Áfall fyrir servíettuskatt Indriða H.

Orkuskattshugmynd Indriða var aldrei raunhæf eða hugsuð í gegn.  Í stað þess hefur hún skaðað tiltrú á fjármálaráðherra og valdið því að fjárfestar verða nú að taka hringlandahátt íslenskra stjórnvalda með í reikninginn þegar þeir líta til Íslands.

Fjármálaráðherra ætti hins vegar að reyna að styrkja sitt lið og ná sér í betri aðstoðarmenn.  Svavar og Indriði hafa ekki reynst eins traustir og úrræðagóðir og vonast var til.  Hér verður að stokka upp og bæta heimavinnuna.  Gera verður þá kröfu að embættismenn skili því sem er kallað á ensku "completed staff work".  


mbl.is Áform um orkuskatt endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisendurskoðun: launakostnaður verður að lækka!

Nýjasta skýrsla Ríkisendurskoðunar er ekki falleg lesning og hlýtur að valda ríkisstjórninni og AGS miklum vonbrigðum.  Þar skín í gegn að hinn vaxandi ríkishalli sem nú stefnir í 182 ma kr á þessu ári eða um 30 ma kr. meir en gert var ráð fyrir á fjárlögum verður ekki lagaður nema með launalækkun ríkisstarfsmanna.

Í skýrslunni segir t.d. um Landspítalann:

"Af hallarekstri ársins er tæplega helmingur vegna hærri launakostnaðar en gert var ráð fyrir í áætlun."

Um skattahækkanir fyrr á árinu er þetta að segja:

"Þær skattbreytingar sem gerðar voru um mitt ár virðast hins vegar ekki ætla að skila nema hluta þess tekjuauka sem stefnt var að"

Um niðurskurð á lífeyristryggingum segir hins vegar:

"Breytingunum var ætlað að skila 1,8 ma.kr. sparnaði á árinu. Þessar áætlanir virðast hafa gengið eftir enda er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 gert ráð fyrir að fjárveiting til liðarins verði lækkuð um 6 ma.kr."

Það er alveg ljóst að ríkishallinn verður ekki brúaður með skattahækkunum og niðurskurði hjá gamla fólkinu einum saman. 

Eina ráðið er 5-8% launalækkun hjá ríkisstarfsmönnum sem færði hallann niður um 30 ma.

Fjármálastjórnun ríkisins er að komast á sömu villigötur og fjármálastjórnun margra einkafyrirtækja á Íslandi. Við vitum öll hvernig þá fer.


 


Skuldir kynda undir verðbólgu

Hin afleita skuldastaða fyrirtækja kyndir undir verðbólgu hér á landi og mun viðhalda henni um langa framtíð.  Fólkið í landinu þarf ekki aðeins að borga eigin skuldir og skuldir ríkisins með hækkandi sköttum, það þarf einnig að borga skuldir einkafyrirtækja sem velta þessu yfir á almenning í formi síhækkandi verðlags. 

Útsjónarsöm fyrirtæki hækka verð sitt í hverjum mánuði um 1% sem oft fer framhjá fólki en safnast þegar saman kemur.

Einokunarflugfélög sem starfa í skjóli ríkisins eru í sérflokki.  Þau geta hækkað verð sitt í hverjum mánuði ekki í krónum heldur í evrum og dollurum og taka síhækkandi hluta úr pyngju ferðamanna sem koma hingað. 

Ég leit á vef Icelandair og ef 4 manna fjölskylda ætlar að koma til Íslands yfir jól og áramót kostar það hana 12,600 DKK eða 315,000 kr.  4 manna fjölskylda á Íslandi sem ætlar út til Kaupmannahafnar og heim á sömu dögum þarf hins vegar aðeins að borga 193,500 kr eða 7,700 DKK.  Hér munar yfir 60%!

Er von að almenningur botni hvorki upp né niður í verðlagi á Íslandi!

 


mbl.is Tólf mánaða verðbólga tæp 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni feilreiknar sig í Stokkhólmi

Bjarni Ben ræðst á hin Norðurlöndin og skammar þau án þess að útskýra, hvað þá viðurkenna, að nein mistök hafi verið gerð á Íslandi. Þessi ræða mun eingöngu sannfæra erlenda aðila, að hversu óæskilegt sem það var að tengja AGS hjálp og Icesave var það nauðsynlegt í þessu tilviki þar sem skilningur og viðhorf Íslendinga var svo lítill og afneitunin algjör.

Bjarni sagði:

"Af þessum ástæðum, vil ég nota tækifærið til að tjá ykkur hversu daprir og vonsviknir við Íslendingar erum, vegna framgöngu Norðurlandanna og jafnframt krefst ég svara við þeirri spurningu hvað ráði afstöðu manna."

Ekki að Íslendingar séu daprir og vonsviknir yfir framgöngu og ákvörðunum eigin stjórnmálamanna, eftirlitsstofnanna eða útrásarvíkinga.  Ekkert uppgjör við fortíðina og engin iðrun.  

Hér glataði Bjarni gullnu tækifæri til að sannfæra okkar nágranna um að nýr og betri maður hefði tekið við Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins.  Hann hefði getað skapað fjarlægð á milli sín og fyrirrennara sinna með því að útskýra og viðurkenna þeirra mistök og ábyrgð.  Hann hefði getað ítrekað að nú tæki nýtt og öflugra lið við stjórn flokksins sem muni hreinsa út.  Þá hefði Bjarni sem nýr stjórnmálamaður sem ekki stóð vaktina í hruninu getað tekið það forystuhlutverk að biðjast afsökunar á mistökum okkar stjórnmálamanna og þar með skapa sér stöðu sem maður framtíðarinnar.  

En því miður gerði Bjarni ekkert af þessu, heldur hlekkjar hann sig við óskiljanleg völd gömlu klíkunnar sem mun nota öll brögð til að hvítþvo sjálfa sig og Bjarni virðist verð orðinn auðmjúkur þjónn þeirra. Auðvita eru menn yfirsig hrifnir í Hádegismóum, en er það nóg?

Nei, Bjarni, betur má ef duga skal.  

 

 


mbl.is Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar reknir með miklu tapi - fleiri uppsagnir framundan?

Það er aldrei hægt að koma beint að efninu á Íslandi.  Það sem Seðlabankinn er að reyna að segja með  aukningu á vaxtamun innlána og útlána og samþjöppun á bankamarkaði er að bankarnir séu nú reknir með miklu tapi og enn meira tap sé fyrirsjáanlegt þegar að niðurfellingu lána kemur.

Til að fjármagna þessa niðurfellingu á skuldum þarf að fækka bankaútibúum og starfsmönnum, líklega um svona 30% og svo þarf að ráðast á sparifjáreigendur og láta þá borga brúsann.

Sparifjáreigendur hafa um lítið að velja.  Þeir sitja óvarðir og geta litla björg sér veitt þegar ráðist verður á þeirra sparnað.  Og útskýring Seðlabankans, jú, þar sem bankarnir hafa ekki passað sig að hafa jöfnuð í innlánum og útlánum hvað varðar gjaldmiðla þá eiga íslenskir sparifjáreigendur að sætta sig við evruvexti á krónusparnað og skuldarar eiga að bora krónuvexti á evrulán.  Ekki er öll vitleysan eins.  Er ekki kominn tími til að stofna nýjan banka þar sem öll innlán og útlán eru í sama gjaldmiðli.  Hann yrði miklu samkeppnishæfari en gamla ruslið.  

Það hefur aldrei borgað sig að spara á Íslandi.  Svona mun þetta verða áfram á meðan krónan er hér við líði.  Það er enginn furða að margir vilji halda í krónuna.  Aðeins í skjóli hennar er hægt að stunda óábyrga efnahagsstjórnun og lánapólitík sem hyglar ákveðnum hópun í samfélaginu sem fá að éta upp sparnað þeirra sem minna mega sín.  Sem sagt, ríkisrekinn þjófnaður.


mbl.is Þörf á hækkun útlánavaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engir peningar til - utanþingsstjórn eina lausnin

Það eru engir peningar til hér á landi umfram skuldir.  Eigið fé Íslands er neikvætt.  Það er ekki hægt að borga laun og fjárfesta með skuldum, til þess að það sé hægt þurfa að koma ný lán og þar er allt í biðstöðu m.a. vegna hugmynda um orkuskatta og tafa í afgreiðslu Icesave.

Nú stendur þjóðin frammi fyrir því að lífskjaraniðurskurður verður ekki lengur umflúinn.  Það er komið að skuldadögum. Nú þarf almenningur að borga fyrir afglöp sinna stjórnmálamanna síðustu 20 árin.  Lélegasta hagstjórn innan OECD getur aldrei skilað hagsæld og stöðuleika.

Sömu persónur og leikendur sem hafa staðið vaktina síðustu árin geta ekki komið landinu út úr þessum vanda.  Til þess skortir þá leiðtogahæfileika, yfirsýn og hlutleysi til að ráðast á þann hagsmunafrumskóg sem varnar allri uppbyggingu og breytingum.

Eina lausnin er utanþingsstjórn næstu 18 -24 mánuðina sem vinnur náið með AGS og síðan aðrar kosningar.


mbl.is Hafa ekkert nálgast niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um Símapeningana?

Þegar Síminn var seldur átti að nota peningana til að byggja upp nýtt sjúkrahús.  Svo kom í ljós að Bakkabræður höfðu tekið kaupverðið að láni hjá Kaupþingi.  Svo fellur Kaupþing og ríkið þarf að hreinsa upp skítinn.  Var þetta lán afskrifað?

Fékk Exista Símann gefins? Þurfa landsmenn að borga tvisvar fyrir sjúkrahúsið, fyrst með því að gefa Símann til einkaaðila og svo með því að láta ríkið seilast ofaní lífeyrissjóðina?

Er ekki kominn tími til að skattgreiðendum sé gerð grein fyrir hvað varð um Símann?

 


mbl.is Leggja drög að yfirlýsingu um nýtt sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáar þjóðir geta ekki rekið McDonalds

Það eru ekki margar þjóðir sem ekki geta eða treysta sér að reka McDonalds hamborgarabúllur en Ísland er eitt þeirra.  Þjóð sem ekki getur rekið McDonalds getur varla rekið banka! 

Skýringin er klassísk íslensk "árinni kennir illur ræðari", öllu skellt á útlendinga.  Þessa skýringu kaupir enginn nema íslenskir blaðamenn.

Ætli bagaleg fjármálastjórnun sé ekki líklegri skýring.


mbl.is McDonalds verður Metró
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingar bíða í ofvæni eftir íslenskum bönkum!

Már Seðlabankastjóri segir:

"að þegar þær aðstæður skapist verði brýnt að svara spurningum um í hversu miklum mæli íslenskum bönkum verði leyft að stunda alþjóðlega bankastarfsemi."

Ég held að það væri skynsamlegt að gera ráð fyrir að vörumerkið "íslenskur banki" eigi sér ekki viðreisnarvon í Evrópu.  Í fyrsta lagi þarf innistæðueigendur til að reka alvöru banka.  Hvað ætli það séu margir Evrópubúar sem geta ekki beðið eftir að leggja sitt sparifé inn hjá Íslendingum?  Svo eru það erlendir eftirlitsaðilar, hvað kröfur munu þeir gera til íslenskra banka?  Í framtíðinni verða gerða kröfur um að starfsmenn og stjórnendur banka sem vilja starfa á alþjóða vetfangi hafi viðeigandi reynslu, menntun og þekkingu.  

Nei, ég held að þetta sé það síðasta sem Már þarf að hafa áhyggjur af.  


mbl.is Tímabært að hefja afnám hafta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarbústaðir og bílar á kennitöluflakk

Eitt mesta kennitöluflakk í Íslandssögunni er nú í aðsigi. 

RÚV segir að: "samkvæmt nýju (skuldaaðlögunar)lögunum verða allar eignir fólks teknar upp í skuldir og seldar, verðbréf, hús, sumarbústaðir, bílar eða annað sem er einhvers virði. Hver fjölskylda fær að halda eftir hóflegu húsnæði, eins og það heitir, og einum bíl."

Það er því ljóst að áður en farið er í skuldaaðlögun verður að koma sumarbústaðnum, frúarbílnum og peningainnistæðum í skjól. Flestir sem hafa sambönd og eru tengdir valdaelítunni eru þegar búnir að þessu.  Búast má við gríðarlegri eftirspurn eftir seðlum og seðlanotkun á eftir að aukast mikið hér.  Svartamarkaðsbrask á eftir að blómstra og verður líklega eina atvinnugreinin sem sér fram á bjarta tíð 2010. Eins og gjaldeyrisbraskið er að sliga krónuna eiga þessi lög eftir að sliga bankana og þeirra möguleika að lána til atvinnuuppbyggingar.

Spurningin er hvers vegna var ekki tekið fyrir kennitöluflakk strax eftir hrun?  Hverra hagsmuna er verið að gæta með því að leyfa og ýta undir að eignum sé skotið undan?  Svo má spyrja sig hver á að kaupa þá sumarbústaði og bíla sem ekki tekst að koma undan?

Tilgangur laganna er góður en framkvæmdin virðist ætla að verða enn eitt klúðrið.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband