Jafnar leikreglur verða að gilda fyrir alla, líka Norðmenn!

Viðskiptaráðherra verður að sjá svo um að jafnar leikreglur gildi fyrir alla erlenda fjárfesta sem vilja koma hingað.  Ef fjárfestar fá það á tilfinninguna að sumir hópar séu jafnari en aðrir vegna pólitískra tengsla eða þjóðernis vekur það upp tortryggni og vantraust og er nóg samt.

Nýleg frétt um samskipti fyrrverandi Seðlabankastjóra við hóp norskra fjárfesta með tengls við norska verkamannaflokkinn þegar hann sat í Seðlabanka Íslands er mjög óheppileg og vekur upp margar spurningar hvort réttum leikreglum sé fylgt eftir.

Fá allir sömu fyrirgreiðslu, aðgang og upplýsingar?  Hefur fleiri fjárfestum verið boðið hingað til fundar og á hvaða forsendum?  Var það að frumkvæði Seðlabankastjóra eða annarra?

Þó um brunaútsölu á eignum þjóðarinnar sé að ræða megum við samt ekki alveg gleyma okkur.  Við verðum að reyna að fá eins gott verð og hugsast getur.  Fyrsta tilboð frá næsta nágranna áður en búðin opnar er ekki alltaf það besta!

 


mbl.is Á von á að fleiri fylgi í kjölfarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norsk einkavinavæðing á Íslandi?

Þetta framtak fyrrverandi Seðlabankastjóra er gott svo langt sem það nær, en heldur hefði ég viljað sjá breiðan hóp fjárfesta frá öllum Norðurlöndunum.  Er þessi hópur Norðmanna vinir og kunningjar fyrrverandi Seðlabankastjóra? 

Þetta hljóma nú næstum eins og innherjaviðskipti.  Fyrrverandi Seðlabankastjóri hafði aðgang að upplýsingum um íslensk auðæfi og tækifæri sem aðrir hafa ekki.  Er eðlilegt að hann noti þessar upplýsingar til að hygla fjárfestum frá Noregi?  Er það eðlilegt að Sveinn Harald sé að bjóða erlendum fjárfestum frá sínu heimalandi hingað til lands á meðan hann er Seðlabankastjóri og blanda lögfræðingi sem er háttsettur innan norska Verkamannaflokksins í málið? Hér er Svein Harald að leika sama leik og Ólafur Ragnar á sínum tíma, en á miklu vafasamari grunni.

Nú verðum við að sjá svo um að eðlileg samkeppni og jafnar leikreglur gildi um fjárfestingar í okkar atvinnulífi.  Ef Norðmenn hafa áhuga á að fjárfesta hér eru miklar líkur á að sænskir fjárfestar hafi það líka, svo framarlega sem þeir hafi jafnan aðgang af upplýsingum á við norsku fjárfestana.


mbl.is Vilja setja fé í endurreisnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing ríkisframkvæmda

Þegar efnahagsreikningur ríkisins leyfir ekki meiri fjárfestingar með skuldsetningu verður að leita til einkaaðila.  Þessi aðferð hefur verið mikið notuð í Bretlandi og var í miklu uppáhaldi hjá Tony Blair.

Þar byggja einkaaðilar sjúkrahús, skrifstofur, skóla og fangelsi - allt byggingar sem eru í eigu einkaaðila en ríkið leigir.

Næsta skref er síðan að bjóða hluta af rekstrinum út, viðhald, fangaflutninga, ræstingu osfrv.

Þá er stutt í það að einkaaðilar byggi sjúkrahús sem þeir eiga og reka og ríkið kaupir þjónustu af.  Þannig innleiddi Tony Blair einkaspítalarekstur í hinu opinbera heilbrigðiskerfi Breta.  Margir sjúklingar hafa nú val um hvort þeir leggist inn á prívat spítala eða ríkisspítala og sjúkratrygging breska ríkisins (NHS) borgar.

Neyðin kennir naktri konu að spinna.  Samfylkingin með VG í eftirdragi mun fylgja breska Verkamannaflokknum eftir í þessum málum.  Innan 5 ára munum við sjá prívatspítala rísa hér í samvinnu við ríkið.  Öðruvísi verður ekki hægt að halda uppi nútímaheilbrigðisþjónustu með nýjustu tækni hér á landi.


mbl.is Í athugun að einkaaðilar reisi fangelsi sem ríkið leigi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil er viska Lilju

Lilja segir að þegar bankar veiti lán á föstum vöxtum séu þeir að deila áhættunni á milli sín og lántakenda.  Þetta er nú ákveðin einföldun því bankar taka sjaldnast slíka áhættu alla vega ekki bankar sem eru vel reknir.

Í löndum með þróaðan fjármálamarkað  gefa bankar út skuldabréf á móti lánum svo innflæði og útflæði yfir hinn fasta lánstíma sé í jafnvægi.  Það er því ekki bankinn sem tekur þessa áhættu heldur eru það oft einstaklingar sitt hvorum megin sem eru að deila áhættunni, þ.e. sparifjáreigendur og lántakendur.  Áhætta bankans felst aðallega í því að fólk geti staðið í skilum og sú áhætta mælist í vaxtaálagi yfir hættulausa vexti sem því miður er orðið ansi erfitt að mæla á Íslandi.

Í því ástandi sem nú ríki er mikil hætta á að sparifjáreigendur verði undir í baráttunni um peningavöldin sem endar með eignartilfærslu frá þeim til þeirra sem skulda.  Hættan er að leið Lilju endi í verðbólgubáli eins og í kringum 1970 sem bæði þurrkaði út skuldir og sparnað.


mbl.is Flokksráð VG vill afnám verðtryggingar sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk menntamál í sjálfheldu

Tillögur OECD í menntamálum eru löngu tímabærar og snúast um ekki um pólitík heldur almenna skynsemi.  Nágrannalöndin hafa 3ja ára menntaskóla og útskrifa stúdenta 18 ára sem geta farið út á vinnumarkaðinn 21 árs með BA eða BS gráðu.  Á Íslandi tekur þetta 2-3 árum lengur að minnsta kosti.

Hvers vegna?  Erum við tregari en útlendingar? 

25 ára háskólamenntaður Íslendingur er ekki í góðir samkeppnisstöðu á alþjóðlegum vinnumarkaði.  Hann eða hún er með BA eða BS gráðu og 1. árs starfsreynslu á meðan hinn erlendi umsækjandi er með sömu menntun og 3. ára starfsreynslu.

Svo megum við ekki gleyma að flestir af okkar útrásarvíkingum hlutu menntu á Íslandi.  Varla er það mikill gæðastimpill fyrir íslenskar menntastofnanir og þeirra gildi, sérstaklega viðskiptafræðideildir háskólanna.  Ætli margir erlendir stúdentar sækist eftir MBA námi á Íslandi í framtíðinni?

Doktorsnám á Íslandi er rugl nema í íslensku og jarðfræði, masternám á að takmarka eins og hægt er og leggja alla áherslu að bæta BA og BS námið.  Sameina á alla "háskóla" hér á landi í tvær stofnanir sem eiga að hafa útibú út á landi. 

Gífurlegir möguleikar eru til hér á landi að hagræða og bæta íslenskt menntakerfi ef viljinn er fyrir hendi.

Það sem mun standa umbótum fyrir dyrum í okkar menntakerfi og heilbrigðiskerfi er pólitísk hugmyndafræði VG sem byggir á gildum sem við höfum ekki efni á lengur.  


mbl.is Ábendingar snúast um pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave stelur dýrmætum tíma

Icesave samningurinn er orðinn mikil tímaþjófur þegar við síst erum aflögufær um tíma.  Allt er í stoppi þangað til þessi samningur er í höfn og eitthvað hafa íslensk stjórnvöld verið ofurbjartsýn á að Bretar og Hollendingar gæfu jákvætt svar fyrir helgi.  Nú er talað um að taka upp þráðinn í næstu viku til að ná fram sameiginlegum skilningi.  Svona orðalag vekur ekki upp von um skjóta afgreiðslu.

Á meðan bíða heimilin, atvinnuvegirnir og ríkisfjármálin en þetta eru mál málanna í dag.  Icesave kemur ekki til með að hafa bein áhrif hér á landi fyrr en eftir 7 ár.  Hvað getur stjórnin þraukað lengi með allt þjóðfélagið í biðstöðu?  Bretar og Hollendingar hafa nógan tíma en höfum við það?


mbl.is Bréf til Hollands og Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleinkunn fyrir Ísland

Skýrsla Fitch getur ekki verið verri miðað við óbreytta lánshæfniseinkunn. 

Ríkisfjármálin eru sérstaklega tekin fyrir og þar fær Ísland botneinkunn af þeim þjóðum sem Fitch metur.  Það er erfitt að sjá hvernig AGS getur réttlætt lánaafgreiðslu til Íslands miðað við þessa stöðu. Það hljóta að vera mikil vonbrigði hjá AGS að ekki hafi tekist betur til að koma ríkisfjármálunum í sæmilega stöðu fyrir árslok 2009.

Niðurskurður og skattahækkanir 2010 og 2011 verða því þær verstu sem riðið hafa yfir þróuð ríki í manna minnum.

Það er kannski best að ræða þessi mál sem minnst enda fátt hægt að gera annað en að bíða og sjá hvernig ríkisstjórnin og Alþingi matreiða þetta niður í kjósendur.


mbl.is Óbreytt lánshæfiseinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að reka velferðarkerfið á erlendum lánum

Eitthvað stendur skýrsla OECD í íslenskum stjórnmálamönnum enda á erlend gagnrýni ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum ólíkt erlendu hóli og skjalli sem flestir landsmenn halda ekki vatni yfir.

Niðurskurður í heilbrigðisþjónustu og menntamálum er staðreynd sem ekki verður hægt að leyna lengur en til jóla þegar fjárlög fyrir 2010 verða að liggja fyrir. OECD er bara að segja það sem Ögmundur verður neyddur til að segja seinna á árinu.  Við höfum ekkert val þar sem erlendir aðilar munu neyta að lána okkur svo við getum keyrt okkar velferðarkerfi án aðhalds.

Það má svo segja að það sé óábyrgt af ríkisstjórninni að bjóða ekki upp á nýja möguleika fyrir sjúklinga til að leita sér tímanlegra lækninga og lækka kostnað þegar niðurskurðurinn byrjar af alvöru.

Mikilvægt er að bjóða fólki upp á að kaupa sér sérstakar tryggingar sem létta undir með sjúklingum til að standa straum að auknum lyfjakostnaði og þjónustugjöldum.

Þetta er fljótleg og auðveld leið til að hjálpa fólki en þar sem hún gengur þvert á pólitíska hugmyndafræði VG er hún algjört tabú. 


Næsta kynslóð mun borga

Næstu kynslóðir munu borga fyrir skuldsetningu núverandi kynslóðar.  Allar nauðsynlegar aðgerðir til hjálpa heimilunum munu hafa áhrif á kostnað og möguleika næstu kynslóða að taka lán.

Ef lán verða tengd við greiðslugetu og höfuðstólinn líka munu bankar þurfa að gæta ýtrustu varkárni við að lána í farmtíðinni.  Líklegt er að lántakendum verið gert að kaupa rándýrar tryggingar sem borgi lánin verði lántakandi fyrir tekjumissi eða öðrum efnahagslegum skakkaföllum.

Þetta getur leitt til þessa að mun ódýrara og auðveldara verður fyrir næstu kynslóðir að flytja erlendis og koma sér þaki yfir höfuðið í stað þess að kúra í lítilli leiguíbúð á Íslandi.

 


mbl.is Grunnur að lausn á vanda heimila?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsyn brýtur venjur

Þeir sem stóðu í brúnni þegar þjóðarskútan sigldi í strand ættu ekki sí og æ að vera að gagnrýna þá sem vilja leggja hönd á plóginn í nauðsynlegum björgunaraðgerðum.

Við væru ef til vill ekki í eins slæmum málum ef við hefðum hlustað betur á erlenda gagnrýni og tillögur í gengum árin í staðinn fyrir að rjúka alltaf upp í minnimáttarkennd og kalla velvilja annarra "óeðlileg afskipti af innanríkismálum Íslands"

 


mbl.is OECD blandar sér í íslensk stjórnmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband