Samúð með almenningi en ekki valdshöfum

Hinn hollenski þingmaður, Paul Tang, lýsir vel viðhorfum útlendinga til Íslands.  Almenningur á Íslandi og útlendingar hafa verið sviknir af íslenskum áhættuspilurum og "sofandi" valdshöfum hér á landi.

Hollendingar og Bretar eru einfaldlega fórnarlömb íslensku bankanna eins og almenningur hér á landi og húsnæðiseigendur á Spáni.  Þessi uppsetning er erfið fyrir Íslendinga, en svona er heimurinn og það verður að fást við raunveruleikann eins og hann er en ekki eins og íslenskir stjórnmálamenn vildu að hann væri.

Paul bendir einnig á að eignir Landsbankans gæti dugað mest alla leiðin upp í skuldina en það vitum við ekki fyrr en eftir nokkur ár.  Hefði nú ekki verið skynsamlegra að samþykkja þennan Icesave án "gjaldþrota" viðauka og sjá hvað setur.  Ekki að skilja að þessi Icesave samningur hafi verið góður en hann var okkar eini aðgangsmiði sem alþjóðasamfélagið afhenti okkur.  Þar með hefði aðgangur að lánsfé verið tryggður og gjaldeyrisvarasjóður aukinn sem hefði styrkt lánstraustið og uppbygging hefði geta hafist nú þegar.

En í staðinn er við með viðauka sem jafngilda gjaldþrotaviðurkenningu.  Við borgum ekki meir en sem samsvarar hlutfalli að hagvexti sem þýðir að við treystum okkur ekki til að standa við erlend lán á samningsforsendum lánadrottna.  Þar með skapast algjör óvissa um fjármögnun í framtíðinni og hvernig staðið verði að uppbyggingu hér á landi.

Á meðan allt er í háalofti út af Icesave heldur landflótti áfram og nú bætast stöndug íslensk fyrirtæki í hópinn og vilja út og í hendur erlendra aðila.  Íslenskur rekstur í erlendu eignarhaldi er framtíðin!  Öðruvísi fæst ekki fjármang til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.  Sorglegt en satt.

Því miður sér ekki enn fyrir endann á kreppunni né klúðrinu.

 


mbl.is Tang: Skilur afstöðu Íslendinga vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki á leið úr landi

Góð og stöndug fyrirtæki er á leið úr landi.  Þau fá engan aðgang að fjármagni hér til eðlilegrar uppbyggingar.  Alfesca og HS Orka eru nýjustu dæmin.  Íslenska ríkið og lífeyrissjóðirnir hafa ekki bolmagn eða reynslu til að standa í flóknum rekstri og yfirtökum.

Þegar bestu og stöndugust fyrirtæki landsins fara út landi hverfa skattstofn og arðgreiðslur úr hagkerfinu. Það sem eftir situr er ofurskuldsett rusl sem ber engan arð og verður að halda gangandi af skattgreiðendum til að atvinnuleysi rjúki ekki upp úr öllu valdi.

Ef gróin íslensk fyrirtæki í matvælaframleiðslu og orkuvinnslu sjá sér ekki fært að vera "íslensk" lengur hver eru þá hin raunverulegu nýsköpunartækifæri hér á landi og hver á að fjármagna þau?


mbl.is Vill fund með fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvað segir Toyota í Japan?

Hvað ætli eigendur Toyota í Japan segi um Magnús Kristinsson sem umboðsmann þeirra hér á landi?  Hefur hann sýnt stjórnunarhæfileika og siðferðisvitund sem Japanir gera kröfur um?

Ég skora á eigendur Toyota bifreiða á Íslandi að skrifa forstjóra Toyota, Akio Toyoda línu og segja honum sína meiningu.  

Hinar vanhæfu og pólitísku skilanefndir bankanna hugsa fyrst og fremst um sína menn.


mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lognið á undan storminum

Spilaborg Geirs Haarde sem var byggð á neyðarlögunum mun hrynja eins og íslensku bankarnir.  Það verður lítil uppbygging á Íslandi með erlendu lánsfé á meðan allt logar í málaferlum við erlenda banka.

Lánshæfni ríkisins og annarra aðila hér á landi mun falla eins og steinn.  Endurfjármögnun verður nær ómöguleg með skelfilegum afleiðingum fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun.

Icesave er aðeins lognið á undan storminum.


mbl.is 93% kröfuhafa bankanna íhuga málshöfðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldarar ráða ekki ferð

Að halda að Bretar og Hollendingar samþykki þessa fyrirvara möglunarlaust er óskhyggja.  Ef lánþegar eiga að ráða hvernig og hvenær þeir borga tilbaka verða ekki margir sem lána peninga.

Það er nær óhugsandi að Bretar og Hollendingar geti sætts á þessa fyrirvara án þess að koma fram með sínar athugasemdir og viðbætur.  Annars settu þeir fordæmi til annarra skuldsettra ríkja að nú væri færi á að sleppa billega frá óþægilegu skuldafeni.  

Íslendingar hafa nú sagt að þeir ráði ekki við aðrar skuldbindingar en Icesave næstu 15 árin.  Hver á að fjármagna endurreisn íslensk athafnalífs á þeim tíma?  Hver verður staða landsmanna næstu 15 árin ef við gerum ekkert annað en að borga niður skuldir?  Hvað mun það kosta mikið atvinnuleysi og landflótta?

Þessir fyrirvarar eru í raun uppgjöf og viðurkenning að við séum þegar gjaldþrota og ráðum ekki við ástandið eins og það er.  Kannski var það óumflýjanlegt, en samt held ég að það hefði verið æskilegra að reyna að borga og berjast áfram en að gefast svona strax upp.  


mbl.is Stórskaðar hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr fyrsta í annan flokk

Með því að takmarka endurgreiðslur á ríkisskuldum er Ísland í raun að segja við alþjóðasamfélagið: við eru tæknilega gjaldþrota og ef við fáum ekki skuldaaðlögun tökum við málin í okkar eigin hendur.

Hér er ekki aðeins komið fordæmi til vanþróaðra skuldsettra ríkja heldur er þetta líka fordæmi til skuldara á Íslandi.  Þeir sem ekki geta eða vilja borga af sínum lánum nema ákveðinn hluta ráðstöfunartekna eru nú í sterkri stöðu.  Varla geta ríkisbankarnir neitað almenningi um úrlausnir sem ríkið sjálft og Alþingi telur sanngjarnt?

Hvað varðar fjármögnun í framtíðinni verður hún dýrari.  Ísland er nú dottið úr fyrstu deild hvað varðar lánshæfni og það er dýrt að vera í annarri deild.

Það sem ríkið "sparar" með þessum Icesave fyrirvörum munu einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar borga í hærra álag á lán í framtíðinni.  Það verður ekki hægt að gera þennan Icesave reikning upp fyrr en eftir um 30 ár.  Þá mun koma í ljós hver heildarkostnaðurinn er.

Eitt er víst, hann verður hár og ef til vill verður stærsti hlut hans fyrir utan samninginn! 

 

 


mbl.is Fleiri fari að dæmi Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki er sopið Icesave kálið þó í ausuna sé komið!

Það mætti halda að Icesave væri í höfn þar sem Lilja, Atli og Ögmundur styðja þetta nýja samningsuppkast.  En hvað með Breta og Hollendinga, hefur einhver spurt hvað þeim finnist?

Hvað ef þeir vilja koma með athugasemdir við þetta nýja uppkast?  Við hverja eiga þeir að tala?  Svavar? Steingrím? eða Lilju?  Hvar liggur samningsumboð Íslands?

  

 


mbl.is Full samstaða um Icesave í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myllusteinn um háls næstu kynslóðar

Frétt Daily Telegraph um hin myrku mál í íslensku bönkunum og rannsókn Evu er aðeins byrjunin.  Svona fréttir eiga eftir að birtast í blöðum heims trekk í trekk efir því sem rannsókninni miðar áfram og meiri upplýsingar koma fram.  Þar með verður hinum vafasömu og spilltu aðferðum íslenskra bankamanna haldið í sviðsljósinu stöðugt í mörg ár.

Orðstír Íslendinga mun bíða óbætanlegt tjón.  Sífelldar fréttir af þessu óvenjulega hruni munu móta hugi margra erlendis og síast inn sem séríslenskt þjóðareinkenni.

Eins og Bretar eru yfirleitt kurteisir verða Íslendingar taldir spilltir og varasamir.

Það mun enginn taka í höndina á Íslendingum nema að telja að þeir hafi enn fimm fingur eftir handabandið!

Hversu óréttlátt sem það kann að virðast mun öll þjóðin smitast af erlendum viðhorfum til útrásarvíkinganna, því hvernig eiga útlendingar að þekkja hinn heiðarlega Íslending frá hinum sviksama?

Hins vegar verður nær útilokað fyrir útrásarvíkinga með óhreint mjöl í pokanum að leynast nema ef til vill í einhverjum afdölum í Afganistan.

 


mbl.is Telegraph: Ekkert venjulegt hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... en hversu lengi dugar þetta fjármagn?

Þessi endurfjármögnun bankanna er aðeins fyrsta skrefið í endurreisn eðlilegar bankastarfsemi hér á landi.  Mun meira fé þarf til.  Hér þurfa erlendir kröfuhafar að koma til sem og íslenskur almenningur. 

Stjórnvöld ættu að íhuga að setja bankana að hluta til á markað.  Eftir að kröfuhafar eru komnir inn ætti ríkið að selja sinn hlut til almennings en halda eftir svokölluðu "golden share" sem tryggði að bankarnir endi ekki upp hjá óreiðumönnum.  Allt tal um að bankarnir þurfi innlenda kjölfestufjárfesta er út í hött.  Annað hvort á að selja til almennings eða til eins af norrænu stórbönkunum, t.d. Nordea sem myndi skuldbinda sig að þjálfa upp nýa kynslóð af íslenskum bankamönnum.

Í raun er mjög mikilvægt að þegar ríkið byrjar að selja eignir sem það hefur nú eignast eftir hrunið að það og/eða bankasýsla ríkisins haldi eftir "golden share" svo fyrri eða nýir eigendur geti ekki í krafti meirihluta hafið sína fyrri barbabrellu leiki.


mbl.is Endurfjármögnun banka tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... en hvað með aðrar skuldir óreiðumanna?

Á meðan öll orka Íslands fer í Icesave eru fjöldamörg verkefni óunnin.  Þar trjóna ríkisfjármálin efst en ekki ætla ég að skrifa um þau hér, heldur það sem ég kalla nýtt íslenskt "maðkað mjöl" á ofurprís eða Icesave2.

Það vill gleymast að Icesave samkomulagið eru ekki einu skuldir óreiðumanna sem almenningur verður krafinn greiðslu á.  Við eigum ekki að byrja að borga af Icesave fyrr en eftir 7 ár en höfum nú þegar byrjað að borga af öðrum skuldum óreiðumanna.  Hvers vegna er svo lítil umræða um þessar greiðslur?  Kannski er það vegna þess að þetta eru greiðslur á milli Íslendinga? 

Hér er ég auðvita að tala um ósamkeppnishæf ofurskuldsett íslensk fyrirtæki.  Þar sem þessi fyrirtæki geta ekki endurfjármagnað sig verða þau að fara að borga eða semja um sínar skuldir.  Þá eru þau undir þrýstingi að auka hagnað til að meira fáist til afborgunar af lánum.  Þetta þýðir að þau verða að minnka rekstrarkostnað og auka sölu eins og hægt er.  Auðveldasta leiðin hér, er auðvita að lækka laun starfsmanna og hækka verð á vöru og þjónustu.

Nýleg uppgjör hjá Icelandair og Skipti sýna þetta vel.  Reksturinn er í góðum málum og hagnaður er af fyrirtækjunum áður en til afskrifta og fjármagnskostnaðar kemur.  Hins vegar er fjármagnskostnaður að sliga þessi fyrirtæki eins og svo mörg önnur.  Hér er ekki aðeins ytri markaðsaðstæðum um að kenna eins og menn vilja láta, heldur er hér um áralanga slælega fjármálastjórnun að ræða.  Lán sem hlutfall af eigið fé er yfirleitt allt of hátt á Íslandi og svo er ekki samræmi á milli tekna og útgjalda hvað varðar gjaldmiðil og tímasetningu.  Ofuráhersla á EBITA er einnig stórhættuleg og varasöm og hefur oft þann eina tilgang að viðhalda bónusgreiðslum til stjórnenda sem eru að sökkva í skuldafen.

Með öðrum orðum góður rekstur íslenskra fyrirtækja er settur í rúst með óábyrgri fjármálastjórnun.

Nú er komið að skuldadögum og almenningur fær sendan reikninginn fyrir þessari óráðssíu í formi hækkaðra gjalda eða verri þjónustu nema hvoru tveggja sé. 

"Ekki er sá Icesave reikningur betri sem læðist en sá sem stekkur"

 


mbl.is FT: Ábyrgðin sameiginleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband