Verðbólgan dæmir stjórnvöld

Enn æðir verðbólgan áfram og ekkert virðist geta hamið hana.  Engar verðbólguspár virðast halda sama hver semur.  Hvers vegna?

Verðbólgan er ansi góður mælikvarði á gæði hagstjórnar, nokkuð sem allir Þjóðverjar vita og eru sammála um.  Aðeins þjóðir sem temja sér góða hagstjórn geta búið við lága verðbólgu og stöðugan og sterkan gjaldmiðil.  Oft er bent á að í mörgum evrulöndum sé evran að ganga frá öllu dauðu og þá sé nú munur að hafa krónu sem hægt sé að setja í frjálst fall.  En hvað er orsök og afleiðing hér?  Er það sterkur gjaldmiðill eða léleg hagstjórn?

Það þarf sterka hagstjórn til að búa við sterkan gjaldmiðil og lága verðbólgu.  Þetta er hægara sagt en gert og aðeins á færi örfárra þjóða.  Í Evrópu eru það aðeins 3 germanskar þjóðir sem hafa áratuga reynslu og kunnáttu í þessum málum, þ.e. Þýskaland, Holland og Sviss. Flestum öðrum þjóðum hefur fipast flugið en fáar þjóðir hafa hrapað jafn oft til jarðar og Íslendingar.  Og hver er skýringin?  Jú, vandræðin hér á landi eru oftast útlendingum að kenna, hrunið var allt EES regluverki að kenna og svo voru Bretar og Hollendingar svo óforskammaðir að vilja fá peninga sinna skattborgara til baka.  Aðeins Íslendingar með rétt flokksskírteini geta stjórnað Íslandi, eða hvað?

Spurningin sem kjósendur þurfa að svara er hvort hagstjórn til næstu 50 ára sé best borgið í gamla íslenska kerfinu eða hvort við eigum að ganga inn í ESB og notfæra okkur erlenda reynslu og aðstoð?

Í þessu sambandi er hollt að velta fyrir sér hvort Ísland hefði farið jafn illa út úr þessu hruni og raun er orðin ef erlendir aðilar hefðu stjórnað bönkunum og íslenskum fyrirtækjum?  Vart er hægt að hugsa sér jafn hörmulegar ákvarðanatökur og við höfum séð hér á landi á síðustu misserum og árum.  Það er því eðlilegt að búast við að Ísland hafni ESB aðild, sjaldan er ein báran stök.

 


mbl.is Verðbólgan 8,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Ef við göngum ekki til samstarfs við Evrópuþjóðirnar með inngöngu í ESB  og lifum hér einangruð með okkar "hagkerfi og krónu" - þá verður hér efnahagslegísöld. Ungt og alþjóðlegamenntað fólk hverfur úr landi og skapar sér lífvænlega framtíð erlendis.

Engin Evrópuþjóð er jafnháð innflutningi og Íslendingar. Án þessa innflutnings verður ekki haldið uppi nútímalífsháttum.  Og við lifum á útflutningi. Að ganga í efnahagsbandalag við jafnstórt efnahagssvæði sem ESB sýnist þessari þjóð hrein lífsnauðsyn. Heimastjórnarhagfræðin er gjaldþrota hjá okkur Íslendingum og ekki á vetur setjandi- hvað þá meir....

En valið verður okkar-hvort við kjósum kuldann eða hlýjuna.

Sævar Helgason, 26.11.2009 kl. 10:41

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sævar,

Þetta er málið, annað hvort förum við inn í ESB eða unga kynslóðin flytur úr landi og inn í ESB.  Ísland verður þá veiðistöð með áhangandi elliheimili.

Andri Geir Arinbjarnarson, 26.11.2009 kl. 10:43

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki er það nú einhlítt, að innganga í ESB og upptaka Evru bjargi öllum málum.  Víða í Evrópu er ástandið slæmt, ekki síst hjá löndum, sem eru búnar að taka upp Evru eða tengja sig við hana.

Eins og þú segir Andri Geir:  "Í Evrópu eru það aðeins 3 germanskar þjóðir sem hafa áratuga reynslu og kunnáttu í þessum málum, þ.e. Þýskaland, Holland og Sviss. Flestum öðrum þjóðum hefur fipast flugið en fáar þjóðir hafa hrapað jafn oft til jarðar og Íslendingar."

Það, sem vantar er almennileg hagstjórn, en eins og þú segir líka, hefur hana ekki bara skort undanfarna áratugi, heldur alveg frá lýðvelsisstofnun.

Axel Jóhann Axelsson, 26.11.2009 kl. 11:00

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Axel,

Auðvita er ESB engin töfralausn en er eitthvað annað af viti í boði?  Maður verður hreinlega að fara að líta á þetta eins og veðmál. Hverjar eru líkurnar á endurreisn með:

1. Gamla íslenska kerfinu?

2. Nýju íslensku kerfi með nýjum mannskap, ef hann finnst?

3. Inngöngu í ESB og aðhaldi frá Brussel?

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef, verð ég að draga þá ályktun að líkurnar á endurreisn eru hæstar með möguleika 3. ESB aðild.  Ég hlusta á aðra möguleika en þeir verða að vera rökstuddir og vel útskýrðir.

Á endanum er besta að dæma þetta út frá líkindareikningi en ekki lýðskrumi eða þjóðernisrembingi. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 26.11.2009 kl. 11:14

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður pistill Andri.

Þetta sem þú nefnir hér og þessir þrír möguleikar sem þú nefnir í athugasemd þinni, þetta er kjarni málsins.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta spurning um hvort við viljum setjast enn á ný upp í íslenska rússíbanann og veðja á það enn eina ferðina að hann haldist á teinunum í 4 til 8 ár.

Við þekkjum þetta allt, við erum marg búin að reyna þennan rússíbana. Það hefur engu skipt hverjir hafa verið við stjórn, ferðin í þessum rússíbana endar alltaf á sama veg.

Ég segi fyrir mig, ég er búinn að fá nóg af þessum rússíbana og vil gjarnan breyta til og fara í gegnum lífið í öðru farartæki.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.11.2009 kl. 14:47

6 identicon

Sé miðað við þróun verðlags (ásamt húsnæðislið) frá 1996 og til nóv. 2009 þá er meðalársverðbólga um 5,3% miðað við 3ja mánaða meðaltal.

Líkurnar á því að verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands upp á 2,5% sé náð eru um 33%.

Líkurnar á því að 12 mánaða verðbólga verði hærri en 4% eru um 41%

Stöðugleiki og agi í hagstjórn á Íslandi ? Dæmi hver fyrir sig.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 15:05

7 identicon

Takk fyrir góðan pistil! Held að við sjáum fram á áframhaldandi basl með krónuna. Það hefur verið og verður áfram sterkur áróður gegn ESB hjá ákveðnum aðilum. Þar má nefna bændur, kvótakónga með sinn LÍÚ grátkór, hægrimenn hjá íhaldinu sem vilja ná völdum á ný og vilja ekkert ytra eftirlit. Þeir eru í afneitun á hrunið eins og alkóhólisti sem þarf að fara í meðferð en getur ekki horfst í augu við það. Ný bók Styrmis sýnir það best. Og ekki má gleyma kommunum en það virðist stutt á milli þeirra og hægriöfga íhaldsins. Allir þessir aðilar eru með sterkan áróður gegn ESB. Eg er hræddur um að það nægi til að fella aðild. Er því hræddur um að við verðum áfram að horfa upp á óðaverðbólgu, okurvexti, dýrasta mat á byggðu bóli og óstjórn eins og verið hefur mestan part síðan við slitum sambandi við dani. Því miður. 

HF (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 19:51

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hvernig mælir maður gæði hagstjórnar.

A) Með verðbólgu á hagstjórnasvæðinu

B) Með hitamælingum á hagstjórnasvæðinu

C) Með aukningu lífsgæða á hagstjórnarsvæðinu

D) Meðaltal hita og verðbólgu á hagstjórnasvæðinu.

Guðmundur Jónsson, 26.11.2009 kl. 20:29

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er 6,5% verðhjöðnun á Írlandi núna. Verðbólgutakmark ECB er +2% verðhækkun á ári. Þetta er þá ca. 420% undir verðbólgumarkmiði seðlabanka Evrópusambandsins. Þetta kallar maður nú verðstöðugleika. Stanslaust hrun.

Bentu mér vinsamlegast á fjárfesti sem vill kaupa X í dag þegar það fæst fyrir ekki neitt á morgun. Fjárfestar eru jú svo heimsþekktir fyrir að vilja kaupa eignir sem verða að öngvu á morgun. Þess vegna er ekki hægt að þverfóta fyrir þeim á Írlandi, Spáni, Lettlandi, Grikklandi, Litháen, Eistlandi - eða bara í stuttu máli - í evrulandi núna. Ekki hægt að þverfóta. Spurðu bankakerfin í þessum löndum? Þau baða sig í velgengninni.

Já þetta er allt saman seðlabanka Evrópusambandsins að kenna. Neikvæðir raun-stýrivextir bankans í mörg ár í mögum löndum ESB skilja eftir sig brunarústir víða. Brunarústir einar.   

Takk fyrir kaffið Andri

Smá fræðsla: Hugleiðing um raun-stýrivexti 

Gunnar Rögnvaldsson, 27.11.2009 kl. 00:58

10 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Innganga inn í ESB verður erfið og mun gera miklar kröfur til okkar stjórnvalda og ekki hefur öllum þjóðum sem hafa gengið inn í ESB tekist upp nógu vel.  Hins vegar breytir það ekki mínu áliti að líkur á efnahagsbata hér eru hærri innan ESB en utan.

Innganga inn í ESB snýst ekki eingöngu um raunvexti og peningamálastefnu, þetta snýst líka um traust, trúverðugleika og betri mannréttindi fyrir almenning.  Evrópudómstóllinn mun bæta réttarstöðu hins almenna borgara hér gegn spilltu stjórnkerfi. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 27.11.2009 kl. 09:08

11 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Verðbólga er ekki mæling á gæðum hagstjórnar ekki frekar en hitamælir. Verðbólga mælir rýrnun /aukningu á virði fiat gjaldmiðils og segir til um hvað maður tapar eða græðir á að geima hann undir koddanum sínum.

Það versta sem gerist í hagkerfi er liquidity trap (þá borgar sig að geima peninga undir koddanum) sem er afleiðing neikvæðra raunvaxta.

Neikvæðir stýrivextir eru ekki til og þess vegna er hófleg verðbólga nauðsinleg, þetta eru margar þjóðir að reka sig illa á núna, Hvað er hófleg fer svo mest eftir tíðni sveflna og hraða uppbyggingar í hagkerfinu.

Stöðnun í óendanlegum stöðugleika bara draumur huglausra gamalmenna.

Guðmundur Jónsson, 27.11.2009 kl. 10:33

12 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Guðmundur,

Er þá ekki bara upplagt að prenta peninga eins og var gert í Weimar lýðveldinu.  Gaman væri að heyra hvað margir Þjóðverjar eru sammála þér.  

Frekar vildi ég búa í Þýskalandi en Simbabve.

Andri Geir Arinbjarnarson, 27.11.2009 kl. 10:47

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hóf er ein dygðanna sem menn þurfa að kunna til að fóta sig í lífinu.

Nú er þvílík ofur áhersla á halllaus fjárlög hér til þess eins að verja eignir útlendinga Á íslandi að við erum með 5000 vinnufúsar hendur sitjandi heima við að horfa á neikvæðar fréttir af icesave.

Trikkið er að halda fólki sem vill vinna við vinnu að skapa raunveruleg verðmæti, þannig vex raunvirði þjóðarframleiðslu og skiptir þá engu máli hvort maður borga 10 kall eða 1000 kall fyrir lítar af mjólk. Raunverðmætin eru í því að geta búið til meira af mjólk.

Guðmundur Jónsson, 27.11.2009 kl. 11:16

14 identicon

Verðbólga er í eðli sýnu peningaprentun sem rýrir gjaldmiðil og þar með raunverðmæti fyrirtækja og fjölskyldna.

Verðbólga felur þannig hagstjórnarmistök hins opinbera sem dulin eru með innihaldslausum lántökum sem næstu kynslóðir verða að bera og borga.

"We have been there, done that"

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 14:39

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Guðmundur,

Það er málið, við þurfum að fara að setja fólk í störf sem skapa gjaldeyri.  Ekki aðeins atvinnulausa heldur stóran hóp manna sem nú vinna i bönkum og í smásölu.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 27.11.2009 kl. 15:45

16 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Störf þurfa ekki endilega að skapa gjaldeyri, þau þurfa að skapa verðmæti hvaða nafni sem þau nefnast, mestu verðmætinn eru að mínu mati í mentunn og góðri heibrigðisþjónustu.

Ef það kostar viðvarandi halla á fjárlögum og tveggjastafa verðbólgu þá er það miklu skárri kostur en að hafa fólk sem vill vinna að þessu á bótum við að gera ekki neitt eins og viðtekið er víða í dag.

Peningar eru ekki verðmæti heldur ávísanir á þau. Ef fólkið sem notar penigana hættir að búa til verðmæti vegan þess að það græðir á því að geyma þá undir koddanum sínum má segja að eggið sé farið að kenna hænunni og hagvaxtarhvatin sem fiat penigar búa venjulega til í hagkerfunum hverfur. Þetta veldur algeri stöðnun í samfélögum eins og dæmin sanna og mönnum gengur illa að finna leið út.

Hérna er fín grein eftir David McWillians sem tekur aðeins á því hvenær á að prenta peninga.

http://www.davidmcwilliams.ie/2009/11/18/state-should-start-printing-money-to-rescue-economy

Guðmundur Jónsson, 27.11.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband