága verðbólgu og stöðugan og sterkan gjaldmiðil.  Oft er bent á að í mörgum evrulöndum sé evran að ganga frá öllu dauðu og þá sé nú munur að hafa krónu sem hægt sé að setja í frjálst fall.  En hvað er orsök og afleiðing hér?  Er það sterkur gjaldmiðill eða léleg hagstjórn?

Það þarf sterka hagstjórn til að búa við sterkan gjaldmiðil og lága verðbólgu.  Þetta er hægara sagt en gert og aðeins á færi örfárra þjóða.  Í Evrópu eru það aðeins 3 germanskar þjóðir sem hafa áratuga reynslu og kunnáttu í þessum málum, þ.e. Þýskaland, Holland og Sviss. Flestum öðrum þjóðum hefur fipast flugið en fáar þjóðir hafa hrapað jafn oft til jarðar og Íslendingar.  Og hver er skýringin?  Jú, vandræðin hér á landi eru oftast útlendingum að kenna, hrunið var allt EES regluverki að kenna og svo voru Bretar og Hollendingar svo óforskammaðir að vilja fá peninga sinna skattborgara til baka.  Aðeins Íslendingar með rétt flokksskírteini geta stjórnað Íslandi, eða hvað?

Spurningin sem kjósendur þurfa að svara er hvort hagstjórn til næstu 50 ára sé best borgið í gamla íslenska kerfinu eða hvort við eigum að ganga inn í ESB og notfæra okkur erlenda reynslu og aðstoð?

Í þessu sambandi er hollt að velta fyrir sér hvort Ísland hefði farið jafn illa út úr þessu hruni og raun er orðin ef erlendir aðilar hefðu stjórnað bönkunum og íslenskum fyrirtækjum?  Vart er hægt að hugsa sér jafn hörmulegar ákvarðanatökur og við höfum séð hér á landi á síðustu misserum og árum.  Það er því eðlilegt að búast við að Ísland hafni ESB aðild, sjaldan er ein báran stök.

 


mbl.is Verðbólgan 8,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um fjármál OR og óútskýrða samninga

Anna Skúladóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá OR skrifar í Fréttablaðið í dag og á vef OR um fjármálastöðu fyrirtækisins.   Ekki er ég sammála henni að fjárhagsleg staða OR sé sterk en annars er það sem hún skrifar gott og blessað svo langt sem það nær og svo framalega sem hennar forsendur standast.  En það er það sem hún skrifar ekki um sem er athyglisverðast, nefnilega stærsti útgjaldaliður OR sem slagar hátt í rekstartekjur fyrirtækisins. 

Í 6 mánaða uppgjöri til 30.06.09 er eftirfarandi liður undir kafla 6. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld:

Gengismunur og framvirkir gjaldmiðlasamningar ..............  (10.154.320.000) kr.

Hvaða framvirka gjaldmiðlasamninga hefur OR gert og á hvaða forsendum? Voru þeir gerðir til að verja OR gegn falli krónunnar til að viðhalda jöfnuði á milli tekna í krónum og skulda í erlendri mynt?  Það hefði verið rökrétt en þá er spurningin hvers vegna er þessi liður negatífur en ekki pósitífur?

Hvers vegna eru engar skýringar á þessum stærsta útgjaldalið í rekstraruppgjöri OR og hvers vegna vill enginn tala um þetta, hvorki blaðamenn, stjórnmálamenn eða menn innan OR? 

PS.

Fyrir lesendur sem ekki eru vel inni í framvirkum gjaldmiðlasamningum læt ég fylgja útskýringu fengna á vef Arion:

Í stuttu máli má segja að framvirkur gjaldmiðlasamningur sé samningur á milli tveggja aðila, þar sem annar aðilinn skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðna upphæð af gjaldeyri á ákveðnu gengi á umsömdum tíma í framtíðinni. Lengd framvirkra samninga er yfirleitt innan við ár.

Yfirleitt gera aðilar framvirka samninga til þess að verja einhverja stöðu í gjaldeyri, en þó þekkist það að gerðir séu samningar til þess eins að reyna að græða á gengisbreytingum. Þegar slíkt er gert, getur tap eða hagnaður af stöðunni verið mikill.

 


OR í björtu báli

Ég minntist á hina hræðilegu fjármálastöðu OR í Silfri Egils á sunnudaginn og margir hafa beðið mig að setja þær tölur sem ég nefndi þar á prent.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs minnkaði eigið fé OR frá 48.3 ma kr í 37.3 ma kr eða um 11 ma.  Þetta er hærri upphæð en sem nemur öllum niðurskurði í heilbrigðismálum hér á þessu ári.  Þetta er rúmlega 20% af öllum tilkynntum skattahækkunum á næsta ári. 

Þetta þýðir að fjölskylda sem borgaði 15,000 kr á mánuði fyrstu sex mánuði ársins í heitt vatn og rafmagn sá 3 sinnu hærri upphæð eða um 50,000 kr. á mánuði brenna upp af sínum "eignarhluta" í OR.  Þetta er jú opinbert fyrirtæki.

Og hvernig bregst OR þessu.  Jú, fyrirtækið kallar á meira brennsluefni frá lífeyrissjóðunum.  Allt á að lækna á þann eina hátt sem Íslendingar kunna, kalla á meira lánsfé.

Fjórflokkarnir virðast hafa komið sér saman um að þegja um þetta og ekki verður séð að þessi eignarbruni sé ofarlega í huga okkar Alþingismanna. 

Hvaða þekkingu og vit hafa okkar stjórnmálamenn á fjármálum orkufyrirtækja?  Er þögn skynsamleg úrlausn? 


Hvaða einstaklingar stjórna Arion?

Það er ekki Arion sem tekur ákvarðanir heldur einstaklingar innan bankans eða utan.  Hvaða einstaklingar eru þetta?  Er þetta einn maður eða fleiri?  Hvernig komast þessir menn að niðurstöðu?  Hverra hagsmuna er verið að gæta?  Hvers vegna hefur Alþingi ekki sett þessum bönkum nýjar vinnureglur og hvers vegna var ekki farið eftir ráðleggingum útlendinga um meðhöndlun á skuldsettum fyrirtækjum?

Hvernig væri að menn legðu fram endurskoðaða ársreikninga fyrir Haga og skriflega yfirlýsingu erlendra fjárfesta um að þeir séu tilbúnir að leggja fram fjármagn.  Hvaða arðskröfu gera þessir útlendingar og hvaða tryggingar fara þeir fram á svo peningar þeirra gufi ekki upp hér?  Eru þetta raunverulegir peningar eða aflandskrónur sem leggja á í Haga?


mbl.is Segja ákvörðun Arion ráðgátu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk famtíðarsýn enn á huldu

Ísland hefur enn ekki markað sér skýra framtíðarsýn.  Eitt virðast þó flestir vera sammála um og það er að halda áfram að rífast á meðan endurreisnarstarfið er rekið í þoku.  Leiðtogaleysið er okkar mesta böl um þessar mundir.  Við eigum leiðir út úr þessari kreppu, engin þeirra er nein töfralaus og allar gera miklar kröfur til okkar stjórnmálamanna.  Hins vegar virðist sú leið að draga lappirnar og bera kápuna á báðum öxlum henta mörgum best.

Í sínu einfaldasta formi stöndum við frammi fyrir tveimur möguleikum. Einn er að ganga inn í ESB, hinn er að standa fyrir utan.  Sitt sýnist hverjum um þessar leiðir en eitt er víst við verðum að velja hvað við ætlum að gera og margt hangir á þessari spýtu.

Ef við ætlum inn í ESB er Icesave samningurinn okkar aðgangseyrir.  ESB aðild mun auðvelda okkur aðgang að lánamörkuðum og með stuðningi Evrópska Seðlabankans eru meiri líkur á að krónan muni geta orðið eitthvað annað en matadorpeningar.  Þar með aukast líkurnar á að við getum aukið okkar útflutningstekjur og getum staðið við okkar stóru skuldbindingar.

Hins vegar ef við ákveðum að hafna ESB aðild er erfitt að sjá að skynsamlegt sé að samþykkja Icesave.  Það eykur aðeins á skuldabaggann án þess að gefa okkur nýjar leiðir til að nálgast erlenda fjármálamarkaði og koma krónunni í skjól.  Þessi leið mun líklega þýða að við verðum að endurskoða AGS samkomulagið þar sem ekki er líklegt að hin Norðurlöndin séu tilbúin að lána okkur fyrri upphæðir ef við höfnum Icesave.  Það verður því erfiðara að auka okkar útflutningstekjur en með ESB inngöngu og við verðum líklega að ganga til nauðasamninga við okkar lánadrottna ef við viljum ekki stöðnun og landflótta.  Þessi leið er því háð miklu meiri óvissu en inngana í ESB og margt er á huldu hvað gerist ef við veljum að hafna ESB.

Það er hins vegar ábyrgðarleysi af stjórnmálamönnum að útskýra þessa tvær leiðir ekki betur fyrir almenning en gert hefur verið.

Að vaða í þoku og afneitun er engin framtíðarsýn.

 

 

 

 


mbl.is Gæti sparað 185 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþing, Hagar og pólitíkin

Ef það er rétt að Kaupþing sé orðið eigandi að Högum vaknar upp spurningin, hvað næst.  Hvað ætlar Kaupþinga að gera við Haga?  Þetta ætti að vera viðskiptafræðileg spurning en ekki pólitísk.

Bankaráð Kaupþings ber að gæta hagsmuna eigenda bankans sem eru kröfuhafar.  Hins vegar var bankaráði ekki valið af kröfuhöfum heldur pólitískum öflum.  Svona stjórnarhættir eru ekki vel til þess fallnir að leiða til eðlilegra og rökréttra ákvarðana.

Eins og svo oft vill verða eru að myndast tvær fylkingar sem vilja berjast um fyrirtækið.  Margt er óljóst hverjir raunverulega standa á bak við þessa aðila og hvaðan peningarnir koma.

Almenningur hefur verið virkjaður til að standa með hinni nýju fylkingu sem berst við gömlu eigendurnir en hér er hætta á ferð.  Ekkert hefur verið gert í að bæta stjórnarhætti almenningshlutafélaga hér.  Við erum með sömu leiðbeinandi reglur sem hafa reynst svo illa og tryggja engan vegin rétt smærri hluthafa.  Ef nýir aðilar ná tökum á Högum með hjálp almennings geta þeir stýrt og stjórnað öllu, og ráðið alla stjórnarmenn sjálfir.  Enginn mun gæta hagsmuna almennings, nema í orði.

Ef rétt á að vera haldið á málum hér, þarf eftirfarandi að gerast:

  1. Alþingi þarf að samþykkja lög um stjórnarhætti almenningshlutafélaga þar sem meirihluti stjórnarmanna þurfa að vera óháðir stærstu hluthöfum og allar stjórnir þurfa að hafa endurskoðunarnefnd þar sem formaður hennar er óháður stjórnarmaður.
  2. Kaupþing sem eigandi Haga þarf að ráða þriðja aðila til að fara með Haga í söluferli.  Best er að þetta sé traustur norræn banki, t.d. Nordea.  Söluferlið á að gera opinbert og auglýsa innan EES.
  3. Kaupþing á að setja upp nefnd sem fer yfir kauptilboð og í henni eiga að sitja erlendir fjármálasérfræðingar og fulltrúar kröfuhafa.

mbl.is Stjórn Nýja Kaupþings fjallar um málefni móðurfélags Haga í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfið til vinstri fortíðar í skattamálum

Ekki er hægt að segja að skattatillögur ríkisstjórnarinnar séu frumlegar eða vænlegar til að örva einkageirann og skapa atvinnutækifæri. 

Auka þarf skatttekjur, það er alveg ljóst en það er ekki sama hvernig það er gert og í hvaða hlutföllum.

Ráðast þarf fyrst á ríkisbáknið og sníða því stakk eftir vexti áður en skattahækkanir eru ákveðnar. 

Hyggilegra hefði verið að dreifa aðhaldsaðgerðum yfir lengri tíma og hafa blöndunarhlutföllin á milli niðurskurðar og skatta 2/3 og 1/3 en ekki helmingaskipti.  Það verður að dreifa byrðunum jafnt.  Einkageirinn hefur tekið á sig mestan skellinn.  Atvinnuleysi er nú um 7-8%.  Hversu stór hluti þessa hóps eru fyrrverandi ríkisstarfsmenn?

Svo sé ég að Lilja Mósesdóttir hefur fengið sinn eignarskatt inn en þó ekki nema upp á 1.25% en ekki 3% eins og talað var um fyrr á árinu, en það er enn langt til ársins 2012.  Það má búast við að þessi prósenta hækki ár frá ári og skattleysismörkin sígi jafn og þétt eftir því sem þessi skattur skilar minna og minna inn.  3 ma kr. er ekki há tala þegar hallinn er 180 ma kr.  Vandamálið er að þessi skattur "lekur".  Margir sem eiga skuldlausar eignir yfir 120 m kr. hafa ráð og efni á að bregðast við þessu.  Margir eru þegar fluttir úr landi og fleiri eiga eftir að fylgja.  Þar með tapast aðrar skatttekjur, sérstaklega fjármagnstekjuskattur.  Allt í allt, má teljast gott ef þessi skattur skilar sér á sléttu.  Miklu líklegra er að hér sé um pólitíska ákvörðun að ræða en hagfræðilega.  

 


mbl.is Þriggja þrepa skattkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir látnir kaupa OR rusl

Samþykkt Reykjavíkurborgar um að heimila OR að auka skuldabyrgði sína um 10 ma kr. er óskiljanleg.  Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, lánshæfni er komin í ruslaflokk, og fjármálastjórnun síðustu ára er með eindæmum.  Nær hefði verið að fara fram á rannsókn á hvers vegna OR er í jafn vonlausri fjárhagslegri stöðu og raun ber vitni.

Sagt er að þessir peninga eigi að fara í fráveituframkvæmdir.  Ekki væri ég hissa ef eitthvað af þessu fé færi í að borga "arð" til eigenda og vexti til lánadrottna.

Svo verður athyglisvert að fylgjast með hvort lífeyrissjóðirnir kaupi þessi bréf og á hvaða vöxtum og með hvaða afföllum.  Í flestum löndum eru skýr lög um að lífeyrissjóðir geta og mega ekki kaupa ruslabréf (junk bonds).  Þessi lög hafa verið sett til að vernda hagsmuni sjóðsfélaga.

Sú staðreynd að opinber aðili leggur til að lífeyrissjóðirnir kaupi rusl sýnir að viðskiptasiðferði á Íslandi er langt fyrir neðan það sem boðlegt getur talist. 

Eins og svo margt annað er viðkemur fjármálum og neytendavernd eru svona aðgerðir löglegar á Íslandi en bannaðar erlendis.  Er furða að útlendingar hristi hausinn yfir íslenskum vinnubrögðum og siðferði. 

Nú verða sjóðsfélagar að standa upp og verja sína hagsmuni og fjármuni.  Það er ekki lífeyrissjóðanna að borga fyrir þau hörmulegu mistök sem hafa átt sér stað hjá OR.

 


Seðlabankamenn: "persona non grata" í Evrópu?

"Í lok apríl 2008 hringdi Jean-Claude Trichet, aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu, ævareiður í Davíð Oddsson seðlabankastjóra, og hótaði að grípa til aðgerða sem myndu leiða til þess að íslensku bankarnir yrðu gjaldþrota innan tíu daga."   Þetta segir Eyjan í frétt um nýja bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið.

Þetta skýrir margt.  Líklegt er að allir helstu seðlabankar heims hafi verið búnir að setja Seðlabanka Íslands á svartan lista fyrir september 2008.  Nú er komin skýring á hvers vegna enginn hjálpaði okkur og við fengum engar gjaldeyris "swap" línur eins og aðrar Norðurlandaþjóðir eftir fall Lehmans.

Þetta skýrir líka hvers vegna það var svo nauðsynlegt að losna við Davíð úr Seðlabankanum og fá erlendan aðila inn til að hreinsa til.  Spurningin er hvort nógu vel hafi verið tekið til í Seðlabankanum og hvort nýir stjórnendur þar séu ekki of tengdir fortíðinni? 

Betra hefði verið að fá algjörlega nýtt lið inn í Seðlabankann sem hafði aldrei unnið þar áður.  Það hefi gert okkur auðveldar að endurnýja traust erlendar aðila á stofnuninni ef það er þá hægt.  Það tekur áratugi að skapa traust og trúverueika á störfum seðlabanka.  

Kannski er líka komin sýring á hvers vegna ekkert er lengur talað um að biðja um tvíhliða samningi við Evrópska Seðlabankann til að styðja við krónuna?

 

 


Spilling í skjóli tungumáls og fjarlægðar

Það er að renna upp fyrir Transparency International að upplýsingar sem þeir hafa fengið frá Íslandi eru kannski ekki eins óspilltar og þeir héldu.  Það er margt hægt þegar maður er með tungumál sem enginn önnur þjóð talar. 
mbl.is Ísland lækkar á spillingarlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband