12.6.2009 | 11:00
Geta Íslendingar rekið banka?
Hvaða sparifjáreigandi myndi leggja sitt sparifé inn á íslenskan banka ef erlendur banki starfaði við sömu götu? Er Íslendingum treystandi til að reka banka í framtíðinni. Hvaða kunnátta og þekking er hér á landi í rekstri banka sem sinna þörfum almennings en ekki útvaldra sem í gær voru útrásarvíkingar en í dag eru pólitískir gæðingar?
Verður nokkurn tíma hægt að lyfta gjaldeyrishöftum, einfaldlega vegna þess að allt sparifé Íslendinga myndi leita út til erlendra banka sem eru reknir af fagfólki? Þetta er miklu stærra vandamál en krónubréfin.
Hitt vandamálið er að enginn heiðarlegur erlendur fjárfestir hefur áhuga á íslenskum eignum. Hinsvegar hafa erlendir braskarar og spekúlantar svo ekki sé talað um erlenda leppi fyrir gamla útrásarvíkinga mikinn áhuga að komast yfir eignir hér á landi.
Hvernig við ætlum að komast út úr þessum vítahring spillingar og brasks er ekki auðvelt að sjá nema að umturna öllu samfélaginu og stokka allt upp á nýtt. Það eru hins vegar hverfandi líkur á því.
Það vantar ekkert nema skiltið:
"Welcome to Iceland, a haven for speculation, excessive risk-taking and corruption, and with all the benefits of an OECD country"
![]() |
Bankarnir tóku mikla áhættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2009 | 06:48
Ótrúlegur seinagangur á öllu
8 mánuðir eru liðnir frá hruni og Íslendingar virðast enn stjarfir. Ótrúlega lítið hefur verið gert til að ráðast á vandann. Mikið hefur verið talað en minna um haldbærar aðgerðir. Besti mælikvarði á aðgerðir eða heldur aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar er gengisvísitala krónunnar og vaxtastigið á landinu.
Alls konar verkefni, stýrihópar og guð má vita hvað hefur verið sett á laggirnar. Allir er á fullu að vinna sína vinnu en nauðsynlegar ákvarðanir sem taka hefði átt fyrir um 4 mánuðum er frestað og frestað endalaust. Enn versnar ástandið og enn lengri tíma mun það taka að koma atvinnulífinu af stað.
Veit einhver hverjir stjórna Íslandi í dag? Þurfum við ekki að fara að auglýsa erlendis eftir framkvæmdastjóra fyrir Ísland. Kannski að Eva Joly væri kandídat?11.6.2009 | 17:20
Ríkisfjármál: Hik og tafir kalla á veika krónu og háa vexti
Hik stjórnvalda á lausn ríkisfjármálanna er með ólíkindum. Nú hafa tapast nær 6 vikur sem eru orðnar ansi dýrkeyptar: lægri króna og háir vextir.
Ég hef skrifað hér áður um neyðarfjárlög Íra sem þeir birtu í byrjun apríl en þeir glíma við svipaðan halla og Ísland en ætla að ná honum niður um 10% á 4 árum en Ísland þarf að ná hallanum niður um 13% á 3 árum en samt bólar ekkert á aðgerðum hér!
Hvers vegna ríkisstjórnin var ekki tilbúinn með neyðarpakka strax eftir kosningar er alveg óskiljanlegt. Hvað hafa menn verið að gera í fjármálaráðuneytinu síðustu 6 mánuði?
Þetta hik og þessar tafir hafa ekki aðeins afleitar afleiðingar fyrir heimilin og atvinnulífið þær draga einnig úr tiltrú manna á stjórninni og hennar hæfileikum að ráða við vandann. Þetta styrkir ekki okkar stöðu gagnvart ESB í samningaviðræðum sem nú eiga að byrja.
Vandamálið er hins vegar tvíeggjað og erfitt fyrir vinstri stjórn að glíma við. Lítil umræða er á Íslandi um hvar eigi að skera niður og hvernig eigi að hækka skatta og hver hlutföllin eigi að vera. Þessi umræða er hins vegar á mjög öflugu stigi í okkar nágrannalöndum sem eiga við svipaðan vanda að etja. Hér er það sem rætt er um:
Því meir sem hallinn á ríkisfjárlögum er brúaður með niðurskurði en ekki skattahækkunum því meiri líkur eru á að krónan styrkist og vextir lækki hratt. Þetta mun örva atvinnulífið. Hins vegar ef skattahækkunarleiðin er farin eru líkur á að krónan muni ekki styrkjast í bráð og háir vextir verði áfram. Atvinnuleysi mun aukast og einkageirinn staðna. Í Bretlandi er talið að skattahækkanir megi ekki vera meir en 1/3 hluti í aðhaldsaðgerðum án þess að setja gjaldmiðilinn og vextina í hættu. (Írar völdu 1/3 skattahækkanir, 1/3 niðurskurð í rekstri ríkisins og 1/3 niðurskurð í fjárfestingum ríkisins)
Þetta er auðvita afleitar fréttir fyrir vinstri stjórn sem ætlar að standa vörð um velferðakerfið en það þýðri ekki að stinga höfðinu í sandinn og vona að hlutirnir reddist. Stjórnvöld verða að opna umræðuna um ríkisfjármálin og útskýra hlutina fyrir fólki.
Útspil Steingríms um helmingaleið í skattlagningu og niðurskurði hefur af skiljanlegum ástæðum fallið í grýttan jarðveg hjá atvinnurekendum og fjármagnseigendum. En hvað gerist ef útlendingar missa tiltrúna á Íslendinga og fella lánshæfni landsins niður í "junk" flokk og erlendir bankar kalla inn lán til Landsvirkjunar og annarra helstu fyrirtækja landsins.
Ríkisstjórnin hefur því í raun lítið svigrúm til að standa vörð um velferðakerfið og það má ekkert fara úrskeiðis hjá stjórninni þegar hún tilkynnir loks um aðgerðir í ríkisfjármálum.
![]() |
SA: Skera þarf ríkisútgjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 15:43
43 Alþingismenn
Nú þegar allt dregst saman á Ísland er ekki eðlilegt að fækka Alþingismönnum, segum um þriðjung niður í 43.
Nota má þá peninga sem sparast til að efla þingnefndir og umboðsmann Alþingis. Þingnefndir þurfa á eigin sérfræðingum að halda, fólki sem hefur reynslu og þekkingu af þeim málum sem falla undir hverja nefnd. Það er ótækt að Alþingi þurfi alltaf að betla til framkvæmdavaldsins um útreikninga og forsendur.
Ekki að skilja að hér eigi að tvöfalda alla vinnu, heldur þarf þingið á velvöldu fólki að halda sem getur á augabragði farið yfir reiknikúnstir embættismanna og kafað ofaní forsendur og aðferðir.
Uppákoman með Evu Joly sýnir að gagnrýni á framkvæmdavalið er þjóðarnauðsyn.
![]() |
Stjórnsýslubreytingar í vændum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 10:24
En hvar eru fulltrúar atvinnulífsins?
Ég get ekki séð að í þessari nefnd sitji fulltrúar atvinnurekenda eða launafólks? Hver er reynsla og kunnátta þessa stýrihóps í atvinnurekstri og uppbygginu?
"Eitt meginmarkmið þessarar vinnu er að móta áherslur sem tryggja að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020."
Er þetta raunhæft markmið eða rennur þetta bara út í sandinn eins og hið óraunhæfa markmið að koma íslenskum háskóla í raðir 100 bestu í heiminum? Ekki heyrist mikið um það markmið nú.
Svo er spurningin hvað þekkir þessi stýrihópur til erlendrar samkeppni? Það eru líklega yfir 100 lönd sem hafa þetta sama markmið og hafa lagt í það mikla vinnu og peninga. Er þessi íslenski stýrihópur á heimsmælikvarða?
![]() |
Stýrihópur um eflingu atvinnulífs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 08:05
Hinn fullkomni glæpur
Hefur íslenska útrásin framið hinn fullkomna glæp? Rænt heila þjóð þannig að engir peningar eru til að rannsaka glæpinn?
Ekki datt Arthur Conan Doyle eða Agatha Christie þetta í dug.
Hvað sem verður um þessa rannsókn þá bendir margt til að Hollywood eigi eftir að mata krókinn á þessu svikamáli og græða góða fúlgu á klúðri Íslendinga.
![]() |
Gagnrýni tekin alvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 07:27
Seðlabankinn: Opið ráðningarferli, veskú!
Hvers vegna er ráðningarferlið í stöðu Seðlabankastjóra ekki opið og gegnsætt? Hvers vegna hefur almenningur ekki aðgang að ítarlegri starfslýsingu Seðlabankastjóra og hvaða kröfur eru gerðar þar um menntun, reynslu og hæfni. Hvaða vægi hafa þessir þrír þættir og hvernig eru þeir metir hjá umsækjendum? Hvers konar viðtöl fara fram og hverjir taka þau? Ekkert af þessu hefur verið gert opinbert? Hvers vegna ekki?
Lítum á þessa 3 þætti:
Menntun. Þetta er sá þáttur sem auðveldast er við að eiga enda ljóst að ítarleg hagfræðimenntun er æskileg í þessa stöðu. Allir umsækjendur verða að hafa góða menntun. Þessi þáttur á ekki að gera útslagið.
Reynsla. Hér fer málið að vandast. Er starfreynsla hjá Seðlabankanum akkur eða hindrun? Það fer auðvita eftir því hvenær viðkomandi vann hjá Seðlabankanum og í hvaða stöðu. Þeir umsækjendur sem komu beint að þeirri stefnu sem Seðlabankinn viðhélt síðustu 2 árin þarf að skoða vel áður en þeir eru dæmdir hæfir. Varast ber að stimpla aðeins þá sem áður hafa unnið hjá Seðlabankanum sem "mjög hæfa". Þá er ekki um utanaðkomandi val að ræða heldur aðeins innanhúss stöðuhækkun.
Hæfni. Þetta er erfiðasti þátturinn í valinu. Hér á ég við hin mannlega þátt í starfinu. Hversu sjálfstæðir og yfirvegaðir eru umsækjendur? Hvernig glíma þeir við erfið mannleg samskipti? Munu þeir njóta virðingar erlendis hjá stofnunum sem við þurfum að eiga samskipti við? Þetta er yfirleitt sá þáttur sem skilur á milli efstu manna ef vel er vandað til valsins.
Ef umræðan snýst aðeins um menntun og reynslu bendir það til að vankantar séu á ferlinu.
![]() |
Kvartaði vegna hæfismats |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 06:50
Bensínverð enn lægst hér á landi
Íslendingar ættu að þakka fyrir að vera ekki að keyra um í Frakklandi. Ég varð fá ferð um norður Frakkland um daginn og fyrir utan Reims kostaði 95 oktan bensín 1.42 evrur eða 255 krónur lítrinn.
![]() |
Skeljungur hækkar á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.6.2009 | 05:40
Eva tekur stjórnvöld á teppið
Hvers vegna er ekki hægt að víkja núverandi saksóknara og skipa nýjan, hæfan og óháðan aðila eins og Eva réttilega bendir á? Til hvers er verið að fá Evu hingað til lands? Er þetta bara sýndarmennska? Hverra hagsmuna er verið að gæta? Enginn ríkissaksóknari á hinum Norðurlöndunum gæti staðið undir þvílíkri gagnrýni og hér hefur komið fram. Þeir mundu umsvifalaust segja af sér þjóðarinnar vegna.
Steingrímur talar um að við eigum að fara að haga okkur eins og á hinum Norðurlöndunum. Nú er tækifæri að sýna það í verki.
![]() |
Ekki hrifin af hugmynd um sérskipaðan ríkissaksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.6.2009 | 20:07
Eva lærir íslensku aðferðina
Jæja þá er Eva búin að læra íslensku aðferðina. Ekkert hefst nema með upphrópunum, hótunum og blaðaskrifum. Þá þjóta stjórnvöld upp til handa og fóta og redda málunum til að bjarga eigin skinni. Nú er bara að vona að Eva hafi sig sem mest frammi og nái þar með einhverjum árangri.
Að vinna hljóðlega, samviskusamlega og faglega hefur aldrei leitt til árangurs á Íslandi. Það er sú lexía sem Eva hefur nú lært.
Það þarf meira en eitt bankahrun til að breyta íslenskum stjórnarháttum og verklagi.
![]() |
Björn verður ríkissaksóknari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |