Forsetinn skrifar undir Icesave

Það eru engin fordæmi fyrir því að forseti lýðveldisins taki fram fyrir hendur Alþingis eða framkvæmdavaldsins í utanríkismálum.  Það er ekki forsetans að marka utanríkisstefnu landsins og nú þegar Alþingi, sem kosið var á þessu ári, hefur samþykkt Icesave er málið afgreitt og besta að snúa sér að uppbyggingu atvinnuveganna.

Allar höfuðlínur í þessu Icesave máli lágu fyrir í stjórnartíð Geirs Haarde og því er spurningin hvers vegna var þetta ekki kosningamáli fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor, heldur eftir?  Hver matreiðir mál og skoðanir ofan í landsmenn?

Ef það er eitt sem þetta Icesave mál hefur sannað þá er það hin aldnagamla viska að þeir sem halda um upplýsingarnar halda um völdin.  

 


mbl.is Fá fund eftir ríkisráðsfundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta er nú ekki alveg rétt túlkun hjá þér á því sem ég geri ráð fyrir að sé túlkun Jóns Baldvins á lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur í Dannmörku sem dæmi.

Þar segir að þjóðaratkvæðagreiðslur skuli ekki fara fram um álitamál er varða gildandi milliríkjasamninga. Í fyrsta lagi er þetta ekki gildandi samningur en sem komið er, í öðru lagi er þetta ekki milliríkjasamningur.

En á persónulegri nótum, þá verð ég að velta fyrir mér af hverju þér finnst að þetta hefði átt að vera kosningamál fyrst að þetta má ekki fara í þjóðaratkvæði?

sandkassi (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 11:06

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Fellur þetta undir utanríkisstefnu landsins? Þetta var frumvarp um skilyrðislausa uppgjöf fyrir Bretum, en ekki um ríkisábyrgð. Það var búið að veita hana á Alþing 28. ágúst, lögin um það tóku gildi 3. september.

Hvers vegna var þetta ekki kosningamál? spyrð þú.

IceSave var ekki fyrirferðarmikið í kosningabaráttunni. Í meðferð málsins nú hefur komið fram að stjórnarmenn höfðu miklar upplýsingar um málið í mars. Þær komu ekki fram í aðdraganda kosninga, en kosið var í lok apríl. Þegar gögnum er haldið leyndum og málflutningur er á skjön við staðreyndir er varla hægt að kenna kjósendum um að hafa ekki kosið um IceSave í apríl.

Þetta IceSave mál hefur verið gengdarlaust klúður frá upphafi til enda. Stærsta klúðrið er þó samþykkt laganna í gærkvöldi.

Haraldur Hansson, 31.12.2009 kl. 11:37

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Þetta er nú svolítið flóknara en svart og hvítt.  Það er ekki alltaf hægt að segja að beint lýðræði sé alltaf betra en fulltrúa lýðræði og öfugt.  Reynsla annarra þjóða svo sem Svisslendinga og Kaliforníubúa af beinu lýðræði er umhugsunarverð.  Það hefur t.d. sýnt sig að það er mjög erfitt að ná fram skattahækkunum með þjóðaratkvæðagreiðslu og svo eiga minnihlutahópar oft mjög erfitt að sækja fram sín málefni í þjóðaratkvæðagreiðslu og eru bænaturnar múslima í Sviss gott dæmi um það.

Hins vegar leiða spilltir og ótraustverðir fulltrúar stjórnmálaflokkanna til beins lýðræðis en það gerðist t.d. í Kaliforníu.

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.12.2009 kl. 11:49

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Haraldur,

Það er einmitt málið, hver hélt þessum gögnum leyndum fyrir kosningar og í hvaða tilgangi.  Þarf ekki að svara þessum spurningum líka og sjá til þess að svona lagað komi ekki fyrir aftur?  Það getur verið einni þjóð dýrt að hafa ekki alvöru fjölmiðla og rannsóknarblaðamenn.    

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.12.2009 kl. 11:54

5 identicon

Reyndar var þetta kosningamál, Þráinn B. var kosinn gegn þessu máli, einnig Atli Gíslason. Ef að menn hefðu staðið við sín heit í gærkvöldi, þá hefðu málin fallið öðruvísi í gærkvöldi.

Nei, þetta er ekki svart hvítt, né eru efnahags og endurreisnarmál okkar jafn svart hvít eins og þú leggur upp Andri Geir. Ég sé bara engin rök hjá þér önnur en þau að hættan sé á misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum.

Það á bara ekki við í þessu máli, aftur á móti hefur þingleg meðferð verið í hæsta máta óeðlileg, síðast í gærkvöldi hlustaði ég á forsætisráðherra færa rök fyrir máli sínu á þann veg að ef að mat hefði verið fengið á afleiðingum þess að greiða ekki Icesave, þá væri engum blöðum um að fletta hvernig slíkt mat hefði hljómað.

Hverslags talsmáti er þetta í samfélagi siðaðra manna? Ég bara spyr, ég verð að óska eftir því að menn færi rök fyrir máli sínu í stað þess að alhæfa, en alhæfingar eru þykja ekki marktækar í minni heimasveit.

sandkassi (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 12:39

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Ég skil ekki hvernig einhliða þjóðaratkvæðisgreiðsla leysir alþjóðadeilu.  Ef við ætlum að fara með Icesave í þjóðaratkvæði hver endar það?  Eiga fjárlög að fara einnig í þjóðaratkvæði?  Hvað fer fyrir Alþingi og hvað fyrir þjóðaratkvæði?  Hvaða stöðu hefur Forsetinn?  Er hann pólitískur eða sameiningartákn?  

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.12.2009 kl. 14:41

7 identicon

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að skjóta þessu á dreif með þessum hætti, fjárlög í þjóðaratkvæði? Alls ekki, bara alls ekki.

Forsetinn er náttúrulega æðsti embættismaður þjóðarinnar í þessu máli og ber honum skylda til að sjá til þess að mál fari ekki um hans hendur sem brjóta stórlega á þjóðinni. Ég hef fulla trú á því að hann muni ekki skrifa undir, enda á hann ekki að gera það.

Spurningin um hvort Forsetin sé "pólitískur eða sameiningartákn", þá hefur hann visst stjórnarskrárbundið pólitískt vald í þessu efni, það þarf því ekkert að velta því fyrir sér, nema að menn vilji breyta stjórnarskránni. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að embættinu er veitt þetta vald, nefnilega og meðal annars, til að koma í veg fyrir það að stjórnmálamenn og mögulega hagsmunaaðilar, fari offari í störfum sínum og misnoti vald sitt.

Nú eru mjög mörg merki þess á lofti að einmitt misnotkun valds ráði hér för, ég bind því miklar vonir við Ólaf.  

sandkassi (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 16:21

8 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Annað hvort eru menn fylgjandi auknu beinu lýðræði eða ekki. Stjórnvöld eiga ekki að geta valið hvað fer fyrir beint lýðræði og þjóðin hefur ekkert að gera með að kjósa um léttvæg mál sem engu skipta. Það eru stóru málin sem einmitt eiga að koma til þjóðaratkvæðagreiðslu, málin sem ætla að kljúfa þjóðina, þá talar þjóðin og málið er á hreinu og hún tekst á við afleiðingar af ákvörðun sinni. Það er skítalykt af því að þessir flokkar sem eru í Ríkisstjórn og hafa boðað beinna lýðræði skuli nú skyndilega ekki treysta þjóðinni. Vald þeirra kom frá þjóðinni og þau fengu hana með loforðum um að stefna í allt aðra átt. Þetta er því svikavald. Þjóðin á að fá að leiðrétta stefnuna ef henni finnst gróflega á sér troðið.

Mér finnst einnig ódýrt hjá Jóhönnu að segja að ef um væri að ræða kostningar um skatta myndi þjóðaratkvæðagreiðsla ekki virka. Bull er þetta! Þjóðin kýs á hverjum degi að greiða það sem henni ber, greiðir fyrir mat, húsaskjól, lán o.s. frmv. Þjóðin er ekki fífl eða samsett úr eintómum börnum. Þjóðin er samsett úr einstaklingum eins og mér sem lít svo á að það að fá að kjósa um Icesave geti skorið úr um hvort ég telji mér og fjölskyldu minni vært á Íslandi næstu árin eða ekki.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 31.12.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband