Beðið eftir Godot alls staðar!

Ísland virðist hafa breyst í eitt allsherjar leiksvið þar sem allt og allir bíða eftir Godot áður en til athafna getur komið.

Að ekki sé hægt að veita sjúklingum lyf vegna þess að beðið sé eftir staðfestingu á að það megi skipta um framleiðenda (eins og að skipta frá kók yfir í pepsí!) sýnir betur en margt annað þá ákvörðunarfælni og seinagang sem nú tröllríður öllu hér.  Líklega er verið að bíða eftir að heilbrigðisráðherra gefi grænt ljós á þetta.  Sá ráðherra-flöskuháls sem nú hefur myndast í ákvörðunarferli stjórnvalda á eftir að kæfa það litla sem eftir er af framtakssemi og áræði þjóðarinnar.

Hvernig ætli staðan sé með nýjustu og dýrustu krabbameinslyfin ef eitt einfalt magalyf fæst ekki?  Því miður bendir margt til að dýrustu lyfin munu ekki fást nema í gegnum kunningsskap eða rétt flokksskírteini!  Auðvita verður þetta allt gert "löglega" í gegnum klínískar leiðbeiningar sem miða að því að spara frekar en að lækna.  Þar þarf heilbrigðisráðherra ekki annað en að líta til Bretlands og láta þýða skjöl frá hinni alræmdu stofnun sem nefnist því haldhæðnislega nafni NICE.  Stofnun sem fáir Íslendingar hafa heyrt um en allir sjúklingar hér á landi ættu að þekkja.  Meir um þetta seinna.


mbl.is Bagalegt þegar lyfin eru ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alitalia Íslendinga

Þeir sem halda að ríkisrekin flugfélög séu af hinu góða þurfa aðeins að líta til Ítalíu og hinnar sorglegu og dýru sögu Alitalia.  Skattgreiðendur á Ítalíu borga tvisvar fyrir sinn flugmiða, einu sinn með sköttum og síðan þegar þeir fljúga. 

Þeir sem hafa flogið með Alitalia vita að þjónusta ríkisrekins flugfélags er í sínum sérklassa.  Flestir flúga aðeins einu sinni með Alitalia.  

Nú þegar Icelandair flyst yfir til ríkisins fara erlend flugfélög að hugsa sér gott til glóðarinnar.  Hingað til hefur Icelandair verið vel rekið fyrirtæki sem hefur staðið sig vel í erlendri samkeppni. 

Gaman verður að fylgjast með hvernig Icelandair verður nú stýrt bein og óbeint úr hinum ýmsum ráðuneytum. 


mbl.is Þjóðnýtingin ekki þruma úr heiðskíru lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsluleysið farið að valda vandræðum

Franek hefur verið hér á  landi í rúma 4 mánuði, Svein Harald í rúma 2 og Steingrímur verið fjármálaráðherra í rúma 3.  Það má því segja að allir þessir 3 herramenn séu enn að finna fæturna í nýjum stöfum.

Ekki veit ég hvort þessir aðilar hittist reglulega til að ræða aðgerðir og taka stöðu mála en þeir ættu að reyna að kynnast hvor öðrum aðeins betur og reyna að útkljá sín mál faglega og alls ekki á síðum dagblaðanna.

Það eins sem þetta tal hefur upp úr sér er að grafa undan sjálfstæði Seðlabankans (ef eitthvað er eftir af því!) og draga úr orðspori íslenskra stjórnvalda.


mbl.is Vaxtastefnunni hafi verið lýst í viljayfirlýsingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olli Rehn hefur hlýjar taugar til Íslands

Ansi er maður orðinn þreyttur á þessu neikvæða bloggi um Olli Rehn.  Hann er einfaldlega að vinna sína vinnu samviskusamlega og faglega. 

Hann er góður í að miðla upplýsingum um stækkunarmálin og auðvita eru Ísland og Króatía ofarlega í hans huga.  Ísland mun leggja fram umsóknartillögu nú í sumar og þetta er sá aðili sem mun hafa með okkur að gera í því ferli.

Að maðurinn megi ekki nefna Ísland á nafn án þess að allt fari í loft hér sýnir mikið óöryggi og viðkvæmni af hálfu Íslendinga.  Við ættum heldur að fara að tala við Olli á faglegum grundvelli og notfæra okkur hans velvilja og þekkingu.

 


mbl.is Króatía á undan Íslandi í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurskattur er bara tollur á sykur, útflutningsvöru ESB

Ögmundur veit vel að sykurskattur yrði túlkaður sem sér tollur á sykur, vöru sem við flytjum inn frá ESB.

ESB mun mótmæla svona tollabraski kröftuglega enda líklegt að það sé ekki í samræmi við EES samninginn. 

Það er kannski það sem VG eru að vonast eftir.


mbl.is Sykurskattur fyrir lýðheilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðslugeta Landsvirkjunar er veik í alþjóðlegu samhengi

Margt hefur verið skrifað um Landsvirkjun og framtíð þess fyrirtækis og sýnist sitt hverjum.  Því miður virðast margir ekki sjá skóginn fyrir trjánum og enda of í flóknum útreikningum sem missa marks.  Hins vegar er staðan alvarleg og gott er að setja hana í erlent samhengi.

Það sem útlendingar hafa áhyggjur af er lausafjárstaða Landsvirkjunar og skuldastaða íslenska ríkisins.  Getur Landsvirkjun staðið undir vaxtakostnaði, endurfjármagnað sig og sett fram meiri tryggingar ef þess er óskað?  Þetta er það sem erlendir greiningaraðilar spyrja sig?

Til að gefa lesendum örlitla innsýn í vandann er gott að hafa viðmiðun.  Notum Vattenfall, einn stærsta raforkuframleiðanda á Norðurlöndunum, sem rekur margar virkjanir í Svíþjóð og víðar.

Lítum á hugtak sem er kallað "interest coverage =  EBITADA/interest expense" og er hlutfall á milli rekstrartekna án fyrninga og vaxtakostnaðar.  Því hærri sem þessi tala er því öruggari geta fjárfestar verið að þeir fái borgað af lánum sínum.  Þegar þessi tala nálgast 1 fara þessar rekstrartekjur allar í vexti.  Lánastofnanir vilja að þessi tala sé há og oft er sett í lánasamninga að ef þetta hlutfall fellur niður fyrir umsamda viðmiðun þurfi lántakandi að setja fram meiri tryggingar.

Það þykir gott ef þessi tala er stærri en 3.5 og er það lágmarksviðmiðun t.d. hjá Vattenfall. Ef við kíkjum á nýjustu árskýrslur (2008) hjá Landsvirkjun og Vattenfall kemur í ljós að þetta hlutfall er:

  • Landsvirkjun  1.4
  • Vattenfall     4.7

Þessar tölur segja mikið um getu Landsvirkjunar til að standa undir lánagreiðslum, samanborið við sambærileg fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum.  Það má ekki mikið fara úrskeiðis hjá Landsvirkjun bæði hvað varðar tekjur eða vaxtakjör til að illa fari. 

 


Ekki spara hér

Þessi frétt um að ríkið sé að borga 22 ráðherralaun minnir mig á verkefni sem ég eitt sinn vann að sem ráðgjafi í Bretlandi.

Verkefnið fólst í að ná niður kostnaði í höfuðstöðum tryggingarfélags.  Ein tillagan gekk út á að fyrirtækið seldi bílaflota sinn sem það hélt úti fyrir yfirmenn sína og breytti einkabílastæðum í almenn bílastæði fyrir alla starfsmenn.  Þetta fékk góðan hljómgrunn hjá stjórn fyrirtækisins og var samþykkt með einni undantekningu: bifreiðahlunnindi og einkabílastæði stjórnarformanns og forstjóra voru undanskilin sparnaði!

Um að gera að spara, bara ekki hér, er þetta heilkenni stundum kallað og mun vera mjög útbreytt.

Við eigum eftir að fá mikið af svona fréttum á næstunni.

 

 

 

 


mbl.is 22 á ráðherralaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn sjálfstæð stofnun?

Er Seðlabankinn sjálfstæð stofnun eða heyrir hann nú undri heilbrigðisráðuneytið?  Ráðherrar verða að fara varlega þegar þeir gagnrýna skoðanir og viðhorf erlendra aðila sem þeir eiga samskipti við.  Sérstaklega grefur það undan Seðlabankanum þegar ráðherrar eru komnir í varnarstöðu og farnir að segja hver vaxtastefna bankans eigi að vera og ekki bætir úr þegar þeir gefa í skin hver ræður ferð!

Seðlabankinn veit að hann getur ekki tekið þátt í svona opinberum deilum á síðum dagblaðanna. 

Íslenskir ráðherrar eru ekki vanir að þurfa að deila völdum með öðrum og lítið breyst þar.  Gamla Ísland er bara farið að hressast heilmikið.


mbl.is Sitjum ekki undir tilskipunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattaparadísin Ísland

Sykurskattur, munaðarskattur, eignarskattur, hátekjuskattur og hækkun allra skatta mun ekki aðeins örva atvinnulífið, auka jöfnuð, lækka ríkishallann heldur eru skattar nú allra meina bót ef við trúum ráðherrum VG.  Þeir beinlínis iða í skinninu eftir að geta innleitt þessa dásamlegu töfralausn og breyta Íslandi í 21. aldar skattaparadís!    


mbl.is Tillaga um sykurskatt ótrúleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á milli steins og IMF sleggju!

Það er greinilegt að Steingrímur er kominn í ansi þrönga stöðu enda veit það aldrei á gott þegar stjórnmálamenn fara að vitna í Vestmannaeyjagosið.   Fulltrúi IMF, sem annars hefur ekki heyrst mikið í, kastar hanskanum og kallar á stefnu sem fer þvert á áætlun Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar hvað varðar stýrivexti og gjaldeyrishöft.

Þetta veit Steingrímur enda er hann að undirbúa þjóðina fyrir enn einn skellinn þegar hann segir:

Grundvallaratriði er að ná jafnvægi í ríkisrekstri, enda eru fyrir því ekki aðeins hagfræðileg rök heldur einnig pólitísk og siðferðileg.

Gaman væri að heyra þau hagfræðilegu rök sem kalla á skattahækkanir og niðurskurð ríkisframkvæmda til að örva athafnalíf í dýpstu kreppu í yfir 60 ár.  Hin siðferðislegu rök fyrir niðurskurði á velferðakerfinu eru einnig vafasöm.  Hvað varðar hin pólitísku rök þá væri hollt fyrir kjósendur að taka þau með miklum fyrirvara. 

Nei, "jafnvægi í ríkisrekstri" er einfaldlega eitt af mögrum skilyrðum IMF fyrir að lána okkur peninga svo við gætum unnið okkur út úr einu stærsta skuldafeni sem þekkist á byggðu bóli.  

Með illu skal illt út reka!

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband