17. júní: Voru sambandsslitin mistök?

17. júní verður aldrei sá sami aftur.  Sá hreini, tæri og saklausi dagur er að sökkva í spillingu , græðgi og skuldafen og mun aldrei ná sér.  Það er eins og hann hafi fengið slag og lamast öðrum megin.  Fyrrum þróttur og afl er horfið. 

Það er hollt að minnast þeirra fórna og dugnaðar sem fyrri kynslóðir lögðu á sig til að þessi dagur rynni upp.  Hvernig gátu þessar kynslóðir alið af sér þvílíkt afskræmi sem nú hefur fótum troðið íslenskt lýðræði svo aldrei mun gróa um heilt.

Gleymdist ekki að setja upp viðvörunarkerfi sem var sniðið að þörfum landsins?  Var ekki gefið að þegar hinu mikla takmarki var náð sem sameinað hafði þjóðina öldum saman færi í fyrra horf?  Þá myndu hinir siðblindu og taumlausu smákóngar aftur vakna til lífsins og setja allt í bál og brand á nýrri Sturlungaöld.  Sagan hefur endurtekið sig og enn á ný nálgumst við 1262 þó lausnin í þetta skipti verið ekki sú sama, en það er ekki okkur að þakka heldur hafa mál þróast á annan hátt á meginlandinu sem kemur okkur til góða.

Hins vegar er þjóðin nú þvinguð til samninga við erlenda aðila vegna vanstjórnunar og spillingar alveg eins og fyrr á öldum.  Hið sorglega er að Ísland skuli vera þvingað inn í ESB en ekki ganga þar inn með reisn af fúsum og frjálsum vilja til að taka þátt í uppbyggingu Evrópu á jafnvægisgrundvelli við okkar nágrannalönd.

Kapp er best með forsjá og það hefði kannski verið viturlegra að halda sambandi við Dani líkt og Kanada gerir við Bretland.  Það hefði gefið okkur stuðning og styrk á ögurstundum.  Bandaríkjamenn tóku þetta að sér á meðan herstöðin var hér en þegar þeir fóru var landið sett á stjórnlaust flot.  Íslendingar hafa alltaf hagað sér eins og milljón manna þjóðfélag en til að svo megi vera þurfum við hjálp og stuðning erlendis frá.  Yfir 1100 ára saga kennir okkur það.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband