14.7.2009 | 15:28
Leikur að skulda tölum
Prósentureikningur er hættulegur eins og allir vita sem fylgdust með Prövdu á sínum tíma, málgagni gamla Sovét. Þar var einu sinni fræg frétt um að alifuglaframleiðsla í einu héraði í Síberíu hefði aukist um 300% Þegar betur var að gáð hafði hænum á einum bæ fjölgað úr 3 í 12.
En eins og hvert 10 ára gamalt barn veit þarf að huga bæði að teljara og nefnara þegar prósentur eru annars vegar.
Í flestum útreikningum er gengið út frá því að verg landsframleiðsla sé fasti, 1430 ma, en er það rétt forsenda? Er ekki réttara að gera ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 10-15% á föstu verðlagi sem þýddi landsframleiðslu upp á 1215-1290 ma. Tökum dæmi og notum 1250 ma fyrir landsframleiðsluna 2009, sem virðist nokkuð skynsamlega tala.
Ef skuldirnar verða í lægri kantinn 2800 ma jafngildir það 220% en ef hins vegar skuldirnar nálgast 4000 ma erum við að tala um 320%. Meðaltalið er 270% Það er því alls ekki fjarri lagi að tala um skuldastöðu upp á 250% miðað við þeir tölur sem nú eru upp á borðinu.
PS. 5 % vextir af 3000 ma eru 150 ma eða 12% af landsframleiðslu, meir en allt heilbrigðiskerfið okkar kostar! Framtíðin eru skuldir og skattar.
Stefna í að vera yfir 200% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.7.2009 kl. 06:34 | Facebook
Athugasemdir
Ef aðal þrætueplið er um hvort við skuldum 2800 eða 4000 milljarða held ég að menn þurfi afréttara til að koma sér í gang. Í báðum tilvikum er skuldastaðan slík að gjaldeyristekjur okkar duga ekki til að borga af þessum tölum.
Afborgun af 3000 milljarða láni með 5% vöxtum í 10 ár er um 400 milljarðar á ári eða um 30% af vergri landsframleiðslu. Við þurfum ekkert að reikna þetta frekar. Við ráðum ekki einu sinni við þetta þótt við myndum evruvæða hagkerfið í einni svipan.
Hagkerfið er að skila þessa stundina um 100 milljarða tekjuafgangi í vöruskiptum á ársgrundvelli og hagkerfi heimsins er ekki að fara að taka við sér í einni svipan á næstu 24 mánuðum. Þótt við myndum tvöfalda þennan afgang þó myndi það ekki duga til.
Ég hef sagt það áður og endurtek, við þurfum hjálp, mikla hjálp. Stjórnvöldum ber skylda til að vera hafin yfir flokkadrætti og eiga að hugsa í lausnum óháð pólitískum línum; það takmarkað aðeins lausnamengið.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 17:30
Björn,
Alveg rétt. Gjaldþrot er gjaldþrot sama hvort talan er 3000 eða 4000. Það sem er svo furðulegt er að þetta er gömul umræða frá því í mars. Þá var Steingrímur að tuða um 200% skv. þessu bloggi mínu. Við förum í hring og hring þangað til við sundlum. Kannski er það ekkert verri strategía en hver önnur miðað við ástandið!
Andri Geir Arinbjarnarson, 14.7.2009 kl. 18:10
Jamm þetta er búið spil. Bara spurning um hvernig okkur reiðir af í kjölfarið. Hver tekur okkur yfir?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 15.7.2009 kl. 01:33
Er fjölgun úr 3 í 9 ekki =200% ?
Þegar eitthvað þrefaldast þá eykst það um 200%
(9/3)-1 = 2.00
Jón F. Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 02:49
Jón,
Takk fyrir ábendinguna. Átti að vera 12. 3 + 9. Breyti þessu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 15.7.2009 kl. 06:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.