Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framsókn gerir rétt

Skipun Daniel Gros í bankaráð Seðlabankans er kærkomin breyting frá hugmyndalausum pólitískum ráðningum á reynslulausum Íslendingum.  Meir af þessu.
mbl.is Daníel í bankaráð Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið hættir að fjalla um viðskipti og fjármál?

Eyjan birtir eftirfarandi frétt um viðskiptablaðamenn Morgunblaðsins.  

"Þrír helstu viðskiptablaðamenn Morgunblaðsins hafa sagt upp störfum og er sá fjórði einnig sagður á förum. Þetta eru þeir Björgvin Guðmundsson, ritstjóri viðskiptafrétta á blaðinu, Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson. Samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins hyggst Þorbjörn Þórðarson einnig láta af störfum.

Þessir fjórir blaðamenn hafa borið hita og þunga af umfjöllun Morgunblaðsins um íslenska efnahagshrunið undanfarið ár.  Skrif þeirra hafa oft vakið mikla athygli, m.a. með uppljóstrun trúnaðaraupplýsinga úr stjórnkerfinu og úr stjórnum fyrirtækja.

Samkvæmt heimildum Ríkisútvarpsins bauðst þeim öllum starf á Viðskiptablaðinu sem þeir hafa nú þegið. Blaðamennirnir hyggist hætta störfum á Morgunblaðinu á næstu dögum og hefja störf á Viðskiptablaðinu seinni hluta mánaðarins.

Ekki liggur fyrir hvernig skarð þeirra á Morgunblaðinu verður fyllt."

Er hér um stefnubreytingu hjá Morgunblaðinu að ræða?  Hafa þeir ákveðið að hætta að fjalla um viðskiptamál og fjármálafréttir?  


Hvar eru neytendasamtökin?

Frétt í Viðskiptablaðinu um að Iceland Express hafi ekki öll tilskilin leyfi og pappíra til að fljúga til Bandaríkjanna vekja upp spurningar um stöðu þeirra neytenda sem hafa keypt miða nú þegar.

Er eðlilegt að byrja að selja miða ef vafi leikur á að öll leyfi séu í höfn?  Gilda engar reglur um þetta hér á landi?  Hver gætir hagsmuna neytenda í svona málum?

Hvers vegna er ekki hægt að fá úr því skorið hvort Iceland Express hafi leyfi flugmálastjórnar eða ekki. Er þetta enn eitt dæmið þar sem bæði er reynt að halda og sleppa á sama tíma?

Því miður er fnykur af þessu máli.  Það læðist að manni sá grunur að eigendur IC séu að setja óeðlilegan þrýsting á flugmálastjórn með því að byrja að selja þúsundir miða til almennings áður en allir pappírar eru í lagi.  Þar með er tryggt að stjórnmálamenn sem ekki vilja valda almenningi vonbrigðum muni setja þrýsting á flugmálastjórn sem auðvita fer eftir skipun ráðherra að góðum íslenskum sið?

Þá er spurning, hvað bandaríska flugmálastjórnin gerir?

Þögn neytendasamtakanna og fjölmiðla í þessu máli er athyglisverð.

 


Landsbankinn verður ruslakista

Ef íslandsbanki og Kaupþing fara í hendur erlendar aðila mun Landsbankinn sem ríkisbanki breytast í ruslakistu þar sem ríkið verður að sjá um að afgreiða þá einstaklinga og fyrirtæki sem ekki fá þjónustu hjá "alvöru" bönkum. 

Því er líklegt að verðgildi Landsbanans muni rýrna mjög mikið eftir því sem bestu kúnnarnir færa sig yfir til öruggari og traustari eigenda sem hafa hærra lánsmat en íslenska ríkið og verða því samkeppnisfærari á öllum sviðum bankaþjónustu.  

Á endanum verður Landsbankinn meiri byrði en eign fyrir ríkið.  Það er því skynsamlegt að huga vel að framtíð Landsbankans um leið og hinir bankarnir fara í einkaeigu.


mbl.is Íslandsbanki í erlendar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapað spil

Það hefur lengi legið fyrir að Bakkabræður eru með tapaða stöðu í Exista.  Dauðastríð þeirra er orðið vandræðalegt og sýnir hversu seinvirk stjórnvöld eru að taka á stórlöxum. 

Það er líka athyglisvert hvers vegna Bakkabræður hafi ekki fyrir löngu gert það eina viturlega í stöðunni og það er að segja af sér og láta hreingerninguna og uppgjörið hjá Exista í hendur nýrra aðila.

Dómgreindaleysi og lítil sjálfsþekking virðist vera einkennismerki gömlu útrásarvíkinganna.

 


mbl.is Lífeyrissjóðir vilja gjaldfella kröfur á Exista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakkabræður yfir aðra hafnir og fá sínu fram

Það er greinilegt að Bakkabræður hafa og geta enn hagað sér eins og þeir vilja á Íslandi.  Þeir snúa Kauphöllinni og öðrum eftirlitsaðilum um fingur sér.

Nú hafa þeir ná því fram sem þeir vildu, að koma Exista af markaði.  Eins og venjulega fá þeir sínu fram á meðan réttur hins almenna hluthafa er fótum troðinn.  Nær hefði verið að kasta þeim út úr Exista.

Nú er nóg komið.  Hegðun Bakkabræðra er ekki aðeins vandræðaleg fyrir Kauphöllina heldur stjórnvöld og almenning allan. 

Hver ætlar að setja svona mönnum stólinn fyrir dyrnar og setja við þá, hingað og ekki lengra?


mbl.is Exista úr kauphöllinni fyrir ítrekuð brot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum og rangfærslur á Alþingi

Þessi frétt um að staða okkar muni styrkjast 23. október er röng og segir aðeins hálfa söguna.  Hvernig styrkist staða okkar við það að erlend ríki fari í mál við okkur? Og hvað um lánstraust okkar, ekki eitt orð um það frá Framsókn og Sjálfstæðismönnum.  Geta alþingismenn þeirra tryggt að það falli ekki eftir þennan dag? Og hvað með AGS prógrammið?  Skiptir það engu máli lengur hjá þessum flokkum?

Röksemdafærsla Framsóknar samkvæmt þessari frétt er "af því bara" og verður að flokka undir lýðskrum. 

Röksemdafærsla Sjálfstæðismanna er byggð á röngum forsendum.  Pétur Blöndal segir:

"Og þann dag taka Bretar og Hollendingar og allt bankakerfið í Evrópu þá áhættu að það sé ekki ríkisábyrgð á þessu," sagði Pétur. Kæmi í ljós að dómstólar segi að ekki sé ríkisábyrgð á innlánstryggingunum þá sé allt evrópska bankakerfið í hættu.

Þetta er svolítið dramatískt og ekki rétt.  Það er de facto ríkisábyrgð á innistæðum innan EB.  Besta dæmið eru Írar.  Þeir komust næst því í að lenda með sína banka ofaní skurði eins og Íslendingar en írska ríkisstjórnin gaf út tilkynningu í september 2008 um að allar innistæður í írskum bönkum bæði í innlendum og erlendum útibúum væru að fullu tryggðar af írska ríkinu.  Þar með er komið fordæmi innan EES um ríkistryggingu á innistæðum hvað svo sem í lögum um innlánstryggingar segir.  Því er bankakerfið í Evrópu ekki í neinni hættu sama hvaða vitleysu stjórnvöld og alþingismenn á Íslandi gera.

Í augum útlendinga snýst þetta um annað og meir en innlánstryggingar, þetta snýst um að allir sitji við sama borð og að viðskiptavinum sama fyrirtækis sé ekki mismunað eftir landsvæðum innan EES.  Þetta snýst aðeins að litlu leyti um peninga hjá Bretum og Hollendingum heldur um réttlætiskennd og sanngirni. 

Nei, eftir 23. október munu útlendingar draga sínar eigin ályktanir af framferði Íslendinga og erlendar stofnanir munu taka ákvarðanir út frá sínu stöðumati, algjörleg óháð einhverju spangóli á alþingi. 


mbl.is Segja stöðu Íslands styrkjast 23. október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvogen eða Actavis - hver borgar betur?

Í Morgunblaðinu er athyglisverð grein um Róbert Wessman sem virðist eini útrásarvíkingurinn sem enn stundar víking.  Hann hefur fjárfest í bandarísku lyfjafyrirtæki sem nefnist Alvogen.  Ekkert kemur fram hvað þessi fjárfesting hafi kostað eða hvernig hún sé fjármögnuð né hvaða einstaklingar standi þarna á bak við.  Í raun er varla minnst á Róbert á vefsíðu Alvogen og hann er ekki listaður sem einn af stjórnendum, þótt hann titli sig hér á landi sem starfandi stjórnarformaður?  Kannski er verið að uppfæra vefsíðuna? 

Á hinn bóginn er hvergi minnst á Ísland eða Íslendinga á þessari vefsíðu.  Já það er af sem áður var, þegar íslenska vörumerkið í viðskiptum stóð fyrir dugnaði og dirfsku, nú stendur það fyrir sukki og svínaríi.  Áður fyrr voru Íslendingar stoltir af sínu þjóðerni erlendis, en nú er besta að leyna því!

Þó spurningum um fjármögnun og eignarhaldi þessa fyrirtækis sé ósvarað er hugmynd Róbert ekki svo galin og strategían er ekki svo vitlaus.  Það sem hann hefur í sigtinu eru einu alvöru eignir Actavis sem hann ætlar að stela um hábjartan dag frá fyrri viðskiptafélaga sínum, Björgólfi yngri og það er ekkert sem Björgólfur getur gert til að stoppa hann.

Róbert mun einfaldlega ryksuga verðmætustu eignir Actavis innan úr fyrirtækinu, nefnilega mannauðinn.  Hann þekkir Actavis og þá sem þar starfa líkleg betur en Björgólfur og á í engum vanda með að pikka besta fólkið út.  Actavis er jú skuldsettasta fyrirtæki landsins svo varla er það í standi til að yfirbjóða í besta fólkið en það sem gerir Róberti svo létt fyrir er orðstír Björgólfs.  Hver vill vinna fyrir svona mann og hafa fyrirtæki hans á starfsferilsskrá sinni? 

Hér erum við einfaldlega að horfa upp á lögmál frumskógarins.  Róbert, þó særður sé, er í mun betri stöðu en hinn helsærði og illa lyktandi Björgólfur.

Svo er að sjá hvernig íslenskir sjúklingar koma út úr þessu stríði.  Verða þeir skikkaðir af Wernersfjölskyldunni til að kaupa Alvogen lyf, eins og þeir hafa hingað til verið skikkaðir til að kaupa Actavis vörur.  Ætli Róbert geti ekki boðið betur?  Þetta snýst jú allt um peninga en ekki heilsu landsmanna. 

 

 

 


Eru prófkjör viturleg?

Ekki hafa prófkjör reynst okkur vel og þarf aðeins að líta á samsetningu alþingis og sveitastjórna til að sjá það.  Prófkjör er vinsældarkosning en ekki faglegt val á hæfasta fólkinu til að gæta hagsmuna kjósenda.

Hvað þarf staða sveitarfélaga að versna til að þessari heilögu prófkjörskú verði slátrað.  Það sem sveitarfélög þurfa umfram allt eru sveitarstjórnarmenn með sterka fjármálareynslu sem þora að standa í lappirnar.  Þeir veljast aldrei inn í prófkjörum.

 


mbl.is Ísfirskir sjálfstæðismenn í prófkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hreyfa ekki við fortíðinni

Eitt eiga íslensku dagblöðin sameiginlegt og það er að lifa í nútíðinni.  Allt of miklar hættur leynast í fortíðinni svo best er að láta Evu Joly um hana.  Ef marsbúi kæmi til jarðar og færi að lesa Morgunblaðið og Fréttablaðið í dag myndi hann draga þá ályktun að Ísland hefði verið stofnað 6. október 2008.

Morgunblaðið er komið í 100% stjórnarandstöðu og orðið hápólitískt málgang framsóknar og sjálfstæðismanna.  Í raun er ekkert athugavert við það, eigendur blaða mega gera þau pólitísk ef þeir vilja.  Fréttablaðið er auðvita halt undir Samfylkinguna enda á Jón Ásgeir bágt með að bíta þá hönd sem hlífir honum.  

En eitt eiga bæði blöðin sameiginlegt og það er að hræðast og forðast fortíðina.  Hrunbræður stjórna og stýra báðum blöðunum eiga hér sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Þetta er miður, því án öflugrar og sjálfstæðra rannsóknarblaðamennsku eigum við á hættu að láta útlendinga finna skítinn okkar og kasta honum í okkur áður en þeir hreinsa hann upp.  Það verður að segjast eins og er að þeir aðilar sem standa í framlínu við að róta upp í okkar fortíð eru útlendingar og þar standa Eva Joly og bresku blöðin fremst.  Afskiptaleysi og framtaksleysi íslensku blaðanna í þessu máli er mjög athyglisvert.  

Við erum að fara út límingunni af því að útlendingar vilja hafa áhrif á lántökur okkar en þegar kemur að siðferði og hegðun eru við máttlaus.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband