Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ríkisstjórnin að missa tökin

Nýjasta útspil forsætisráðherra að veifa skýrslum Seðlabankans og Viðskiptaráðuneytisins um hætturnar sem felast í óleystu Icesave mun varla breyta miklu í þeim skurðgrafahugsunarhætti sem hefur grafið um sig í þjóðfélaginu um þetta Icesave mál. Bæði Seðlabankinn og ráðuneytin eru rúin trausti.

Þetta verður afgreitt sem "úlfur, úlfur" af andstæðingum stjórnarinnar.  Allt er afgreitt sem hræðsluáróður, sem vekur upp spurningar um hversu mikið þarf ástandið að versna áður en stjórnarandstaðan fer að hlusta á hagfræðirök og koma með raunhæfa efnahagstillögur.  

Greinilegt er að 23. október er örlagadagur fyrir Íslendinga.  Ef ekkert semst munu útlendingar draga þá ályktun að hér ríki stjórnarkreppa og að þjóðin sé klofin og geti ekki komið sér saman um eitt eða neitt.  Við frestum vandamálum og rífumst en leysum engin vandamál sjálf.  Við viljum helsta að útlendingar vinni okkar skítverk og þrífi upp eftir okkur.

Margir halda að best sé bara að láta reyna á þetta Icesave fyrir dómsólum og að Bretar og Hollendingar munu tapa því máli fyrir íslenskum dómstóli.  Auðvita munu útlendingar tapa pólitísku máli fyrir íslenskum dómstól, það er eins öruggt og að sólin rísi upp í austri.  En jafngildir það sigri fyrir Íslendinga?  Hver er skilgreining á sigri hér?  Er nóg að sigra orrustuna en tapa stríðinu?

Á hvaða leið eru við?  Er Icesave upphaf og endir alls?  Hvers konar þjóðfélag eru við að byggja upp hér.  Hver eru gildin og stefnan?  Vísa stjórnmálaflokkarnir vegin?

Samfylkingin hefur stefnu sem byggir á EB aðild en vantar leiðtoga

VG eru klofnir en hafa sterka leiðtoga, kannski of marga

Sjálfstæðisflokkurinn virðist hvorki hafa stefnu né sterkan leiðtoga

Framsókn byggir á lýðskrumi og skæruhernaði

Hreyfingin logar í innanhúsdeilum og átökum

Svo halda menn, að það að hræra þetta saman í eina þjóðstjórn muni leysa málin! Nei, við erum þjóð í fjötrum eigin stjórnmálamanna.  Það er okkar kross að bera.

  

 

 


mbl.is Alvarlegar afleiðingar af frekari töfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaóreiða, orkuskattar og Icesave stefna framtíð OR í hættu

Í Fréttablaðinu í dag er frétt um OR og 30 ma kr. lán frá EIB sem beðið er eftir í ofvæni.  Fáist ekki lánið eru framkvæmdir við Helguvík og Hverárhlíðarvirkjun í uppnámi.

Hér leggst margt á eitt. 

  1. Fjárhagsleg staða OR er afleit eins og síðasta hálfsárs milliuppgjör ber með sér
  2. Mikil óviss ríkir um efnahagslega endurreisn Íslands sem er öll tengd við Icesave
  3. Óvissa um stefnu ríkisstjórnarinnar í orkumálum og skattlagningu orkufyrirtækja 

EIB fer varla að lána OR 30 ma kr. ef ekkert verður af framkvæmdum við Helguvík.  Fjárhagsleg staða OR leyfir það ekki.  Nauðsynlegt skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslu hlýtur að vera viðunandi orkusamningur við Helguvík.  Hins vegar er erfitt fyrir Norðurál að ganga til samninga ef nægjanleg orka er ekki til afhendingar og skattaumhverfið er allt upp í lofti.

Ástandið var nógu slæmt í júli en hefur snarversnað með skattaáformum stjórnvalda og yfirlýsingum VG sem blása heitu og köldu á orkuframkvæmdir hér á landi.

Það er algjör óþarfi að gera uppbyggingu hér erfiðari en hún þegar er og setja fleiri steina í götu OR og Norðuráls.  VG verða að skilja að Ísland er ekki Miðjarðarhafsland og við getum ekki öll lifað að ferðamennsku og fiskveiðum.


"Afglöp" embættismanna kosta milljarða í hækkaða skatta

Það er æ betur að koma í ljós hversu dýrkeypt það er orðið fyrir skattgreiðendur að stjórnmálamenn settu embættismenn og pólitíska gæðinga í lykilstöður eftir hrun í stað faglegra sérfræðinga.

Íslenska embættismenn og stjórnmálamenn skortir alþjóðlega bankareynslu.  Einföld staðreynd sem virðist vefjast fyrir mönnum en mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir skattgreiðendur eins og þeir munu komast að raun um fyrir áramót.  

50 ma kr. þurfti að afskrifa hjá bönkunum vegna kaupa á peningamarkaðssjóðsbréfum.  Enginn ber ábyrgð á þessu.  Bankamálaráðherra á þeim tíma sagði að þetta væri ákvörðun stjórnenda nýju bankanna og þvoði hendur sínar af þessu.  Ný stjórn bankanna mun ekki þurfa að svara fyrir þetta frekar en stjórnir gömlu bankanna fyrir sínar gjörðir. 

Nei, íslenskir stjórnarhættir eru í sérflokki þar sem allt gengur út á að vernda hagsmuni þeirra einstaklinga sem þar veljast inn sem gefur stjórnmálamönnum færi á að láta reynslulitla embættismenn vinna skítverkin fyrir sig á kostnað skattgreiðenda.

Enginn flokkur berst fyrir raunverulegum umbótum á íslenskum stjórnarháttum. 

Hvað segir það okkur?


mbl.is Landsbankinn: Almenningur borgar vegna ákvarðana embættismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei Árni, nú þarf nýtt fólk

Það er ekki nóg að "velja rétt" ef allt sem er í boði er rotið og spillt.  Þessi sífelldi söngur stjórnmálamanna um að hrunið hér á landi sé smæð okkar og erlendir hugmyndafræði að kenna og allt falli í ljúfa löð ef við bara veljum rétt er lýðskrum af verstu gerð.

Það mun aldrei nást sátt og samkomulag hjá þjóðinni eða heilbrigð endurreisn fyrr en stjórnmálamenn fara að viðurkenna sinn mannlega þátt í hruninu.  Þeirra sofandaháttur, vanþekking, reynsluleysi og skortur á siðferðisþreki er hluti af því kerfi sem brást og verður ekki sópað undir teppið.

Hvorki einangrun landsins eða EB aðild mun bæta þessa þætti, aðeins þyrla ryki í augun á fólki, en kannski var það alltaf ætlun stjórnmálamanna, þeir hugsa jú aldrei lengra en til næsta prófkjörs!

Og þar liggur vandinn, á meðan kjósendur sjá ekki annað fólk en sem því er sagt að kjósa verða breytingar hægar og erfiðar.

 


mbl.is „Nú þarf að velja rétt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk hrossakaup Jóns Ásgeirs

Mjög undarlegir og vafasamir gjörningar og hrossakaup virðast stunduð í bakherbergjum af pólitískum skilanefndum, bankamönnum og gömlum útrásarvíkingum.  Almenningur fær engar upplýsingar en verður að geta sér til í eyðurnar út frá þeim litlu ögnum sem skilanefndir ákveða að opinbera.

Nýjustu hrossakaupin ganga út á að Jón Ásgeir fái að halda Bónus og Hagkaupum en lætur Landsbankann fá Húsasmiðjuna.  Svo er sagt að Hagar muni greiða skuldabréfaflokk félagsins á gjalddaga 19. október án þess að segja hver sú upphæð sé eða hvaðan peningarnir komi.  Fjármagna nýju bankarnir og skattgreiðendur þetta?

Margir hafa misst sín fyrirtæki sem mörg voru rekin vel en stóðust ekki áfallið.  Hins vegar á þetta ekki við um þá sem eru skuldugastir, tóku mesta áhættuna og sóuðu mesta fénu.  Þeir berjast fyrir sínu og halda vel í við pólitísku öflin í landinu.  

Stjórnvöld hika ekki við að berja á lítilmagnanum í okkar landi en stórjaxlarnir ráða enn sem fyrr.  Þeir virðast skipa skjálfandi skilanefndu fyrir og heimta skuldaniðurfellingu og endurfjármögnun allt í boði stjórnvalda á kostnað skattgreiðenda.  Hvers konar fordæmi er þetta?  Er þetta ekki spilling á háu stigi?  

Hvers vegna getur enginn stjórnmálamaður sett Jóni Ásgeiri og Bakkabræðrum stólinn fyrir dyrnar og sagt hingað og ekki lengra?

 


mbl.is Hagar semja við banka um endurfjármögnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingar brugðust ekki hugmyndafræðin

Það er ódýr afsökun að skella allri skuldinni á hugmyndafræðina.  Þetta virðist vera ein allsherjar útskýring á hruninu því þar með er hægt að komast hjá því að draga einstaklinga til ábyrgðar. Ekki má persónugera vandann, hann er alltaf kerfisbundinn á Ísland.

Málið er að einstaklingar brugðust, siðferðisþrek, kunnátta, þekking og reynsla var hreinlega ekki til staðar.  

Ef þessi svokallaða "frjálshyggjutilraun" mistókst hvað á þá að taka við, "haftatilraun" með ríkisforsjá?  

Með þessu er verið að segja að Íslendingar séu óvitar sem þurfa að vera undir stöðugri ríkisgæslu og sé ekki í neinu treystandi.  Kannski er það rétt og kannski er þetta lausnin?  Hver veit?

 


mbl.is „Tilraunin mistókst“ með herfilegum afleiðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OR skipað að greiða arð með fé annarra!

Í fréttum RÚV segir: Orkuveita Reykjavíkur þarf að skila rúmum tveimur milljörðum króna í arð til Reykjavíkurborgar á næsta ári. 

Arðgreiðslur eru yfirleitt skilgreindar sem ráðstöfun á hagnaði liðins árs eða uppsöfnuðum hagnaði fyrri ára til eigenda.  Flest öll fyrirtæki sem eru vel og skynsamlega rekin greiða aðeins arð ef þau sýna hagnað og ef þau eru aflögufær um peninga til útgreiðslu, þ.e. þau standa ekki í of miklum fjárfestingum og uppbyggingu eða eru of skuldsett.  Ekkert fyrirtæki sem ég veit um borgar arð af tapi með lánum og notar þar með fé annarra til að borga arð til eigenda. Eina undantekningi virðist OR og gjaldþrota útrásarsjoppur.

Fjármálafimleikar útrásarinnar virðast enn í fullu fjöri hjá hinu opinbera eins og sést vel ef ársreikningar og milliuppgjör OR eru skoðuð.

Ekki ætla ég að gera hér tæmandi úttekt á fjármálastöðu OR, það væri að æra óstöðugan, en kíkjum aðeins á svolítinn servéttureikning:

Fyrstu 6 mánuði þessa árs er staða OR þessi (kr.):

  • Rekstrartekjur: 11.9 ma
  • Rekstrarhagnaður: 1.0 ma
  • Vaxtagreiðslur: 2.7 ma
  • Kostnaður við fjármálaleikfimi og gjaldeyrisbrask:  11.5 ma
  • Tap fyrst 6 mánuði 2009: 10.6 ma
  • Lán með greiðsludag 17.03.10: 9.3 ma 
  • Laust fé: 1.4 ma
  • Heildarskuldir: 206 ma
  • Eigið fé: 37 ma

Það er alveg ljóst að OR hefur ekkert fé úr rekstri til að borga lán sem falla á gjalddaga 2010 hvað þá að borga "arð" til Reykjavíkurborgar.  Hvernig á að fármagna lánaþörf og arðgreiðslu 2010 upp á 11.3 ma kr. sem er hærri upphæð en allur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu?  Er eðlilegt að fyrirtæki sem ekki getur endurgreitt lán nema að velta þeim á undan sér sé að greiða 5% arð á eigið fé.  Þessi greiðsla rýrir eiginfjárstöðu félagsins sem hrundi um helming á síðasta ári.  Hversu lengi getur Reykjavíkurborg  gengið á eigið fé OR án þess að lánadrottnar ókyrrist.  Lán eru þegar orðin 5 sinnum hærri en eigið fé.

Að OR sé látin borga "arð" til eigenda áháð rekstri og hagnaði er ekki góð fjármálastjórnun.  Hér er Reykjavíkurborg aðeins að taka lán bakdyramegin sem hún getur bókfært sem tekjur en ekki skuldir og þar með fegrað sinn eigin efnahagsreikning.

Því miður er fjármálaleikfimi OR og Reykjavíkurborgar lýsandi dæmi um þá óreiðu og örvæntingu sem ríkir í fjármálastjórnun almennt á Íslandi.  Að bókfæra fé annarra sem tekjur er ekki hægt til lengdar og hér er aðeins verið að búa til vandamál og kostnað fyrir skattgreiðendur í framtíðinni.

 


Töfralausn frá Tyrklandi

Svo virðist sem að Steingrímur hafi fengið ákveðna uppljómun í hinni helgu borg Konstantínópel.  Alla vega ríkir eindrægni í flokknum um trúna þó skilji leiðir þegar að trúboðinu kemur. 

Sumir vilja fara með AGS og EB í gegnum Icesave, aðrir vilja ekki sjá þessa leið og vilja gera allt upp á eigin spýtur og einhverjir eru víst á báðum áttum.  En hvað með það, allir eru vinir og það er það sem skiptir máli.  

En er þetta ekki einmitt íslenska leiðin?  Sundurþykkja, rifrildi og stefnuleysi er oft kjarninn í aðferðafræðinni og þegar allt keyrir í strand er bara haldinn fundur og allir treysta sín heit og vináttubönd og reyna eina ferðina enn.  Er von að útlendingar hristi hausinn og botni ekkert í vitleysunni.


mbl.is Fundi VG lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Topp eignir í Reykjavík til útvaldra líkt og í París?

Hvað gera bankarnir við allar þessar toppeignir sem þeir eru að eignast.  Hver fær að selja þetta og hirða söluþóknun?  Hver fær afnot af þessum eignum sem eru of dýrar til að seljast?

Ætlum við séum á leið inn í franska kerfi Seðlabanka Frakklands.  Sú virðulega stofnun sem var stofnuð árið 1800 af Napóleon Bonaparte hefur í gegnum aldirnar eignast eitt stærsta safn af topp íbúðum og húsum í París sem bankinn hefur þurft að taka upp í skuldir og veðköll.

Þessar íbúðir standa pólitískri elítu Frakklands til boða á kostakjörum að sagt er.  Það getur skipt sköpum að þekkja háttsetta aðila innan Banque de France ef maður er á höttunum eftir góðum og ódýrum húsnæðiskosti í París.

Ætli það sama verði upp á teningnum hér?  Mun klíka skilanefndarmanna og bankaráðsmanna hafa lyklavöldin í húsi Hannesar og viðlíka eignum í Reykjavík í framtíðinni? 


mbl.is Gengið að húsi Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í stjórn og stjórnarandstöðu á sama tíma

Sterkasta stjórnarandstaðan í dag kemur frá Lilju og Ögmundi.  Þau virðast vera á móti öllum helstu stefnumálum stjórnarinnar.  Nei við EB, Nei við Icesave, Nei við AGS og nú kemur gagnrýni á skuldaaðlögunaraðgerðir stjórnarinnar.  Samt sem áður segjast þau styðja þessa stjórn. 

Það er hreinlega ekki hægt að bjóða upp á svona vitleysu.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Það er ekki hægt að stjórna landinu á þennan hátt.  


mbl.is Ekki nógu langt gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband