Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Töluverðar líkur á greiðsluþroti og stöðnun

Minnihlutaálitin sem fylgja Icesave frumvarpinu eru athyglisverð.

Lilja og Ögmundur benda á að erlend skuldastaða þjóðarbúsins muni nema 310% af landsframleiðslu 2009 sem er mun hærri tala en 240% sem AGS hefur sagt að sé óviðráðanlegur baggi.

Þór Saari bendir á að Seðlabankinn geri ráð fyrir 163 ma afgangi af viðskiptum við útlönd á ári, næstu 10 árin.  Fyrstu sex mánuði þessa árs var jöfnuður vöru og þjónustu við útlönd jákvæður um 38.5 ma eða 77 ma á ársgrundvelli.  Ennfremur bendir Þór á að Seðlabankinn geri ráð fyrir að viðskipti við útlönd verði 50% af landsframleiðslu næstu árin en hefur hingað til numið 1/3.

Páll Blöndal og fleiri benda á að vaxtakjör á Icesave séu okurvextir upp á 5.5% og þar með 170 punktum fyrir ofan fjármagnskostnaðar Breta og Hollendinga.

Hér er komið gott efni í einfaldan reikning.  Byrjum á greiðslugetunni.  Ef við trúum Seðlabankanum og gefum okkur að útflutningstekjur á næstu árum verði svipaðar og nú en að við drögum enn meir úr innflutningi á vörum og þjónustu sem nemur 16% eða um 86 ma, þá náum við jöfnuði upp á 163 ma.

Erlendar skuldir upp á 310% af landsframleiðslu nema 4,340 ma kr.  Gefum okkur að meðalvaxtakostnaður af þessum lánum sé 4.5% (100 punktum fyrir neðan Icesave).  Hreinn vaxtakostnaður er þá um 195 ma á ári.

Vaxtakostnaður er því um 32 ma hærri en viðskiptajöfnuður okkar við útlönd.  Til að þetta gangi upp á sléttu þurfa meðalvextir að vera 3.75%.  Það er kannski sú tala sem Seðlabankinn notar.  En miðað við vextina á Icesave og öll þau lán sem þarf að endurfjármagna á næstu árum er ansi mikil bjartsýni að nota svo lága tölu.

Það er alveg ljóst að allt veltur á vaxtakjörum sem við fáum í framtíðinni hvort hér verður greiðsluþrot eða ekki.  Eitt er víst, ekki má mikið út af bera til að illa fari.

 

PS.  

Forsendur Seðlabankans um útflutning sem hlutfall af landsframleiðslu eru athyglisverðar.  Ef þetta hlutfall verður um 50% næstu árin og 5 ára spá AGS um flata landsframleiðslu á mann í dollurum gengur eftir eru litla sem engar líkur á að krónan styrkist að neinu marki a.m.k. ekki næstu 5 árin.  Ef krónan styrkist þá má búast við að innflutningur aukist og þá riðlast þessi hlutföll og forsendur Seðlabankans hrynja eins og spilaborg.  Lágt og stöðugt gengi er því mikilvæg forsenda fyrir þessu plani.  Þar með er séð til þess að lífskjör Íslendinga er haldið niðri miðað við nágrannalöndin til að skapa afgang til að borga útlendingum vexti.  Eina ráðið til að komast út úr þessari úlfakreppu er að auka útflutningstekjur okkar. Aðeins þegar þær fara að aukast getur krónan rétt úr sér. En þá vaknar spurningin hvar á fjármagnið að koma til að byggja upp nýjan stofn útflutningstekna? 


mbl.is Ekki hætta á greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítþvottur Seðlabankastjóra í París

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, flutti í síðustu viku erindi í París um orsakir og afleiðingar fjármálakreppunnar á Íslandi, um viðbrögð við henni og endurbata. Erindið var flutt á málstofum sem kenndar eru við Adam Smith.  Svo segir á vef Seðlabankans í gær.  Þar er líka að finna gögn sem Már studdist við í sínu erindi og eru þau um margt athyglisverð.

Sérstaklega er athyglisverður kaflinn þar sem Már talar um orsakir bankahrunsins á Íslandi.  Þar kennir hann um alþjóðakreppunni og stærð bankanna miðað við hagkerfið og svo gölluðu EB regluverki sem hafi sérstaklega verið óhentugt litlum löndum sem standa fyrir utan EB (Liechtenstein virðist þó bara spjara sig vel en látum það liggja á milli hluta). 

Það sem vekur mesta athygli í þessu gögnum eru hlutir sem ekki er minnst á.  Ekki er eitt aukatekið orð um FME.  Þeir sem ekki þekkja vel til Íslands gætu dregið þá ályktun að hér sé ekkert fjármálaeftirlit.  Sama má segja um Seðlabankann og íslensk stjórnvöld.  Ekki er minnst á að þessir aðilar hafi átt neinn þátt í hruninu.  Allri skuldinni er skellt á bankana og útlendinga.  

Már dregur upp hvítt tjald.  Öðrum megin sitja hreinir stjórnmálamenn allra flokka, Seðlabankinn, FME og aðrar ríkisstofnanir en hinum megin standa bankarnir, fyrirtækin og almenningur í forinni sem er dælt frá útlöndum. 

Hvað ályktanir eiga útlendingar að draga af svona framkomu?  Eru Íslendingar svona hrokafullir eða vitlausir, nema hvorutveggja sé? 

Annað sem vekur athygli í þessu plaggi er að Már viðurkennir að vextir séu of háir fyrir innlenda hagkerfið og að um 78 m evra (14 ma kr) hafi verið eytt á síðustu 10 mánuðum til að styðja við krónuna frá genginu 165 í tæp 185 kr.!

Lengi getur vont versnað.

 


Að gleðja Steingrím

Er furða að sænski fjármálaráðgjafinn Mats Josefsson sé búinn að gefast upp á Steingrími og íslensku stjórnkerfi.   Hann fer varla að koma hingað til lands til þess eins að "gleðja" Íslendinga.  Það eru nógu margir trúðir við Austurvöll og algjör óþarfi að eyða gjaldeyri í að flytja þá inn.

Hitt er alvarlegra, að hin mjög svo málefnalega gagnrýni frá Mats skuli ekki vera ofar í huga fjármálaráðherra.  Hann grípur til alveg sömu tækni og margir íslenskir stjórnmálamenn, nefnilega, að nota háð og spott og ráðast á persónuleika Mats en ekki hans tillögur.  Þetta finnst Íslendingum voða sniðug og fyndið. 

Það er virkilega sorglegt að maðurinn sem sagði að við ættum að fara að haga okkur meir eins og hin Norðurlöndin skuli svara á þennan hátt.   Þetta vekur einnig upp spurningar um hvaða stjórn fjármálaráðherra hefur á sínum ráðgjöfum?  

Nei, Icesave klúðrið, seinagangur við endurreisn bankakerfisins og mistökin að hafa ekki sett um eignarsýslufélag um fyrirtæki sem þurfa skuldaniðurfellingu tala sínu máli.  

 


mbl.is Samningur við Josefsson rennur út um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar og lág laun eru framtíðin á Íslandi

Miklar breytingar á skattakerfi breyta hegðunarmynstri fólks.  Skattabreytingar geta breytt öllum rekstraráformum fyrirtækja og skapað óvissu um framtíðina, en óvissa er einmitt eitur í beinum fjárfesta.  Hvernig þessar skattabreytingar eiga að hjálpa okkur til að laða að erlent fjármagn til atvinnuuppbyggingar er erfitt að svara.  Líklega endum við upp með tvöfalt kerfi þar sem erlendri fjárfestar fá skattaafslátt eins og sjómenn en venjulegir Íslendingar borga brúsann.

Eitt er víst að framtíðin á Ísland eru skattar og lág laun.  Þessir nýju skattar sem nú er verið að keyra í gegn á elleftu stundu, 6 vikum fyrir áramót eru aðeins byrjunin.  Það þarf að hækka skatta í fjárlögum 2010, 2011 og líklega enn eina ferðina 2012. 

Við höfum ákveðið að halda uppi norrænu velferðarkerfi en það er dýrt í rekstri og aðeins á færi ríkustu þjóða heims enda vorum við lengst af í þeim hópi og höfðum næsthæstar þjóðartekjur á mann af Norðurlöndunum á eftir Norðmönnum.  En nú verður breyting á.

Samkvæmt spá AGS fyrir árið 2014 munu þjóðartekjur á mann* á Íslandi verða 55% af þjóðartekjum á mann í Danmörku en þetta hlutfall var 85% árið 2008 og 115% árið 2007 þegar Danir voru bara öfundsjúkir út í "velgengni" Íslendinga!  Þessar tölur segja sitt.

Það er alveg ljóst að það verður erfitt að halda upp norrænu velferðarkerfi með þjóðartekjum á mann sem eru nær löndum eins og Grikklandi og Ítalíu en Danmörku og Svíþjóð.  Til að svo megi verða, verða skattar að hækka hér langt yfir það sem þeir eru á hinum Norðurlöndunum, en það mun ekki duga til.

Vaxtabyrgði ríkissjóðs verður svo gríðarlega að afgangsskatttekjur munu vart duga til að halda uppi lágmarksþjónustu til borgaranna.  Við erum því í hættu að enda upp í vítahringa hækkandi skatta, stöðnunar og síversnandi velferðarþjónustu.  

Það er einfaldlega ekki hægt að sjá hvernig þetta dæmi gengur upp.  Og þar liggur hinn óleysti vandi.  

Metnaðarfull athafnafólk af ungu kynslóðinni mun sjá að það er ekkert vit í að búa á Íslandi og bjóða sínum börnum upp á svona kjör þegar ríkasta land heims, Noregur, er næsti nágranni.  En 2014 er búist við að þjóðartekjur á mann á Íslandi verði 40% af norskum tekjum. 

Já, spá AGS er svört, og mun verri en margir gera sér grein fyrir.  

 * e: GDP per capita, nominal

 


mbl.is Nýir skattar inni í myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki dæma Jón Ásgeir úr leik

Framtak Guðmundar Franklíns og hans félaga er virðingarvert enda er eitt brýnasta verkefni á dagskrá hér á landi að koma helstu fyrirtækjum landsins í dreifða almenna eign og úr hendi útrásarvíkinga og þeirra leppa sem ganga undir nafninu "kjölfestufjárfestar".  Þetta mun örva hlutabréfamarkaðinn og byggja grunn undir heilbrigt atvinnulíf.

En ekki dæma Jón Ásgeir úr leik.  Hann heldur á ómótstæðilegu trompi sem líklegt er að Samfylkingin og Vinstri grænir falli fyrir og það er hans fjölmiðlaveldi.  Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa náð undir sig mogganum svo varla geta Jóhanna og Steingrímur tjáð sig þar ef þau ætla að ná til kjósenda.  Þá er aðeins fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs eftir og hann ræður hverja flokka hans fjölmiðlar styðja.  

Bankaráð Kaupþings er pólitískt skipað svo þar eru ákvarðanir ekki aðeins teknar á viðskiptalegum forsendum og það veit Jón Ásgeir.  Hann mun því miskunnarlaust nota sitt fjölmiðlaveldi til að halda yfirráðum yfir Högum og hann væri löngu búinn að missa þar tökin ef ekki kæmi til hans fjölmiðla.

Það má því segja að Jón Ásgeir hafi dottið í lukkupottinn þegar Davíð var settur í ritstjórnarstól moggans og yrði það ekki kaldhæðni örlaganna ef Davíð yrði til þess að Jón Ásgeir héldi Högum?


mbl.is Mikill áhugi á Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðartekjur dragast saman um helming á Íslandi

Þjóðartekjur á mann árið 2007 voru tæplega 48,000 evrur en verða rúmlega 24,000 evrur árið 2009.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni mældust þjóðartekjur* á mann: 47,708 evrur, 2007 og 36,274 evrur, 2008.  Ef við gefum okkur að þjóðartekjur dragist saman um 5% 2009 mælt í króunum og notum 180 kr. sem meðalgildi fyrir evruna fæst mat á þjóðartekjur á mann upp á 24,400 evrur fyrir 2009.

Þetta sýnir hinn raunverulega samdrátt í lífskjörum Íslendinga á 2 árum.  Fara þarf aftur til 1997 til að finna álíka tölulegt gildi (24,152 evrur) fyrir þjóðartekjur á mann og er þá ekki tekið tillit til verðbólgu.  Við höfum því líklega farið aftur um 20 ár í lífskjörum en þá voru menn ekki eins skuldugir og almenningur var ekki sligaður af erlendum lánum.

Helmingur af tekjustofnum þjóðarinnar eru horfnir og koma ekki aftur til baka vegna þess að þeir voru í raun fengnir að láni erlendis frá!   Á sama tíma margfaldast skuldbindingar ríkisins.  Þetta er hinn raunverulegi vandi.  

Við munum aldrei ráða við þetta ástand nema að við tökum ríkisbáknið til algjörrar uppstokkunar og minnkum umsvif hins opinbera og sníðum það að raunveruleikanum.

Við verðum að flokka þjónustu ríkisins og sveitarfélaga niður í tvo flokka: nauðsynlega og æskilega.  Síðan þarf að hagræða nauðsynlegri þjónustu og skera niður eða loka æskilegri þjónustu, alla vega tímabundið.

Þegar kemur að skattahækkunum þarf að vega og meta þær á móti aðgerðum sem innihalda enn meiri launalækkun ríkisstarfsmanna.  Þetta verður erfitt en nauðsynlegt.  Það er ekki hægt að sópa öllu undir teppið lengur og nota endalausar skattahækkanir og gengisfellingar til að komast hjá erfiðum og óvinsælum aðgerðum. 

Ef ekki er gripið til nauðsynlegra aðgerða strax má búast við 15% gengisfalli 2010.  Erlend gengisskráning krónunnar upp á 220 kr. evran er því miður ekki svo óraunveruleg! 

Nú er að duga eða drepast, eins og sagt er! 

* Tæknilega séð er hér um landsframleiðslu að ræða, þó ég noti hugtakið "þjóðartekjur", sem mér finnst þjálla.

 

 


mbl.is Þýskaland þarf tvö ár í viðbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly og íslensku dagblöðin

Mjög athyglisvert viðtal birtist í Financial Times í gær við Evu Joly um rannsókn hennar á bankahruninu.

Óhugsandi er að íslensk dagblöð gætu tekið á málum eins og FT.  Þar koma ansi margar athyglisverðar tilgátur fram um pólitíska spillingu og hversu hátt og vítt rannsókn Evu muni ná.

Þeir sem stýra og stjórna íslenskum dagblöðum geta ekki tekið hlutlaust á málum, margir eru bendlaðir við þá sem eru undir rannsókn, ef þeir eru þá ekki sjálfir undir rannsókn.

Eva gagnrýnir íslensk dagblöð hart og segir:

“Lots of newspaper articles were saying that what happened was just bad luck, that a new page had to be turned and that was that."

Varla hefur staðan batnað með komu fyrrverandi Seðlabankastjóra sem ritstjóra moggans.  

Athyglisvert er hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið taka á þessu viðtali.  Bæði blöðin slá upp sömu fyrirsögn og reyna að draga úr trúverðugleika Evu með því að gera áhuga hennar á Björk að aðalatriðinu en ekki rannsókn Evu á einu stærsta svikamáli sögunnar!

Þetta á ekki að koma á óvart enda hafa eigendur og stjórnendur þessara blaða sömu hagsmuna að gæta, nefnilega að sem minnst komi út úr þessari rannsókn.  

Í raun er afstaða íslensku blaðanna í þessu máli "a smoking gun" fyrir Evu.  Hún sýnir og sannar að Íslendingar geta aldrei farið óstuddir með rannsókn á eigin svikamálum af þessari stærðargráðu.

Sem betur fer hafa breskir blaðamenn áhuga á þessu máli og munu fræða íslenskan almenning á framvindu mála.  Íslensku blöðin munu reyna af öllum mætti að forðast þetta mál og draga úr trúverðugleika þeirra sem þar koma að.   Hér er íslensk blaðamennska afhjúpuð eins og hún er, fengin beint úr skóla HC Andersens.


OR: skemmdarverkastarfsemi?

Efnahagsreikningur OR er slíkur að maður getur vart dregið aðra ályktun en að þar hafi verið stunduð fjármálaleg skemmdarverkastarfsemi af fyrri stjórn.  Málið er svo alvarlegt að það þarf að rannsaka opinberlega af óháðum aðilum. 

Eitt er að fjármálalegir óvitar stefni sínum einkafyrirtækjum í gjaldþrot og glötun en að leyfa pólitískum óvitum að leika sama leik með opinber fyrirtæki og fjármuni almennings er alls ekki ásættanlegt. 

Hvers vegna eru samþykktir fyrri stjórnar OR ekki rannsakaðar?  Ætli það sé ekki af því að þar sátu pólitískir gæðingar sem þarf að vernda?  Hvað höfum við lært af OR fíaskóinu?  Höfum við bætt okkar stjórnarhætti og krafist þess að þar veljist inn menn með reynslu og þekkingu?  Voru og eru þessar stjórnarstöður auglýstar?

Nei, mannaráðningar hjá öllum stjórnmálaflokkum fara eftir sama ferli - baktjaldamakk þar sem klíkuskapur og flokkshollusta er sett framar hæfileikum.  

Líkurnar á greiðslufalli hjá OR eru yfirgnæfandi enda er ekki hægt að sjá að ný stjórn hafi verið valin eftir viðurkenndum alþjóðalegum ferlum.  Þar á bæ hefur lítið breyst.  Pólitíkin ræður öllu og sú tík á eftir að fara með þetta fyrirtæki norður og niður til mikillar hrellingar fyrir íbúa Reykjavíkur.


mbl.is Hætta á greiðslufalli OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt skref áfram, tvö afturábak

Íslendingar eru svartsýnir og útlendingar eru að missa þolinmæðina yfir seinaganginum og hikinu hér á landi.  Þetta er ekki góð blanda.

Það er erfitt að vera ekki sammála erlendum sérfræðingum sem hafa nýlega komið fram og gangrýnt hið hættulega pólitíska tómarúm sem hér ríkir.  Stjórnir sem ekki vilja eða geta stjórnað er ekki góð uppskrift.

Þá hefur  Moodys, matsfyrirtækið sem hingað til hefur verið þolinmóðast gagnvart Íslandi misst sína ró og stillingu og lækkað lánstraustið og sett OR út á Sorpu sem viðvörun um að Landsvirkjun og önnur fyrirtæki séu ekki langt undan.  

Nú þegar rúmar sex vikur eru eftir af árinu er Icesave enn ófrágengið og ríkisfjármálin er óafgreidd blanda af einhverju sem enginn skilur þaðan af síst alþingismenn.  Svona vinnubrögð munu aðeins lengja og dýpka kreppuna.  

Eitt er víst að sú strategía stjórnvalda að reyna að halda öllu á floti og fresta öllum erfiðum ákvörðum skilar litlum árangri.  Við getum ekki lengur látið krónuna vinna öll skítverkin hér.  Endalausar gengisfellingar munu ekki leysa vandann.  Taka verður á ríkisbákninu eins og það leggur sig.  Við einfaldlega höfum enga burði eða landsframleiðslu til að halda uppi því ríkisbákni sem við byggðum upp á tekjustofnum sem erlendir sparifjáreigendur stóðu undir.

Stærsti hluti ríkisútgjalda er launakostnaður og hann er enn allt of hár.  Að reyna að standa undir þessum kostnaði með skattahækkunum og hagræðingu gengur ekki upp.  Það er engin tilviljun að fjárfestar búast við meiri verðbólgu á næsta ári.  Ef "hin eina lausn" eins og Steingrímur kallar sitt ríkisfjármálaplan verður að veruleika aukast líkurnar á umtalsverðri gengisfellingu á næsta ári þar sem evran fer yfir 200 krónur með tilsvarandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.  

Ein ástæða þess að krónan er eins veik og hún er og að lánstraust okkar hrynur er að við neitum að viðurkenna staðreyndir.  Við getum ekki bæði staðið undir erlendum lánaskuldbindingum og ríkisbákninu.  Eitthvað verður að gefa eftir.  Það er kominn tími á hinar óvinsælu aðgerðir eins og Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svía varaði okkur við fyrir um ári síðan. 

 


mbl.is Íslendingar enn svartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend útekt á Seðlabanka en hvað með aðrar stofnanir?

AGS krefst þess að erlendir endurskoðendur geri árlega úttekt á störfum Seðlabankans.  Þetta er áfall fyrir innlend endurskoðendafyrirtæki sem öll eru dæmd óhæf til að starfa fyrir Seðlabankann sem ytri endurskoðendur.

Hér er komið fordæmi.  Ef innlendum aðilum er ekki treystandi til að hafa eftirlit með Seðlabankanum hvað með aðrar stofnanir.  

Ég hef áður skrifað um þörf þess að hafa óháð eftirlit með störfum Landlæknis og að þar geti aðeins erlendir aðilar komið að þar sem íslenska læknastéttin sé of smá og of tengd.

Eru peningar mikilvægari en heilsa landsmanna?


mbl.is Öryggisúttekt á Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband