29.12.2009 | 10:17
Íslandsbanki í pólitískri herkví
Erfitt er að sjá hvernig skipan fyrrum stjórnarformanns FME sem stóð vaktina þar í hruninu í stöðu stjórnarformanns Íslandsbanka sé í þágu nýrra eigenda bankans.
Hvers vegna var ekki beðið með þessa skipun þar til rannsóknarefnd Alþingis birtir sína skýrslu? Getur það hugsast að FME beri litla sem enga ábyrgð á störfum gömlu bankanna og að þeir sem þar sátu í stjórn séu yfir persónulega ábyrgð hafnir? Ber stjórnarformaður enga ábyrgð á störfum síns forstjóra?
Það getur vel verið að rannsóknarnefndin geti sannfært Alþingi og almenning um að eftirlitstofnanir ríkisins og þeirra æðstu embættismenn séu saklausir, en eitthvað segir mér að það verði erfiðara að sannfæra erlenda aðila og þá sérstaklega erlenda bankamenn um þessa rökfræði.
Hvernig ætli þessi skipan auðveldi Íslandsbanka aðgang að fjármagni erlendis? Eru erlendir bankar og bankamenn ekki að taka persónulega áhættu að versla við fyrrverandi stjórnarformann FME í landi þar sem varð algjört bankahrun? Ætli það sé vænt til starfsframa?
Svo er spurningin: hver verður nýr bankastjóri Íslandsbanka? Úrvalið hefur aldrei verið mikið á Íslandi þegar kemur að hæfu fólki en ekki bætir þessi skipun ástandið. Hvaða ungi og framagjarni maður vill setja það á sína starfsferilsskrá að hann eða hún hafi valið að starfa undir stjórn fyrrverandi stjórnarformanns FME? Hvað segir það um dómgreind þeirra?
Nei, það verður ekki annað séð en að þessi skipan Jóns Sigurðssonar setji bankann í ákveðna herkví hvað varðar framtíðar aðgang bankans að hæfu fólki og erlendu fjármagni. Það er óhugsandi að nýir eigendur sætti sig við þetta til langframa og séu tilbúnir að "tapa" enn meri á Íslendingum eingöngu til að halda uppi spilltu innlendu pólitísku kerfi.
Eini ljósi punkturinn við þetta allt saman er að rökin fyrir því að sameina bankana tvo, Arajón og Jónárna hafa styrkst til muna enda eigum við varla hæft fólk nema til að reka einn banka sómasamlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.