11.4.2009 | 09:23
Er peningamálastefna AGS í molum?
Lítið hefur verið rætt um AGS prógrammið sem Ísland er aðili að og hvort það sé að skila tilætluðum árangri. Það ætti að vera sérstakt áhyggjuefni kjósenda hversu undirgefnir allir flokkar virðast vera gagnvart AGS. Engar mótbárur eða umræður eru um aðgerðir og tilskipanir þeirra háu herra hjá AGS sem sitja skör hærra en okkar eigin ráðherrar. En hvað er að gerast?
Peningamálastefna AGS virðist í molum. 18% vaxtahækkunin sem sjóðurinn tilskipaði hefur ekki skilað árangri. Krónan er jafn sveiflukennd og veik og gjaldeyrishöft enn harðari. Eina sem þessir háu vextir hafa skilað er aukið atvinnuleysi og auknar vaxtagreiðslur erlendis. Svo virðist sem sérfræðingar AGS hafi ofmetið áhrif stýrivaxtahækkunar og vanmetið þolinmæði krónubréfshafa í því efnahagsástandi sem nú ríkir í heiminum.
Þetta er loksins að renna upp fyrir AGS en því miður ekki fyrr en skaðinn er skeður. Og nú er tíminn á þrotum svo krónunni verður að fórna til að hægt sé að bjarga "ríkisfjármála" stefnunni um hallalaus ríkisfjármál 2012. Til að svo megi verða verður að byrja einhvern hinn mesta niðurskurð í velferðakerfi Evrópulands sem sést hefur í seinni tíð. Samhliða þessu þarf að hækka skatta og því er nauðsynlegt að fórna krónunni og lækka vexti til að auka greiðslugetu heimilanna. M.ö.o hinar háu vaxtagreiðslur sem nú renna til fjármagnseiganda þurfa nú að renna til ríkisins og síðan til AGS sem vextir og endurgreiðsla.
Krónan og velferðakerfið verða fórnarlömbin. AGS þarf ekki að gæta pólitískra hagsmuna hér á landi og getur því beitt sér af hörku til að ná fram sínum markmiðum. Það eina sem skiptir máli er að AGS sýni "eigendum" sínum að þeir gæti peninga þeirra vel og að lönd í þeirra gæslu hagi sér samkvæmt samþykktu prógrammi. Þannig eru starfsmenn AGS einnig að slá skjaldborg um sinn eigin starfsframa og eftirlaun.
Það er með ólíkindum að AGS skulu ekki vera eitt af helstu kosningamálum fyrir þessar kosningar. Engin stofnun mun ráða meir um velferð og efnahag heimilanna á landinu á næstu árum en einmitt AGS.
Hins vegar má líta svo á að það skipti litlu máli hvaða flokkar myndi stjórn næsta kjörtímabil, hin raunverulegu völd liggja hjá AGS.
11.4.2009 | 07:03
Engin niðurstaða = engin atkvæði
"Engar ákvarðanir" er einhver sú versta niðurstaða sem þessi fundur gat komist að.
Ákvarðanafælni Geirs kom flokknum frá völdum og nú ætlar ákvarðanafælni Bjarna að koma flokknum frá Alþingi.
Enn sér ekki fyrir endann á tortímingarstefnu Sjálfstæðismann.
Forystuleysið virðist algjört.
![]() |
Framhaldið í höndum formannsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2009 | 06:47
Vandræðaleg yfirlýsing
Þessi "stuðningsyfirlýsing" er hin vandræðalegasta fyrir Sjálfstæðismenn og sýnir að þeir eru á skjön við nýjar kröfur kjósenda.
Málið er að þeir þingmenn sem stóðu vaktina í framvarðasveit Flokksins í aðdraganda hrunsins og styrkveitinga hafa tapa trausti og trúverðugleika kjósenda, alla vega óháðra kjósenda.
Það er aðeins eitt fyrir Guðlaug, Illuga og Þorgerði Katrínu að gera. Draga sig í hlé frá stjórnmálum í eitt kjörtímabil.
![]() |
Lýsa stuðningi við Guðlaug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2009 | 18:46
Segðu af þér Illugi
Staða Illuga er orðin vonlaus í Reykjavík. Hún var ekki beysin eftir Sjóð 9 hörmungina og ekki batnar hún eftir þessa yfirlýsingu. Illugi virðist alltaf koma af fjöllum og vita ekkert. Þetta er ekki beint traustvekjandi eða trúverðugt.
Nú verður stjórn Flokksins að sýna hvað í henni býr og að taka af alvöru á þessum málum. Það er hver að verða síðastur að sannfæra kjósendur.
![]() |
Illugi: Vissi ekki um styrkina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2009 | 16:01
Spilling sem aldrei mátti tala um
Alveg er kostulegt að fylgjast með þessari "nýuppgötvuðu" spillingu innan íslensku stjórnmálaflokkanna. Það er eins og nýr farfugl hafi skyndilega fundist sem allir höfðu þó séð fljúga um allt land í marga áratugi en þar sem ekki mátti færa hann inn á skrá á einhverri skrifstofu í Reykjavík fyrirfannst hann ekki hér á landi.
Svo samdauna er þjóðin orðin spillingu á öllu stigum þjóðfélagsins að ekkert nema "100 ára" efnahagsstormur gat opnað annað auga þjóðarinnar og leyft henni að fara að spyrja spurninga sem ekki hefur fyrr mátt.
En spilling verður ekki upprætt með hneykslanlegu tali og upphrópunum. Örlítil umræða verður nú leyfð en síðan verður að "þagga" þetta niður enda í húfi gríðarlegir hagsmunir hjá þorra þjóðarinnar.
Í næstu viku verður þetta líklega yfirstaðið og einhver önnur mál á dagskrá hjá fólki.
![]() |
Andri hættir störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2009 | 15:12
Njóta aðgerðarleysis og vanhæfni
Ætli það láti ekki nærri að Dagur baði sig í ljósi aðgerðarleysi stjórnvalda og vanhæfni hinna flokkanna heldur en framtakssemi síns eigin flokks.
Sú staðreynd að núverandi stjórn skuli varla minnast á ríkisfjármálin í því ástandi sem nú ríkir ber vott um annað hvort vanhæfni eða pólitíska hentisemi.
Hið ítarlega aukafjárlagafrumvarp írsku ríkisstjórnarinnar fyrr í þessari viku sýnir betur en flest annað hið algjöra tómarúm og afskiptaleysi sem ríkir hjá öllum íslenskum stjórnmálaflokkum í þessum mikilvæga málaflokki.
Svo virðist vera að flokkarnir hafi gefist upp og afhent AGS stjórnvöldin í fjármálaráðuneytinu. Eða hvað?
Ætli jafn ítarlegt niðurskurðar og skattahækkana frumvarp og írsk stjórnvöld hafa birt liggi niðri í skúffu hjá fjármálaráðherra? Það sé hins vegar svo pólitísk eldfimt að ekki megi einu sinni minnast á það hvað þá ræða það.
![]() |
Njótum góðra verka ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2009 | 14:45
Láglaunalandið Ísland
Framtíðarsýn Steingríms J. í atvinnumálum þjóðarinnar er ekki uppörvandi. Aðaláherslan er lögð á framleiðslugreinar sem byggja á lágum launum. Samkeppnisstaða landsins hefur auðvita batnað vegna hruns á launum hjá faglærðu og ófaglærðu verkafólki. Ekki uppörvandi tal hjá helsta talsmanni verkafólks.
Hvað á svo að gera við allt þetta háskólamenntaða fólk sem er verið að útunga í massavís hér á landi í öllum þeim aragrúa af "háskólum" sem hér finnast? Hvar á þetta fólk að fá vinnu við sitt hæfi? Því miður er nú hætta á að við endum uppi eins og Frakkar og Ítalir með heila kynslóð af "annars" flokks háskólamenntuðu fólki sem aldrei mun fá vinnu við sitt fag. Í Frakklandi vinna tugir þúsunda háskólamenntaðir einstaklingar í almennum þjónustu og verkamanna störfum. Ekkert rangt við það en það kostar mikið fjármagn að mennta fólk sem síðan vinnur ekki við sitt fag.
Nei, því miður er stefna stjórnvalda og í raun allra flokka í atvinnu og menntamálum þjóðarinnar í einni allsherjar ringulreið. Þar eru stjórnmálamenn að leika sér með framtíð heillar kynslóðar á óábyrgan hátt til þess eins að ota sínum pólitíska tota. Eigin ráðherrastóll er það eina sem í raun skiptir máli, allt annað eru aukaatriði, þó auðvita þurfi að láta hlutina líta öðruvísi út í augum kjósenda, og þar og aðeins þar valda íslenski stjórnmálmenn ekki vonbrigðum.
![]() |
Störf verða ekki til á skrifstofum stjórnmálaflokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2009 | 10:51
Hvað segja flokkarnir um stefnu AGS í ríkisfjármálum?
AGS krefst þess að ríkisfjármálin verði í jafnvægi 2012? AGS mun fjármagna 10% halla á þessu ári eftir að ríkið hefur sjálft brúað önnur 3% (45 ma kr) í formi skattahækkana og niðurskurðar.
Hvernig á að ná hallanum niður í núll á 2 árum? Er það raunhæft? Engar haldbærar og trúverðugar upplýsingar fást á Íslandi um þessi mál hvorki frá stjórnvöldum eða flokkunum. Lítum þá erlendis til að sjá hvað nágrannaþjóðir okkar eru að gera sem hafa lent illa út úr þessari kreppu en samt ekki eins illa og Íslendingar.
Lettland, Írland og Bretland hafa öll nýlega birt nýjar upplýsingar og áætlanir um hvernig þau hyggjast taka á þessum vanda, ólíkt Íslandi sem virðis alla vega fram að kosningum stinga hausnum í sand.
Financial Times sagði um daginn að þegar Institute for Fiscal Studies, IFS (þjóðhagsstofnun Breta) kæmist í fréttir væri það vondur fyrirboði. Ætli þetta hafi ekki verið ein ástæða þess að Davíð Oddson lagði Þjóðhagsstofnun niður á Íslandi. Hins vegar er margt athyglisvert í nýrri skýrslu IFS sem gefur okkur innsýn inn í ástandið á Íslandi. IFS gerir nú ráð fyrir að halli á ríkisfjármálum í Bretlandi verði 10.4% fyrir 2009 og 10.5% fyrir 2010 og fram undir mitt 2011. Hallinn muni ekki falla niður fyrir 4% fyrr en í fyrst lagi 2016.
Hvaða forsendur gefa AGS og stjórnvöld sér um ástandið hér og hvaða aðgerðir hafa verið ákveðnar svo ríkisfjármálin verði hallalaus 2012 en má ekki tilkynna fyrr en eftir kosningar? Við hverju getum við búist? Kíkjum til Lettlands og Írlands, þar er hluti af svarinu líkleg að finna.
Lettland fékk hjálp frá AGS á síðasta ári eins og Ísland en munurinn er að í þeirra prógrammi er gert ráð fyrir að halli á ríkisfjármálum verði ekki meir en 5% en ekki 10% eins og á Íslandi. Það má því gera ráð fyrir að niðurskurður og skattahækkanir verði meiri hér á landi. Það ætti því að vera verulegt áhyggjuefni allra starfsmanna ríkisins að í AGS prógrammi Lettlands var launaliður opinberra starfsmanna skorinn niður um 15% fyrir áramót og búist er við að önnur 20% fylgi eftir bráðlega. Þessi niðurskurður kemur að hluta til vegna þess að Lettland getur ekki eða vill ekki fella gengið eins og Ísland. Á móti kemur að vandamálin á Íslandi eru mun meir en í Lettlandi svo það er alveg ljóst að til launalæknanna mun koma hjá hinu opinbera eftir kosningar.
Athyglisverðast er þó að líta á nýjar viðbætur við fjárlagafrumvarp írsku ríkistjórnarinnar sem tilkynntar voru fyrr í vikunni. Þar kennir ýmissa kunnuglegra grasa og ástandið er ekki ólíkt því á Íslandi.
Írska ríkistjórnin tilkynnti nýjar sparnaðaraðgerðir upp á 1.5 ma evrur fyrir 2009 og skattahækkanir upp á 1.8 ma evrur fyrir 2009. Þar með er niðurskurður fyrir 2009 kominn upp í 3.3 ma evrur. Með þessum aðgerðum er halli á ríkissjóði færður niður úr 12.75% í 10.75%. Einnig er athyglisvert að frumvarpið inniheldur aðhaldsaðgerðir fyrir 2010 og 2011 upp á tæplega 4 ma evrur hvert ár þar sem niðurskurður er ívið hærri en skattahækkanir. Írar gera ráð fyrir að halli á fjárlögum verði kominn niður í 3% í lok 2013 og að skuldir ríkisins fari hæst í 80% af þjóðartekjum. Vaxtaafborganir ríkisins eru þegar komnar upp í 11% af skatttekjum og hafa meir en tvöfaldast síðan 2007. En hvað þýða þessar tölur. Kíkjum nánar á þetta.
Niðurskurður fyrir 2009 jafngildir um 520,000 kr á hverja 4 manna fjölskyldu og skattahækkanir um 290,000 kr. Ef við færðum þetta yfir á Ísland jafngildir þetta um 60 ma kr. sem er ríflega það sem AGS vill að Ísland skeri niður 2009 til að halda hallanum í um 10%. Aðgerðir írsku stjórnarinnar eru því einmitt það sem þarf á Íslandi og þegar stjórnmálamenn tala um að líta til nágrannalandanna þá eiga þeir líklega við Írland.
290,000 kr. skattahækkanir á hverja fjölskyldu á Íslandi þýðir auka 24,000 kr útgjöld til ríkisins á hverjum mánuði. Það er alveg ljóst að þúsundir fjölskyldan geta ekki bætt þessu við heimilisbólhaldið. Lækkun vaxta er því lífsnauðsynleg svo heimilin geti borið hærri skattbyrði. Þetta vilja stjórnmálamenn auðvita ekki ræða og síst fyrir kosningar.
En hvernig fóru Írar að þessu. Tekjuskattur var aukinn á alla. 2% hjá þeim lægst launuðu og 9% hjá hátekjufólki skilgreint sem heimilistekjur yfir 300,000 evrum (4m kr á mánuði). Þá var tryggingargjald stóraukið og skattar á tóbak og bensín hækkaðir (ekki áfengi enda við erum að tala um Írland!). Fjármagntekjuskattur var færður upp í 25% en skattar á fyrirtæki voru ekki hækkaðir þar sem Írar voru hræddir um að fyrirtæki mundu þá flytja til annarra landa og auka á atvinnuleysi sem endanlega þýddi hærri skatta á almenning.
Þessar aðgerðir nágranna okkar í ríkisfjármálum eru unnar faglega og í tíma. Þær gefa tóninn fyrir Ísland. Hins vegar verður niðurskurðurinn og skattahækkanir enn blóðugri hér ekki aðeins vegna hins mikla halla og skulda ríkisins heldur líka vegna hins fáránlega skilyrði AGS að hallinn verði þurrkaður út 2012. Þar eru við einir á báti.
Hér er að finna aðgerðir Íra fyrir þá sem vilja kynna sér þær nánar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2009 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009 | 08:07
... og krónan fellur.
15.5% vextir skipta litlu máli þegar tækifærin til að ávaxta sitt fé liggja ekki á Íslandi. Gjaldeyrishöftin valda því að Íslendingar og krónubréfshafar geta ekki tekið þátt í hinni mjög svo jákvæðu hækkun á erlendum hlutabréfmörkuðum. Fórnarkostnaðurinn að vera lokaður inni í krónum hækkar sífellt. Þetta setur enn meiri þrýsting á krónuna. Ljóst er að bæði innlendir og erlendir aðilar munu nota allar aðferðir sem til eru að koma sér út út krónunni. Þetta þýðir aðeins eitt: krónan verður veik um ókomna framtíð og höftin vera efld.
Ef það er ein lexía sem ábyrgir Íslenskir fjárfestar hafa lært og ekki veður gleymd fljótt, þá er það sú að treysta ekki á íslenska banka og stjórnvöld. Allar götur frá stofnun Lýðveldisins hefur það ávallt verið besta langtímafjárfesting íslenskra sparifjáreigenda að ávaxta sitt pund í erlendum gjaldeyri í erlendum banka.
Þjóðhagslega er þetta slæmt en engu að síður rétt niðurstaða fyrir einstaka sparifjáreigendur. Og aldrei er mikilvægara að hafa þetta í huga en einmitt nú þegar velferðarkerfið verður skorið niður eftir kosningar.
![]() |
Bandarísk hlutabréf þjóta upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.4.2009 | 22:57
...og kemur með dollara með sér
Heimsókn Obama gæti orðið mikil lyftistöng fyrir Íslendinga nú mitt í þessu auma ástandi hér.
Nú þarf að hafa hröð handtök og byrja strax að ræða möguleika á einhliða upptöku dollarsins við Seðlabanka Bandaríkjanna. Þeir geta varla neitað að ræða við okkur þegar forseti þeirra vill ólmur komast á Bessastaði til að hitta Ólaf og Dorrit. Við fáum ekki betra tækifæri til að "redda" gjaldeyrismálum okkar.
Stuðningur Obama mundi gera viðræður við krónubréfshafa mun auðveldari enda er Obama þekkt stærð hjá erlendum fjárfestum og þeir mundu róast mjög ef við værum með Bandaríkin við hlið okkar.
Auðvita verður erfitt að kyngja þessu fyrir VG og kannski S, en við verðum að fara að hugsa praktískt og hætta allri óskhyggju um óljóst og þokukennt "grand plan" sem aldrei verður neitt annað en hugarórar.
Þegar við höfum fengið dollarann, sækjum við um ESB aðild og tökum ekki í mál að skipta yfir í evru nema við fáum góðan samning. Þannig gætum við snúið vörn í sókn.
![]() |
Obama vill til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)