Kaupþing, Hagar og pólitíkin

Ef það er rétt að Kaupþing sé orðið eigandi að Högum vaknar upp spurningin, hvað næst.  Hvað ætlar Kaupþinga að gera við Haga?  Þetta ætti að vera viðskiptafræðileg spurning en ekki pólitísk.

Bankaráð Kaupþings ber að gæta hagsmuna eigenda bankans sem eru kröfuhafar.  Hins vegar var bankaráði ekki valið af kröfuhöfum heldur pólitískum öflum.  Svona stjórnarhættir eru ekki vel til þess fallnir að leiða til eðlilegra og rökréttra ákvarðana.

Eins og svo oft vill verða eru að myndast tvær fylkingar sem vilja berjast um fyrirtækið.  Margt er óljóst hverjir raunverulega standa á bak við þessa aðila og hvaðan peningarnir koma.

Almenningur hefur verið virkjaður til að standa með hinni nýju fylkingu sem berst við gömlu eigendurnir en hér er hætta á ferð.  Ekkert hefur verið gert í að bæta stjórnarhætti almenningshlutafélaga hér.  Við erum með sömu leiðbeinandi reglur sem hafa reynst svo illa og tryggja engan vegin rétt smærri hluthafa.  Ef nýir aðilar ná tökum á Högum með hjálp almennings geta þeir stýrt og stjórnað öllu, og ráðið alla stjórnarmenn sjálfir.  Enginn mun gæta hagsmuna almennings, nema í orði.

Ef rétt á að vera haldið á málum hér, þarf eftirfarandi að gerast:

  1. Alþingi þarf að samþykkja lög um stjórnarhætti almenningshlutafélaga þar sem meirihluti stjórnarmanna þurfa að vera óháðir stærstu hluthöfum og allar stjórnir þurfa að hafa endurskoðunarnefnd þar sem formaður hennar er óháður stjórnarmaður.
  2. Kaupþing sem eigandi Haga þarf að ráða þriðja aðila til að fara með Haga í söluferli.  Best er að þetta sé traustur norræn banki, t.d. Nordea.  Söluferlið á að gera opinbert og auglýsa innan EES.
  3. Kaupþing á að setja upp nefnd sem fer yfir kauptilboð og í henni eiga að sitja erlendir fjármálasérfræðingar og fulltrúar kröfuhafa.

mbl.is Stjórn Nýja Kaupþings fjallar um málefni móðurfélags Haga í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfið til vinstri fortíðar í skattamálum

Ekki er hægt að segja að skattatillögur ríkisstjórnarinnar séu frumlegar eða vænlegar til að örva einkageirann og skapa atvinnutækifæri. 

Auka þarf skatttekjur, það er alveg ljóst en það er ekki sama hvernig það er gert og í hvaða hlutföllum.

Ráðast þarf fyrst á ríkisbáknið og sníða því stakk eftir vexti áður en skattahækkanir eru ákveðnar. 

Hyggilegra hefði verið að dreifa aðhaldsaðgerðum yfir lengri tíma og hafa blöndunarhlutföllin á milli niðurskurðar og skatta 2/3 og 1/3 en ekki helmingaskipti.  Það verður að dreifa byrðunum jafnt.  Einkageirinn hefur tekið á sig mestan skellinn.  Atvinnuleysi er nú um 7-8%.  Hversu stór hluti þessa hóps eru fyrrverandi ríkisstarfsmenn?

Svo sé ég að Lilja Mósesdóttir hefur fengið sinn eignarskatt inn en þó ekki nema upp á 1.25% en ekki 3% eins og talað var um fyrr á árinu, en það er enn langt til ársins 2012.  Það má búast við að þessi prósenta hækki ár frá ári og skattleysismörkin sígi jafn og þétt eftir því sem þessi skattur skilar minna og minna inn.  3 ma kr. er ekki há tala þegar hallinn er 180 ma kr.  Vandamálið er að þessi skattur "lekur".  Margir sem eiga skuldlausar eignir yfir 120 m kr. hafa ráð og efni á að bregðast við þessu.  Margir eru þegar fluttir úr landi og fleiri eiga eftir að fylgja.  Þar með tapast aðrar skatttekjur, sérstaklega fjármagnstekjuskattur.  Allt í allt, má teljast gott ef þessi skattur skilar sér á sléttu.  Miklu líklegra er að hér sé um pólitíska ákvörðun að ræða en hagfræðilega.  

 


mbl.is Þriggja þrepa skattkerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir látnir kaupa OR rusl

Samþykkt Reykjavíkurborgar um að heimila OR að auka skuldabyrgði sína um 10 ma kr. er óskiljanleg.  Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, lánshæfni er komin í ruslaflokk, og fjármálastjórnun síðustu ára er með eindæmum.  Nær hefði verið að fara fram á rannsókn á hvers vegna OR er í jafn vonlausri fjárhagslegri stöðu og raun ber vitni.

Sagt er að þessir peninga eigi að fara í fráveituframkvæmdir.  Ekki væri ég hissa ef eitthvað af þessu fé færi í að borga "arð" til eigenda og vexti til lánadrottna.

Svo verður athyglisvert að fylgjast með hvort lífeyrissjóðirnir kaupi þessi bréf og á hvaða vöxtum og með hvaða afföllum.  Í flestum löndum eru skýr lög um að lífeyrissjóðir geta og mega ekki kaupa ruslabréf (junk bonds).  Þessi lög hafa verið sett til að vernda hagsmuni sjóðsfélaga.

Sú staðreynd að opinber aðili leggur til að lífeyrissjóðirnir kaupi rusl sýnir að viðskiptasiðferði á Íslandi er langt fyrir neðan það sem boðlegt getur talist. 

Eins og svo margt annað er viðkemur fjármálum og neytendavernd eru svona aðgerðir löglegar á Íslandi en bannaðar erlendis.  Er furða að útlendingar hristi hausinn yfir íslenskum vinnubrögðum og siðferði. 

Nú verða sjóðsfélagar að standa upp og verja sína hagsmuni og fjármuni.  Það er ekki lífeyrissjóðanna að borga fyrir þau hörmulegu mistök sem hafa átt sér stað hjá OR.

 


Seðlabankamenn: "persona non grata" í Evrópu?

"Í lok apríl 2008 hringdi Jean-Claude Trichet, aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu, ævareiður í Davíð Oddsson seðlabankastjóra, og hótaði að grípa til aðgerða sem myndu leiða til þess að íslensku bankarnir yrðu gjaldþrota innan tíu daga."   Þetta segir Eyjan í frétt um nýja bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið.

Þetta skýrir margt.  Líklegt er að allir helstu seðlabankar heims hafi verið búnir að setja Seðlabanka Íslands á svartan lista fyrir september 2008.  Nú er komin skýring á hvers vegna enginn hjálpaði okkur og við fengum engar gjaldeyris "swap" línur eins og aðrar Norðurlandaþjóðir eftir fall Lehmans.

Þetta skýrir líka hvers vegna það var svo nauðsynlegt að losna við Davíð úr Seðlabankanum og fá erlendan aðila inn til að hreinsa til.  Spurningin er hvort nógu vel hafi verið tekið til í Seðlabankanum og hvort nýir stjórnendur þar séu ekki of tengdir fortíðinni? 

Betra hefði verið að fá algjörlega nýtt lið inn í Seðlabankann sem hafði aldrei unnið þar áður.  Það hefi gert okkur auðveldar að endurnýja traust erlendar aðila á stofnuninni ef það er þá hægt.  Það tekur áratugi að skapa traust og trúverueika á störfum seðlabanka.  

Kannski er líka komin sýring á hvers vegna ekkert er lengur talað um að biðja um tvíhliða samningi við Evrópska Seðlabankann til að styðja við krónuna?

 

 


Spilling í skjóli tungumáls og fjarlægðar

Það er að renna upp fyrir Transparency International að upplýsingar sem þeir hafa fengið frá Íslandi eru kannski ekki eins óspilltar og þeir héldu.  Það er margt hægt þegar maður er með tungumál sem enginn önnur þjóð talar. 
mbl.is Ísland lækkar á spillingarlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töluverðar líkur á greiðsluþroti og stöðnun

Minnihlutaálitin sem fylgja Icesave frumvarpinu eru athyglisverð.

Lilja og Ögmundur benda á að erlend skuldastaða þjóðarbúsins muni nema 310% af landsframleiðslu 2009 sem er mun hærri tala en 240% sem AGS hefur sagt að sé óviðráðanlegur baggi.

Þór Saari bendir á að Seðlabankinn geri ráð fyrir 163 ma afgangi af viðskiptum við útlönd á ári, næstu 10 árin.  Fyrstu sex mánuði þessa árs var jöfnuður vöru og þjónustu við útlönd jákvæður um 38.5 ma eða 77 ma á ársgrundvelli.  Ennfremur bendir Þór á að Seðlabankinn geri ráð fyrir að viðskipti við útlönd verði 50% af landsframleiðslu næstu árin en hefur hingað til numið 1/3.

Páll Blöndal og fleiri benda á að vaxtakjör á Icesave séu okurvextir upp á 5.5% og þar með 170 punktum fyrir ofan fjármagnskostnaðar Breta og Hollendinga.

Hér er komið gott efni í einfaldan reikning.  Byrjum á greiðslugetunni.  Ef við trúum Seðlabankanum og gefum okkur að útflutningstekjur á næstu árum verði svipaðar og nú en að við drögum enn meir úr innflutningi á vörum og þjónustu sem nemur 16% eða um 86 ma, þá náum við jöfnuði upp á 163 ma.

Erlendar skuldir upp á 310% af landsframleiðslu nema 4,340 ma kr.  Gefum okkur að meðalvaxtakostnaður af þessum lánum sé 4.5% (100 punktum fyrir neðan Icesave).  Hreinn vaxtakostnaður er þá um 195 ma á ári.

Vaxtakostnaður er því um 32 ma hærri en viðskiptajöfnuður okkar við útlönd.  Til að þetta gangi upp á sléttu þurfa meðalvextir að vera 3.75%.  Það er kannski sú tala sem Seðlabankinn notar.  En miðað við vextina á Icesave og öll þau lán sem þarf að endurfjármagna á næstu árum er ansi mikil bjartsýni að nota svo lága tölu.

Það er alveg ljóst að allt veltur á vaxtakjörum sem við fáum í framtíðinni hvort hér verður greiðsluþrot eða ekki.  Eitt er víst, ekki má mikið út af bera til að illa fari.

 

PS.  

Forsendur Seðlabankans um útflutning sem hlutfall af landsframleiðslu eru athyglisverðar.  Ef þetta hlutfall verður um 50% næstu árin og 5 ára spá AGS um flata landsframleiðslu á mann í dollurum gengur eftir eru litla sem engar líkur á að krónan styrkist að neinu marki a.m.k. ekki næstu 5 árin.  Ef krónan styrkist þá má búast við að innflutningur aukist og þá riðlast þessi hlutföll og forsendur Seðlabankans hrynja eins og spilaborg.  Lágt og stöðugt gengi er því mikilvæg forsenda fyrir þessu plani.  Þar með er séð til þess að lífskjör Íslendinga er haldið niðri miðað við nágrannalöndin til að skapa afgang til að borga útlendingum vexti.  Eina ráðið til að komast út úr þessari úlfakreppu er að auka útflutningstekjur okkar. Aðeins þegar þær fara að aukast getur krónan rétt úr sér. En þá vaknar spurningin hvar á fjármagnið að koma til að byggja upp nýjan stofn útflutningstekna? 


mbl.is Ekki hætta á greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítþvottur Seðlabankastjóra í París

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, flutti í síðustu viku erindi í París um orsakir og afleiðingar fjármálakreppunnar á Íslandi, um viðbrögð við henni og endurbata. Erindið var flutt á málstofum sem kenndar eru við Adam Smith.  Svo segir á vef Seðlabankans í gær.  Þar er líka að finna gögn sem Már studdist við í sínu erindi og eru þau um margt athyglisverð.

Sérstaklega er athyglisverður kaflinn þar sem Már talar um orsakir bankahrunsins á Íslandi.  Þar kennir hann um alþjóðakreppunni og stærð bankanna miðað við hagkerfið og svo gölluðu EB regluverki sem hafi sérstaklega verið óhentugt litlum löndum sem standa fyrir utan EB (Liechtenstein virðist þó bara spjara sig vel en látum það liggja á milli hluta). 

Það sem vekur mesta athygli í þessu gögnum eru hlutir sem ekki er minnst á.  Ekki er eitt aukatekið orð um FME.  Þeir sem ekki þekkja vel til Íslands gætu dregið þá ályktun að hér sé ekkert fjármálaeftirlit.  Sama má segja um Seðlabankann og íslensk stjórnvöld.  Ekki er minnst á að þessir aðilar hafi átt neinn þátt í hruninu.  Allri skuldinni er skellt á bankana og útlendinga.  

Már dregur upp hvítt tjald.  Öðrum megin sitja hreinir stjórnmálamenn allra flokka, Seðlabankinn, FME og aðrar ríkisstofnanir en hinum megin standa bankarnir, fyrirtækin og almenningur í forinni sem er dælt frá útlöndum. 

Hvað ályktanir eiga útlendingar að draga af svona framkomu?  Eru Íslendingar svona hrokafullir eða vitlausir, nema hvorutveggja sé? 

Annað sem vekur athygli í þessu plaggi er að Már viðurkennir að vextir séu of háir fyrir innlenda hagkerfið og að um 78 m evra (14 ma kr) hafi verið eytt á síðustu 10 mánuðum til að styðja við krónuna frá genginu 165 í tæp 185 kr.!

Lengi getur vont versnað.

 


Að gleðja Steingrím

Er furða að sænski fjármálaráðgjafinn Mats Josefsson sé búinn að gefast upp á Steingrími og íslensku stjórnkerfi.   Hann fer varla að koma hingað til lands til þess eins að "gleðja" Íslendinga.  Það eru nógu margir trúðir við Austurvöll og algjör óþarfi að eyða gjaldeyri í að flytja þá inn.

Hitt er alvarlegra, að hin mjög svo málefnalega gagnrýni frá Mats skuli ekki vera ofar í huga fjármálaráðherra.  Hann grípur til alveg sömu tækni og margir íslenskir stjórnmálamenn, nefnilega, að nota háð og spott og ráðast á persónuleika Mats en ekki hans tillögur.  Þetta finnst Íslendingum voða sniðug og fyndið. 

Það er virkilega sorglegt að maðurinn sem sagði að við ættum að fara að haga okkur meir eins og hin Norðurlöndin skuli svara á þennan hátt.   Þetta vekur einnig upp spurningar um hvaða stjórn fjármálaráðherra hefur á sínum ráðgjöfum?  

Nei, Icesave klúðrið, seinagangur við endurreisn bankakerfisins og mistökin að hafa ekki sett um eignarsýslufélag um fyrirtæki sem þurfa skuldaniðurfellingu tala sínu máli.  

 


mbl.is Samningur við Josefsson rennur út um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar og lág laun eru framtíðin á Íslandi

Miklar breytingar á skattakerfi breyta hegðunarmynstri fólks.  Skattabreytingar geta breytt öllum rekstraráformum fyrirtækja og skapað óvissu um framtíðina, en óvissa er einmitt eitur í beinum fjárfesta.  Hvernig þessar skattabreytingar eiga að hjálpa okkur til að laða að erlent fjármagn til atvinnuuppbyggingar er erfitt að svara.  Líklega endum við upp með tvöfalt kerfi þar sem erlendri fjárfestar fá skattaafslátt eins og sjómenn en venjulegir Íslendingar borga brúsann.

Eitt er víst að framtíðin á Ísland eru skattar og lág laun.  Þessir nýju skattar sem nú er verið að keyra í gegn á elleftu stundu, 6 vikum fyrir áramót eru aðeins byrjunin.  Það þarf að hækka skatta í fjárlögum 2010, 2011 og líklega enn eina ferðina 2012. 

Við höfum ákveðið að halda uppi norrænu velferðarkerfi en það er dýrt í rekstri og aðeins á færi ríkustu þjóða heims enda vorum við lengst af í þeim hópi og höfðum næsthæstar þjóðartekjur á mann af Norðurlöndunum á eftir Norðmönnum.  En nú verður breyting á.

Samkvæmt spá AGS fyrir árið 2014 munu þjóðartekjur á mann* á Íslandi verða 55% af þjóðartekjum á mann í Danmörku en þetta hlutfall var 85% árið 2008 og 115% árið 2007 þegar Danir voru bara öfundsjúkir út í "velgengni" Íslendinga!  Þessar tölur segja sitt.

Það er alveg ljóst að það verður erfitt að halda upp norrænu velferðarkerfi með þjóðartekjum á mann sem eru nær löndum eins og Grikklandi og Ítalíu en Danmörku og Svíþjóð.  Til að svo megi verða, verða skattar að hækka hér langt yfir það sem þeir eru á hinum Norðurlöndunum, en það mun ekki duga til.

Vaxtabyrgði ríkissjóðs verður svo gríðarlega að afgangsskatttekjur munu vart duga til að halda uppi lágmarksþjónustu til borgaranna.  Við erum því í hættu að enda upp í vítahringa hækkandi skatta, stöðnunar og síversnandi velferðarþjónustu.  

Það er einfaldlega ekki hægt að sjá hvernig þetta dæmi gengur upp.  Og þar liggur hinn óleysti vandi.  

Metnaðarfull athafnafólk af ungu kynslóðinni mun sjá að það er ekkert vit í að búa á Íslandi og bjóða sínum börnum upp á svona kjör þegar ríkasta land heims, Noregur, er næsti nágranni.  En 2014 er búist við að þjóðartekjur á mann á Íslandi verði 40% af norskum tekjum. 

Já, spá AGS er svört, og mun verri en margir gera sér grein fyrir.  

 * e: GDP per capita, nominal

 


mbl.is Nýir skattar inni í myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki dæma Jón Ásgeir úr leik

Framtak Guðmundar Franklíns og hans félaga er virðingarvert enda er eitt brýnasta verkefni á dagskrá hér á landi að koma helstu fyrirtækjum landsins í dreifða almenna eign og úr hendi útrásarvíkinga og þeirra leppa sem ganga undir nafninu "kjölfestufjárfestar".  Þetta mun örva hlutabréfamarkaðinn og byggja grunn undir heilbrigt atvinnulíf.

En ekki dæma Jón Ásgeir úr leik.  Hann heldur á ómótstæðilegu trompi sem líklegt er að Samfylkingin og Vinstri grænir falli fyrir og það er hans fjölmiðlaveldi.  Sjálfstæðismenn og Framsókn hafa náð undir sig mogganum svo varla geta Jóhanna og Steingrímur tjáð sig þar ef þau ætla að ná til kjósenda.  Þá er aðeins fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs eftir og hann ræður hverja flokka hans fjölmiðlar styðja.  

Bankaráð Kaupþings er pólitískt skipað svo þar eru ákvarðanir ekki aðeins teknar á viðskiptalegum forsendum og það veit Jón Ásgeir.  Hann mun því miskunnarlaust nota sitt fjölmiðlaveldi til að halda yfirráðum yfir Högum og hann væri löngu búinn að missa þar tökin ef ekki kæmi til hans fjölmiðla.

Það má því segja að Jón Ásgeir hafi dottið í lukkupottinn þegar Davíð var settur í ritstjórnarstól moggans og yrði það ekki kaldhæðni örlaganna ef Davíð yrði til þess að Jón Ásgeir héldi Högum?


mbl.is Mikill áhugi á Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband