Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Íslenskt apartheid

Þjóðin er á fleygiferð inn í heimatilbúið "apartheid" þar sem tveir hópar byggja landið sem fá mismunandi fyrirgreiðslu.

Fyrstur er forréttindahópurinn sem fékk lán, oft án veða, í gegnum eignarhaldsfélög.  Þessi hópur ber enga persónulega ábyrgð á sínum lánum og er með allt sitt á hreinu.  Bankar og pólitískar skilanefndir setja þennan hóp í forgang enda er pólitísk og lagalega staða þessa hóps gulltryggð.  "100% löglegt en 100% siðlaust" er mottó þessa hóps sem hneykslast og hótar lögsóknum ef hinn hópurinn svo mikið sem andar á þessa elítu.

Undirmálshópurinn í íslensku samfélagi er síðan sá hópur sem neyddist til að taka lán út á persónulegar ábyrgðir og þurfa að borga sínar skuldir.  Þessi hópur hefur ekki sömu lagalegu eða pólitísku stöðu og hinn hópurinn. 

Að fá að taka lán í gegnum eignarhaldsfélög án veða eru forréttindi og gríðarlega verðmæt skattfrjáls hlunnindi.  Staðið verður vörð um þessi hlunnindi sem ekki verða skattlögð, heldur verður skattur hækkaður á allan almenning til að vernda elítuna.

Er von að útlendingar og erlendar stofnanir hristi hausinn og haldi sér frá Íslandi!

 


mbl.is Vanskil aukast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfni eða huggulegheit í Seðlabankanum?

Þegar staða aðalhagfræðings Seðlabankans var auglýst skrifaði ég:

Nú þegar staða aðalhagfræðings Seðlabankans er auglýst er mikilvægt að í hana veljist einstaklingur sem hefur óháða og sjálfstæða hugsun og er ekki úr vina-, flokks- og/eða kunningjahópi nýs Seðlabankastjóra eða bankaráðs. 

Æskilegt er að þessi einstaklingur hafi ekki starfað í Seðlabankanum áður.  Hér þarf einstakling sem getur komið inn með nýjar hugmyndir, ferska hugsun og aðra innsýn á hlutina en "gamla gengið"

Hvað hagfræðihugmyndir og kenningar varðar er einnig æskilegt að nýr hagfræðingur sé ekki á sömu bylgjulengd og nýr Seðlabankastjóri.  Mikilvægt er að skapa umhverfi þar sem gagnrýnin umræða er leyfð og studd af æðstu stjórn bankans.  Þetta gerir auðvita meiri kröfur til stjórnunarhæfileika Seðlabankastjóra en þannig á það að vera.

Að hæfnisráð skuli hafa verið einróma í sínu álit á umsækjendum er áhyggjuefni og bendir til að heilbrigð gagnrýnin hugsun eigi ekki upp á pallborðið í Seðlabankanum nú frekar en fyrr. Hins vegar má búast við að andrúmsloftið á kaffistofu Seðlabankans verði þægilegt og huggulegt!


mbl.is Þórarinn ráðinn aðalhagfræðingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lekaviðgerðir Seðlabankastjóra - en hvar lekur?

Hinn nýi Seðlabankastjóri er farinn í stríð, hann segir: "Það er því hættuspil að brjóta reglurnar.“

Hvað á Seðlabankastjóri við hér? Hver er að brjóta reglurnar? Eru það stærstu fyrirtæki landsins? Eða er þetta dulbúin pilla á eigið bankaráð, sem virðist ekki alveg vera á sömu blaðsíðu og Seðlabankastjóri. Og hvaða hættuspil er hann að tala um hér?

Eitt má ekki gleymast og það er að fyrirtæki sem starfa mest í útflutningi á þjónustu hafa mörg hvert val.  Þau geta oft á einfaldan hátt flutt sig úr landi þar sem þeim er tekið með opnum örmum en ekki hótunum.

Þegar sett er fyrir einn leka byrjar yfirleitt að leka annars staðar - gjaldeyrisleki getur breyst í fyrirtækjaleka úr landi.

 


mbl.is Eftirlit með gjaldeyri hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæfar skilanefndir kynda undir skattahækkunum og niðurskurði.

Það er æ betur að koma i ljós hversu misráðið það var að skipa innlenda pólitíska aðila í skilanefndir bankanna en ekki erlenda fagaðila.  Það er enn óskiljanlegra hvers vegna ný ríkisstjórn VG og S hefur ekki haft getu eða þor til að tilnefna nýa og óháða menn í stað þeirra sem ríkisstjórn Geirs Haarde skipaði.

Þessi mistök við gjaldþrot Landsbankans í Lúxemborg eiga eftir að kosta skattgreiðendur mikið og geta gert útslagið um hvort eignir Landsbankans dugi upp í Icesave.  700 m evrur er enginn smápeningur og í raun miklu mikilvægari en þeir viðaukar sem Alþingi afgreiddi nýlega. 

Nei, íslenska flokksskírteinið er enginn trygging fyrir gæðum eða þekkingu.  Hvað er þjóðin tilbúin að borga mikla skatta og þola mikinn niðurskurð til að halda pólitískri elítu í störfum sem hún veldur ekki?


mbl.is Vill fund um Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland: falleg náttúra en vafasamir íbúar!

Iceland crisis "like Madoff" er fyrirsögn Sunday Times í dag og er vægast sagt vafasamur gæðastimpill fyrir Ísland. 

Ætli brennt barn forðist ekki eldinn.  Það verða ekki margir bankamenn eða fjárfestar sem lesa þetta og álikta sem svo að fýsilegt sé nú að fara með fjármagn til Íslands.  Besta að bíða og sjá hvernig þessu lyktar.

Gríðarlega mikilvægt er að reyna að ljúka þessum rannsóknarmálum sem fyrst og setja eins mikinn kraft í þetta og hægt er.  Því lengur sem þetta tekur því meiri hætta er á að landið verði að eilífu brennimerkt sem vafasamur staður fyrir fjármagn, eins konar Nígería norðursins, falleg náttúra en vafasamir íbúar!


mbl.is Bankahrun líkist máli Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver gætir hagsmuna minnihlutans hjá Exista?

Hver reiknaði og ákvað verð upp á 9.79 kr. á hlut Exista í Bakkavör?  Hvaða aðilar voru ráðgjafar Bakkavarar og Exista? Hver og hvernig var þetta fjármagnað?

Þegar stórar eignir eru seldar út úr almenningshlutafélögum er venjan að hlutlausir sérfræðingar ráðleggi um söluna?  Hvaða aðilar komu að þessu ferli og hvaða tengsl höfðu þeir við stærstu hluthafa og lánadrottna? Var reynt að fá aðrar kaupendur en ELL 182?

Af hverju sitja engir óháðir stjórnarmenn í almenningshlutafélögum á Íslandi sem hafa það eina hlutverk að gæta hagsmuna almennings og minnihlutans en ekki stærstu hluthafa?

Íslenskir stjórnarhættir eru einhverjir þeir verstu í Evrópu og eru ekki til þess fallnir að auka eða viðhalda trausti á íslensk fyrirtæki.


mbl.is Exista hefur selt Bakkavör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fékk Magnús þóknun fyrir viðvikið?

Það er ekki eðlilegt að bankaráðsmaður Seðlabankans sé að nota opinbera stöðu sína til koma á viðskiptasamböndum á milli prívatfyrirtækja.  Það er í verkahring sölumanna þess fyrirtækis sem er að reyna að snapa upp "business".

Með því að koma nálægt svona viðskiptum þó lögleg séu, setur Magnús bæði sjálfan sig og Seðlabankann í óverjandi stöðu.  Það er alls ekki á verksviði Seðlabankans að vera "notaður" af prívatfyrirtækjum til að selja þeirra þjónustu eða vörur.

Hvers vegna tók Magnús það í mál að "vinna" fyrir Snyder?  Fær hann þóknun fyrir þetta viðvik?  Hvað með aðra miðlara, eiga þeir ekki að sitja við sama borð og fá aðgang að starfsmönnum Seðlabankans til að  markaðssetja sína þjónustu?

Hverra hagsmuna er Magnús að gæta sem bankaráðsmaður?  

 

 

 


mbl.is Tilgangurinn ekki að höndla með krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álitshnekkir fyrir Seðlabankann

Ég hef oft sagt að pólitísk skipuð bankaráð séu stórvarasöm.  Þau eru hluti af vandamálinu.

Hvað sem hæft er í ásökunum Morgunblaðsins er þetta alvarlegt mál sem verður að rannsaka af óháðum og ópólitískum aðilum.  

Það er ekki á vegum Magnúsar að fara í meiðyrðamál við Morgunblaðið á þessu stigi.  Það sýnir fádæma dómgreindarleysi og gerir illt verra.

Þessi sorgarsaga undirstrikar hversu langt við eigum í land að fylgja almennum og viðurkenndum siðareglum sem gilda hjá okkar nágrönnum þegar kemur að hegðun opinberra starfsmanna.

Það er erfitt að hugsa sér jafn laskað stofnun og Seðlabanka Íslands á byggðu bóli .  Saga hans síðustu árin er hreint ótrúleg. 


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegurinn þegar með annan fótinn í ESB

Þessi frétt að íslenskur sjávarútvegur standi sem veð gegn 180 ma láni Seðlabanka Evrópu til Glitnis styrkir aldeilis hendi ESB í aðildarviðræðum við Ísland.

Það er búið að veðsetja allt hér upp í topp, útlendingar eiga kröfur á allt sem íslenskt er, ef vel er að gáð. 

AGS lánið er lokatilraun til að reyna að halda þessum yfirveðsettu eignum í íslensku eignarhaldi.  Það lán er í raun tryggingarvíxill til að leyfa okkur að endurfjármagna þessa vitleysu annars gengu útlendingar að sínum veðum.

En er svo slæmt að láta útlendinga taka þessar eignir?  Þar með þurfum við ekki AGS lánið, eignir lenda í nýju og fjárhagslega sterku eignarhaldi með hreina efnahagsreikninga.  Þar með lækkar kostnaður íslenskar fyrirtækja sem gerir þau samkeppnishæfari.  Atvinnuleysi myndi minnka, verð á vöru og þjónustu lækka, gengið styrkjast og vextirnir lækka.  Þetta eru góðu fréttirnar, hinar slæmu eru að aðalatvinnugreinar landsins og auðæfi lenda í höndum útlendinga!

Sá á kvölina sem á völina! 

 


mbl.is Skuldar ECB 180 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um ríkisfjármálin

Þegar rýnt er í tillögur Íra er alveg ljóst að það er feigðarplan að ætla að keyra ríkishallann niður í 0% 2012.  Heimilin í landinu, fyrirtækin og krónan verða lögð í rúst með svo áætlun.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða samninginn við AGS sem fyrst, og fara fram á að við fylgjum fordæmi Íra og fáum að lækka hallann niður í 3% 2013 en ekki 0% 2012.  Þetta er hið mikla mál sem ætti að vera eitt aðalkosningamálið í dag.

Þetta er úr bloggfærslu minni frá 12. apríl.

 Mánuði seinna 14. maí geri ég þessi orð fjármálaráðherra að umræðuefni:

"Grundvallaratriði er að ná jafnvægi í ríkisrekstri, enda eru fyrir því ekki aðeins hagfræðileg rök heldur einnig pólitísk og siðferðileg."  Steingrímur J.

Gaman væri að heyra þau hagfræðilegu rök sem kalla á skattahækkanir og niðurskurð ríkisframkvæmda til að örva athafnalíf í dýpstu kreppu í yfir 60 ár.  Hin siðferðislegu rök fyrir niðurskurði á velferðakerfinu eru einnig vafasöm.  Hvað varðar hin pólitísku rök þá væri hollt fyrir kjósendur að taka þau með miklum fyrirvara. 

Því miður hefur þetta mikla mál um að ná jafnavægi í ríkisfjármálum á 3 árum ekki fengið næga umfjöllun.  Þetta mál mun hafa miklu meiri áhrif á heimilin og atvinnulífið næstu 5 árin en bæði Icesave eða EBS umsókn.

Það er rétt að við verðum að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en spurningin er hvenær.  Því var innlegg prófessors Stiglitz gott hér um daginn þar sem hann réttilega bendir á að of hröð aðlögun geti gert kreppuna enn erfiðari.  Vonandi að umræða fara nú af stað um þessi mál.

Eins og ég sagði í apríl eigum við að nota aðgerðir Íra sem fyrirmynd, og fara fram á endurskoðun þar sem við fáum að draga úr hallanum á 5 árum en ekki 3 árum, þe. á hverju ári drögum við úr hallanum sem nemur 2.5% en ekki 4%.  Það munar um minna.  

Vonandi er að þessar viðræður við AGS hafi þegar byrjað á bak við tjöldin?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband