H1N1: Vantar rétt bóluefni fyrir ofnæmissjúklinga

Vísir birtir frétt um ofnæmisviðbrögð við bóluefninu Pandemrix sem er notað hér á landi við bólusetningu gegn svínainflúensu.  Því miður var ekkert af bóluefninu CELVAPAN H1N1 framleitt af Baxter pantað en það er framleitt án þess að nota egg og er því sérstaklega ætlað fólki með ofnæmi. 

Mörg lönd í Evrópu pöntuðu báðar tegundir af bóluefni þar á meðal Bretland og Írland en aðeins Pandemrix frá GlaxoSmithKline var pantað hingað til lands.

Heilbrigðisyfirvöld þurfa að svara hvers vegna Celvapan var ekki pantað en það hefur nýlega verið viðurkennt til notkunar innan Evrópu.


Íslenskir dómstólar vanhæfir

Ef neyðarlögin koma til kasta íslenskra dómstóla er erfitt að sjá að einhver dómari þar geti verið hlutlaus.  Dómsúrskurður mun hafa áhrif á alla landsmenn og þar með fjölskyldur þeirra dómara sem þar dæma.  Hvaða líkur eru á að dómarar fari að fella neyðarlögin og setja þar með margfaldan skuldabakka á sín börn og barnabörn?

Er það ekki grundvallarkrafa að dómarar séu óháðir málsaðilum og hafi engra hagsmuna að gæta?

Hvernig ætlum við að leysa þessa hagsmunaárekstra ef til málshöfðunar kemur?

Hér er um mikilvægt mál að ræða.  Úrlausn þess getur skipt sköpum um hvort við verðum álitin réttarríki.  En þetta yrði einnig prófmál í víðari samhengi og kemur inn á getu örríkja til að halda uppi þrískiptu lýðræði að hætti stærri ríkja. 

Niðurstaðan gæti orðið sú að stærri ríki líti ekki á örríki sem jafningja nema þau séu aðilar að stærri bandalögum eins og t.d. ESB. 

Hugtakið "sjálfstæð þjóð" verður ekki eins auðvelt að skilgreina á 21. öldinni eins og það var á 19. öldinni.

 


mbl.is Undirbýr mál gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ása Guðmundsdóttir Wright

Morgunblaðið greinir frá nýrri bók Ingu Dóru Björnsdóttur um athafnakonuna Ásu Guðmundsdóttur Wright.  Ég hef nýlokið við lestur bókarinnar og hér er á ferðinni vönduð og vel skrifuð bók.  Höfundur hefur rannsakað lífshlaup Ásu mjög ýtarlega og vitnar í fjölda heimilda.  Þetta er bók í anda Ásu, hispurslaus og nákvæm.

Ása og Newcome Ása og móðir mín voru systkinadætur og það voru ekki ófáar sögurnar sem ég heyrði um Ásu og hennar ævintýri þegar ég var lítill strákur.  Ása var sannkölluð ævintýriskona, vann í stríðinu fyrir breska herinn í Englandi við ritskoðun bréfa og settist síðan að í Trínidad og rak búgarð þar sem hún ræktaði kaffi og kakó.  Maður hugsaði stundu um hvað það hefði verið gaman að vera í sveit hjá Ásu, innan um öll hennar dýr og plöntur en úr því varð aldrei enda var Trínidad fjarlægð eyja langt frá Íslandi á þeim árum.

Ása var höfðingleg kona sem gaf sínar eigur til Íslands svo þær mættu gagnast þjóðinni.  Hún stofnaði tvo sjóði til minningar um foreldra sína og ættmenni á Íslandi: Minningarsjóð sem er í vörslu Þjóðminjasafnsins og styrkir fyrirlestra erlendar fræðimanna, og Verðlaunasjóð tengdan Vísindafélagi Íslendinga.  Ásu var sérstakleg annt um það þessir sjóðir héldu nafni móður hennar Arndísar Jónsdóttur á lofti enda var Ása líkt og móðuramma hennar Sigþrúður Friðriksdóttir Eggerz mikil baráttukona fyrir bættum réttindum kvenna eins og vel kemur fram í bókinni. 

Ég skora á stjórn Minningarsjóðs Ásu að halda fyrirlestraröð um störf og rannsóknir sem hafa verið stundaðar síðustu 40 árin á Spring Hill, búgarði Ásu, sem hún stóð fyrir að breyta í náttúruverndarsetur, Asa Wright Nature Centre, fyrsta sinnar tegundar í Karabíska hafinu.  Í stjórn setursins sitja margir merkir vísindamenn og upplagt væri að fá einhvern þeirra til að halda fyrirlestur hér á landi um vísindarannsóknir á Spring Hill.  Hér er því komið gott efni í fyrirlestraröð sem bæri nafn móður Ásu - Arndísar fyrirlestrar.

Vefsíðu seturs Ásu má finna hér.


Vandi bankanna er pólitískur umfram allt

Það er rétt hjá Steingrími að vandi bankanna er gríðarlegur þegar kemur að endurskipulagningu og endursölu eigna sem þeir hafa eignast eða ættu að eignast.  Þessi erfiði vandi er fyrst og fremst pólitískur þar sem hinn viðskiptalegi vandi er frekar auðveldur úrlausnar. 

Bankarnir og stjórnmálamennirnir eru komnir með þetta allt í hnút einfaldlega vegna þess að þeir fóru ekki eftir ráðleggingum erlendra aðila sem hafa reynslu af svona málum.  

Réttlæti er ekki tryggt með pólitísku samræmi fjórflokkanna.  Þetta er ekkert nema gamla grútskítuga íslenska tuggan sem fólki er sí og æ boðið upp á.

Nei, nú verðum við að fara að gera meiri kröfur til okkar allra og fara að haga okkur samkvæmt lágmarkskröfum sem gerðar eru á hinum Norðurlöndunum.


mbl.is Réttlæti tryggt með samræmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæta þarf stjórnarhætti áður en fyrirtæki fara á markað

Það er gott mál að setja íslensk fyrirtæki í dreifða almenna eign og hefði mátt gerast fyrr.  En bæta verður stjórnarhætti almennra hlutafélaga til að tryggja hag smærri hluthafa.

Setja verður stjórnarhætti í lög eins og í Svíþjóð.  Leiðbeinandi reglur hafa algjörlega brugðist hér á landi.

Ein aðalbreytingin sem gera þarf á stjórnarháttum er sjá til þess að meirihluti stjórnarmanna sé óháður stærstu hluthöfum.  Meginhlutverk stjórnar í íslenskum almenningshlutafélögum á að vera að gæta hag minnihlutans.  Meirihlutinn sér um sig sjálfur og þarf enga vernd.  Girða verður fyrir að meirihlutaklíkur geti náð völdum í stjórnum almennra hlutafélaga og þar með fengið tækifæri til að skammtað sér fé úr almenningssjóðum, tekið lán og fengið aðra fyrirgreiðslu sem almenningi stendur ekki til boða.

Nýleg sala á hluta Exista í Bakkvör til félags í eigu stjórnarmanna og með láni frá félaginu er skínandi dæmi um spillta stjórnarhætti sem enn viðgangast hér á landi.

Nú má almenningur ekki sofa á verðinum þó stjórnvöld geri það.


mbl.is Fyrirtæki bankanna á markað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgan dæmir stjórnvöld

Enn æðir verðbólgan áfram og ekkert virðist geta hamið hana.  Engar verðbólguspár virðast halda sama hver semur.  Hvers vegna?

Verðbólgan er ansi góður mælikvarði á gæði hagstjórnar, nokkuð sem allir Þjóðverjar vita og eru sammála um.  Aðeins þjóðir sem temja sér góða hagstjórn geta búið við lága verðbólgu og stöðugan og sterkan gjaldmiðil.  Oft er bent á að í mörgum evrulöndum sé evran að ganga frá öllu dauðu og þá sé nú munur að hafa krónu sem hægt sé að setja í frjálst fall.  En hvað er orsök og afleiðing hér?  Er það sterkur gjaldmiðill eða léleg hagstjórn?

Það þarf sterka hagstjórn til að búa við sterkan gjaldmiðil og lága verðbólgu.  Þetta er hægara sagt en gert og aðeins á færi örfárra þjóða.  Í Evrópu eru það aðeins 3 germanskar þjóðir sem hafa áratuga reynslu og kunnáttu í þessum málum, þ.e. Þýskaland, Holland og Sviss. Flestum öðrum þjóðum hefur fipast flugið en fáar þjóðir hafa hrapað jafn oft til jarðar og Íslendingar.  Og hver er skýringin?  Jú, vandræðin hér á landi eru oftast útlendingum að kenna, hrunið var allt EES regluverki að kenna og svo voru Bretar og Hollendingar svo óforskammaðir að vilja fá peninga sinna skattborgara til baka.  Aðeins Íslendingar með rétt flokksskírteini geta stjórnað Íslandi, eða hvað?

Spurningin sem kjósendur þurfa að svara er hvort hagstjórn til næstu 50 ára sé best borgið í gamla íslenska kerfinu eða hvort við eigum að ganga inn í ESB og notfæra okkur erlenda reynslu og aðstoð?

Í þessu sambandi er hollt að velta fyrir sér hvort Ísland hefði farið jafn illa út úr þessu hruni og raun er orðin ef erlendir aðilar hefðu stjórnað bönkunum og íslenskum fyrirtækjum?  Vart er hægt að hugsa sér jafn hörmulegar ákvarðanatökur og við höfum séð hér á landi á síðustu misserum og árum.  Það er því eðlilegt að búast við að Ísland hafni ESB aðild, sjaldan er ein báran stök.

 


mbl.is Verðbólgan 8,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um fjármál OR og óútskýrða samninga

Anna Skúladóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá OR skrifar í Fréttablaðið í dag og á vef OR um fjármálastöðu fyrirtækisins.   Ekki er ég sammála henni að fjárhagsleg staða OR sé sterk en annars er það sem hún skrifar gott og blessað svo langt sem það nær og svo framalega sem hennar forsendur standast.  En það er það sem hún skrifar ekki um sem er athyglisverðast, nefnilega stærsti útgjaldaliður OR sem slagar hátt í rekstartekjur fyrirtækisins. 

Í 6 mánaða uppgjöri til 30.06.09 er eftirfarandi liður undir kafla 6. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld:

Gengismunur og framvirkir gjaldmiðlasamningar ..............  (10.154.320.000) kr.

Hvaða framvirka gjaldmiðlasamninga hefur OR gert og á hvaða forsendum? Voru þeir gerðir til að verja OR gegn falli krónunnar til að viðhalda jöfnuði á milli tekna í krónum og skulda í erlendri mynt?  Það hefði verið rökrétt en þá er spurningin hvers vegna er þessi liður negatífur en ekki pósitífur?

Hvers vegna eru engar skýringar á þessum stærsta útgjaldalið í rekstraruppgjöri OR og hvers vegna vill enginn tala um þetta, hvorki blaðamenn, stjórnmálamenn eða menn innan OR? 

PS.

Fyrir lesendur sem ekki eru vel inni í framvirkum gjaldmiðlasamningum læt ég fylgja útskýringu fengna á vef Arion:

Í stuttu máli má segja að framvirkur gjaldmiðlasamningur sé samningur á milli tveggja aðila, þar sem annar aðilinn skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðna upphæð af gjaldeyri á ákveðnu gengi á umsömdum tíma í framtíðinni. Lengd framvirkra samninga er yfirleitt innan við ár.

Yfirleitt gera aðilar framvirka samninga til þess að verja einhverja stöðu í gjaldeyri, en þó þekkist það að gerðir séu samningar til þess eins að reyna að græða á gengisbreytingum. Þegar slíkt er gert, getur tap eða hagnaður af stöðunni verið mikill.

 


OR í björtu báli

Ég minntist á hina hræðilegu fjármálastöðu OR í Silfri Egils á sunnudaginn og margir hafa beðið mig að setja þær tölur sem ég nefndi þar á prent.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs minnkaði eigið fé OR frá 48.3 ma kr í 37.3 ma kr eða um 11 ma.  Þetta er hærri upphæð en sem nemur öllum niðurskurði í heilbrigðismálum hér á þessu ári.  Þetta er rúmlega 20% af öllum tilkynntum skattahækkunum á næsta ári. 

Þetta þýðir að fjölskylda sem borgaði 15,000 kr á mánuði fyrstu sex mánuði ársins í heitt vatn og rafmagn sá 3 sinnu hærri upphæð eða um 50,000 kr. á mánuði brenna upp af sínum "eignarhluta" í OR.  Þetta er jú opinbert fyrirtæki.

Og hvernig bregst OR þessu.  Jú, fyrirtækið kallar á meira brennsluefni frá lífeyrissjóðunum.  Allt á að lækna á þann eina hátt sem Íslendingar kunna, kalla á meira lánsfé.

Fjórflokkarnir virðast hafa komið sér saman um að þegja um þetta og ekki verður séð að þessi eignarbruni sé ofarlega í huga okkar Alþingismanna. 

Hvaða þekkingu og vit hafa okkar stjórnmálamenn á fjármálum orkufyrirtækja?  Er þögn skynsamleg úrlausn? 


Hvaða einstaklingar stjórna Arion?

Það er ekki Arion sem tekur ákvarðanir heldur einstaklingar innan bankans eða utan.  Hvaða einstaklingar eru þetta?  Er þetta einn maður eða fleiri?  Hvernig komast þessir menn að niðurstöðu?  Hverra hagsmuna er verið að gæta?  Hvers vegna hefur Alþingi ekki sett þessum bönkum nýjar vinnureglur og hvers vegna var ekki farið eftir ráðleggingum útlendinga um meðhöndlun á skuldsettum fyrirtækjum?

Hvernig væri að menn legðu fram endurskoðaða ársreikninga fyrir Haga og skriflega yfirlýsingu erlendra fjárfesta um að þeir séu tilbúnir að leggja fram fjármagn.  Hvaða arðskröfu gera þessir útlendingar og hvaða tryggingar fara þeir fram á svo peningar þeirra gufi ekki upp hér?  Eru þetta raunverulegir peningar eða aflandskrónur sem leggja á í Haga?


mbl.is Segja ákvörðun Arion ráðgátu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk famtíðarsýn enn á huldu

Ísland hefur enn ekki markað sér skýra framtíðarsýn.  Eitt virðast þó flestir vera sammála um og það er að halda áfram að rífast á meðan endurreisnarstarfið er rekið í þoku.  Leiðtogaleysið er okkar mesta böl um þessar mundir.  Við eigum leiðir út úr þessari kreppu, engin þeirra er nein töfralaus og allar gera miklar kröfur til okkar stjórnmálamanna.  Hins vegar virðist sú leið að draga lappirnar og bera kápuna á báðum öxlum henta mörgum best.

Í sínu einfaldasta formi stöndum við frammi fyrir tveimur möguleikum. Einn er að ganga inn í ESB, hinn er að standa fyrir utan.  Sitt sýnist hverjum um þessar leiðir en eitt er víst við verðum að velja hvað við ætlum að gera og margt hangir á þessari spýtu.

Ef við ætlum inn í ESB er Icesave samningurinn okkar aðgangseyrir.  ESB aðild mun auðvelda okkur aðgang að lánamörkuðum og með stuðningi Evrópska Seðlabankans eru meiri líkur á að krónan muni geta orðið eitthvað annað en matadorpeningar.  Þar með aukast líkurnar á að við getum aukið okkar útflutningstekjur og getum staðið við okkar stóru skuldbindingar.

Hins vegar ef við ákveðum að hafna ESB aðild er erfitt að sjá að skynsamlegt sé að samþykkja Icesave.  Það eykur aðeins á skuldabaggann án þess að gefa okkur nýjar leiðir til að nálgast erlenda fjármálamarkaði og koma krónunni í skjól.  Þessi leið mun líklega þýða að við verðum að endurskoða AGS samkomulagið þar sem ekki er líklegt að hin Norðurlöndin séu tilbúin að lána okkur fyrri upphæðir ef við höfnum Icesave.  Það verður því erfiðara að auka okkar útflutningstekjur en með ESB inngöngu og við verðum líklega að ganga til nauðasamninga við okkar lánadrottna ef við viljum ekki stöðnun og landflótta.  Þessi leið er því háð miklu meiri óvissu en inngana í ESB og margt er á huldu hvað gerist ef við veljum að hafna ESB.

Það er hins vegar ábyrgðarleysi af stjórnmálamönnum að útskýra þessa tvær leiðir ekki betur fyrir almenning en gert hefur verið.

Að vaða í þoku og afneitun er engin framtíðarsýn.

 

 

 

 


mbl.is Gæti sparað 185 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband