15.11.2009 | 12:13
Þjóðartekjur dragast saman um helming á Íslandi
Þjóðartekjur á mann árið 2007 voru tæplega 48,000 evrur en verða rúmlega 24,000 evrur árið 2009.
Samkvæmt tölum frá Hagstofunni mældust þjóðartekjur* á mann: 47,708 evrur, 2007 og 36,274 evrur, 2008. Ef við gefum okkur að þjóðartekjur dragist saman um 5% 2009 mælt í króunum og notum 180 kr. sem meðalgildi fyrir evruna fæst mat á þjóðartekjur á mann upp á 24,400 evrur fyrir 2009.
Þetta sýnir hinn raunverulega samdrátt í lífskjörum Íslendinga á 2 árum. Fara þarf aftur til 1997 til að finna álíka tölulegt gildi (24,152 evrur) fyrir þjóðartekjur á mann og er þá ekki tekið tillit til verðbólgu. Við höfum því líklega farið aftur um 20 ár í lífskjörum en þá voru menn ekki eins skuldugir og almenningur var ekki sligaður af erlendum lánum.
Helmingur af tekjustofnum þjóðarinnar eru horfnir og koma ekki aftur til baka vegna þess að þeir voru í raun fengnir að láni erlendis frá! Á sama tíma margfaldast skuldbindingar ríkisins. Þetta er hinn raunverulegi vandi.
Við munum aldrei ráða við þetta ástand nema að við tökum ríkisbáknið til algjörrar uppstokkunar og minnkum umsvif hins opinbera og sníðum það að raunveruleikanum.
Við verðum að flokka þjónustu ríkisins og sveitarfélaga niður í tvo flokka: nauðsynlega og æskilega. Síðan þarf að hagræða nauðsynlegri þjónustu og skera niður eða loka æskilegri þjónustu, alla vega tímabundið.
Þegar kemur að skattahækkunum þarf að vega og meta þær á móti aðgerðum sem innihalda enn meiri launalækkun ríkisstarfsmanna. Þetta verður erfitt en nauðsynlegt. Það er ekki hægt að sópa öllu undir teppið lengur og nota endalausar skattahækkanir og gengisfellingar til að komast hjá erfiðum og óvinsælum aðgerðum.
Ef ekki er gripið til nauðsynlegra aðgerða strax má búast við 15% gengisfalli 2010. Erlend gengisskráning krónunnar upp á 220 kr. evran er því miður ekki svo óraunveruleg!
Nú er að duga eða drepast, eins og sagt er!
* Tæknilega séð er hér um landsframleiðslu að ræða, þó ég noti hugtakið "þjóðartekjur", sem mér finnst þjálla.
![]() |
Þýskaland þarf tvö ár í viðbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
14.11.2009 | 15:34
Eva Joly og íslensku dagblöðin
Mjög athyglisvert viðtal birtist í Financial Times í gær við Evu Joly um rannsókn hennar á bankahruninu.
Óhugsandi er að íslensk dagblöð gætu tekið á málum eins og FT. Þar koma ansi margar athyglisverðar tilgátur fram um pólitíska spillingu og hversu hátt og vítt rannsókn Evu muni ná.
Þeir sem stýra og stjórna íslenskum dagblöðum geta ekki tekið hlutlaust á málum, margir eru bendlaðir við þá sem eru undir rannsókn, ef þeir eru þá ekki sjálfir undir rannsókn.
Eva gagnrýnir íslensk dagblöð hart og segir:
“Lots of newspaper articles were saying that what happened was just bad luck, that a new page had to be turned and that was that."
Varla hefur staðan batnað með komu fyrrverandi Seðlabankastjóra sem ritstjóra moggans.
Athyglisvert er hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið taka á þessu viðtali. Bæði blöðin slá upp sömu fyrirsögn og reyna að draga úr trúverðugleika Evu með því að gera áhuga hennar á Björk að aðalatriðinu en ekki rannsókn Evu á einu stærsta svikamáli sögunnar!
Þetta á ekki að koma á óvart enda hafa eigendur og stjórnendur þessara blaða sömu hagsmuna að gæta, nefnilega að sem minnst komi út úr þessari rannsókn.
Í raun er afstaða íslensku blaðanna í þessu máli "a smoking gun" fyrir Evu. Hún sýnir og sannar að Íslendingar geta aldrei farið óstuddir með rannsókn á eigin svikamálum af þessari stærðargráðu.
Sem betur fer hafa breskir blaðamenn áhuga á þessu máli og munu fræða íslenskan almenning á framvindu mála. Íslensku blöðin munu reyna af öllum mætti að forðast þetta mál og draga úr trúverðugleika þeirra sem þar koma að. Hér er íslensk blaðamennska afhjúpuð eins og hún er, fengin beint úr skóla HC Andersens.
14.11.2009 | 08:59
OR: skemmdarverkastarfsemi?
Efnahagsreikningur OR er slíkur að maður getur vart dregið aðra ályktun en að þar hafi verið stunduð fjármálaleg skemmdarverkastarfsemi af fyrri stjórn. Málið er svo alvarlegt að það þarf að rannsaka opinberlega af óháðum aðilum.
Eitt er að fjármálalegir óvitar stefni sínum einkafyrirtækjum í gjaldþrot og glötun en að leyfa pólitískum óvitum að leika sama leik með opinber fyrirtæki og fjármuni almennings er alls ekki ásættanlegt.
Hvers vegna eru samþykktir fyrri stjórnar OR ekki rannsakaðar? Ætli það sé ekki af því að þar sátu pólitískir gæðingar sem þarf að vernda? Hvað höfum við lært af OR fíaskóinu? Höfum við bætt okkar stjórnarhætti og krafist þess að þar veljist inn menn með reynslu og þekkingu? Voru og eru þessar stjórnarstöður auglýstar?
Nei, mannaráðningar hjá öllum stjórnmálaflokkum fara eftir sama ferli - baktjaldamakk þar sem klíkuskapur og flokkshollusta er sett framar hæfileikum.
Líkurnar á greiðslufalli hjá OR eru yfirgnæfandi enda er ekki hægt að sjá að ný stjórn hafi verið valin eftir viðurkenndum alþjóðalegum ferlum. Þar á bæ hefur lítið breyst. Pólitíkin ræður öllu og sú tík á eftir að fara með þetta fyrirtæki norður og niður til mikillar hrellingar fyrir íbúa Reykjavíkur.
![]() |
Hætta á greiðslufalli OR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2009 | 22:15
Eitt skref áfram, tvö afturábak
Íslendingar eru svartsýnir og útlendingar eru að missa þolinmæðina yfir seinaganginum og hikinu hér á landi. Þetta er ekki góð blanda.
Það er erfitt að vera ekki sammála erlendum sérfræðingum sem hafa nýlega komið fram og gangrýnt hið hættulega pólitíska tómarúm sem hér ríkir. Stjórnir sem ekki vilja eða geta stjórnað er ekki góð uppskrift.
Þá hefur Moodys, matsfyrirtækið sem hingað til hefur verið þolinmóðast gagnvart Íslandi misst sína ró og stillingu og lækkað lánstraustið og sett OR út á Sorpu sem viðvörun um að Landsvirkjun og önnur fyrirtæki séu ekki langt undan.
Nú þegar rúmar sex vikur eru eftir af árinu er Icesave enn ófrágengið og ríkisfjármálin er óafgreidd blanda af einhverju sem enginn skilur þaðan af síst alþingismenn. Svona vinnubrögð munu aðeins lengja og dýpka kreppuna.
Eitt er víst að sú strategía stjórnvalda að reyna að halda öllu á floti og fresta öllum erfiðum ákvörðum skilar litlum árangri. Við getum ekki lengur látið krónuna vinna öll skítverkin hér. Endalausar gengisfellingar munu ekki leysa vandann. Taka verður á ríkisbákninu eins og það leggur sig. Við einfaldlega höfum enga burði eða landsframleiðslu til að halda uppi því ríkisbákni sem við byggðum upp á tekjustofnum sem erlendir sparifjáreigendur stóðu undir.
Stærsti hluti ríkisútgjalda er launakostnaður og hann er enn allt of hár. Að reyna að standa undir þessum kostnaði með skattahækkunum og hagræðingu gengur ekki upp. Það er engin tilviljun að fjárfestar búast við meiri verðbólgu á næsta ári. Ef "hin eina lausn" eins og Steingrímur kallar sitt ríkisfjármálaplan verður að veruleika aukast líkurnar á umtalsverðri gengisfellingu á næsta ári þar sem evran fer yfir 200 krónur með tilsvarandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.
Ein ástæða þess að krónan er eins veik og hún er og að lánstraust okkar hrynur er að við neitum að viðurkenna staðreyndir. Við getum ekki bæði staðið undir erlendum lánaskuldbindingum og ríkisbákninu. Eitthvað verður að gefa eftir. Það er kominn tími á hinar óvinsælu aðgerðir eins og Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svía varaði okkur við fyrir um ári síðan.
![]() |
Íslendingar enn svartsýnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2009 | 21:28
Erlend útekt á Seðlabanka en hvað með aðrar stofnanir?
AGS krefst þess að erlendir endurskoðendur geri árlega úttekt á störfum Seðlabankans. Þetta er áfall fyrir innlend endurskoðendafyrirtæki sem öll eru dæmd óhæf til að starfa fyrir Seðlabankann sem ytri endurskoðendur.
Hér er komið fordæmi. Ef innlendum aðilum er ekki treystandi til að hafa eftirlit með Seðlabankanum hvað með aðrar stofnanir.
Ég hef áður skrifað um þörf þess að hafa óháð eftirlit með störfum Landlæknis og að þar geti aðeins erlendir aðilar komið að þar sem íslenska læknastéttin sé of smá og of tengd.
Eru peningar mikilvægari en heilsa landsmanna?
![]() |
Öryggisúttekt á Seðlabanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2009 | 16:22
Afneitun - töfralausn Íslendinga
Afneitun á öllu er orðin ein allsherjar töfralausn hér á landi. Allt gengur út á að láta hlutina líta vel út á yfirborðinu, kenna öðrum um ófarirnar og hneykslast á þeim sem biðja um að við lítum í eigin barm. Við þolum enga gagnrýni erlendis frá, getum ekki tekið á henni, förum í lás og heimtum svör frá öllum öðrum en okkur sjálfum.
Meiri hluti þjóðarinnar vill segja nei við AGS, EB og Icesave, neita erlendum lánum og byggja íslenska endurreisn á "einn eða annan hátt" í dásamlegri einangrun frá okkar nágrönnum. Og Guð hjálpi þeim sem voga sér að spyrja um smáatriðin í þessu stórkostlega plani!
29.10.2009 | 12:29
Enn um Landsvirkjun og lélega greiðslugetu
Þessi frétt að laust fé Landsvirkjunar sé 40 ma kr. án þess að geta hver árlegur vaxtakostnaður er eða hversu há útistandandi lán eru og hvenær þarf að endurfjármagna þau, segir aðeins hálfa söguna. Maður á gjörgæslu er auðvita í betra ástandi en sá sem liggur í líkgeymslunni en það segir ekki mikið um framtíðarhorfur.
Ég endurtek fyrra blogg mitt um greiðslugetu Landsvirkjunar og lánstraust hennar og læt lesendur um að dæma hvort þeir telji að Landsvirkjun standi vel fjárhagslega miðað við sambærileg fyrirtæki erlendis.
- - -
Margt hefur verið skrifað um Landsvirkjun og framtíð þess fyrirtækis og sýnist sitt hverjum. Því miður virðast margir ekki sjá skóginn fyrir trjánum og enda of í flóknum útreikningum sem missa marks. Hins vegar er staðan alvarleg og gott er að setja hana í erlent samhengi.
Það sem útlendingar hafa áhyggjur af er lausafjárstaða Landsvirkjunar og skuldastaða íslenska ríkisins. Getur Landsvirkjun staðið undir vaxtakostnaði, endurfjármagnað sig og sett fram meiri tryggingar ef þess er óskað? Þetta er það sem erlendir greiningaraðilar spyrja sig?
Til að gefa lesendum örlitla innsýn í vandann er gott að hafa viðmiðun. Notum Vattenfall, einn stærsta raforkuframleiðanda á Norðurlöndunum, sem rekur margar virkjanir í Svíþjóð og víðar.
Lítum á hugtak sem er kallað "interest coverage = EBITADA/interest expense" og er hlutfall á milli rekstrartekna án fyrninga og vaxtakostnaðar. Því hærri sem þessi tala er því öruggari geta fjárfestar verið að þeir fái borgað af lánum sínum. Þegar þessi tala nálgast 1 fara þessar rekstrartekjur allar í vexti. Lánastofnanir vilja að þessi tala sé há og oft er sett í lánasamninga að ef þetta hlutfall fellur niður fyrir umsamda viðmiðun þurfi lántakandi að setja fram meiri tryggingar.
Það þykir gott ef þessi tala er stærri en 3.5 og er það lágmarksviðmiðun t.d. hjá Vattenfall. Ef við kíkjum á nýjustu árskýrslur (2008) hjá Landsvirkjun og Vattenfall kemur í ljós að þetta hlutfall er:
- Landsvirkjun 1.4
- Vattenfall 4.7
Þessar tölur segja mikið um getu Landsvirkjunar til að standa undir lánagreiðslum, samanborið við sambærileg fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum. Það má ekki mikið fara úrskeiðis hjá Landsvirkjun bæði hvað varðar tekjur eða vaxtakjör til að illa fari.
Og svo er það lánstraustið:
Landsvirkjun, fær BBB- einkunn fyrir langtímaskuldir, lægsta einkunn í "investment grade" flokki en þar sem fyrritækið er sett á athugunarlista er það í raun komið í "junk" flokk. Enda segir í áliti S&P:
In our opinion, Landsvirkjun's stand-alone credit quality has further
deteriorated, and we now assess Landsvirkjun's stand-alone credit profile as
'B-', reflecting a weak and highly leveraged financial risk profile and a weak
liquidity position.
![]() |
Laust fé Landsvirkjunar 40 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.10.2009 | 12:11
Hvað er AGS að segja?
Fréttatilkynning AGS er um margt athyglisverð. Þar gætir ýmissa grasa sem mörg eru falin undir rós. Rýnum aðeins í hvað AGS gæti verið að segja ríkisstjórninni.
With determined and timely policy implementation, the economy could begin to turn the corner in the middle of 2010 and a recovery should follow in the medium term.
Hér er AGS að segja að botninum sé hugsanlega náð um mitt ár 2010 en aðeins ef vel er haldið á spilum og ríkisfjármálin eru tekin föstum tökum strax. 30 ma framúrkeyrsla á þessu ári miðað við fjárlög veitir ekki á gott og gerir niðurskurðinn enn harðari á næsta ári. Engum efnahagsbata er lofað á næsta ári heldur kemur hann síðar. "Medium term" þýðir yfirleitt 2-3 ár.
However, the stronger policies envisioned in the revised program, including more rapid fiscal adjustment, more gradual capital control liberalization, and an enhanced focus on private sector debt restructuring, should suffice to keep debt on a robust and sustainable downward path.
Hér er AGS að segja að herða þurfi á aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum, seinka afnámi gjaldeyrishafta og bæta skuldaaðlögun og gjaldþrotameðferð í einkageiranum.
In light of Iceland’s higher public debt, a full medium-term public debt management strategy needs to be articulated in time for the next fiscal year.
Ríkisstjórnin verður að koma með ýtarlega áætlun um hvernig hún ætlar að meðhöndla og stjórna skuldasafni ríkisins næstu 3 árin. Hér þarf að aldeilis að taka til hendinni og greinilegt að AGS er að senda fast skot á seinaganginn við áætlunargerð fyrir næsta fjárlagaár.
“Facilitating voluntary private sector debt restructuring is a key complement to financial sector restructuring efforts and will play an important role in reviving the economy. In light of binding fiscal constraints, the focus should be on targeted voluntary private work-outs, underpinned by measures to strengthen the insolvency regime."
Hér er rúsínan í pylsuendanum. Þessi málsgrein hefur verið endurskoðuð frá fyrri yfirlýsingu Flanagans þar sem hann sagði:
But let me also say that because of issues to do with fiscal cost and moral hazard, non-viable borrowers cannot be helped.
Hér er á ferðinni hörð gagnrýni á ríkisstjórnina og bankana og þeirra vonlausu baráttu við að halda fyrirtækjum og einstaklingum gangandi sem ekki eiga sér viðreisnar von. Bankarnir verða að fara að taka á þessu og geta ekki lengur látið gamla útrásarvíkinga segja sér fyrir verkum eða reynt að halda öllu á floti. Sumir verða að sökkva til að aðrir geti flotið.
29.10.2009 | 09:28
AGS: eignir í hendur "útlendinga"
Ríkisstjórnin hefur reynt af mesta megni að halda atvinnuvegunum í íslenskri eign með lántökum. En lengra verður ekki komist. Héðan í frá munu útlendingar eignast mikið af íslenskum eignum ef halda á rekstri áfram. Þetta mun aðallega gerast í gegnum bankana sem allir munu enda í höndum "útlendinga".
Þegar AGS segir:
Tryggja verði jafnræði milli kröfuhafa en jafnframt sé mikilvægt, að íslenska ríkið yfirtaki ekki meiri skuldir frá einkaaðilum
eru fyrirmælin skýr.
Spurningin er: hverjir eru þessi útlendingar? Gamla útrásarliðið sem mun hefja Davíð aftur til valda? Alls ekki eins fjarstæðukennt og menn vilja halda. Gamla Ísland er rétt handan við hornið, enda er það, það eina sem menn þekkja. Er ekki allt betra en EB, hjá meirihluta Íslendinga núna?
![]() |
Bati í augsýn um mitt ár 2010 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2009 | 08:43
1. apríl
Kostuleg frétt og uppsetning.
Geta lesendur Viðskiptablaðsins gengið út frá því að tölfræðin hafi verið notuð rétt í þessari "skoðanakönnun". Var úrtakið valið af handahófi? Er marktækur munur á fyrsta og öðrum manni? Hvernig voru þessi sjö nöfn valin og af hverjum?
Í raun segir þessi skoðanakönnun ekkert annað en að leiðtogaleysið á Íslandi er algjört!
Það er orðið virkilegt vandamál hér hvernig skoðanakannanir eru notaðar til að "panta" niðurstöðu sem síðan er slegið upp á forsíður blaðanna.
Ef menn halda að ritstjórinn úti í Hádegismóum sé besti og hæfasti leiðtogi sem við höfum og geti tryggt sátt og samlyndi innanlands og endurheimt traust og trúverðugleika erlendis ráðlegg ég fólki að taka fyrstu vél úr landi og koma til baka eftir 25 ár.
Að lokum væri hollt fyrir viðskiptablaðið að muna að mestu leiðtogar heims, eins og t.d. Churchill, voru ekki valdir í skoðanakönnunum eða prófkjörum.
![]() |
Treysta Davíð til að leiða landið út úr kreppunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |