Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er Icesave að fara með þjóðina á hausinn?

Hvort er líklegar að Icesave samningurinn fari með þjóðina á hausinn eða sú staðreynd að allt er hér í stoppi vegna rifrildis um málefni sem nemur um 2.5% af landsframleiðslu.  Er virkilega skynsamlegt að setja hin 97.5% á ís mánuðum saman og fórna uppbyggingartækifærum og trausti okkar vegna Icesave?  Þurfum við ekki að setja þetta í rétt samhengi?  Góð erlend umræða hefur sín takmörk?

Allt bendir til að eignir Landsbankans dugi upp í höfuðstól lánsins þannig að það eru vextirnir sem verða íþyngjandi þar til lánið er að fullu greitt.  Í upphafi eru þetta um 950 dollara á mann á ári af landsframleiðslu upp á 37,000 dollara eða um 2.5%.

Það er sama tala og Bretar eyða í hernaðarútgjöld og þar sem við höfum ekki her og Icesave samningurinn á að bjarga okkur frá efnahagshruni passar þetta vel í bókhaldið!

Bandaríkjamenn eyða um 4.5% af þjóðartekjum í hernaðarmál til samanburðar.

Vandamálið er að þessi útgjöld skapa ekki vinnu hér á landi nema að takmörkuðu leyti og fara ekki í framleiðslu hér.  Kannski getum við reynt að fá Hollendinga og Breta til að "endurfjárfesta" hluta af þessu fjármagni í íslenskum atvinnurekstri.  

Icesve yrði þá okkar "hernaðarútgjalda" póstur í ríkisbókhaldinu.

Við þurfum að fara að hugsa um þetta mál á nýjum nótum.


mbl.is Quest tekur málstað Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil er ábyrgð Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar

Þjóðin er þverklofin í þessu ógæfumáli og engin von að sætt náist.  Vandamálið er að hinar tvær Icesave-fylkingar sem eru með og á móti eru ekki andstæðar hliðar á sama máli, heldur er hér um tvö prinsipp að ræða aðskilin í tíma og rúmi.

Hér takast á þeir sem vilja standa við sín orð og hinir sem vilja að deilan fari í dóm.  

Uppruni þessarar stöðu er hin illa ígrundaða ákvörðun ríkisstjórnar Geirs Haarde sem ákvað að fara samningaleiðina og setti málið í þann farveg sem það er enn í.  

Kostnaður okkar verður gríðarlegur sama hvort við segjum já eða nei.  

Já og við borgum skuldina með samningi eða nei og við borgum skuldina með háum erlendum vöxtum, höftum og vantrausti. 

 

 


mbl.is Torsótt sátt um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með pálmann í höndunum

Hér kemur enn ein fréttin um gamlan útrásarvíking sem segist ætla að koma með fé inn í skuldsett félag til að bjarga því frá hruni.  Auðvita neitar hann að gefa upp hvaðan féð kemur eða hversu mikið það er?

Aðeins gefið í skyn hann njóti trausts?

Íslenska ríkið hefur ekki lánstraust erlendis og óhætt er að segja að Pálmi er ekki betri pappír en ríkið, svo peningarnir hljóta að koma innanlands.

Þetta er gamla sagan, ef þú skuldar milljarða þá segir þú bankanum þínum fyrir verki, en ef þú skuldar milljónir þá skipar hann þér fyrir verki.


mbl.is Pálmi með nýtt fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarstjórnarprófkjör á villigötum

Auglýsingar fyrir sveitarstjórnarprófkjör eru byrjaðar og ekkert hefur breyst.  Enginn stjórnmálaflokkur virðist hafa lært af mistökum frá alþingiskosningum á síðasta ári þar sem frekja, framapot og flokkshollusta voru sett framar hagsmunum almennings.

Nú er varla hægt að opna fréttavefi án þess að sjá myndir af hinum og þessum frambjóðendanum sem heimtar að fá þetta og hitt sætið.  Ekki mörg orð um hvað þetta fólk stendur fyrir eða hvaða reynslu og hæfni það hefur.  Íslenskar sveitstjórnir standa flestar frammi fyrir hræðilegri fjárhagsstöðu vegna slakrar fjármálastjórnunar.  Kunnátta og reynsla í fjármálastjórnun er langmikilvægasti hæfileik frambjóðenda í þessu kosningum.  Hins vegar er leitandi með ljósi að nokkrum sem virðist hafa smáhæfileika í þessum mikilvæga málaflokki.

Þetta boðar ekki gott fyrir framtíðina.  Ef kjósendur gæta ekki að sér og láta glepjast af frekju óvita eins og í prófkjörunum fyrir þingkosningarnar, þá er ekki ólíklegt að þeir kjósi Álftanes ástand fyrir sig með stórhækkandi útsvari og niðurskurði.  Og í sveitarstjórnarmálum er enginn Forseti sem segir hingað og ekki lengra!

 


Er uglan hennar Mínervu ekki til á Íslandi?

Þýski heimspekingurinn Hegel, lét þau fleygu orð falla að uglan hennar Mínervu hæfi sig aðeins til flugs þegar rökkva tekur.  Ég er hins vegar farinn að halda að þessi ugla fyrirfinnist ekki hér á landi.

Þessi merka ugla virðist ekki þrífast á Íslandi.  Okkur virðist fyrirmunað að setja hluti í samhengi, læra af mistökum og reynslu eða yfirleitt viðurkenna að hlutir og málefni séu komin í óefni þó allir aðrir sjá það. 

Við verðum að aðlaga okkar samfélagslega vistkerfi að þörfum uglunnar hennar Mínervu.  Án hennar verða engar raunverulegar samfélagslegar umbætur hér á landi.

Við megum til með að fara að gefa þrjóska óvitanum frí og láta ugluna hefja sig til flugs.

PS.  Svo er líka til hin skýringin að hér sé eilíft sumar og því rökkvi aldrei, þannig að uglan hennar Mínervu hefur sig aldrei til flugs.

 

 


mbl.is Ræddi við norræna ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert Icesave - engin lán

Því miður halda þeir sem styðja Ísland erlendis ekki á buddunni.  Fréttamenn og hagfræðingar geta auðvita sagt sitt en það sem allt veltur á er afstaða ráðamanna á hinum Norðurlöndunum. 

Norðmenn eru utan ESB og hafa því aðeins meira svigrúm til að hjálpa Íslendingum en hin Norðurlöndin, en hins vegar eru pólitísk og efnahagsleg tengsl Norðmanna við Breta miklu mikilvægari en söguleg tengsl við óstirðláta víkinga sem flúðu land fyrir rúmum 1100 árum.

Við eru komin í þvílíkan hnút með þetta mál að það er vart annað hægt að gera en að samþykkja þennan samning, ef ekki er hægt að fá Breta aftur að samningaborðinu sem virðist ansi langsótt.

Við þurfum að fara að hugsa um hversu lengi við getum haldið þessari deilu á lofti og látið allt annað sitja á hakanum.  Hver mínúta sem fer í Icesave er mínúta töpuð í önnur mál.

 


mbl.is Mjög gott skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fá að deyja í eigin rúmi - mannréttindi eða lúxus?

Það er athyglisverð grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem kemur fram að biðlistar á hjúkrunarheimilum hafa styst vegna þess að vistunarmat hefur verið hert.  Þetta er áhyggjuefni. 

Áhyggjulaust ævikvöld á Íslandi er fjarlægur draumur fyrir marga.  Síðustu mánuðir og ár margra Íslendinga eru allt annað en áhyggjulaus.  Aldraðir sem missa heilsuna eiga ekkert val.  Þeir eru miskunnarlaust keyrðir inn í kerfi þar sem allt er mælt og metið úr frá stöðlum settir af opinberum stofnunum.  Lítið er um reisn og virðingu.  Margar eru sorgarsögurnar um einstaklinga sem sitt síðasta ár eru "heimilislausir", keyrðir á milli stofnanna og spítala, settir í dagvistun eða parkerað á Landakoti á herbergum sem þeir deila með öðrum á virkum dögum og eru síðan sendir heim um helgar. 

Rótleysi og skipulagsleysi einkennir mikið að þjónustu okkar við aldraða.  Allt gengur út á að uppfylla staðla, tölfræði og kröfur stofnanna, aldraðir koma síðast.   Enginn vill taka við þessu fólki, allt er gert til að koma öldruðum út af einni stofnun og inn á aðra. Við virðumst sætta okkur við að setja ættingja og aldraða á hrakhóla.

Framtíðin er heldur ekki björt.  Öldruðum á eftir að fjölga hér á landi á sama tíma og efnahagur og lífskjör hrapa.  Eitthvað verður að gefa eftir og því miður eru aldraðir í eldlínunni sem fyrr.  Skattar á lífeyri þeirra og sparnað voru þeir fyrstu til að hækka og fækkun legurýma á Landakoti var efst á lista ráðherra. 

Aðeins þeir sem spara til elliáranna og eru efnameiri geta keypt sig frá verstu og mest niðurlægjandi hlutum þessa smánarkerfis.  Í framtíðinni fá aðeins þeir sem eiga ekkert eða þeir sem eru vel efnaðir  sómasamlega þjónustu.  Hinn mikli meirihluti verður að sætta sig við miskunnarlaust "vistunarmat" ókunnugra.

Á Íslandi er það ekki talið til mannréttinda að fá að deyja í eigin rúmi.  Nei, það er lúxus sem er aðeins á færi fárra.  

 


Betra seint en aldrei - ekkert klúður núna!

Hugmynd samtaka atvinnulífsins er gott innlegg inn í umræðuna um Icesave.  Við megum ekki tapa okkur alveg í þessu Icesave máli og gleyma að byggja upp atvinnulífið aftur.

Nú þarf öruggt og kjarkmikið útspil af hálfu Íslendinga.  Forsetinn hefur hrist upp í almenningsálitinu erlendis með sinni ákvörðun sem hann gaf lýðræðislegt yfirbragð.  Nú verður að nota þetta tækifæri og hamra járnið meðan heitt er.  Sérstaklega er tækifæri á að klófesta Breta.  Brown er óvinsæll og þingkosningar á næsta leiti.  Ef breskir stjórnmálamenn skynja að almenningur og pressan þar sé að snúast á sveif með Íslendingum er erfitt að neita okkur um viðræður korteri fyrir þingkosningar.

Hér verður að spila vel og klóklega úr stöðunni, og tímasetja sóknina nákvæmlega.  Forsetinn hefur skapað tækifæri sem alls ekki má klúðrast.


mbl.is Leggja til að skipuð verði ný samninganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær hliðar á Icesave

Icesave er flókið mál og flækist enn meir er tíminn líður.  Athyglisvert er að fólk bæði á Íslandi og erlendis horfið á málið frá tveimur mismunandi sjónarhornum og kemst því að mjög mismunandi niðurstöðum.

Einn hópur horfir á lagalegu hliðina og regluverkið í kringum bankana í hruninu.  Sá hópur spyr sig: er lagalegur rökstuðningur fyrir að Íslendingar taki á sig 100% af ábyrgðinni?

Hinn hópurinn horfir á þær yfirlýsingar sem íslenskir ráðamenn og Alþingi hafa gefið út fyrir og eftir hrun.  Sá hópur spyr sig: ætla Íslendingar að standa við sín orð?

Ofan á þetta bætist síðan leiðtogaleysið hjá íslenskum stjórnmálaflokkum.  Það var hvergi betur afhjúpað en þegar Forsetinn neyddist til að ganga fram og taka af skarið.  

Íslenska stjórnarskráin hefur orðið fórnarlamb þessa Icesave máls.  Ísland mun ekki endurheimta traust og trúverðugleika fyrr en almenningur (ekki stjórnmálamenn sem treysta á prófkjör)  taka af skarið og setja sér nýja og bætta stjórnarskrá. 


mbl.is Ríkisstjórnin í vandræðalegri stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúsund ár dagur, ei meir

Ólafur Forseti gerir það ekki endasleppt með stóryfirlýsingum erlendis.  Pressan birtir eftirfarandi frá Aftenposten í Noregi:

„Á neyðartímum sér hver þjóð hverjir eru vinir og hverjir eru óvinir. Að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafi í efnahagsþrengingum okkar notað hryðjuverkalög gegn okkur þegar þeim var beint gegn Al-Qaida og Talibönum, var mikil móðgun. Sem þjóð erum við Íslendingar langminnugir. Það sem Bretarnir gerðu okkur verður munað í 1000 ár.“

„Norðmenn vita að við Íslendingar erum góðir vinir og alltaf traustir bandamenn. Svo kemur þetta útspil frá Bretum sem hóta Íslendingum einangrun á alþjóðavettvangi. Í sögulegu tilliti vona ég að þetta verði risavaxið dæmi um hvernig ekki á að haga sér á erfiðleikatímum.“

Hvað varð um gamla sáttmála frá 1262?  Það eru nú ekki liðin 1000 ár frá því að Ísland var innlimað í Noreg.  Er það nú gleymt og grafið?  Og hvað um Jan Mayen?  Norðmenn náðu þeirri eyju undir sig og Norður Íshafinu fyrir framan nefið á Íslendingum. 

Nei, Ólafi væri hollt að muna að frændur eru frændum verstir.  

Það er skemmtilegt að sjá hvernig Ólafur skellir allri skuldinni á Breta, hann og hans útrásarvíkingar flaggandi fálkaorðunum eru alveg saklausir.  Það verður þó Ólafur að eiga að hann er heldur betri í þessum bransa en Davíð.

PS.: Bretar hafa fundið upp nafn yfir þennan leik Ólafs og Davíðs og kalla hann "self-indulgent evasiveness"  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband