Eitt skref áfram, tvö afturábak

Íslendingar eru svartsýnir og útlendingar eru að missa þolinmæðina yfir seinaganginum og hikinu hér á landi.  Þetta er ekki góð blanda.

Það er erfitt að vera ekki sammála erlendum sérfræðingum sem hafa nýlega komið fram og gangrýnt hið hættulega pólitíska tómarúm sem hér ríkir.  Stjórnir sem ekki vilja eða geta stjórnað er ekki góð uppskrift.

Þá hefur  Moodys, matsfyrirtækið sem hingað til hefur verið þolinmóðast gagnvart Íslandi misst sína ró og stillingu og lækkað lánstraustið og sett OR út á Sorpu sem viðvörun um að Landsvirkjun og önnur fyrirtæki séu ekki langt undan.  

Nú þegar rúmar sex vikur eru eftir af árinu er Icesave enn ófrágengið og ríkisfjármálin er óafgreidd blanda af einhverju sem enginn skilur þaðan af síst alþingismenn.  Svona vinnubrögð munu aðeins lengja og dýpka kreppuna.  

Eitt er víst að sú strategía stjórnvalda að reyna að halda öllu á floti og fresta öllum erfiðum ákvörðum skilar litlum árangri.  Við getum ekki lengur látið krónuna vinna öll skítverkin hér.  Endalausar gengisfellingar munu ekki leysa vandann.  Taka verður á ríkisbákninu eins og það leggur sig.  Við einfaldlega höfum enga burði eða landsframleiðslu til að halda uppi því ríkisbákni sem við byggðum upp á tekjustofnum sem erlendir sparifjáreigendur stóðu undir.

Stærsti hluti ríkisútgjalda er launakostnaður og hann er enn allt of hár.  Að reyna að standa undir þessum kostnaði með skattahækkunum og hagræðingu gengur ekki upp.  Það er engin tilviljun að fjárfestar búast við meiri verðbólgu á næsta ári.  Ef "hin eina lausn" eins og Steingrímur kallar sitt ríkisfjármálaplan verður að veruleika aukast líkurnar á umtalsverðri gengisfellingu á næsta ári þar sem evran fer yfir 200 krónur með tilsvarandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.  

Ein ástæða þess að krónan er eins veik og hún er og að lánstraust okkar hrynur er að við neitum að viðurkenna staðreyndir.  Við getum ekki bæði staðið undir erlendum lánaskuldbindingum og ríkisbákninu.  Eitthvað verður að gefa eftir.  Það er kominn tími á hinar óvinsælu aðgerðir eins og Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svía varaði okkur við fyrir um ári síðan. 

 


mbl.is Íslendingar enn svartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist einmitt vera hugafar vinstri manna að þenja ríkið út og taka nógu mikla fjármuni frá fólki og fyrirtækjum svo embættismannakerfið fái nægt fjármagn til að sinna mikilvægari málum en að skapa verðmæti og fæða og klæða fólk.

Ég er nokkuð viss um að það gæfi betri lausn að fá hóp af öpum til að taka ákvarðanir fyrir þjóðina en að núverandi ríkisstjórn haldi áfram á sömu braut.

Jóhann (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 02:42

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður, réttur og sannur pistill Andri og gott að fá þína rödd hér aftur inn á bloggið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 14:41

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Velkomn aftur Andri.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 14.11.2009 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband