Pólitísk hrossakaup Jóns Ásgeirs

Mjög undarlegir og vafasamir gjörningar og hrossakaup virðast stunduð í bakherbergjum af pólitískum skilanefndum, bankamönnum og gömlum útrásarvíkingum.  Almenningur fær engar upplýsingar en verður að geta sér til í eyðurnar út frá þeim litlu ögnum sem skilanefndir ákveða að opinbera.

Nýjustu hrossakaupin ganga út á að Jón Ásgeir fái að halda Bónus og Hagkaupum en lætur Landsbankann fá Húsasmiðjuna.  Svo er sagt að Hagar muni greiða skuldabréfaflokk félagsins á gjalddaga 19. október án þess að segja hver sú upphæð sé eða hvaðan peningarnir komi.  Fjármagna nýju bankarnir og skattgreiðendur þetta?

Margir hafa misst sín fyrirtæki sem mörg voru rekin vel en stóðust ekki áfallið.  Hins vegar á þetta ekki við um þá sem eru skuldugastir, tóku mesta áhættuna og sóuðu mesta fénu.  Þeir berjast fyrir sínu og halda vel í við pólitísku öflin í landinu.  

Stjórnvöld hika ekki við að berja á lítilmagnanum í okkar landi en stórjaxlarnir ráða enn sem fyrr.  Þeir virðast skipa skjálfandi skilanefndu fyrir og heimta skuldaniðurfellingu og endurfjármögnun allt í boði stjórnvalda á kostnað skattgreiðenda.  Hvers konar fordæmi er þetta?  Er þetta ekki spilling á háu stigi?  

Hvers vegna getur enginn stjórnmálamaður sett Jóni Ásgeiri og Bakkabræðrum stólinn fyrir dyrnar og sagt hingað og ekki lengra?

 


mbl.is Hagar semja við banka um endurfjármögnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstaklingar brugðust ekki hugmyndafræðin

Það er ódýr afsökun að skella allri skuldinni á hugmyndafræðina.  Þetta virðist vera ein allsherjar útskýring á hruninu því þar með er hægt að komast hjá því að draga einstaklinga til ábyrgðar. Ekki má persónugera vandann, hann er alltaf kerfisbundinn á Ísland.

Málið er að einstaklingar brugðust, siðferðisþrek, kunnátta, þekking og reynsla var hreinlega ekki til staðar.  

Ef þessi svokallaða "frjálshyggjutilraun" mistókst hvað á þá að taka við, "haftatilraun" með ríkisforsjá?  

Með þessu er verið að segja að Íslendingar séu óvitar sem þurfa að vera undir stöðugri ríkisgæslu og sé ekki í neinu treystandi.  Kannski er það rétt og kannski er þetta lausnin?  Hver veit?

 


mbl.is „Tilraunin mistókst“ með herfilegum afleiðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OR skipað að greiða arð með fé annarra!

Í fréttum RÚV segir: Orkuveita Reykjavíkur þarf að skila rúmum tveimur milljörðum króna í arð til Reykjavíkurborgar á næsta ári. 

Arðgreiðslur eru yfirleitt skilgreindar sem ráðstöfun á hagnaði liðins árs eða uppsöfnuðum hagnaði fyrri ára til eigenda.  Flest öll fyrirtæki sem eru vel og skynsamlega rekin greiða aðeins arð ef þau sýna hagnað og ef þau eru aflögufær um peninga til útgreiðslu, þ.e. þau standa ekki í of miklum fjárfestingum og uppbyggingu eða eru of skuldsett.  Ekkert fyrirtæki sem ég veit um borgar arð af tapi með lánum og notar þar með fé annarra til að borga arð til eigenda. Eina undantekningi virðist OR og gjaldþrota útrásarsjoppur.

Fjármálafimleikar útrásarinnar virðast enn í fullu fjöri hjá hinu opinbera eins og sést vel ef ársreikningar og milliuppgjör OR eru skoðuð.

Ekki ætla ég að gera hér tæmandi úttekt á fjármálastöðu OR, það væri að æra óstöðugan, en kíkjum aðeins á svolítinn servéttureikning:

Fyrstu 6 mánuði þessa árs er staða OR þessi (kr.):

  • Rekstrartekjur: 11.9 ma
  • Rekstrarhagnaður: 1.0 ma
  • Vaxtagreiðslur: 2.7 ma
  • Kostnaður við fjármálaleikfimi og gjaldeyrisbrask:  11.5 ma
  • Tap fyrst 6 mánuði 2009: 10.6 ma
  • Lán með greiðsludag 17.03.10: 9.3 ma 
  • Laust fé: 1.4 ma
  • Heildarskuldir: 206 ma
  • Eigið fé: 37 ma

Það er alveg ljóst að OR hefur ekkert fé úr rekstri til að borga lán sem falla á gjalddaga 2010 hvað þá að borga "arð" til Reykjavíkurborgar.  Hvernig á að fármagna lánaþörf og arðgreiðslu 2010 upp á 11.3 ma kr. sem er hærri upphæð en allur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu?  Er eðlilegt að fyrirtæki sem ekki getur endurgreitt lán nema að velta þeim á undan sér sé að greiða 5% arð á eigið fé.  Þessi greiðsla rýrir eiginfjárstöðu félagsins sem hrundi um helming á síðasta ári.  Hversu lengi getur Reykjavíkurborg  gengið á eigið fé OR án þess að lánadrottnar ókyrrist.  Lán eru þegar orðin 5 sinnum hærri en eigið fé.

Að OR sé látin borga "arð" til eigenda áháð rekstri og hagnaði er ekki góð fjármálastjórnun.  Hér er Reykjavíkurborg aðeins að taka lán bakdyramegin sem hún getur bókfært sem tekjur en ekki skuldir og þar með fegrað sinn eigin efnahagsreikning.

Því miður er fjármálaleikfimi OR og Reykjavíkurborgar lýsandi dæmi um þá óreiðu og örvæntingu sem ríkir í fjármálastjórnun almennt á Íslandi.  Að bókfæra fé annarra sem tekjur er ekki hægt til lengdar og hér er aðeins verið að búa til vandamál og kostnað fyrir skattgreiðendur í framtíðinni.

 


Töfralausn frá Tyrklandi

Svo virðist sem að Steingrímur hafi fengið ákveðna uppljómun í hinni helgu borg Konstantínópel.  Alla vega ríkir eindrægni í flokknum um trúna þó skilji leiðir þegar að trúboðinu kemur. 

Sumir vilja fara með AGS og EB í gegnum Icesave, aðrir vilja ekki sjá þessa leið og vilja gera allt upp á eigin spýtur og einhverjir eru víst á báðum áttum.  En hvað með það, allir eru vinir og það er það sem skiptir máli.  

En er þetta ekki einmitt íslenska leiðin?  Sundurþykkja, rifrildi og stefnuleysi er oft kjarninn í aðferðafræðinni og þegar allt keyrir í strand er bara haldinn fundur og allir treysta sín heit og vináttubönd og reyna eina ferðina enn.  Er von að útlendingar hristi hausinn og botni ekkert í vitleysunni.


mbl.is Fundi VG lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Topp eignir í Reykjavík til útvaldra líkt og í París?

Hvað gera bankarnir við allar þessar toppeignir sem þeir eru að eignast.  Hver fær að selja þetta og hirða söluþóknun?  Hver fær afnot af þessum eignum sem eru of dýrar til að seljast?

Ætlum við séum á leið inn í franska kerfi Seðlabanka Frakklands.  Sú virðulega stofnun sem var stofnuð árið 1800 af Napóleon Bonaparte hefur í gegnum aldirnar eignast eitt stærsta safn af topp íbúðum og húsum í París sem bankinn hefur þurft að taka upp í skuldir og veðköll.

Þessar íbúðir standa pólitískri elítu Frakklands til boða á kostakjörum að sagt er.  Það getur skipt sköpum að þekkja háttsetta aðila innan Banque de France ef maður er á höttunum eftir góðum og ódýrum húsnæðiskosti í París.

Ætli það sama verði upp á teningnum hér?  Mun klíka skilanefndarmanna og bankaráðsmanna hafa lyklavöldin í húsi Hannesar og viðlíka eignum í Reykjavík í framtíðinni? 


mbl.is Gengið að húsi Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í stjórn og stjórnarandstöðu á sama tíma

Sterkasta stjórnarandstaðan í dag kemur frá Lilju og Ögmundi.  Þau virðast vera á móti öllum helstu stefnumálum stjórnarinnar.  Nei við EB, Nei við Icesave, Nei við AGS og nú kemur gagnrýni á skuldaaðlögunaraðgerðir stjórnarinnar.  Samt sem áður segjast þau styðja þessa stjórn. 

Það er hreinlega ekki hægt að bjóða upp á svona vitleysu.  Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Það er ekki hægt að stjórna landinu á þennan hátt.  


mbl.is Ekki nógu langt gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Icesave samningur sanngjarn"

Samkvæmt fréttum RÚV segir Sheetal K. Chand, doktor í hagfræði við Háskólann í Osló: "að lánaskilmálar Breta og Hollendinga gætu ekki verið sanngjarnari miðað við núverandi aðstæður."

Ætli Sheetal þurfi ekki lögreglufylgd út á Leifsstöð til að komast klakklaust úr landi.  Þetta er nokkuð sem líklega flestir Íslendingar vilja ekki heyra enda eru margir staðfastir í þeirri trú að Bretar og Hollendingar séu að kúga okkur en ekki gæta eðlilegra hagsmuna sinna skattgreiðenda.

Það er mjög nauðsynlegt að fá svona álit í umræðuna frá óháðum erlendum þriðja aðila fyrir utan EB.  

Það er æ betur að koma í ljós hversu einangruð við erum og hversu illa við höfum haldið á spilum í þessu Icesave máli.  

Við erum í algjöru öngstræti með þetta mál og því miður virðast prófkjör ekki hafa skilað inn á Alþingi öðrum en rifrildisseggjum og smákóngum sem hugsa um sig og sína en ekki heildina.  Við höfum verið hér áður og sú tíð var kölluð Sturlungaöld.  Hvað ætli sagan muni kalli þessa örlagatíma sem við nú lifum?


mbl.is Stefnuræða flutt í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólska lánið: Rangfærslur í Morgunblaðinu í dag

Á blaðsíður 2 í Morgunblaðinu í dag segir:

LÁN Pólverja hljóðar upp á 630 milljónir pólskra slota, sem á núverandi gengi eru um 25 milljarðar íslenskra króna. Lánið er til 12 ára og ber 2% vexti út árið 2015, en 1,3% eftir það.

Þetta er ekki rétt, lánið ber ekki 2% og 1.3% vexti heldur er þetta vaxtaálagið sem bætist við vexti á pólsku ríkisskuldabréfunum sem við vorum látin kaupa fyrir þetta lán!  Enda segir á vef fjármálaráðuneytisins:

Greiðsluferlarnir samkvæmt lánssamningnum munu samsvara vaxtagreiðslu- og endurgreiðsluferlum hinna tilgreindu pólsku ríkiskuldabréfa. Hreinn kostnaður lántakanda mun þar af leiðandi eingöngu verða vaxtaálag sem greiða skal samtímis vaxtagreiðslum af pólsku ríkisskuldabréfunum. Vaxtaálagið verður 2% á ári fram til 31. desember 2015 en 1.3% á ári þar eftir.

Vextir og vaxtaálag er ekki það sama. 

Ef pólsku ríkisskuldabréfin bera 5% vextir eru við að borga 7% og 6.3% vexti af þessu láni.  

Hvers vegna erum við að taka þetta lán?  Þetta lán kemur aldrei til Íslands.  Við eigum að nafni til þessi pólsku ríkisskuldabréf en þau eru veðsett og líklega geymd í Varsjá og við borgum 500,000,000 kr. á ári fyrir geymsluna?  Þetta er svolítið eins og gömlu bankarnir voru að gera, lána fyrir hlutabréfum með veði í bréfunum sjálfum! 

Nú þegar fyrrum Seðlabankastjóri er sestur í ritstjórnarstól ættu að vera hæg heimatökin hjá Morgunblaðinu að útskýra fyrir lesendum hvernig þessi gjörningur mun styðja við krónuna og hvort þessi geymslukostnaður í Varsjá sé eðlilegur og góð fjárfesting fyrir skattgreiðendur?


Ísland 2010

AGS hefur þegar viðurkennt að eftir 10 mánaða AGS gæslu hafa horfur á Íslandi snarversnað og nú er spáð 2% samdrætti í þjóðartekjum á næsta ári.

Ég er ansi hræddur um að þessi 2% sé bjartsýnisspá.  Skuldabyrðin er að sliga hagherfið sem hefur leitt til stöðnunar og gríðarlegrar verðbólgu þar sem eignarlausir stjórnendur reyna á miskunnarlausan hátt að velta vaxtakostnaði sínum yfir á neytendur.  Á sama tíma lækka laun og nú eiga snarhækkaðir skattar að koma ofan á allt saman.

Ef skuldir, skattar og verðbólga ná ekki að kæfa efnahagslífið hér 2010 þá munu misvitrir stjórnmálamenn með AGS í eftirdragi sjá um það.

2010 verður örlagaár fyrir Ísland.  Þá fyrst förum við að finna fyrir afleiðingum hrunsins.  Þetta er bara rétt að byrja, því miður.


mbl.is Kröfur AGS auka kreppuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af reynslu Breta

Bretar fóru í flatan niðurskurð upp úr 1990 með skelfilegu afleiðingum fyrir heilbrigðisþjónustuna hjá sér.  Biðlistar lengdust, óþrifnaður og ringulreið jókst þar sem það eru takmörk fyrir hvað er hægt að leggja á færri og færri hendur.  Á ákveðnum tímapunkti hrynur kerfið eins og við þekkjum það.

Það tók Breta 10 ár að vinna kerfið aftur upp með miklum kostnaði.  Þetta er ein ástæða þess að allt annað verður skorið niður hjá þeim áður en til heilbrigðisþjónustu kemur.

Flatur niðurskurður er hættulegur, dæmin sanna það.   Með því að fara hægar í niðurskurðinn og dreifa honum yfir 4-5 ár má standa vörð um heilbrigðiskerfið án þess að það leiði til samsvarandi skattahækkana.  

Því miður hefur Icesave sett allt okkar samband við AGS á ís og því má segja að Icesave sé Þrándur í götu hér.  Án Icesave hefðum við líklega geta endursamið við AGS og fengið lengri tíma í aðhaldsaðgerðir að fyrirmynd Íra og EB.  Hinn óbeini kostnaður af Icesave verður hár. 


mbl.is Flatur niðurskurður hættulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband