Icesave fellir OR

Miklar líkur eru á að OR verði fyrsta fórnarlamb Icesave klúðursins.  Aðgangur að erlendu fjármagni til endurfjármögnunar er að mestu lokaður vegna Icesave en endurfjármögnunarþörf OR er slík að skynsamlegt er að gera ráð fyrir greiðslufalli við núverandi aðstæður.

Hvernig fyrirtæki í eigu borgarbúa sem hefur það að aðalstarfi að selja íslenska orku til Íslendinga gat komist í þessar aðstæður er óskiljanlegt. 

Það er jafn óskiljanlegt að engin óháð og sjálfstæð rannsókn sé í gangi sem kasti ljósi á hvað fór úrskeiðis hjá OR?

Greiðslufall OR mun sannfæra marga að Íslendingar séu ekki færir um að stjórnar fjármögnun á beislun sinnar eigin orku.  Þar mun þessi ólánskynslóð Íslands ná nýjum lágpunkti.


mbl.is Borgin gerir áhættumat vegna OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið kaþólska Ísland lifir enn

Einn sorglegasti boðskapur um þessa Páska barst frá Páfagarði.  Hinn háttvirti kardínáli Angelo Sodano, hægri hönd páfans, lét þau orð fall í sínum boðskapi í Péturskirkjunni í Róm, að kynferðisofbeldi gagnvart börnum innan kaþólsku kirkjunnar væri "ómerkileg kjaftasaga".  Þetta varð auðvita stórfrétt og aðalfréttin í mörgum fjölmiðlum um allan heim um þessa páskahelgi.

Ég ætla ekki að gera ofbeldi gagnvart börnum innan kaþólsku kirkjunnar að efni hér, en viðbrögð kirkjunnar og þá sérstaklega Páfagarðs eru umhugsunarverð sérstakleg þegar þau eru borin saman við viðbrögð hér á landi um og eftir hrun.  Auðvita er hin sorglega krísa kaþólsku kirkjunnar mun alvarlegri og umfangsmeiri en efnahagskrísan á litla Íslandi, en það er ákveðinn samhljómur í viðbrögðum valdsmanna á Íslandi og í Vatíkaninu sem er athyglisverður.

Í Vatíkaninu gengur allt út á að þagga hlutina niður og vernda Páfann og kardínálana.  Ekki má persónugera vandann og alls ekki má ræða aðgerðir eða heldur aðgerðaleysi núverandi Páfa þegar hann var kardínáli.  Engir háttsettir aðilar innan kirkjunnar hafa þurft að segja af sér eða verið dregnir fyrir dóm.  Prestar og biskupar sem sitja undir grun eru einfaldlega fluttir til.

Aðgerðaleysi og varnarstaða kaþólsku kirkjunnar minnir á margt um viðbrögðin á Íslandi um og eftir hrun.  Allt gekk út á að vernda "kardínála" Íslands, ekki mátti persónugera vandann. Í augum margra er kaþólska kirkjan rúin trausti og trúverðugleika.  Erfitt er að sjá hvernig Vatíkanið getur eitt og óstutt komist út úr þessari krísu.  Varla mun umheimurinn taka eina skýrslu unna af Vatíkaninu sem fullnægjandi grunn að nauðsynlegum umbótum.  Ætli hið sama gildi ekki hér?

Íslensk skólabörn læra að siðaskipti hafi orðið hér 1550 þegar Jóna Arason biskup var líflátinn.  Þau siðaskipti náðu aðeins til kirkjulegs valds.  Er ekki kominn tími til að siðaskipti verði í hinum veraldlega valdsheimi Íslands?  

Þar þarf sjálfstætt og óháð stjórnlagaþing að leggja grunninn að nýrri stjórnarskrá. 

Munu hinir íslensku "kardínálar" leggja blessun sína yfir slíkt? 

 

 

 


Er lýðræði orðið lúxus á Íslandi?

Að vinstri stjórn skuldi banna verkföll með neyðarlögum þegar engin neyð er sýnileg er vægast sagt sorglegt.

Sú staðreynd að þingið skuli samþykkja þetta á nokkurrar umræðu eða mótmæla sýnir undirlægjuhátt þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.

Dómsvaldið er næsta ósýnilegt og íslenska stjórnarskráin virðist harla gagnlaus þegar kemur að varðveislu almennra mannréttinda einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu.

Rótgróin lýðræðisríki nota ekki neyðarlög nema í neyð en á Íslandi er þetta að verða eitt helsta stjórntæki framkvæmdavaldsins.

Hvers konar lýðræði búum við við?   Á enginn að setja framkvæmdavaldinu mörk?

Þrískipt lýðræði virðist jafn fjarlægur draumur í dag eins og í gær. 

 


mbl.is Lög á verkfall flugvirkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pálmi í Fons býður Bretum upp á niðurgreidda flugmiða!

Bretar fá ekki Icesave greitt en geta þó alltaf huggað sig við að Pálmi í Fons lætur Íslendinga niðurgreiða farseðla fyrir þá frá London til New York. 

Á vefsíðu Iceland Express fæst þetta dæmi um verð sem segir sína sögu:

Frá London til New York kostar fargjaldið 66.825 kr en frá Keflavík til New York á sömu dögum (7. júní út og 21. júní til baka) er verðið 66.090 kr.  

Sem sagt, Tjallinn flýgur frá London til Keflavíkur á 368 kr hvora leið - skattar og allt innifalið. 

Nei gömlu útrásarvíkingarnir er enn samir við sitt og seilast í vasa landsmanna sem fyrr.

 

Ps.  Það sem vekur sérstaklega athygli í þessu dæmi eru skattar og gjöld á miða IE frá London til New York sem eru 16,320 kr. og hins vegar frá Keflavík til New York sem eru 15,010 kr..  Skattar og gjöld á milli London og Keflavíkur eru einmitt 16,320 kr.  Ef jafnræðisreglan gilti borguðu allir farþegar sömu skatta og gjöld en hjá IE eru Bretar jafnari en Íslendingar.  Spurningin er hver borgar 15,010 kr  skatta og gjöld á flugleiðinni Keflavík til New York þegar Bretar fljúga frá London til New York?


Realpólitíkus

Það er ósköp eðlilegt að Steingrímur hafi orðið að skipta um skoðun og það oftar en einu sinni.  En það gerir hann betri stjórnmálamann en ekki verri.  Í þeim ólgusjó sem þjóðarskútan nú siglir í gegnum þarf oft að skipta um kúrs til að halda fleyinu á floti.  Það veit Steingrímur eins og allir góðir skipstjórar.

Það er auðvelt fyrir þá sem lúra niðri í kojum að gagnrýna þá sem standa í brúnni, en gætu þeir gert betur? 


mbl.is Steingrímur skiptir um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra tilkynnir endalok norrænnar heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisráðherra tilkynnir enn meiri niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og segir: „Þau munu krefjast mjög stífrar forgangsröðunar um það hverjir eiga að fá tiltekna þjónustu og hverjir ekki.“

Hér með er horfið frá þeim heilbrigðisþjónustugildum sem við og hin Norðurlöndin hafa fylgt um langan tíma og byggir á að allir eigi kost á bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á eins og stendur í heilbrigðislögum.

Þeir sjúklingar sem ekki fá þjónustu hjá ríkinu eiga engra kosta völ því flokkur heilbrigðisráðherra neitar að opna heilbrigðismarkaðinn fyrir einkaspítala og prívat sjúkratryggingar.  Er hugmyndafræðin mikilvægari en aðgangur sjúklinga að heilbrigðisþjónustu?

Eru það ekki almenn mannréttindi að eiga rétt á aðgangi að heilbrigðisþjónustu?  Er hægt að banna fólki að borga fyrir læknisþjónustu ef ríkið neitar að borga?

Er ekki betra að leyfa fólki að borga fyrir þjónustu eða leyfa góðgerðastofnunum og tryggingarfélögum að hjálpa fólki en að tilkynna að sumir sjúklingahópar einfaldlega fái ekki þjónustu?

Stefna Vinstri grænna í heilbrigðismálum þarfnast endurskoðunar áður en mannslífum er stefnt í voða. 


Deutche Bank notar Actavis til að fá betra verð fyrir Ratiopharm

Tæknilega séð er Deutche Bank eigandi af bæði Ratiopharm og Actavis á þeim grundvelli að sá sem á skuldirnar á eignirnar.  Bankinn fer því með fjárræði yfir báðum fyrirtækjunum og aðalmarkmið hans er að reyna að fá sem mest upp í skuldirnar og góð sala á Ratiopharm er því mikilvæg.

Tilboð Actiavis í Ratiopharm var sölubrella af hálfu Deutche Bank til að þvinga fram hærra kauptilboð frá samkeppnisaðilum.  Actavis hafið ekkert með þetta að segja enda í engu standi til að fjármagna yfirtökur af þessari stærð.  Hótun Deutch Bank um að sameina Actavis og Ratiopharm og taka til sín hlutaféð hefði gert þeim sem vilja kaupa Ratiopharm en ekki Actavis erfitt fyrir höndum og það vissi bankinn. 


mbl.is Teva sagt fá að kaupa Ratiopharm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað olli hruninu? Hugmyndafræðin eða útfærslan?

Það var ekki hugmyndafræðin sem brást heldur útfærslan.

Kapítalísk hugmyndafræði er ekki sökudólgurinn heldur íslensk útfærsla á honum.

Íslenskur sósíalismi af gamla skólanum leysir ekki vandann.

Fátt mun tefja meir fyrir uppbyggingu hér á landi en ofuráhersla á hugmyndafræði og endalaust þras þar um.

Það sem landsmenn þurfa eru praktískar lausnir sem hægt er að hrinda hratt og örugglega í framkvæmd.

Reynsla, þekking og hæfileikar til að leysa vandamál og finna lausnir er það sem við þurfum umfram allt.

En þegar þessir hæfileikar eru af skornum skammti grípa menn til hugmyndafræðinnar og vona að í henni finnist töfralausnir.

Og hér er komið að rót vandans á Íslandi.  Innviðir íslenska stjórnkerfisins eru byggðir á hollustu við ákveðna hugmyndafræði en ekki hæfileikum og kunnáttu til að leysa vandamál.

Hin íslenska útfærsla á "nýfrjálshyggjunni" afhjúpaði spillt og vanhæft þjóðfélagskerfi sem var alls ekki í stakk búið að útfæra og innleiða svo viðamiði og flókið verkefni.  En er lausnin að hverfa aftur til úreltrar hugmyndafræði sem betur hylur galla íslenska kerfisins eða eigum við að breyta kerfinu?

Það er miklu viðameira verkefni að breyta kerfinu en hugmyndafræðinni.  Þá þarf nefnilega að taka á einstaklingum og þeirra hæfileikum og reynslu.

Framtíðarlífskjör landsmanna ákvarðast hins vegar af því hvora leiðina við förum.

--------

Athyglisvert verður að skoða áherslur Rannsóknarskýrslunnar í þessu efni.  Og ekki verður síður athyglisvert að skoða túlkun Morgunblaðsins á skýrslunni og niðurstöðum hennar.

 


Morgunblaðið horfir til fortíðar

Sú ákvörðun að aðskilja Morgunblaðið frá blogginu er einhver sú furðulegasta í blaðaheiminum í dag og verður seint talin góð út frá viðskiptalegum sjónarhóli.

Fjölmiðlar út um allan heim keppast við að nota nýja tækni til að tengja sig betur og nær lesendum sínum.  Fólk er hvatt til að segja sína skoðun á mönnum og málefnum.  Fréttaöflun er í sí auknu mæli að færast í hendur almennings sem er staddur þar sem atburðir gerast.  

Það er ekki hægt að stöðva tímann og hverfa til liðinnar aldar.  Morgunblaðið er hreinlega að grafa sína eigin gröf með svona strategíu. 


Kína og Ísland - lönd með veikan gjaldmiðil

Kína og Ísland eru ólík lönd.  Hins vegar eru bæði löndin með veikan gjaldmiðil, en af mismunandi ástæðum.  Líklega eru báðar þjóðirnar með gjaldmiðil sem er 25% til 40% undir réttu markaðsvirði.  Í raunveruleikanaum virkar þetta sem "skattlagning" á ríkisborgar þessara landa.  Allar innfluttar vörur eru dýrari en þær ættu að vera.

Íslendingar eru auðvita að borga fyrir skuldafen og fjármálaóreiðu sem á vart sinn líkan sem hefur leitt til vantrausts á getu Íslands til að halda upp alþjóðlega viðurkenndum gjaldmiðli.  Staðan er allt önnur í Kína.  Talið er að kínverski Seðlabankinn þurfi að kaupa dollara fyrir um 1 ma á dag til að halda júaninu niðri gagnvart dollaranum. Bandaríkjamenn eru auðvita ekki sáttir við þessa stöðu og margir þar telja að Kínverjar séu hérna óbeint að "niðurgreiða" sinn útflutning sem tefji fyrir atvinnuuppbyggingu í Bandaríkjunum og víðar.

Svo rakst ég á athyglisverða tölu um fasteignamarkaðinn í Kína sem er ansi heitur um þessar mundir.  Samkvæmt tímaritinu TIME eru aðeins 50% af fasteignakaupum í Kína fjármögnuð með húsnæðislánum.  Hinn helmingurinn er borgaður út í hönd.  Í Bandaríkjunum er um 90% af fasteignakaupum fjármögnuð með húsnæðislánum og líklega er þessi tala enn hærri á Íslandi.

Þau lönd sem hafa keypt allt á lánum hafa farið verst út úr þessari fjármálakreppu, því útbreiddari sem lánin eru því verr er staðan.  En hvað með framtíðina?  

Ólíklegt er að Ísland geti endurtekið í þriðja sinn þann sið að fjármagna fasteignakaup með lánum sem aðrir borga að hluta til á endanum.  Fyrir um 40 árum var það verðbólgan sem velti vandanum yfir á innlenda sparifjáreigendur og nú eru það skattgreiðendur og erlendir aðilar sem taka skellinn í formi skuldaniðurfellingar.

Margir úr síðustu tveimur kynslóðum á Íslandi hafa búið í stærra og betra húsnæði en fjárhagur þeirra gefur tilefni til.  Það sama á við um bíla.  Það má því búast við að næstu tvær kynslóðir verði að sætta sig minna og ódýrara húsnæði og bíla.  

Mikil eftirspurn verður eftir hagkvæmum 2ja og 3ja herbergja íbúðum á næstu árum en markaðurinn fyrir stór einbýlishús (og sumarhús) er mettaður næstu 20 til 30 árin nema að komi til raunverulegrar verðmætasköpunar í hagkerfinu sem getur staðið undir nýjum og dýrum húsum.

Eru íslensk sveitarfélög í stakk búin til að taka á þessari framtíðarsýn?

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband