Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Japanir verða að læra af Norðmönnum

Japanskir fjárfestar verða að læra af Norðmönnum að ekkert þýðir að reyna að fjárfesta hér á landi nema með sterk pólitísk tengsl.

Kjölfestufjárfestar innan norska verkamannaflokksins treysta á Jens Stoltenberg sem kemur sínum manni að hér sem Seðlabankastjóra sem síðan, undir því yfirskini að nú þurfi að laða erlent fjármagn til landsins, heldur prívat fundi með þeim fjárfestum sem hafa sama vegabréf og hann og reynir að ráðstafa bestu bitunum til Noregs?

Auðvita þora íslenskir blaðamenn og pólitíkusar ekki að spyrja Svein Harald fyrrverandi Seðlabankastjóra hvort hann fái þóknun, eða "finder´s fee" fyrir að mæla með þessum fjárfestingum hér á landi. Er hann að maka krókinn persónulega, með sambönd og upplýsingar sem hann aflaði sér hér sem Seðlabankastjóri?  Er óviðeigandi að spyrja svona spurninga af því að hann er Norðmaður?

Nú verður gaman að sjá hvort Japanir fá að bjóða í þá bita sem Norðmenn telja sína!

 

 


mbl.is Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvað fór andvirði af sölu Símans?

Heilbrigðisráðherra sendi eftirfarandi yfirlýsingu frá sér í september 2005:

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 18 milljörðum króna til að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús. Heilbrigðismálaráðherra segir ákvörðunina þýða tímamót í heilbrigðisþjónustu við landsmenn alla. Tilkynnt var um ákvörðun ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í dag en söluandvirði Símans stendur undir þessari miklu fjárfestingu. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að söluandvirði símans verði notað til að bæta þjónustuna í heilbrigðiskerfi landsmanna og því er þessi ákvörðun tekin. 18 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landsspítalalóðinni á árunum 2008 - 2012.

Í dag birtist eftirfarandi frétt á Vísi:

Meðal þeirra hugmynda sem uppi eru um aðkomu lífeyrissjóðanna að endurreisn atvinnulífsins er að stofnað verði fasteignafélag um byggingu háskólasjúkrahússins. Yrði félagið í eigu lífeyrissjóðanna og jafnvel fleiri fjárfesta. ... „Það sem hangir á spýtunni er að ekki er hægt að auka við skuldir ríkissjóðs umfram það sem nú er," segir Hrafn. „Þetta er leið til að komast hjá því en spurningin er hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðnum líst á þessar hugmyndir."

Hvað varð um þessar 18 ma sem fengust af sölu Símans og áttu að fara í nýtt sjúkrahús?

Miðað við opinberan hallarekstur upp á 180 ma 2009 gufaði þetta upp á rúmum fimm vikum?  Hvað halda menn að hægt sé að viðhalda svona hallarekstri lengi?  Og hver borgar?  


Að lifa á lánum

Í uppsveiflunni lifðum við á lánum einkaaðila og nú í kreppunni skrimtum við á lánum ríkisins.  Við kunnum ekki að lifa án lána, við erum eins og eiturlyfjaneytandi, okkar heróín eru lán.

AGS er að reyna að koma okkur inn á "Vog" en ekkert gengur, við látum öllum illum látum og neitum að viðurkenna fíkn okkar, þetta er allt öðrum að kenna og vitnum þar í alls konar sérfræðinga!

Að vísu er AGS ekki svo slæmur doktor, hann lofar okkur fullt af nýjum lánum en í þetta skipti þurfum við að sýna lyfseðil og eru margir ekki par hrifnir að þeirri niðurlægingu.

Baráttan við lánafíknina heldur áfram, en árangurinn er enn sáralítill. 


mbl.is Mikill halli á opinberum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinagangur og ofmat aðalvandamálið

Fátt stendur endurreisn efnahagslífsins meir fyrir þrifum hér en seinagangur í að afgreiða Icesave og ríkisfjármálin.  Heimilunum og fyrirtækjum landsins verður ekki hjálpað fyrr en þessi tvo mál eru í höfn.  Allt þarf að hafa sína röð og reglu, en þar stendur hnífurinn í kúnni.

Í vor skrifaði ég að ég ætti von á neyðarfjárlögum í fyrstu viku júní til að taka á ríkisfjármálunum eins og Írar gerðu í apríl.  En ekkert afgerandi hefur gerst, ríkisstjórnin virðist ekki geta tekið á þessum erfiða málaflokki. 

Í Icesave höfum við ofmetið okkar samningsstöðu og hengt von okkar á nokkrar blaðagreinar skrifaðar í erlendum blöðum.  Þó samningurinn sé afleitur verður að skoða það mál í víðara samhengi.

Allt hangir þetta saman: Icesave, ríkisfjármálin, verðbólga, háir vextir, lág króna, vandamál heimillanna og atvinnulífsins.  


mbl.is Upplausn hér verði Icesavelögum hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnar leikreglur verða að gilda fyrir alla, líka Norðmenn!

Viðskiptaráðherra verður að sjá svo um að jafnar leikreglur gildi fyrir alla erlenda fjárfesta sem vilja koma hingað.  Ef fjárfestar fá það á tilfinninguna að sumir hópar séu jafnari en aðrir vegna pólitískra tengsla eða þjóðernis vekur það upp tortryggni og vantraust og er nóg samt.

Nýleg frétt um samskipti fyrrverandi Seðlabankastjóra við hóp norskra fjárfesta með tengls við norska verkamannaflokkinn þegar hann sat í Seðlabanka Íslands er mjög óheppileg og vekur upp margar spurningar hvort réttum leikreglum sé fylgt eftir.

Fá allir sömu fyrirgreiðslu, aðgang og upplýsingar?  Hefur fleiri fjárfestum verið boðið hingað til fundar og á hvaða forsendum?  Var það að frumkvæði Seðlabankastjóra eða annarra?

Þó um brunaútsölu á eignum þjóðarinnar sé að ræða megum við samt ekki alveg gleyma okkur.  Við verðum að reyna að fá eins gott verð og hugsast getur.  Fyrsta tilboð frá næsta nágranna áður en búðin opnar er ekki alltaf það besta!

 


mbl.is Á von á að fleiri fylgi í kjölfarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norsk einkavinavæðing á Íslandi?

Þetta framtak fyrrverandi Seðlabankastjóra er gott svo langt sem það nær, en heldur hefði ég viljað sjá breiðan hóp fjárfesta frá öllum Norðurlöndunum.  Er þessi hópur Norðmanna vinir og kunningjar fyrrverandi Seðlabankastjóra? 

Þetta hljóma nú næstum eins og innherjaviðskipti.  Fyrrverandi Seðlabankastjóri hafði aðgang að upplýsingum um íslensk auðæfi og tækifæri sem aðrir hafa ekki.  Er eðlilegt að hann noti þessar upplýsingar til að hygla fjárfestum frá Noregi?  Er það eðlilegt að Sveinn Harald sé að bjóða erlendum fjárfestum frá sínu heimalandi hingað til lands á meðan hann er Seðlabankastjóri og blanda lögfræðingi sem er háttsettur innan norska Verkamannaflokksins í málið? Hér er Svein Harald að leika sama leik og Ólafur Ragnar á sínum tíma, en á miklu vafasamari grunni.

Nú verðum við að sjá svo um að eðlileg samkeppni og jafnar leikreglur gildi um fjárfestingar í okkar atvinnulífi.  Ef Norðmenn hafa áhuga á að fjárfesta hér eru miklar líkur á að sænskir fjárfestar hafi það líka, svo framarlega sem þeir hafi jafnan aðgang af upplýsingum á við norsku fjárfestana.


mbl.is Vilja setja fé í endurreisnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing ríkisframkvæmda

Þegar efnahagsreikningur ríkisins leyfir ekki meiri fjárfestingar með skuldsetningu verður að leita til einkaaðila.  Þessi aðferð hefur verið mikið notuð í Bretlandi og var í miklu uppáhaldi hjá Tony Blair.

Þar byggja einkaaðilar sjúkrahús, skrifstofur, skóla og fangelsi - allt byggingar sem eru í eigu einkaaðila en ríkið leigir.

Næsta skref er síðan að bjóða hluta af rekstrinum út, viðhald, fangaflutninga, ræstingu osfrv.

Þá er stutt í það að einkaaðilar byggi sjúkrahús sem þeir eiga og reka og ríkið kaupir þjónustu af.  Þannig innleiddi Tony Blair einkaspítalarekstur í hinu opinbera heilbrigðiskerfi Breta.  Margir sjúklingar hafa nú val um hvort þeir leggist inn á prívat spítala eða ríkisspítala og sjúkratrygging breska ríkisins (NHS) borgar.

Neyðin kennir naktri konu að spinna.  Samfylkingin með VG í eftirdragi mun fylgja breska Verkamannaflokknum eftir í þessum málum.  Innan 5 ára munum við sjá prívatspítala rísa hér í samvinnu við ríkið.  Öðruvísi verður ekki hægt að halda uppi nútímaheilbrigðisþjónustu með nýjustu tækni hér á landi.


mbl.is Í athugun að einkaaðilar reisi fangelsi sem ríkið leigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil er viska Lilju

Lilja segir að þegar bankar veiti lán á föstum vöxtum séu þeir að deila áhættunni á milli sín og lántakenda.  Þetta er nú ákveðin einföldun því bankar taka sjaldnast slíka áhættu alla vega ekki bankar sem eru vel reknir.

Í löndum með þróaðan fjármálamarkað  gefa bankar út skuldabréf á móti lánum svo innflæði og útflæði yfir hinn fasta lánstíma sé í jafnvægi.  Það er því ekki bankinn sem tekur þessa áhættu heldur eru það oft einstaklingar sitt hvorum megin sem eru að deila áhættunni, þ.e. sparifjáreigendur og lántakendur.  Áhætta bankans felst aðallega í því að fólk geti staðið í skilum og sú áhætta mælist í vaxtaálagi yfir hættulausa vexti sem því miður er orðið ansi erfitt að mæla á Íslandi.

Í því ástandi sem nú ríki er mikil hætta á að sparifjáreigendur verði undir í baráttunni um peningavöldin sem endar með eignartilfærslu frá þeim til þeirra sem skulda.  Hættan er að leið Lilju endi í verðbólgubáli eins og í kringum 1970 sem bæði þurrkaði út skuldir og sparnað.


mbl.is Flokksráð VG vill afnám verðtryggingar sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk menntamál í sjálfheldu

Tillögur OECD í menntamálum eru löngu tímabærar og snúast um ekki um pólitík heldur almenna skynsemi.  Nágrannalöndin hafa 3ja ára menntaskóla og útskrifa stúdenta 18 ára sem geta farið út á vinnumarkaðinn 21 árs með BA eða BS gráðu.  Á Íslandi tekur þetta 2-3 árum lengur að minnsta kosti.

Hvers vegna?  Erum við tregari en útlendingar? 

25 ára háskólamenntaður Íslendingur er ekki í góðir samkeppnisstöðu á alþjóðlegum vinnumarkaði.  Hann eða hún er með BA eða BS gráðu og 1. árs starfsreynslu á meðan hinn erlendi umsækjandi er með sömu menntun og 3. ára starfsreynslu.

Svo megum við ekki gleyma að flestir af okkar útrásarvíkingum hlutu menntu á Íslandi.  Varla er það mikill gæðastimpill fyrir íslenskar menntastofnanir og þeirra gildi, sérstaklega viðskiptafræðideildir háskólanna.  Ætli margir erlendir stúdentar sækist eftir MBA námi á Íslandi í framtíðinni?

Doktorsnám á Íslandi er rugl nema í íslensku og jarðfræði, masternám á að takmarka eins og hægt er og leggja alla áherslu að bæta BA og BS námið.  Sameina á alla "háskóla" hér á landi í tvær stofnanir sem eiga að hafa útibú út á landi. 

Gífurlegir möguleikar eru til hér á landi að hagræða og bæta íslenskt menntakerfi ef viljinn er fyrir hendi.

Það sem mun standa umbótum fyrir dyrum í okkar menntakerfi og heilbrigðiskerfi er pólitísk hugmyndafræði VG sem byggir á gildum sem við höfum ekki efni á lengur.  


mbl.is Ábendingar snúast um pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave stelur dýrmætum tíma

Icesave samningurinn er orðinn mikil tímaþjófur þegar við síst erum aflögufær um tíma.  Allt er í stoppi þangað til þessi samningur er í höfn og eitthvað hafa íslensk stjórnvöld verið ofurbjartsýn á að Bretar og Hollendingar gæfu jákvætt svar fyrir helgi.  Nú er talað um að taka upp þráðinn í næstu viku til að ná fram sameiginlegum skilningi.  Svona orðalag vekur ekki upp von um skjóta afgreiðslu.

Á meðan bíða heimilin, atvinnuvegirnir og ríkisfjármálin en þetta eru mál málanna í dag.  Icesave kemur ekki til með að hafa bein áhrif hér á landi fyrr en eftir 7 ár.  Hvað getur stjórnin þraukað lengi með allt þjóðfélagið í biðstöðu?  Bretar og Hollendingar hafa nógan tíma en höfum við það?


mbl.is Bréf til Hollands og Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband