Hinn hlýi norðanvindur

Þar sem norðanvindurinn er hlýr en sunnangolan köld, þar sem vindar blása réttsælis um lægðir og norðlægar strendur snúa á móti sól, þar er Ísland fjarlæg eyja.

Og þó.  Á einni paradísareyju í suðurhöfum þar sem sjórinn er alltaf ilvolgur og pálmar svigna yfir endalausum hvítum sandströndum, þar býr þjóð sem þekkir íslenskar raunir.

Þjóð sem á tímum Ingólfs Arnarsonar sigldi 3000 km yfir opið haf og nam land á fjarlægri eyju sem landnámsmenn nefndu Aotearoa.

Þjóð með mikla og merka fortíð, einhver mesta siglingaþjóð allra tíma sem vindar og straumar Kyrrahafsins gátu ekki grandað en var knésett af erlendum skuldum í lok síðustu aldar.

Þjóð sem lét glepjast af sterkum forsætisráðherra sem í krafti persónutöfra dreif í gegn fjárfestingarævintýri sem endaði með ósköpum.  Gjaldmiðilinn hrundi, opinber þjónusta var skorin niður um þriðjung og kaup lækkað um 65%.  Á næstu fimm árum á eftir flutti fjórðungur þjóðarinnar úr landi.  Stoðir heilbrigðiskerfis og menntakerfis hrundu.  Og nú 15 árum eftir hrunið er einn stærsti gjaldeyrisskapandi hluti hagkerfisins peningasendingar heim frá eyjaskeggjum sem fluttu úr landi. 

Íbúar og stjórnvöld á Aotearoa hafa reynst forfeðrum sínum vel.  Þeir hafa léð þeim sinn gjaldmiðil, reka nú innlenda og erlenda bankastarfsemi og hafa fjárfest gríðarlega í uppbyggingarstarfsemi síðustu 15 árin.  Hins vegar er menntakerfið ekki svipur hjá sjón og erfitt er að manna stöður lækna og hjúkrunarfólks.  En auðveldara hefur reynst að flytja inn láglaunafólk frá nágrannaeyjum til að manna sívaxandi ferðamannaþjónustu.

Íbúar á Rarotonga þekkja vel hvaða afleiðingar miklar erlendar skuldir geta haft fyrir lítið samfélag.  Saga þeirra er saga full af lexíum fyrir Ísland.  Saga hvernig lítil eyþjóð glatar sínu sjálfstæði smátt og smátt innan frá og hvernig erlend öfl, ill og góð fylla skarðið og skilja eftir þjóðfélag sem ekki er svipur hjá sjón. 

Rarotonga er stærst af svokölluðum Cook eyjum sem eru hluti af breska samveldinu og í frjálsu ríkjasambandi við Nýja Sjáland (Aotearoa) þar sem forfeður þeirra námu fyrst land fyrir meir en 1000 árum.  Samband þeirra við Nýja Sjáland bjargaði þeim frá algjöru gjaldþroti fyrir um 15 árum síðan.  En efnahagslegt hrun sem varð vegna ótæpilegra erlendra skulda hefur einnig stöðvað þeirra sjálfstæðisbaráttu og að mörgu leiti sett hana í bakkgír. 

Cook eyjar höfðu sinn eigin gjaldmiðil og seðlabanka en eftir hrunið neyddust þeir til að innkalla gjaldmiðilinn og taka upp nýsjálenskan dollar.  Í dag eru þeir algjörlega háðir frændum sínum í Nýja Sjálandi hvað varðar fjárfestingar og fjárhagsaðstoð. 

Cook eyjar hafa ekki enn treyst sér til að sækja um fulla aðild að Sameinuðu Þjóðunum.  Sumir álíta að það sé af ótta við að Nýja Sjáland skeri þá niður fjárhagsaðstoð til þeirra. 

Rarotonga er raunverulegt dæmi um hvernig skuldir skerða sjálfstæði lítilla eyja.

Verða mistökin á Rarotonga endurtekin í Reykjavík?

Mismunandi lagakerfi leiða til mismunandi túlkunar á Icesave

Margt bendir til að mismunandi lagakerfi og hefðir á meginlandinu og hins vegar Bretlandi og  Bandaríkjunum (civil law vs. common law) leiði menn til mismunandi túlkunar á Icesave.

Meginlandslöndin með sína frönsku lagahefð taka mjög ákveðna afstöðu byggða á þröngri lagatúlkun Íslandi í óhag (það er líka hægt að finna þrönga lagatúlkun Íslandi í hag eins og margir benda á hér á landi).  Bretar og Bandaríkjamenn með sína "common law" hefð sem byggir meir á fyrri dómum og miklu valdi dómara virðast túlka stöðuna öðru vísi.  Þeir líta á málið í víðara samhengi og hjá þeim ríkir mikil óvissa um hver ber ábyrgð í þessu máli og því telja þeir eðlilegt að málið fari fyrir dómstól.

Þetta þýðir að niðurstaðan gæti orðið Íslendingum í óhag fyrir hollenskum dómstól en í hag fyrir breskum.  Hér er að renna upp dómsmál aldarinnar.  Miklu skiptir hvernig haldið er nú á málum fari þetta fyrir dóm.

Evrópudómstólinn er kannski besta lausnin því þar, eftir því sem ég kemst næst, blanda menn saman frönskum og breskum lagakerfum og hefðum.  Lögmenn munu sækjast eftir að komast í þetta mál, en ekki verður þessi leið ókeypis fyrir íslensku þjóðina.

 


mbl.is Ber að vísa Icesave-málinu til Evrópudómstólsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pattstaða fyrir íslensk stjórnvöld

Ef marka má orð Wouters Bos að Hollendingar vilji bíða þar til eftir þjóðaratkvæðisgreiðslu er það mjög eðlileg afstaða þeirra en slæm niðurstaða fyrir ríkisstjórn Íslands.

Bretar og Hollendingar geta auðvita ekki haft frumkvæði af því að hefja nýjar Icesave viðræður núna, það yrði túlkað sem afskipti að innanríkismálum Íslands og að þeir væru að reyna að hafa áhrif á eða stöðva lýðræðislega þjóðaratkvæðisgreiðslu. Slíkt myndi aðeins skaða þeirra málstað.

Auðvita er best fyrir þá að bíða.  Ef Icesave er samþykkt er málið úr sögunni, en ef það er fellt þarf að setjast aftur að samningaborði og varla verður staða Íslands sterkari þá en hún er nú.  Hitt sem eflaust vefst fyrir Hollendingum og Bretum er hver hefur umboð til að semja fyrir hönd Íslands?  

Þeir vita sem er, að það er tímasóun að semja við sömu aðila og síðastliðið vor.  Líklega verður að finna milligöngumann sem allir sætta sig við og ekki síst Forseti Íslands.  Hins vegar er tíminn peningar og ef við endum í þessum farvegi er líklegt að samningar takist ekki fyrr en í lok 2010.  Það mun óneitanlega hafa mjög neikvæð áhrif hér á hagkerfið, ekki síst endurfjármögnun lána 2011.

Það er alveg sama hvernig litið er á þetta mál, kostnaður Íslands verður gífurlegur.  Það hlýtur að vera markmið allra að finna lausn sem lágmarkar þennan kostnað.


mbl.is Engar viðræðuóskir frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave arkitektinn í afneitun

Sjálfstæðismenn eru upprunalegir arkitektar að þeirri Icesave samningsyfirlýsingu sem Svavar reyndi að breyta og bæta eftir bestu getu.  Það má ekki gleymast að það var á vakt Árna Matt, fjármálaráðherra Sjálfstæðismanna sem grunnurinn fyrir samningaumleitanir við Breta og Hollendinga var lagður.  Á þeim grunni hafa menn neyðst til að byggja, öllum til mikillar mæðu.

Það er því skondið að heyra Bjarna afneita sínum eigin flokksmönnum opinberlega, þegar hann segir:

"Ég er ekki tilbúinn til að standa að viðræðum í þessu máli á þeim forsendum sem málið var leitt til lykta á"

Þetta er ótrúlega óábyrg afstaða og ótrúverðug. Halda Sjálfstæðismenn að þeir beri enga ábyrgð á hruninu eða Icesave?  Hvað segir þetta kjósendum um heiðarleika Sjálfstæðismanna?  Er þeim treystandi í framtíðinni?

Framsóknarmenn geta tekið annan pól í hæðina en Sjálfstæðismenn, enda ekki með sín fingraför út um allan samning.

Vandamálið er að kjósendur hafa ekkert langtímaminni.  Flestir vilja gleyma árinu 2008 og það hentar Sjálfstæðismönnum og útrásarvíkingum mjög vel.  Hitt mega Sjálfstæðismenn eiga, að þeim hefur tekist vel að koma Icesave klúðrinu yfir á Jóhönnu og Steingrím sem hafa verið of upptekin við björgunarstörfin til að standa í persónulegu skítkasti.

Þeir þrír flokkar sem ber siðferðisleg skylda til að leiða þetta Icesve til lykta eru Sjálfstæðismenn, VG og Samfylkingin.  


mbl.is Langur en rýr fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðsmaður skuldara en ekki sjúklinga

Lilja Mósesdóttir stingur upp á að stofnuð verði staða umboðsmanns skuldara til að hjálp fólki að finna réttar leiðir í sínum skuldamálum og er ekkert nema gott um það að segja.

En hvers vegna geta VG og aðrir flokkar ekki sett umboðsmann sjúklinga og aldraðra á sína stefnuskrá? 

Er heilsa landsmanna ekki eins mikilvæg og peningar?


Ókeypis vírusvörn - AVG 9.0

Fyrir þá sem vilja spara er til ansi gott vírusprógramm sem nefnist AVG.  Bresku neytendasamtökin Which? gefa þessu forriti góða umsögn.

Það má finna þetta forrit hér.

Og þegar kemur að ritvinnsluforritum er Openoffice ókeypis og alveg eins gott forrit og Microsoft Word.

Openoffice er hægt að finna hér.

Ég hef notað bæði þessi forrit í mörg ár og mæli eindregið með þeim fyrir þá sem vilja spara.


mbl.is Friðrik Skúlason lækkar verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjáin á milli Íslands og umheimsins dýpkar enn!

Gjáin á milli Íslands og umheimsins dýpkar og breikkar með hverjum degi sem líður og úti í Hádegismóum streða menn dag og nótt með haka og skóflu.  Enda lætur árgangurinn ekki á sér standa samanber leiðara moggans í dag, þar sem segir:

"Og þar koma vorir norrænu bræður við sögu og framganga þeirra er býsna ógeðfelld. Þeir segjast ekki lána Íslendingum nema „landið standi við alþjóðlegar skuldbindingar“. Engin dómsniðurstaða, enginn lögfestur samningstexti liggur nokkurs staðar fyrir um slíkar skuldbindingar. Samt láta norrænu stjórnvöldin sig hafa það að leggja til þumalskrúfurnar á Íslendinga og sjá einnig um hersluna."

Og svo að fólk átti sig á þeim svimandi gjábakka sem við stöndum á sagði Frans Weekers, þingmaður Íhaldsflokksins í Hollandi eftirfarandi, fyrir stuttu:

 „Ég er algjörlega búinn að fá mig fullsaddann. Það er ekki hægt að treysta Íslandi. Við virðumst vera nógu góð þegar þeir þurfa á peningum að halda en ekki þegar kemur að því að endurgreiða þá.“

Hvernig á að brúa þessa gjá sem íhaldsmenn beggja vegna dýpka og breikka? 


Viðvörun S&P ber að taka alvarlega

Viðvörum S&P um að miklar líkur séu á öðru efnahagslegu hruni og pólitískri stjórnarkreppu á Íslandi er alvarleg:

Iceland’s credit risk may rise “considerably” as the island faces the threat of a shelved emergency bailout and a government collapse, Standard & Poor’s said. “The risk is there that the program will fall apart and with that, the downside risks would increase very considerably,” segir Moritz Kraemer framkvæmdastjóri matsfyrirtækisins, Standard and Poor's í Evrópu.

Það sem er enn alvarlegar er að meirihluti landsmanna mun líkleg afgreiða þetta sem hræðsluáróður pantaðan af ríkistjórninni.  

Það er því varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að hlutirnir eigi eftir að versna hér verulega áður en þjóðin vaknar af sínum pólitíska dásvefni. 

Við erum nú á hraðleið að verða Argentína Norður Evrópu.  Ef menn halda að það sé fín og ódýrari lausn en Icesave ættu menn að staldra við.  Eftir 10 ár í efnahagslegri eyðimörk er Argentína að reyna að komast inn á alþjóðlega fjármálamarkaði. Þeir vona að vextirnir sem þeir fá verði aðeins um 9.5% en á síðustu árum hafa þeir þurft að borga um 15%.

Nú eru meðalvextir á erlendum lánum OR og LV um 3%.  Hvað halda menn að gerist ef þessir vextir fara upp undir 10% í endurfjármögnun 2011?  Og ef menn halda að Argentína sé ekki gott dæmi þá má benda á að Grikkland sem þarf nú að borga um 6% vexti af sínum erlendum lánum.  Ætli Ísland liggi ekki þarna á milli í besta falli.

Samanlagðar skuldir OR og LV eru um 600 ma kr. eða á svipuðu róli og Icesave.  

Væri nú ekki skynsamlegt að reikna út líklegan heildarkostnað fyrir þjóðfélagið af báðum möguleikunum: 1) samþykkja Icesave og 2) hafna Icesave.  Hvorugur er ókeypis.

-------

Og samkvæmt frétt Bloomberg er ekkert víst að Norðmenn munu lána okkur peninga óháð Icesave, sbr.:

The “common view” of Sweden, Norway, Finland and Denmark on the status of their $2.5 billion loan after Grimsson’s de facto veto of the Icesave bill is that continued disbursement of the loan “would require that Iceland complies with its deposit guarantee scheme obligations,” Dorte Drange, a spokeswoman at Norway’s Finance Ministry said in an e-mailed response to questions.

 

 

 


Þeir sem eiga skuldirnar eiga eignirnar

Ísland er að verða skólabókardæmi um hvað gerist þegar skuldir fyrirtækja verða óviðráðanlegar og stjórnir missa trúverðugleika.  Þá grípa lánadrottnar í taumana og taka völdin enda eru þeir hinir raunverulegu eigendur.

Svona fóru bankarnir, Fl Group, Samson, Eimskip, Icelandair, bílaumboðin og fjöldi annarra fyrirtækja.  Nú er komið að Exista, Bakkavör, Högum og Actavis.

Í raun má segja að lánadrottnar eigi meirihlutann af eignum á Íslandi.  Hversu mikið sjálfræði hefur maður þegar maður er ekki fjárráða? 


mbl.is Bræðurnir að missa Bakkavör?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bíða eftir að komast á biðlista

Ríkisútvarpið flutti þá frétt að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafi styst verulega og nú þurfi aðeins að bíða í nokkra daga eftir plássi.  Ekki er þetta vegna þess að þörfin hafi minnkað eða að rýmum hafi fjölgað, nei þessi viðsnúningur er vegna þess að vistunarmat er hert og skilgreining á biðlistum er breytt eftir þörfum hins opinbera.

Þetta þýðir einfaldlega að nú þurfa aldraðir að bíða eftir að komast á biðlista.  Þetta er svipuð rökfræði og bankarnir og Seðlabankinn notuðu fyrir hrun til að útskýra að allt væri í himnalagi á þeim vígstöðvum.

Vistunarmatið er síðan heilög niðurstaða þeirra aðila sem að því vinna.  Ef mistök eru gerð er ekki auðvelt að leiðrétta þau.  Á heimasíðu Landlæknis er því vinnuferli lýst sem fólk þarf að fara eftir ef það er ekki sátt við niðurstöðu nefndarinnar.  Það er ekki á færi nema fullfrísks fólks að standa í þeim bréfaskrifum og upplýsingagjöf sem Landlæknir krefst.  Þetta er ferli sem hentar þeim sem eiga aðstandendur sem eru vanir að formúlera skriflegar kvartanir og vísa í gildandi lög, enda virðist það aðeins á færi heilbrigðisráðherra að snúa vistunarmati við, eftir því sem ég best gat skilið af vefsíðu Landlæknis?  Einstæðingar sem eru aldraðir og heilsuveilir eiga enga möguleika á að sækja rétt sinn, praktískt talað.  Þeim er haldi í gíslingu kerfis sem er hannað fyrir embættismenn.

Í okkar velferðarkerfi er enginn sem fylgist með einstæðingum eða berst fyrir þeirra rétti.  Sú staðreynd að sjúklingar og aldraðir eiga sér engan umboðsmann segir sína sögu.  

Hér hafa stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir brugðist, þó ekki vanti yfirlýsingarnar um nauðsyn þess að standa vörð um velferðakerfið.  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband