Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.12.2009 | 15:07
Icesave á léttari nótum
Ansi er maður orðinn þreyttur á þessu Icesave þrasi. Ég heyrði þessa ágætu sögum um Icesave og fjármálaráðherra landanna þriggja.
Blaðamaður spyr fjármálaráðherra Íslands, Bretlands og Hollands:
"Afsakið, en hvað skoðun hafið þið á Icesavesamninginum?"
Fjármálaráðherra Hollands svarar: hvað þýðir "að hafa skoðun"?
Fjármálaráðherra Bretlands svarar: hvað er "samningur"?
Fjármálaráðherra Íslands svarar: hvað þýðir "afsakið"?
Meirihluti samþykkti Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2009 | 12:59
EFTA niðurstaða styrkir stöðu ríkisstjórnarinnar í Icesave
Niðurstaða EFTA um að fallast á sjónarmið Íslands hvað varðar neyðarlögin er mikill sigur fyrir ríkisstjórnina og gat ekki komið á betri tíma.
Sérstaklega er tekið fram að stofnunin fjalli ekki um hugsanlega mismunun á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda. Hér er verið að þrýsta á Ísland að ljúka Icesave því EFTA er hér með óbeint að halda hurðinni opinni fyrir Breta og Hollendinga skyldi Icesave koma inn á þeirra borð.
Fallist á sjónarmið Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2009 | 09:00
Lögfræðingar Díönu prinsessu í Icesave
Stjörnulögfræðingar Mishcon de Reya í London sem eru þekktastir sem skilnaðarlögfræðingar Díönu prinsessu þegar hún skildi við Karl Bretaprins hafa verið fengnir af ríkisstjórninni til að lesa yfir Icesave samninginn.
Þetta eru furðuleg vinnubrögð. Tímasetningin er undarleg og valið á lögmönnum er allt í 2007 útrásarstíl, enda eru þetta með dýrustu lögmönnum Bretlands.
Hefði nú ekki verið skynsamlegar að fá lögmenn sem eru sérfræðingar í alþjóðasamningagerð strax í upphafi til að leiða samningaferlið? Ætlaði íslenska ríkisstjórnin að láta samþykkja Icesave án þess að ráðfæra sig við breska lögmenn?
Ætli Dorrit hafi hvíslað nafni Mischon í eyra Össurar? Konunglegt ef rétt væri.
Icesave sirkusinn heldur áfram.
Fundað fram eftir nóttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.12.2009 | 23:34
200,000 kr á tímann til að lesa yfir Icesave
Fínt skal það vera. Ríkisstjórnin hefur ráðið lögmannsstofuna Mishcon de Reya til að lesa yfir Icesave samninginn. Þetta er ein dýrasta lögmannsstofa í London og getur státað af viðskiptavinum eins og Díönu Prinsessu og Jeffrey Archer .
Eftir því sem ég kemst næst er útseldur tími hjá lögmannsstofum eins og Mishcon de Reya ekki undir 1000 pund á tímann hjá þeirra bestu lögmönnum. Þetta gerir um 200,000 kr. á tímann eða um 1.6 m kr. fyrir 8 stunda dagvinnu.
Er furða að það þurfi að skera niður á Landsspítalanum til að borga þennan reikning?
Ágreiningurinn leystur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2009 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
7.12.2009 | 13:23
Leikur að tölum
Hlutur útflutnings af vergri landsframleiðslu var 50% fyrstu 9 mánuði þessa árs samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á árunum 2005-7 var þetta hlutfall 32-34% en 44% á síðasta ári 2008.
Þetta er athyglisvert hlutfall og segir okkur margt um stöðu hins innlenda hagkerfis. Okkar útflutningshagkerfi stendur góðum fótum. Það stendur fyrir sínu þó svo að magni til útflutningur hafi ekki aukist eins og þessar tölur gætu bent til.
Nei, þessar tölur staðfesta því miður það sem margir vita að okkar innlenda hagkerfi hefur hrunið. Ef útflutningur hefur ekki aukist að ráði að magni til þýðir þetta að innlenda hagkerfið hefur dregist saman um helming mælt í verðgildi útflutningsgreinanna.
Hér hefur himinn og haf myndast á milli þeirra sem standa í útflutningi og fá greitt í gjaldeyri og þeirra sem afla sér sinna tekna í innlenda hagkerfinu. Best standa þeir sem eru skuldlitlir, fá tekjur af útflutning en eru með kostnaðinn í krónum. Þessir aðilar hafa aldrei haft það eins gott.
"Every cloud has a silver lining" eins og sagt er.
Mikill samdráttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2009 | 09:30
"Sjoppulegt samsæri gegn Sjálfstæðismönnum"
Viðhorf verða að raunveruleika segir enska máltakið: "perception becomes reality". Fátt á betur við um ímynd Íslands erlendis um þessar mundir.
Menn verða að spyrja sig hvort líklegra sé að erlendir aðilar taki trúanleg orð virts blaðamanns, Roger Boyes, frá The Times í London eða orð Íslendings sem gefur í skyn að The Times sé málgagn sósíalista og þar vaði vinstri menn uppi um allt?
The Times er yfirleitt talið hægra megin við miðju í Bretalandi, eins konar Morgunblað áður en Davíð tók völd þar. Auðvita eru þar blaðamenn af öllu pólitísku litrófi enda er það einn styrkur blaðsins.
DV gefur bók breska blaðamannsins Boyes, Meltdown Iceland, hálfa stjörnu í dag og kallar hana "sjoppulega". Ég hefði nú haldið að það væri ansi mikill gæðastimpill fyrir bókina. Hún hefur greinilega stuðað Sjálfstæðismenn eins og vel kemur fram í skrifum Jóns Magnússonar á Pressunni. Hins vegar held ég að hún stuði menn ekki af því að höfundur sé í einhverju vinstri samsæri gegn Sjálfstæðismönnum, heldur vegna þess að hún kemst nálægt óþægilegum sannleika.
Það er rétt að í bókinni eru nokkrar minniháttar staðhæfingarvillur sem íslenskur rithöfundur myndi ekki við hafa en það ætti nú að styrkja menn í þeirri trú að enginn Íslendingur hélt þar á penna.
Þetta er bók sem útlendingar munu treysta betur en jarmið í Íslendingum, enda hefur hún fengið góða dóma erlendis.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.12.2009 | 16:52
Glöggt er gests augað
Viðtal við Roger Boyes í Silfri Egils var áhugavert. Þar kemur vel fram hversu mikla áherslu útlendingar leggja á ábyrgð einstaklinga og þeirra hlutverk í hruninu. Erlendis er sú skoðun að fólk standi á bak við vandamál og lausnir, en ekki kerfið eða regluverkið.
Hæfni, kunnátta og reynsla þeirra einstaklinga sem sitja við stjórnvöld skiptir gríðarlegu máli. Það er ekki nóg að geta slegið öllu upp í grín eða kennt erlendu samsæri um allt sem afvega fer.
6.12.2009 | 14:48
Forseti vor og Facebook
Íslenskt lýðræði er eins og skyrið okkar, alveg einstætt á þessari jörðu. Alþingi og ráðherrar eru að verða að stofustássi sem brátt flyst yfir á þjóðminjasafnið.
Í dag er það Forseti vor og Facebook sem blífur. Það skiptir engu máli hvað ráðherrar blaðra og lofa eða hvernig Alþingi vinnur. Á endanum er Facebook sem ákveður og Forsetinn framfylgir.
Í raun má segja að sú aðför sem nú er í gangi gegn hinu 19. aldar konungsinnleidda þingræði er mun athyglisverðari en þetta Icesave mál.
Erum við að leggja línurnar fyrir nýjum lýðræðissiðum?
Íslendingar munu draga úr losun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2009 | 12:11
Smánarblettur á stjórn Steingríms og Jóhönnu
Einn mesti smánarblettur á stjórn Steingríms og Jóhönnu er hvernig þau hafa komið fram við ellilífeyrisþega og öryrkja.
Stjórn Geirs Haarde réðst fyrst á ellilífeyrisþega þegar eftir hrunið og ný stjórn Jóhönnu lét ekki sitt eftir liggja. Enda er staðan nú eins og Öryrkjabandalagið segir:
"Hækka þarf frítekjumarkið hjá öryrkjum og aðeins sanngirnismál að það verði til jafns við það sem atvinnulausir njóta en þeir eru sem stendur með sjöfalt hærra frítekjumark eins og staðan er í dag. Gagnrýnir Öryrkjabandalagið þessa stöðu mála alvarlega."
Enginn rís upp þegar kjör ellilífeyrisþega og öryrka eru skert en þegar talið berst að sjómannafslætti eða fæðingarorlofi ætlar allt að verða vitlaust og mjög sterkir hagsmunahópar rísa upp og berjast með kjafti og klóm til að verja sína hagsmuni og ríkisstjórnin hlustar yfirleitt á þá sem hafa hæst.
Þetta er vandamál gamla fólksins. Á Íslandi fæst ekkert nema með frekju, hávaða og suði.
Virðingar- og afskiptaleysi þjóðfélagsins til eldri borgar segir margt um þau gildi sem ríkja í þessu landi. Sem þjóðfélagshópur eru ellilífeyrisþegar annars flokks fólk sem flestir vilja helst fela. Lítil sem engin umræða er um stöðu eða meðferð á þessum þegnum okkar. Fjölmiðlar vilja frekar fjalla um gæludýr en gamla fólkið.
Stjórn sem kalla sig félagshyggjustjórn er ekki stætt á að stunda svona misræmi og fótum troða rétt þeirra sem minnst mega sín og geta oft ekki talað sínu máli.
5.12.2009 | 14:26
Beinna lýðræði verður eina ávöxtunin af Icesave
Erfitt er að sjá að Alþingi eða ráðherraveldið eigi sér fullrar viðreisnarvon eftir Icesave klúðrið. Komin eru upp mjög sterk krafa um beint lýðræði í helstu málum þjóðarinnar. Undirskriftalisti til Forseta Íslands segir sína sögu og honum verður ekki sópað léttilega undir teppið.
Krafa um nýja stjórnarskrá þar sem völd þingsins og framkvæmdavaldsins verða takmörkuð verður vart stöðvuð úr þessu. Icesave gerði útslagið og hefur afhjúpað galla á okkar stjórnarskrá og þingræði. Auðvita munu þingmenn, ráðherrar og þeirra klíkur reyna að spinna þetta á annan veg, en hvers vegna ættu landsmenn að hlusta á þetta fólk sem hefur algjörlega brugðist bæði fyrir og eftir hrun?
Stjórnlagaþing þarf að fara vel yfir málin og kynna sér það besta í beinna lýðræði. Sérstaklega er mikilvægt að Íslendingar kynni sér reynslu Svisslendinga af beinu lýðræði en þar eru öll aðalmál og tillögur lagðar fyrir þjóðaratkvæði.
Svisslendingar fóru í gegnum sitt "Icesave" nýlega þegar þeir samþykktu tillögu um að banna byggingu bænaturna múslima gegn vilja stjórnarinnar. Beint lýðræði hefur sína galla en kostirnir fyrir lítið og vel menntað land eins og Ísland eru yfirgnæfandi. Ný tækni og betri og tímanlegri upplýsingar á 21. öld gefa okkur tækifæri til að innleiða nýja lýðræðishætti sem ekki voru til staðar á 19. öld.
Samfara beinna lýðræði má svo fækka þingmönnum niður í 31 og 5 ráðherrar ættu að duga fyrir 320,000 sálir.