Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.1.2010 | 21:45
Skaðinn er skeður
Það er rétt hjá Birni Vali að það er undarlegt að Ólafur Ragnar þurfi að taka sér tíma til að ákveða hvort hann sé með eða á mót Icesave. Þar er hann einstakur meðal Íslendinga þar sem yfirgnæfandi meirihluti virðist hafa myndað sér skoðun með eða á móti fyrir þó nokkru, enda hefur málið verið rætt fram og tilbaka líkt og fá mál í Íslandssögunni.
Þetta hik Ólafs er ekki traustvekjandi. Útlendingar hafa allt í einu áttað sig á að hér á landi ríkir ekki Norður-Evrópu þingræði eins og í Bretlandi, Hollandi eða Danmörku. Óhugsandi væri að þjóðhöfðingjar þessara landi neituð undirskrift eða tækju sér óeðlilegan tíma til umhugsunar enda er hefð í þessum löndum fyrir því að pólitískar ákvarðanir séu teknar að þjóðþingi enda ríkir þar þingræði.
Á hinn bóginn erum við ekki eins og Frakkar eða Bandaríkjamenn þar sem forsetinn hefur skýrt afmörkuð pólitísk völd. Við virðumst vera hvorki fugl né fiskur í þessu samhengi, haga seglum eftir vindi og gera akkúrat eins og okkur sýnist á skjön við venjur og hefðir í öðrum Evrópuríkjum.
Það er svo sem ekkert að segja við því, en þá eigum við ekki að sigla undir fölskum fána og gefa í skyn að ákvörðun Alþingis sé okkar síðasta orð. Framtíðar milliríkjasamningar verða okkur erfiðir, alla vega þar til við semjum nýja stjórnarskrá og skilgreinum okkar stjórnskipulag á skiljanlegan hátt.
Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.1.2010 | 10:51
Þjóð án sameiningartákns
Ólafur Ragnar hefur gert embætti Forsetans pólitísk og þar með breytt stöðu Forsetans frá því að vera sameiningartákn yfir í pólitískan varðhund. Fyrst lagði Ólafur til atlögu við þingið til að verjast ágangi frá Davíð og nú er líklegt að Steingrímur og Jóhanna fái að kenna á Bessastaðabóndanum.
Eitt er víst, og það er að Forsetaembættið verður aldrei hið sama, og þær hefðir og gildi sem voru byggð upp af fyrrum forsetum Lýðveldisins er búið að kasta fyrir róða. Sú tilraun að hafa hér stjórnarskrá byggða á þingræðislegu konungsveldi og skipta konungi út fyrir kjörinn Forseta hefur runnið sitt skeið á enda.
Nú verður að stokka upp á nýtt, og semja nýja stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland. Hér þarf að koma til breið samstaða frá landsmönnum líkt og á þjóðfundinum. Í nýtt stjórnlagaþing þarf að velja fólk alls staðar af landinu og úr öllum þjóðfélagshópum. Valið á að vera í höndum hagstofunnar en ekki stjórnmálamanna. Sérstaklega ber að varast að velja menn í stjórnlagaþing með prófkjöri, þá mun ekkert breytast.
1.1.2010 | 10:14
Ný stjórnarskrá brýnasta verkefnið
Það hlýtur að vera augljóst eins og málum er nú háttað að eitt brýnasta verkefnið sem þessi þjóð stendur frammi fyrir á nýju ári er að semja sér sína eigin stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland.
Það er ekki nóg að krefjast ábyrga fyrirtækja ef hið sama á ekki að ganga yfir stjórnmálamennina. Sú gjá sem nú hefur myndast á milli almennings, stjórnvalda og Forseta landsins verður ekki leyst nema með nýrri stjórnarskrá.
Krafan um stjórnlagaþing kom skýrt fram eftir hrunið og henni verður ekki sópað undir teppið. Það er ábyrgðarleysi að þetta mikilvæga mál skuli ekki fá forgang.
Hver fer með umboð fyrir hönd þjóðarinnar í mikilvægum málum í dag? Ríkisstjórnin, Alþingi, Forsetinn, InDefense hópurinn eða aðrir þrýstihópar? Erlendir aðilar fara varla að eyða sínum dýrmæta tíma í íslensk málefni ef þeir vita ekki við hvern þeir eiga að tala.
Krefjumst ábyrgra fyrirtækja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2009 | 12:19
Núllið kvatt
Nú kveðjum við fyrsta áratug nýrrar aldar, svo kallaðan núlláratug, og líklega eiga Íslendingar heimsmet í að núllstilla allt á þessum áratug.
Efnahagslega varð allt að núlli á þessum áratug og líklega enda hann margir fátækari en heilsuðu honum fyrir 10 árum. En það er ekki bara efnahagurinn sem varð að núlli hjá okkur. Erlendur orðstír landsins varð að núlli ásamt trausti og trúverðugleika á öllu og öllum innanlands.
Þá urðu allir stjórnmálaflokkar og þeirra forystumenn að einu stóru núlli og hefja nýjan áratug lægra en nokkurn tíma hefur þekkst hér á landi. Íslenskir bankamenn og útrásarvíkingar urðu minna en núll og eiga sér vart uppreisnar æru.
Sjálfur Forseti lýðveldisins berst nú á þessum degi við sitt stóra núll og þar virðist frestur vera á illu bestur eins og hjá svo mörgum öðrum.
Stóra spurningin nú við upphaf 2010 er hvort við skoppum á botninum eða eigum eftir að falla ofan í enn einn kjallarann? Það getur verið erfitt að átta sig á núllinu.
31.12.2009 | 10:38
Forsetinn skrifar undir Icesave
Það eru engin fordæmi fyrir því að forseti lýðveldisins taki fram fyrir hendur Alþingis eða framkvæmdavaldsins í utanríkismálum. Það er ekki forsetans að marka utanríkisstefnu landsins og nú þegar Alþingi, sem kosið var á þessu ári, hefur samþykkt Icesave er málið afgreitt og besta að snúa sér að uppbyggingu atvinnuveganna.
Allar höfuðlínur í þessu Icesave máli lágu fyrir í stjórnartíð Geirs Haarde og því er spurningin hvers vegna var þetta ekki kosningamáli fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor, heldur eftir? Hver matreiðir mál og skoðanir ofan í landsmenn?
Ef það er eitt sem þetta Icesave mál hefur sannað þá er það hin aldnagamla viska að þeir sem halda um upplýsingarnar halda um völdin.
Fá fund eftir ríkisráðsfundinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.12.2009 | 10:17
Íslandsbanki í pólitískri herkví
Erfitt er að sjá hvernig skipan fyrrum stjórnarformanns FME sem stóð vaktina þar í hruninu í stöðu stjórnarformanns Íslandsbanka sé í þágu nýrra eigenda bankans.
Hvers vegna var ekki beðið með þessa skipun þar til rannsóknarefnd Alþingis birtir sína skýrslu? Getur það hugsast að FME beri litla sem enga ábyrgð á störfum gömlu bankanna og að þeir sem þar sátu í stjórn séu yfir persónulega ábyrgð hafnir? Ber stjórnarformaður enga ábyrgð á störfum síns forstjóra?
Það getur vel verið að rannsóknarnefndin geti sannfært Alþingi og almenning um að eftirlitstofnanir ríkisins og þeirra æðstu embættismenn séu saklausir, en eitthvað segir mér að það verði erfiðara að sannfæra erlenda aðila og þá sérstaklega erlenda bankamenn um þessa rökfræði.
Hvernig ætli þessi skipan auðveldi Íslandsbanka aðgang að fjármagni erlendis? Eru erlendir bankar og bankamenn ekki að taka persónulega áhættu að versla við fyrrverandi stjórnarformann FME í landi þar sem varð algjört bankahrun? Ætli það sé vænt til starfsframa?
Svo er spurningin: hver verður nýr bankastjóri Íslandsbanka? Úrvalið hefur aldrei verið mikið á Íslandi þegar kemur að hæfu fólki en ekki bætir þessi skipun ástandið. Hvaða ungi og framagjarni maður vill setja það á sína starfsferilsskrá að hann eða hún hafi valið að starfa undir stjórn fyrrverandi stjórnarformanns FME? Hvað segir það um dómgreind þeirra?
Nei, það verður ekki annað séð en að þessi skipan Jóns Sigurðssonar setji bankann í ákveðna herkví hvað varðar framtíðar aðgang bankans að hæfu fólki og erlendu fjármagni. Það er óhugsandi að nýir eigendur sætti sig við þetta til langframa og séu tilbúnir að "tapa" enn meri á Íslendingum eingöngu til að halda uppi spilltu innlendu pólitísku kerfi.
Eini ljósi punkturinn við þetta allt saman er að rökin fyrir því að sameina bankana tvo, Arajón og Jónárna hafa styrkst til muna enda eigum við varla hæft fólk nema til að reka einn banka sómasamlega.
24.12.2009 | 10:08
Jólahugvekja um siðblindu
Nú þegar jólin ganga í garð er ef til vill gott að staldra við og íhuga hvers vegna jólaboðskapurinn og kristileg gildi eru orðin lítið annað en stofustáss í okkar þjóðfélagi. Græðgi, frekja, svik og prettir hafa heltekið okkar samfélag. En hvað er hér á ferð? Margt bendir til að við höfum lent í klónum á siðblindum hópi stjórnmálamanna og viðskiptajöfra sem svífast einskis til að koma sínu fram. Ef svo er, er það ekki hugmyndafræðin eða mennirnir sem hafa brugðist heldur höfum við orðið fórnarlömb alvarlegra persónuleikaröskunar.
Nanna Briem skrifar grein um siðblindu í Geðvernd, tímarit Geðverndarfélags Íslands. Það rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar maður les þessa grein og hún veitir ótrúlega innsýn inn í þau sjúku viðhorf og gildi sem einkenna siðblindu og virðast þrífast vel í okkar samfélagi.
Ég leyfi mér að vitna hér aðeins í grein Nönnu. Lýsingin á einkennum siðblindra er sláandi:
"Vægðarlaust ryður hann sér braut gegnum lífið og skilur eftir sig slóð af brostnum hjörtum, væntingum og tómum veskjum. Hann svífst einskis í eigin þágu, enda samviskulaus og ófær um að setja sig í spor annarra. Reglur mannlegra samskipta og samfélagsins eru fótum troðnar án minnstu sektarkenndar eða eftirsjár.
Með dáleiðandi persónutöfrum dregur hann fórnarlömb sín á tálar en undir niðri er kaldlyndur svikhrappur, sem ráðskast með fólk á lævísan hátt og tekur ekkert tillit til tilfinninga annarra. Hann er ófær um eðlilegt tilfinningalegt samband við aðra manneskju. Þegar það hentar þykist hann vilja breyta sér eða bæta, en í raun er það lítið annað en leikaraskapur
Mest áberandi eiginleikar siðblindra geta verið persónutöfrar og sjálfsöryggi sem eru frekar jákvæðir eiginleikar. Fólk fellur oft fyrir siðblindum við fyrstu kynni, en áttar sig fyrst seinna á dökkum hliðum persónuleikans."
Nanna bendir á rannsóknir sem sýna að siðblinda er þrisvar sinnum algengari hjá fólki í stjórnunarstöðum en í almennu þýði. Þá virðist siðblinda þrífast vel í opnum og fámennum samfélögum þar sem reglur og eftirlit eru af skornum skammti. Viðskiptaheimur sem byggir á hraða, skilvirkni, einföldum strúktúr og skjótri ákvarðanatöku er að mörgu leiti berskjaldaður fyrir siðblindum. Eða eins og Nanna segir: "Fyrirtækin líta í hina áttina ef harðsvíruð og siðlaus aðgerð er arðbær, verðlauna hana jafnvel. Þeir sem auka gróða fyrirtækisins eru gerðir að stjörnum, þó að aðferðirnar hafi verið mjög áhættusamar og jafnvel siðlausar. Við slíkar aðstæður standa allar dyr opnar hinum siðblindu."
Og hvernig losa þjóðfélög sig við siðblinda? Með því að afhjúpa og lögsækja hinu seku þar sem það á við. Hinn siðblindi gerir sér aldrei grein fyrir að hann eigi neinn þátt í þeim skaða sem hann hefur valdið, allt er öðrum að kenna.
Gleðileg jól.
22.12.2009 | 08:34
Venesúelavæðing Íslands
Ef við hefðum ekki okkar yndislegu veðráttu gæti þjóðmálaumræðan bent til að Ísland væri eyja fyrir utan strönd Venesúela, einskonar Isla Margareta.
Morgunblaðið gæti allt eins verið málgagn Hugo Chavez, enda er allt útlendingum að kenna. Allt innlent er gott og allt útlent vont. Utanríkisstefnan byggist á hræðsluáróðri. Fyrir þá sem hafa sagt upp mogganum birti ég hér brot af leiðara dagsins í dag. Innihaldið þarfnast engra skýringa:
"Einkavæðing bankanna var opið gegnsætt ferli. Þar sátu allir við sama borð og allir vissu hverjir eignuðust bankana. Og ekki varð annað séð en að fáeinum árum síðar væru þeir aðilar vinsælustu
menn landsins og helstu viðhlæjendur þeirra hinir sömu og nú þykjast hafa séð allt fyrir en þögðu þá þunnu hljóði af enn óupplýstum ástæðum. En ef sú einkavæðing endaði illa, hvernig halda menn að sú sem nú hefur verið stofnað til fari? Nú veit enginn annað en að hrægömmum hafi verið fengið forræði banka, sem hafa íslenskt atvinnulíf í hendi sér og eru með innistæðueigendur sem ríkið segist munu ábyrgjast."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2009 | 22:07
Ekkert nýtt hjá Mishcon de Reya
Það var fyrir löngu ljóst að að vextir á Icesave miðuðust við að Ísland væri í 100% órétti í þessu Icesave máli. Vextir upp á 4.25% hefðu verið eðlilegri eins og ég skrifaði um í júní hér.
Álit þessarar dýru lögmannsstofu er eins og að Alþingi fengi erlenda ráðgjafa til að lesa á klukkuna í Alþingishúsinu. Augljóst en dýrt.
Ekki er öll vitleysan eins.
Icesave-samningur hvorki skýr né réttláttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.12.2009 | 08:48
Lengi getur vont versnað
70% þjóðarinnar vill fella Icesave og stór hluti vill ekki aðkomu útrásarvíkinga að endurreisninni eins og umræðan um Verne Holding sýnir. En það er ekki bæði haldið og sleppt.
Það er ekki hægt að fella Icesave og senda gamla gengið burt. Nei, fall Icesave verður eins konar syndaaflausn fyrir útrásarvíkinga eins og Jón Ásgeir og Björgólf. Þeir munu skála í kampavíni ef þingið fellir Icesave. Hvers vegna? Jú því þá verða þeir einir um hituna í uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Erfitt er að sjá af hverju útlendingar ættu að koma með sitt fjármagn hingað til lands ef arður og afborganir eru ákveðnar í vinsældarkosningum á netinu.
Hins vegar mun þetta opna gáttina fyrir fjármagn af vafasömum uppruna í "eign" útrásarvíkinga. Í krafti einokunaraðstöðu sinnar mun endurreisn útrásaraflanna verða undraverð og eftir nokkur ár hugsa menn hvaða rugl var þetta 2009 þegar fólk ætlaði að senda þessu "fínu pappíra" í tætarann!
Útiloka ekki að Icesave verði hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)