Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lánastarfsemi bankanna undir erlenda smásjá

Nauðsynlegt er að fá erlenda aðila til að rannsaka alþjóðlega lánastarfsemi bankanna.  Það virðist nefnilega margt benda til að mesta tap erlendar aðila sé í gengum óábyrga lánastarfsemi gömlu bankanna.

Það lítur út fyrir að íslensku bankarnir hafi hreinlega verið plataðir af útséðum og egótískum fjárfestum.

Allt gekk út á að stækka og sýna pappírsgróða.  Til að stækka þarf maður á viðskiptavinum að halda.  Bestu viðskiptavinir í hverju landi hafa góð og sterk tengsl við elstu og traustustu banka í sínu landi.  Sterkir og traustir aðilar leita saman.  Íslensku bankarnir áttu þá ekki aðra kosti en að leita til viðskiptavina sem ekki fengu afgreiðslu annars staðar.  Annað hvort vegna þess að verkefni þeirra voru talin of áhættusöm eða þeir voru ekki taldir traustverðir viðskiptavinir.

Eða eins og Danir segja "lige børn leger bedst"


mbl.is Bretar hefja rannsókn á íslensku bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur óvita að eldi kostar kr. 1,000,000.00 á mann

Leynileikur örfárra útvaldra einstaklinga innan viðskiptabankanna, sparisjóðanna og Seðlabankans virðist samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa verið lítið annað en svikamylla?

Ekki má minnast á nöfn hér, enda um að ræða "creme de la creme" íslensks aðals sem virðist yfir lög og reglur hafinn.  Allt er útskýrt með barnalegum útúrsnúningum og svo ef einhver maldar í móinn er vel skipulagður varðhundahópur sendur á hinn sama til að lítilsvirða gagnrýnina og slá ryki í augu almennings. 

Það er ótrúlegt að þeir menn sem stóðu fyrir þessu og gerðu Seðlabankann "gjaldþrota" skulu ekki einu sinni þurfa að svara fyrir sínar gjörðir, hvað þá sæta ákæru.

Ríkisendurskoðun er auðvita ekki rétti aðilinn til að taka á þessu.   Rannsóknarnefnd Alþingis mun líklega ekki hafa hátt um þetta, heldur velja að setja sínar áherslur annars staðar.

Ráðherrar þegja.  Alþingi þegir.  Dómsstólar þegja.   Þetta er Ísland í dag.

--------

Nú er sú skoðun orðin að næsta lögmáli hér á landi að stærð bankanna í hlutfalli við landsframleiðslu sé aðalorsök hrunsins, en af hverju féll bankakerfi Sviss þá ekki líka, en þar er bakastarfsemi nálægt 10 sinnum landsframleiðsla?   Það slær enginn Íslendingum við þegar kemur að billegum afsökunum og lýðskrumi.


mbl.is Efasemdir um styrk Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við erum ekki Ísland" segja Grikkir

Á forsíðu International Herald Tribune í dag er grein um hina erfiðu skuldastöðu Grikklands.

Greinahöfundur hefur miklar efasemdir um að Grikkir hafi getu eða þrek til að ráðast að rótum síns skuldavanda enda er fyrirsögnin:

Grikkir reyna að tala sig út úr skuldavanda. "Greece tries talking its way out of a debt corner"

Og hvað sagði svo fjármálaráðherra Grikkja, George Papaconstantinou, til að sefa erlenda fjármálamarkaði eftir að lánstraust þeirra var fellt nýlega:

"We will reduce the debt, we will control the debt, and there will be no need for a bailout.  We are not Iceland."

 


Seðlabankinn undirbýr þjóðina fyrir gengisfellingu?

Athyglisverðar yfirlýsingar hafa komið nýlega frá Seðlabankanum varðandi krónuna.  Seðlabankastjóri sagði fyrir nokkrum dögum að krónan verði lág um ókomna framtíð og nú gengur hinn pólitískt skipaði bankaráðsmaður framsóknamanna, Daniel Gros fram og segir að krónan sé of há. 

Rök Daniels eru þau sem margir hafa þegar bent á.  Eina ráðið til að skapa nægan afgang af okkar útflutningstekjum hratt, er að minnka innflutning, sem er auðveldast að gera með gengisfellingu eða innflutningshöftum.  Það tekur nefnilega tíma og kostar gjaldeyri að auka útflutningstekjur.

Lífskjör eru líklega enn of há miðað við stöðu þjóðarbúsins.

En ef Seðlabankinn er að undirbúa okkur undir gengisfellingu hvers vegna lækkaði hann þá vexti í þessari viku?  Orð og athafnir Seðlabankans eru farin að orka tvímælis.

Útlitið fyrir 2010 er orðið ansi dökkt:

Skattahækkanir, niðurskurður, gengislækkanir, höft, eignabruni og verðbólga.

 

 


mbl.is Gengi krónu haldið óeðlilega háu með höftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn misnotaður í pólitískum tilgangi

Daniel Gros, hinn pólitískt skipaði bankaráðsmaður í Seðlabankanum segir alþjóð að framsóknarflokkurinn sé á móti Icesave.  Er það ný frétt?

Kynnti Daniel sér ekki lög Seðlabankans áður en hann settist í bankaráðsstól? Þar segir að Seðlabankinn eigi að vera sjálfstæður og hans aðalhlutverk er peningamálastefna Íslands.  Pólitískar yfirlýsingar Seðlabankamanna grafa undan þeirra eigin stofnun á sama hátt og þegar ráðherrar eru að skipta sér af störfum Seðlabankans.

Því miður er þetta enn eitt dæmið sem afhjúpar þá veikleika og hagsmunaárekstra sem skapast þegar skipað er í ráð og stjórnir ríkisins á pólitískum grundvelli.  Er Daniel hér að gæta hagsmuna framsóknarflokksins eða landsmanna?

Flest í þessari yfirlýsingu bendir til að þetta komi beint úr smiðju framsóknar.  Óháður erlendur aðili hefði tekið hlutlausara á þessu máli. Það er ekkert nýtt að Icesave er hörmulegt mál.  Allir vita að lífskjör og kaupmáttur mun minnka hér vegna aðgerða stjórnenda gamla Landsbankans en hitt er líka staðreynd, sem því miður Daniels minnist ekki á, að lífskjör og kaupmáttur mun einnig hrapa ef Icesave er hafnað. 

Með því að minnast ekki á hugsanlegar afleiðinga af höfnun Icesave er Daniel að gefa í skyn að lífskjörum hér á landi verði bjargað með því að hafna Icesave.  Þetta er óábyrg forsenda sem grefur undan Seðlabankanum og er hann ekki í sterkri stöðu fyrir.

Eðlilegt er að Daniel segði af sér vegna þessara ummæla og þar með er framsókn komin í vandræðalega Ocsar Wilde stöðu:  "To lose one parent may be regarded as a misfortune; to lose both looks like carelessness."

 


mbl.is Skert lífskjör og kaupmáttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn skiptir um skoðun

Loksins viðurkennir Seðlabankinn að krónan eigi eftir að verða lág næstu árin ef ekki áratuginn.  Þetta er mikil viðsnúningur frá því í júlí er Seðlabankinn var bjartsýnn á styrkingu krónunnar.

Það er búið að vera nokkuð ljóst lengi að krónan yrði lág til frambúðar og ekki er ég enn sannfærður um að botninum sé náð.  13. maí skrifaði ég pistil um krónuna og spáði að hún myndi toppa í 185 kr. evran ef við yrðum heppin, sbr.

Svo virðist sem Seðlabankinn sé að leiða innlenda markaðinn með krónuna í smáum skrefum nær hinum erlenda.  Vonin er að þeir mætist á miðri leið.  Þá toppar evran vonandi í 185 kr. ef við erum heppin.  Ef ekki, þá er margt sem bendir til að við fáum skeið með evru yfir 200 kr.  Vonandi að það standi ekki lengi yfir.  Því fyrr sem Icesave og fjármögnun ríkishallans kemst á hrein því fyrr kemst ró yfir krónuna.  andrigeir.blog.is 13.05.09

Málið er að Icesave er enn ófrágengið og ríkisfjármálin eru varla á föstu landi enn.  Því er mikil hætta á að krónan eigi eftir að gefa eftir 2010. Hingað til höfum við verið heppin en ef ekki spilast vel úr málum á næstu mánuðum eigum við eftir að sjá evruna í kringum 200 kr. á fyrri hluta 2010. 

Veiking krónunnar á sama tíma og skattahækkanir fara að bíta er ekki góð uppskrift fyrir verðbólgustöðuleika.  Óvissan heldur áfram.

 


Umbylta þarf atvinnustefnu Íslands

Lítil umræða fer fram í dag um framtíð Íslands, öll umræðan er um fortíðina eða nútíðina.  En sama hvort við samþykkjum Icesave eða ekki, förum inn í ESB eða ekki, þá þurfum við að auka útflutningsgreinar okkar umtalsvert.  Við verðum að umbylta okkar hagkerfi frá neysluhagkerfi yfir í útflutningshagkerfi. 

Það er ekki aðeins nauðsynlegt að auka gjaldeyrisskapandi störf til að standa undir skuldum heldur er það okkar eina leið til að viðhalda og auka lífskjör.  Hættan er að ef tökum þessi mál ekki föstum tökum getum við endað uppi með tvo þjóðfélagshópa.  Einn sem vinnur við útflutning og fær borgað í "evrutengdum" launum og hinn sem vinnur í innlenda geiranum og hjá hinu opinbera og skrimtir á krónu launum.  Við erum þegar farin að sjá þetta.  Þau fyrirtæki sem eru skuldlítil og eru með mest af sínum tekjum í gjaldeyri geta borgað sínu fólki hluta af kaupinu í evrum og þar með boðið upp á meiri kaupmátt og betri lífskjör en aðrir. 

Ef við getum ekki boðið okkar unga og framtaksama fólki "evrutengd" laun þá mun þetta fólk einfaldlega flytja úr landi. 

Það er oft sagt að mannauður okkar sé okkar besta tromp til að komast út úr þessari kreppu og það er vissulega rétt upp að ákveðnu marki.  En ef við bjóðum þessum mannauði ekki upp á tækifæri missum við hann úr landi.  Og hér liggur vandinn.  Við höfum ekkert fjármagna til að umbylta okkar atvinnulífi og lítið lánstraust erlendis.  Við eigum því aðeins eina leið og þar er orkan.

Við eigum það sem allir sækjast eftir nú og það er græn orka.  Okkar nágrannar eiga mannauð en ekki orkuna og þar liggur okkar tækifæri.  

Að beisla þetta hvoru tveggja í senn er lang skynsamlegasta leiðin.  Við þurfum í auknum mæli að taka að okkur verkefni og framleiðslu erlendis þar sem við "pökkum inn" og seljum íslenskan mannauð og græna orku. Þetta krefst vinnu og þekkingu á erlendum mörkuðum.  Þetta er mun erfiðara og flóknara en að leyfa útlendingum að setja upp álver, en ávinningurinn er líka miklu meiri.  Hér þurfum við að vinna sem jafningar með erlendum fjárfestum og hugsanlegum viðskiptavinum til að skapa tækifærin en ekki sætta okkur við að sitja á hliðarlínunni sem orkusali.

 

 

 


mbl.is Segir skuldir ríkissjóðs Íslands viðráðanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin myrkva hlið krónunnar

Krónan er mikið töfratæki.  Án krónunnar hefði kreppan orðið erfiðari viðfangs hér á landi.  Krónan gefur stjórnvöldum mikið vald en því miður segir sagan okkur að fæstir íslenskir stjórnmálamenn kunna að fara með það vald. 

Léleg hagstjórn þrífst í skjóli krónunnar.  Alltaf er hægt að stóla á hana til að redda hlutunum, sem yfirleitt kallar á eignabruna og tilfærslur fyrir landsmenn, þetta er gjaldið sem þjóðin þarf að borga fyrir sjálfstæðan gjaldmiðil í höndum óvita.

Og enn kemur krónan okkur til bjargar.  Ljóst er að án krónunnar til að halda kaupmætti niðri og draga úr innflutningi til neyslu er erfitt að sjá hvernig við getum borgað af erlendum lánum.  Því er næsta öruggt að lág króna og höft eru hér til langframa, alla vega næstu 10 árin.  Excel skrá AGS sýnir þetta vel, útflutningstekjur okkar þurfa fyrst að fara til útlendinga og landsmenn fá síðan það sem afgangs er til að styrkja hagkerfið.  Þar munu útflutningsgreinarnar ganga fyrir.  Sá hluti atvinnulífsins sem notar gjaldeyri en skapar hann ekki, eiga litla von í framtíðinni.  Þar verður algjör stöðnun.

Íslendingar verða því að færa hagkerfið frá innlendu neysluhagkerfi yfir í útflutningshagkerfi.  Störfin verða að færast úr bönkunum og verslunarmiðstöðvunum yfir í frystihúsin og álverin.

 

 


Einsleitin stjórn hjá Framtakssjóði

Ekki er hægt að sjá að ný stjórn Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna hafi mikla reynslu í rekstri og fjármálastjórnun einkafyrirtækja.  Flest er þetta fólk frá lífeyrissjóðunum sjálfum, háskólunum eða stjórnsýslunni.  Var ekki hægt að fá a.m.k. 1 stjórnarmann með reynslu í endurskipulagningu og endurfjármögnun fyrirtækja. 

Það er hætta á að þessi stjórn verði of pólitísk og fari að leika "ríki í ríkinu" með þessa 30 ma kr. sem er eign sjóðsfélaga.  Sérstaklega þarf að gera ráðstafanir til að tryggja að hagsmunaárekstrar verði ekki á milli stjórnar, einstakar lífeyrissjóða og þeirra fyrirtækja sem fá fyrirgreiðslu frá þessum nýja sjóði.  Aðsókn eftir fé úr þessum sjóði verður gífurleg og allt reynt til að nálgast þetta fé.  Það þarf sterk bein til standast allar þær freistingar sem geta myndast undir slíkum kringumstæðum.

Sérstak vandamál í íslenskum stjórnum er hversu þær eru myndaðar af þröngum hópi þar sem allir þekkjast.  Það er mjög slæmt þegar allir stjórnarmenn eru málkunnugir hver öðrum áður en til fyrsta stjórnarfundar kemur.

Sjóðsfélagar mega alls ekki sofa á verðinum og verða að veita þessum sjóði öflugt aðhald til að koma í veg fyrir einkavinaframtak.

 


mbl.is Lífeyrissjóðir stofna Framtakssjóð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutabréf á VISA heyra fortíðinni til - eða hvað?

Bandaríkjamenn settu mjög stífar reglur um lán banka til hlutabréfakaupa eftir hrunið 1929.  Nú 80 árum seinna ætlar Alþingi að gera hið sama, ekki vegna þess að við lærum af reynslu annarra heldur vegna þessa við verðum að skaðbrenna okkur sjálf, áður en við viðurkennum okkar mistök.

En það er haldlítið að setja lög og reglur ef ekki þarf að fara eftir þeim.  Gaman verður að sjá hvernig og hverjir eiga að framfylgja þessum nýju lögum.  Hvaðan eiga peningarnir að koma til að ráða og þjálfa nýja kynslóð eftirlitsmanna hjá ríkisstofnunum.  Og hverjir eiga að sjá um kennsluna?  Hvaðan á reynslan að koma?  Frá starfsmönnum gömlu bankanna, FME eða Seðlabankans?

Nei, það er erfitt að sjá hvernig þetta dæmi á að ganga upp í nýja "gamla" kerfinu.


mbl.is Koma í veg fyrir ofurlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband