Góður listi en forðast ber pólitískar freistingar!

Ég hef oft sagt að auglýsing um stöðu Seðlabankastjóra er ekki besta aðferðin.  Þetta sendir út röng skilaboð um stöðu starfsmannahalds ríkisins og oft sækja ekki bestu kandídatarnir um starfið.  Þetta er ein helsta ástæðan hvers vegna auglýsing er ekki notuð í nágrannalöndum okkar.  En Ísland er ekki eins og önnur lönd.  Það ætti að vera orðið augljóst nú og það á einnig við um þessa auglýsingu.

Margir metnir menn hafa sótt um og listinn er eins góður hægt er að búast við.  Nú þegar fjöldi hagfræðinga hafa sótt um er það ekki þeirra sérfræðiþekking sem skiptir máli. Þeir eru allir með góða og gilda menntun.  Nú er það reynslan og mannlegir eiginleikar sem skipta máli. 

Þeir sem sýnt hafa sjálfstæða hugsun, hugrekki og þrek, eiga að skipa efstu sætin.  Það versta sem gæti hent væri að ráða þægan kjölturakka.  Einhvern sem aldrei mun andmæla ráðherrum S og VG.  Nei nú þurfa stjórnvöld að sýna hvað í þeim býr.  Ekkert mun byggja upp traust og trúveruleika hjá Seðlabankanum eins og óháð, sjálfstæð og gagnrýnin hugsun og aðferðafæri.  Nú mega stjórnmálamenn ekki bregðast þjóðinni.  Ekki falla í þá gryfju að skipa "Davíð" á vinstri kantinum.


mbl.is Fimmtán sóttu um stöðu seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín bendir á tónlistarhúsið

Nú eru góð ráð dýr. 

Menntamálaráðherra hefur nýlega látið um 12 ma kr renna til tónlistarhússins svo það geti klárast í byrjun 2011. Þetta var gert á þeim grundvelli að styðja þyrfti mannfrek verkefni.   Hún hefur því litla peninga afgangs til námsmanna. 

Gleymdi hún sínum skjólstæðingum, námsmönnum?

 


mbl.is Námsmenn örvænta um sumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matarskattur eftir kosningar?

Þessar tölur tala sínu máli. 

Samdráttur í neyslusköttum er gríðarlegur en kemur ekki á óvart.  Stór hluti landsmanna kaupir fátt annað en mat og bensín.  Þessi breyting í neyslumynstri er stór og þar sem matur ber ekki vask eru áhrifin mikil fyrir ríkið. 

Mjög líklegt má teljast að einhvers konar matarskattur verði lagður á  eftir kosningar, alla vega á munaðarvörur.  Þetta er hins vegar skattur sem er tabú fyrir alla flokka. 

Hin algjöra skattaþögn allra flokka er orðin ansi grunsamleg!


mbl.is Handbært fé ríkissjóðs dregst verulega saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur í áskrift svara en hvað með hina?

Aðeins helmingur tók afstöðu í þessari skoðanakönnun.  Hvernig mun hinn helmingurinn kjósa?  Um þetta mun slagurinn standa næstu 4 vikurnar.  Þeir sem ekki hafa gert upp sinn hug eru ringlaðir sem aldrei fyrr.  Hver er hinn raunverulegi málefnalegi munur á milli flokkanna fyrir utan ESB aðild?  Hverjum geta 18,000 atvinnulausir best treyst til að skapa ný störf?  Spurningarnar eru margar en svörin fá frá flokkunum. 

Stefnuleysi skilar flokkunum stöðuleika í skoðanakönnunum.  Við hverju var að búast.   


mbl.is Samfylking áfram stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúra á Alþingi

Nú hefur Alþingi náð ákveðnum lágpunkti.  Hvers konar orðbragð er þetta sem Katrín leyfir sér.  Ber hún enga virðingu fyrir vinnubrögðum of hefðum Alþingis?  Öflug stjórnarandstaða er eitt af aðalsmerkjum lýðræðis.  Þegar stjórnarsinnar byrja að haga sér eins og Katrín er það ekkert annað en aðför að þingræði landsins. 

Hvernig væri að Katrín bæði þjóðina afsökunar á þessum orðum.

 


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með lánum skal land byggja og ólánum eyða!

Erlendir kröfuhafar eru að missa þolinmæðina yfir aðgerðarleysi og ráðaleysi íslenskar stjórnvalda sem margir aðrir.  Síðustu 6 mánuði höfum við reglulega heyrt að nauðsynlegt sé að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum annars opnist ekki fyrir erlenda fjármögnun.  En hvers vegna kemur engin afgerandi yfirlýsing um þetta efni frá stjórnvöldum sem erlendir aðilar geta treyst?

Nauðsynlegt skilyrði fyrir endurreisn efnahagslífs hér er að hér starfi alþjóðlega viðurkennt bankakerfi með aðgang að erlendu fjármagni.  Svo er ekki nú og á meðan er ekki hægt að taka á vanda heimilanna og fyrirtækja af þeirri festu og með því afli sem er nauðsynlegt.

Við erum nú á hraðleið aftur til sjálfsbjargarbúskaps þar sem útflutningstekjur sjávarútvegsins munu ákveða okkar lífskjör og atvinnumöguleika.   Byggingariðnaður, verslun og fjármálastarfsemi eru hrunin eða að hrynja niður á fyrra stig sem hér ríkti fyrir 30 árum.  Aðrar nýjar atvinnugreinar eru í erfiðleikum og þeir sem geta fært sína starfsemi erlendis íhuga það.  Orkuiðnaðurinn fer ekki varhluta af ástandinu.  Álverð hríðfellur og staða Landsvirkjunar er óviss.  Landbúnaðurinn er sligaður af skuldum og háu verði aðfanga.  Eina bjarta ljósið er ferðamannaþjónusta sem virðist standa einna best.

En að snúa klukkunni aftur um 30 ár verður sársaukafullt og varla hægt, þó við vildum.  Hinar ótrúlegu skuldir einstaklinga og fyrirtækja nú voru óþekktar af fyrri kynslóð.  Hinn gamli sjálfsbjargarbúskapur getur aldrei staðið undir lágmarks velferðarþjóðfélagi og núverandi skuldabagga.  Þetta dæmi gengur ekki upp.  

Það  mun því engin framför verða fyrr en við ákveðum hvað skuldir við ætlum að greiða og hvernig.   Aðeins þá geta fjármagnseigendur ákveðið hvort séum borgunarmenn fyrir enn meiri lánum.  Með lánum skal land byggja og ólánum eyða virðist vera staða okkar í dag.

 

 


mbl.is Vill að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allt upp á borðið" sett niður í skúffu VG

Steingrímur J. Sigfússon ... krefst þess að öll skjöl og gögn sem snúa að lánsumsókn Íslendinga til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og umræðu um samkomulag vegna Icesaeve-reikninga, verði þar lögð fram og gerð opinber ... VG segir ríkisstjórnina hafa hundsað löggjafarþingið og haldið upplýsingum frá almenningi í þessu máli sem öðrum.  Mbl 17 nóvember 2008

Þessi frétt úr Morgunblaðinu frá nóvember talar sínu máli og sannar að ekki er allt sem sýnist.  Allir fjórflokkarnir nota sömu aðferðir þegar þeir eru í ríkisstjórn. 

Þetta á ekki að koma þingmönnum á óvart.  Þeir þekkja leikreglurnar og þetta er aðeins gert til að ganga í augun á kjósendum.

Það er orðið auðveldast að skilja það fólk sem mun skila "auðu" í næstu kosningum.


mbl.is Hvurslags framkoma er þetta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi fær falleinkunn

Enn eitt rótgróið fyrirtæki landsins leggur upp laupana.  Aðgerðarleysi og ráðaleysi Alþingis eftir 6 mánuði eru orðin ansi vandræðaleg að ekki sé sterkara að orði komist.

Vandamálið er að á Alþingi og í ríkistjórn landsins sitja ekki reyndir og traustir talsmenn atvinnurekenda.  Það er starf atvinnurekenda að setja á stofn og reka fyrirtæki landsins sem skapa störf fyrir flesta launþega landsins.  Þegar klippt er á lífæð atvinnurekenda er einnig klippt á líflínu launþega og skattstofn ríkisins.  Ekki getur þjóðin verið á framfærslu ríkisins.  En þó flestir skilji þessa röksemdafærslu er langt í frá að stjórnmálamenn hafi þá þekkingu og reynslu til að hrinda í framkvæmd markvissum og praktískum lausnum sem best hjálpa atvinnulífinu. 

Því miður er fátt sem bendir til að þetta muni batna eftir kosningar.  Sú regla virðist gilda á Íslandi að gæði Alþingis sé konstant.  Niðurstaða kosninganna skiptir litlu máli, gæði Alþingis verður jafn lítið og lágt.  Prófkjör er aðalorsökin. 

Þjóðinni er hollt að minnast að Davíð Oddsson var um langan tíma prófkjörskóngur Íslands. 

 


mbl.is Ævistarfið farið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... þá er heiðarlegast að kjósa í haust

Þessi fjórflokkafræði að aðeins 4 formenn flokkanna viti allt best og að pakka þurfi þjóðinni inn í bómull fyrir kosningar er hrein lítilsvirðing og hroki gangvart kjósendum.  Að hér skuli vera kosið til þings í einhverjum mikilvægustu kosningum lýðveldisins án þess að kjósendur fá nokkra tölulegar vitneskju um hverjar hugmyndir (að ekki sé talað um stefnu) flokkanna séu í ríkisfjármálum er hneyksli. 

Þetta er ekkert nema samsæri fjórflokkanna sem setja eigin völd fram yfir upplýst lýðræði.

Kamarsstækjan sem leggur frá Alþingi er að kæfa þjóðina.


mbl.is Skattaákvarðanir um mitt árið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og endurskoða þarf þjóðhagsspá

Er von að menn spyrji um sölu bankanna enda er hún hornsteinn í nýlegri þjóðhagsspá.  Ef ekki tekst að selja bankanna versnar ríkishallinn.  Finna þarf fjármagn til að stoppa upp í það mikla og óvænta gat.  Ekki er líklegt að það fáist frá AGS svo þá er bara einn kostur eftir:  enn meiri niðurskurður og hærri skattar. 

Mjög ólíklegt er að einhverjir erlendir aðilar hafi áhuga á þessum bönkum alla vega ekki á meðan krónan er hér við líði.  Íslenskur almenningur hefur ekki afgangsfé á milli handa til að fara að kaupa hlutabréf í bönkum.  Svo er spurningin hvort þeir sem hafa peninga eru tilbúnir til að setja þá í íslenska banka.  Treysta menn stjórnvöldum til að fara með sitt sparifé?  Það er spurningin. 


mbl.is Einkavæðing bankanna óákveðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband