Hin myrkva hlið krónunnar

Krónan er mikið töfratæki.  Án krónunnar hefði kreppan orðið erfiðari viðfangs hér á landi.  Krónan gefur stjórnvöldum mikið vald en því miður segir sagan okkur að fæstir íslenskir stjórnmálamenn kunna að fara með það vald. 

Léleg hagstjórn þrífst í skjóli krónunnar.  Alltaf er hægt að stóla á hana til að redda hlutunum, sem yfirleitt kallar á eignabruna og tilfærslur fyrir landsmenn, þetta er gjaldið sem þjóðin þarf að borga fyrir sjálfstæðan gjaldmiðil í höndum óvita.

Og enn kemur krónan okkur til bjargar.  Ljóst er að án krónunnar til að halda kaupmætti niðri og draga úr innflutningi til neyslu er erfitt að sjá hvernig við getum borgað af erlendum lánum.  Því er næsta öruggt að lág króna og höft eru hér til langframa, alla vega næstu 10 árin.  Excel skrá AGS sýnir þetta vel, útflutningstekjur okkar þurfa fyrst að fara til útlendinga og landsmenn fá síðan það sem afgangs er til að styrkja hagkerfið.  Þar munu útflutningsgreinarnar ganga fyrir.  Sá hluti atvinnulífsins sem notar gjaldeyri en skapar hann ekki, eiga litla von í framtíðinni.  Þar verður algjör stöðnun.

Íslendingar verða því að færa hagkerfið frá innlendu neysluhagkerfi yfir í útflutningshagkerfi.  Störfin verða að færast úr bönkunum og verslunarmiðstöðvunum yfir í frystihúsin og álverin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Þá er það blessaður landbúnaðurinn.  Hjá honum er allt innflutt nema bóndinn,kvikfénaðurinn , grasið og vatnið .... Svína og kjúklingaframleiðsla er öll með innflutt fóður ... En er gjaldeyrissparandi - sennilega..

Sennilega færumst við aftur til áranna fyrir 1960 en þá voru höft á öllum gjaldeyri og innkaupum.

Sævar Helgason, 9.12.2009 kl. 14:36

2 identicon

... því miður segir sagan okkur að fæstir íslenskir stjórnmálamenn kunna að fara með það vald.

Þremur línum neðar segir þú síðan að eignabruni og tilfærslur séu gjaldið fyrir sjálfstæðan gjaldmiðil! Hvort er það?  Ég hallast að fyrri skýringu þinni, að lélega hagstjórn megi rekja til þeirra sem stjórna en ekki gjaldmiðilsins. Tek hins vegar undir síðasta hluta færslunnar.

Haraldur (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 14:40

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Haraldur,

Þetta var ekki nógu vel orðað hjá mér.  á að vera "gjaldið fyrir sjálfstæðan gjaldmiðil í höndum óvita".  breyti þessu.  takk fyrir ábendinguna.  það er svona að vera að flýta sér.

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.12.2009 kl. 15:39

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sævar,

Ef ekki er vel haldið á spöðum eða við verðum fyrir öðru áfalli er líklegt að beita verði innflutningshöftum.  Vandamálið nú sem við höfðum ekki um 1960 eru öll þessi erlendu lán sem mun taka áratugi að greiða niður.  Næstu 10 árin telst gott ef við getum staðið við vaxtagreiðslurnar einar og sér.  Næsta kynslóð þarf að borga höfuðstólinn.

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.12.2009 kl. 15:48

5 identicon

Þakka þér fyrir þessa góðu færslu, þú ert einn af þeim örfáu sem sjá þessa hluti í réttu ljósi. Það þyrfti að loka Heimssýnarmenn inni í mánuð með tölvu með internetaðgangi sem hefur aðeins opið á þetta blogg. Kannski myndu þeir skilja hlutina og hætta að bulla.

Krónan er og á eftir að vera okkur rándýr í meira en einum skilningi. Kosta mikið og rífa í sig lífskjör okkar eins og rándýr gera.

Það hvílir þung sök á þeim sem bera ábyrgð á því að við sitjum uppi 320.000 manns með sérgjaldmiðil sem var látinn fljóta á 5-800 milljón manna markaði. Krónan er ekki meira virði en markaðurinn metur hana.

Réttast væri að senda Davíði Oddssyni og hyskinu í kringum hann eftirfarandi þrjá reikninga:

  1. Icesave-reikninginn.
  2. 300 milljarða lán Seðlabankans til hruninna banka.
  3. 6-700 milljarða lán frá nágrannaþjóðunum til að verja ónýta krónu.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 16:13

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Góður pistill Andri.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 9.12.2009 kl. 16:50

7 identicon

Gengisskráðning krónunnar er birtingarmynd vaxtahafta. Þegar eru margir farnir að fara úr innflutningsstörfum í útflutning. Menntamenn munu eiga erfitt með að finna störf við hæfi. Háskólinn og æðri mennatstofnanir hafa látið undir höfuð leggjast að kenna rekstur og stofnun útflutningsfyrirtækja. Aðlögunarhæfni  Íslendinga er ótrúleg, en vandamál framtíðar er krónan. Strax og rofnar til er hætta á að krónan leggist á sveif með innflutningi. Eina vonin er að menn í viðskiptum taki einhliða upp evru eða dollar. Taki völdin af svifaseinum stjórnvöldum og ASÍ. Gjaldeyrisbrask og höft er fylgifiskur reglugerða sem ganga ekki um.Læt hér fylgja athyglistverðan pistil frá Last Strand á Eyjunni:Enn og aftur kemur í ljós að bókvitið verður ekki askana látið og eru við nú að súpa seiðið af því, mæli með því að stórlega verði dregið úr framboði á gagnlitlu námi eins og lögfræði, sagnfræði, heimspeki, hagfræði, viðskiptafræði, stjórnmálafræði og siðfræði (og öllu öðru gagnlausu námi), allt framhaldsnám í þessum greinum verði gert gjaldskylt.
Mergur málsins er að það er ekki öll menntun góð fyrir þjóðfélagið allt of stór hluti af menntun er byrði á þjóðfélaginu og kallar á endalausa framleiðslu af ríkisstörfum.
Hluti sparnaðar sem fæst með því að stórlega draga úr óþarfa námi megi nota til að efla raungreina og iðnmenntun, tryggja kjör lækna og hjúkrunarfólks, ríkið losi sig við megin þorrann af sínu útbólgna bókvitsapparati og komi á endurhæfingu fyrir margar af þessum liðónýtu stéttum.Það mun verða gríðarleg blóðtaka á Íslensku þjóðfélagi þegar unga fólkið okkar hrökklast af landinu á næstu árum í leit að betri afkomi fyrir sig og sína annars staðar, við eigum að hafna öllum kúgunum AGS og Svía, Breta og Hollendinga sem mun einfaldlega eyða Íslandi sem þjóð þegar til lengri tíma er litið.

sigurrafn (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 18:47

8 Smámynd: Baldur Hermannsson

Áhugaverð greining hjá þér, en munu ekki erfiðleikar Evrópusambands-ríkjanna breyta einhverju. Sá dagur gæti komið að fleiri gjaldmiðlar verði veikir en sá íslenski.

Baldur Hermannsson, 9.12.2009 kl. 19:52

9 identicon

Satt segirðu! Fávitar í fjármálum hafa lengst af stjórnað þeim málum. Og alltaf er níðst á almenningi. En ég er ekki sammála endirnum: ...fara yfir í frystihúsin og álverin. Frystihúsin eru OK en ég vil ekki sjá meira ál. Álæðið tröllríður íslenskri pólitík.

HF (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 20:08

10 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

HF,

Þetta þurfa ekkert að vera álver, ég nota frystihús og álver sem samnefnara fyrir útflutning okkar.  Meginatriðið er að skaffa gjaldeyri.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.12.2009 kl. 20:40

11 identicon

Það er klisja að halda því fram að krónan hjálpi okkur í kreppunni. Án hennar hefði kreppan aldrei orðið svona djúp; án hennar væri ekki verðbólga, ekki gjaldeyrislán, ekki verðtrygging. Með henni verður erfitt að ná stöðugleika í hagkerfið, ná hingað erlendri fjárfestingu og halda í öflug fyrirtæki.

T. (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 21:03

12 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

T.

Auðvita er þetta rétt hjá þér, en þegar maður er með óvita við stjórn bjargaði krónan okkur frá algjöru hruni þegar allt var komið í óefni.  Það þarf nefnilega sterk bein og kunnáttu að ráða við alvöru gjaldeyri. 

Krónan bjargar stjórnvöldum frá erfiðum ákvörðunum.  Krónan á einu augabragði felldi kaupmátt og eignir fólks.  Í Lettlandi þurfti að lækka laun og taka mjög erfiðar ákvarðanir þar sem þeir vildu ekki fella sinn gjaldmiðil.  

Krónan er tímabundið töfratæki óvitans.

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.12.2009 kl. 21:25

13 identicon

Lofaðir séu stjórnmála- og embættismenn okkar sem ráða yfir henni hátign íslensku krónunni og nota hana trekk í trekk til að hirða af okkur kauphækkanir sem okkur tekst af harðfylgi fyrir tilstuðlan okkar háæruverðugu stéttarfélagsleiðtoga að kreista undan blóðugum nöglunum á kvölurum okkar. Sannarlega er gott og maklegt að kyssa á vöndinn.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 21:32

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Störfin verða að færast yfir í frystihúsin og álverin."

Það hefur margoft komið fram að þótt sex risaálver yrðu reist sem notuðu alla orku landsins myndu aðeins 2% af vinnuaflinu fá vinnu í þessum álverum.

Og þótt allur fiskurinn yrði unninn í frystihúsunum er varla að sjá að fleira fólk fengi vinnu þar.

Óskin um "algera stöðvun" á öðrum vinnustöðum en þessum er ósk um að færa Ísland aftur um hálfa öld.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2009 kl. 22:45

15 identicon

"Krónan er töfratæki óvitans"

Er þetta ekki það spakmæli er stendur upp úr í þessari umræðu?

Held reyndar að þetta töfratæki sé ekki tímabundið og verði hér notað á þessu landi um langa framtíð, enda óvitar á ferð.

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.12.2009 kl. 23:53

16 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ómar,

Þetta er rétt athugað hjá þér og er efni í nýja færslu.  Málið er að við erum ekki farin að ræða hvernig við ætlum að umbylta okkar atvinnuvegum til að ná þessum markmiðum Seðlabankans og AGS.

Við verðum að fara að marka okkur framtíðaratvinnustefnu sem nýtir okkar mannauð og græna orku.  Háskólamenntað fólk verður í meira mæli að fara í gjaldeyrisskapandi störf.  Við verðum að fara að taka að okkur fleiri verkefni erlendis frá.  Þar getur okkar græn orka gefið okkur forskot og orðið okkar helsti sölupunktur.

Allar okkar nágrannaþjóðir hafa mannauð en fáar græna orku eins og við.  Að láta alla þessa orku fara í álver á sama tíma og við háskólamenntum stóran hluta þjóðfélagsins gengur ekki upp.

Andri Geir Arinbjarnarson, 10.12.2009 kl. 07:58

17 identicon

Norðmenn fóru þá leið á sýnum tíma að endurskipuleggja meginn atvinnustefnu sína á þann veg að hún fór úr hefðbundnum hrávörugeira yfir í hátæknistörf.

Ástæðan var einföld. Kaupmáttur launa í Noregi er og var það hár að fyrri atvinnustefna leyfði ekki óbreytta nálgun.

Veit að mörgum finnst hundleiðinlegt að þurfa að bera sig saman við nágrannaþjóðirnar en það er hins vegar kórrétt hjá þér Andri að við verðum að breyta atvinnustefnunni úr hrávöru og þjónustudrifnu hagkerfi yfir í útflutnings miðað hagkerfi. Í þessu felst að við verðum að draga úr vægi verslunar og þeim hluta ríkisins sem mætti mögulega nýta á annan veg. Kjarna starfssemi ríkisins á að vera heilbrigðis og menntamál. Annað verður einfaldlega að mæta afgangi fyrst um sinn.

Íslendingar búa hins vegar yfir ótrúlegum sveigjanleika sem sést nú þegar á örfáum mánuðum. Flestir eru nú orðnir þegar útflutningsmiðaðir, ólíkt því sem áður var.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband