LHS: Hagræðing sem á eftir að kosta mannslíf!

Enn er legurýmum fækkað á Landspítalanum og nú á hjartadeild.  Áður hefur rýmum verið fækkað á Landakoti og Grensásdeild.  Þetta virðist eina ráðið sem stjórnendur spítalans hafa. 

Forgangsröðunin virðist skýr, stjórnendur fyrst, svo starfsfólk og sjúklingar reka lestina.

Var ekki hægt að segja upp stjórnendum og lækka launin?  Launakostnaður er langstærsti hluti kostnaðar spítalans svo ef sjúklingar þurfa að bera mestar byrgðar í þessari hagræðingu, má búast við að legurýmum eigi enn eftir að fækka 2010 og 2011. 

Það er greinilegt að það eru ekki lengur læknar sem ákveða hvort sjúklingar þurfa að liggja inni á spítala, það eru stjórnendur og stjórnmálamenn.  Það er líka ljóst að sá niðurskurður og hagræðing sem hafa átt sér stað á bráðasviði og hjartadeild spítalans eiga eftir að kosta mannslíf.  Hver fylgist með gæðum okkar heilbrigðisþjónustu? 

Hvers vegna er enginn umboðsmaður sjúklinga á Íslandi?

Hvers vegna á að byggja nýjan spítala þegar við stefnum í að reka megnið af okkar heilbrigðisþjónustu á dagdeildum einum saman?

 


mbl.is Legurúmum fækkað á Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland stjórnlaust

Ákveðin upplausn og uppgjöf er að færast yfir stjórnvöld og Alþingi sem ekki veit á gott.  Greinilegt er að okkar stjórnmálamenn, sem ekkert gerðu fyrir hrun nema að horfa á þegar brennuvargar kveiktu í, eru vanmegnugir að eiga við þau risavandamál sem steðja að þjóðinni.  Að búa til erlendan óvin þegar vandamálin eru öll heimatilbúin er klassísk aðferð lýðskrumara og fúskara.

Við höfum einfaldlega ekki leiðtoga sem geta leyst vandamálin á faglegan og fumlausan hátt.

Endalausar deilur og ósætti yfir atriðum sem við getum ekki breytt eða ráðið við skyggja á þær nauðsynlegu praktísku lausnir sem okkur standa til boða og þær eru ekki margar.

Meirihluti þjóðarinnar og þar með stjórnmálamennirnir eru í afneitum um ástandið.  Það er búinn til einhver gerviveruleiki þar sem allt er mögulegt ef við bara högum okkur eins og við höfum alltaf gert og treystum á það kerfi sem brást í hruninu.  Við förum í endalausa hringi og afgreiðum allar viðvaranir sem hræðsluáróður og væl.  Við eru í matadorspili þar sem við höfum tapað öllu en heimtum að spila áfram á þeirri forsendu að ef við förum bara nógu oft yfir byrjendareitinn þá muni þetta reddast.

Spilið er búið og tapað.  Því fyrr sem við viðurkennum það, því betra.  Endalausar ræður á Alþingi breyta hér engu.


mbl.is Hótanir ekki frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími ákvarðanna runninn upp - taka 2

 Hér er færsla sem ég ritaði 16. júlí.  Hún á jafnt við þá og nú!

--------------

Nú verður hinum stóru málum ekki frestað lengur.  Alþingi verður að fara að gera upp sinn hug varðandi ESB og Icesave.  Einn helsti vandinn við þessi mál er sú mikla upplýsinga ósymmetría sem ríkir og getur skekkt mat manna á stöðunni.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað gerist ef við segjum "já" við ESB og Icesave.   Það er hins vegar miklu óljósara hvað tekur við ef við segjum "nei".  Það er þessi munur sem er svo hættulegur og getur leitt til þess að margir vanmeti hinar neikvæðu hliðar við að hafna tillögunum og ofmeti hinar neikvæðu hliðar á samþykki.

Á svona sund þurfum við öfluga leiðtoga sem geta sett hlutina fram á skýran og skiljanlegan hátt.  Því miður er nokkur brotlöm á því.
mbl.is Fundi frestað á sjötta tímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisábyrgð þýðingarlaus

Eftir að stjórnvöld í Dubai neituðu að standa við lánasamninga Dubai World segja bankamenn í The Times í dag að ríkisábyrgð sé þýðingarlaus eða eins og fyrirsögnin segir:

"Sovereign guarantee is now meaningless"

Þar er þess getið að í framtíðinni munu lánadrottnar fara fram á áþreifanleg ríkisveð í samningum við ríkisfyrirtæki og stofnanir.  Sú tíð að þegar orð og undirskrift ríkisstjórna um ríkisábyrgð var látin duga er liðin.  Í framtíðinni verða menn að búast við ákvæðum eins og birtast í okkar Icesave samningi.  Hann er um margt framtíðin og því þýðir lítið að reyna fá ákvæðum þar breytt.  

Það ætti að vera alveg ljóst að eftir Dubai áfallið fáum við ekki betri samning í náinni framtíð.  Nú er annað hvort er að hrökkva eða stökkva.

Ps.  Þessi nýju viðhorf munu hafa slæmar afleiðingar fyrir fjármögnun og endurfjármögnun orkufyrirtækja hér á landi, sérstaklega fyrir OR sem er komin í ruslaflokk.

 


mbl.is Yndislega ótrúlega ómerkilegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt heilbrigðiskerfi

Við stöndum frammi fyrir mikilli vá í okkar heilbrigðisþjónustu.  Atgervisflótti og úreld hugmyndafræði á eftir að valda miklum skaða og skerða þjónustu við sjúklinga.

Fáar þjóðir eiga jafn marga færa lækna og Íslendingar miðað við höfðatölu og þegar kemur að því að "framleiða" heilbrigðisfólk á heimsmælikvarða eru við í fremstu röð.  Hins vegar þegar kemur að því að bjóða þessu frábæra fólki starfsaðstöðu og tækifæri erum við bundin niður á klafa úreltrar hugmyndarfræði og pólitískrar hagsmunagæslu sem hefur ekkert með heilbrigðisþjónustu að gera.

Morgunblaðið tekur þetta mál loksins upp og viðtal við Jón Atla lækni segir allt sem segja þarf:

„Stundum hefur verið sagt að við höfum besta heilbrigðiskerfi í heimi. En það er ekki þannig,“ segir Jón Atli. Honum hafi lengi virst að til að fá áhugaverða vinnu hér á landi verði læknar að njóta persónulegrar velvildar yfirmanna.

Það sem Atli segir hér hefur hingað til verið algjört "tabú" og ef einhver heilbrigðisstarfsmaður hefur vogað sér að gagnrýna heilbrigðisyfirvöld hefur sá sami fengið skertan starfsframa.  Við höfum að mörgu leyti rekið eins konar Austur-Þýskalands starfsmannahald á íslenskum spítölum undanfarna áratugi.

Nú er sú gamla hugmyndafræði að ekki megi reka einkaspítala við hlið ríkisrekinna spítala að koma okkur í koll.  Við verðum að fara að spyrja okkur hvers vegna erum við eina Evrópulandið sem ekki rekur tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustu.  

Auðvita mismunar tvöfalt kerfi sjúklingum.  En sá munur felst aðallega í þjónustuhraða en ekki klínískum gæðum ef rétt er staðið að málum.  Er ekki skynsamlegra að reyna með öllum ráðum að standa vörð um klínísku gæðin en sætta sig við mismundi þjónustuhraða en að fórna öllu á altari útópískra hugmyndafræði þar sem allir verða að fá sömu þjónustuna á sama hraða jafnvel þó það þýði að þjónustan rýrni?

Hér er um langtímavandamál að ræða.  Ef við nú missum okkar bestu lækna úr landi sem setja sjúklinga framar pólitísku framapoti er það eitt vandamál.  Hitt er hvernig ætlum við að laða unga lækna sem nú stunda sérfræðinám erlendis til Íslands að námi loknu? 

Mjög fáir læknar fara í nám til að stunda pólitík þegar heim kemur.  Og í raun er pólitíkin hættulegri en lágu launin. 

Mannauður á heimsmælikvarða er eins og gjaldeyrir, lekur auðveldlega til þeirra landa þar sem tækifærin eru best.  2010 verðu líklega "annus horribilis" hvað varðar spekileka frá Íslandi.  Mjög fáir stjórnmálamenn munu skilja hvað hér er á ferðinni enda er eftirspurn eftir íslenskum stjórnmálamönnum takmörkuð erlendis.


mbl.is Atgervisflótti lækna er rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir eigendur hreinsa til í Arion banka

Nú þegar fyrir liggur að Arion banki kemst í erlenda eign að mestu leyti má búast við að nýir eigendur hreinsi til og geri bankann samkeppnishæfari á íslenskum markaði með því að setja viðskiptaleg sjónarmið ofar pólitísku baktjaldamakki.

Fyrsta skref þeirra ætti að vera að skipta út pólitísku bankaráði og ráða þar inn hæfa og ópólitíska stjórnarmenn.  Þá er nauðsynlegt að ráða nýjan bankastjóra sem getur loftað út og innleitt ferskan stjórnunarstíl.  Æskilegt er að þessi nýi bankastjóri sé útlendingur og hafi engin fortíðartengsl við íslenskt bankasamfélag.


Icelandair í óskasamkeppnisstöðu

Rekstur Icelandair virðist í góðum málum áður en til fjármagnsliða kemur enda er félagið í góðri samkeppnisstöðu.  Flugmiðar eru verðlagðir í evrum en rekstrarkostnaður er að mestu í krónum og dollurum.  Launakostnaður hefur hrapað mældur í evrum og eldsneytisverð er lægra nú en í fyrra.

Allt þetta hjálpar en dugar skammt þegar efnahagsreikningurinn er illa laskaður af skuldum.

Hins vegar er ekki ljóst að þessi verðstrategía haldi.  Icelandair er ekki lengur samkeppnishæft á flugleiðum sem bandaríks og bresk flugfélög eru sterk.  T.d. er Icelandair ekki lengur í hópi ódýrustu flugfélaga á leiðinni London til New York eins og fyrr á árum.  Nú er Iceandair um 33% dýrara á þessari flugleið en þeir ódýrustu.

Því miður fá Íslendingar ekki að njóta betri samkeppnisstöðu félagsins í hagstæðari flugfargjöldum.  Allt gengur út á að halda uppi eins háu verði til að geta borgað skuldir.  Nokkuð sem landsmenn verða að sætta sig við í farmtíðinni.

Fólk þarf ekki aðeins að borga sínar eigin skuldir og skuldir ríkisins í formi hærri skatta, skuldir fyrirtækja fara líka á bakið á sliguðum landsmönnum í formi hækkandi verðs á vörum og þjónustu.

 


mbl.is Afkoma Icelandair Group versnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fúsk og seinagangur

Íslensk stjórnvöld telja að vel og hratt sé unnið í endurskipulagningu á skuldugum fyrirtækjum.  Erlendir ráðgjafar eru ekki eins hrifnir af verklaginu og lesa má á milli línanna að þeir telja hér um fúsk og seinagang að ræða.  Þegar ráð erlendar sérfræðinga passa ekki við pólitíska hagsmuni ráðherra eru þeir bara sendir heim eins og örlög Mats Jósefssonar munu líklega verða um næstu áramót.

Hvers vegna í ósköpunum skuldug fyrirtæki voru ekki strax sett í fjársýslufélag þar sem erlendir sérfræðingar hefðu séð til að allir fengu gegnsæa og sömu meðferð er aðeins hægt að útskýra á einn hátt: pólitísk hagsmunagæsla.  Hér er verið að hugsa um hagsmuni fárra útvaldara á kostnað heildarinnar - allt í boði félagslegrar stjórnar sem segir að við eigum að fara að haga okkur eins og best þekkist á hinum Norðurlöndunum en neitar að fara eftir ráðleggingum norrænna sérfræðinga!

 


mbl.is Engin heildarstefna um fyrirtæki í skuldavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sápuóperan Ísland

Ekki batnar það.  Nú segir Steingrímur að það verði að klára Icesave af ótilgreindum ástæðum sem ekki sé þorandi að tilgreina á hinu háa Alþingi.  Hvað er verið að fela?  Hvað má þjóðin ekki vita?

Hér er Steingrímur og ríkisstjórnin greinilega komin í þrot og allt í hnút.  

Ef Alþingi samþykkir Icesave aðeins vegna þess að framkvæmdavaldið segir svo, missir þingið allt traust og trúverðugleika og spurningin vaknar hvers vegna þurfum við alla þessa Alþingismenn?

Ef Alþingi fellir Icesave skeður eitthvað hræðilegt sem Steingrímur einn veit.

Þessi staða er algjörlega óásættanleg í lýðræðisríki. 

 

 


mbl.is Verður að klára Icesave af ótilgreindum ástæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrípaleikur Jó-Hannesar!

Ekki er öll vitleysan eins.  Við lestur dagblaða hér á landi mætti halda að hér ríkti engin kreppa svo uppteknir eru fjölmiðlar af deilum og upphrópunum Jóhannesar og Hannesar.  Þeir eru jú opinber andlit sinna gömlu fylkinga sem nú heygja baráttu um völd og áhrif á litla Íslandi eftir að hrunið tímabundið riðlaði valdahlutföllum.

Hvorugur aðilinn nálgast kjarna málsins, allt er þetta yfirborðskennt og persónulegt, gert til að skapa hámarks óreiðu og blaðaumfjöllun. Það sorglega við þetta er að gamla kerfið fyrir hrun er óskaddað, það kyndir undir þessar deilur af þeirri einföldu ástæðu að stjórnvöld fyrr og nú eru máttlaus í að ráðast að rót spillingar og klíkuskapar hér á landi.  Þar með skapast tómarúm sem gefur alls konar pólitískum hagsmunahópum lausan tauminn og eitrar alla þjóðfélagslega umræðu. 

Sú staðreynd að hin virðulega stofnun HÍ skuli nú vera dregin í gegnum þetta forarsvað er sárara en tárum tekur og sýnir og sannar hversu gjörsamlega berskjölduð þjóðin stendur gagnvart svona skemmdarverkastarfsemi. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband