6.12.2009 | 12:11
Smánarblettur á stjórn Steingríms og Jóhönnu
Einn mesti smánarblettur á stjórn Steingríms og Jóhönnu er hvernig þau hafa komið fram við ellilífeyrisþega og öryrkja.
Stjórn Geirs Haarde réðst fyrst á ellilífeyrisþega þegar eftir hrunið og ný stjórn Jóhönnu lét ekki sitt eftir liggja. Enda er staðan nú eins og Öryrkjabandalagið segir:
"Hækka þarf frítekjumarkið hjá öryrkjum og aðeins sanngirnismál að það verði til jafns við það sem atvinnulausir njóta en þeir eru sem stendur með sjöfalt hærra frítekjumark eins og staðan er í dag. Gagnrýnir Öryrkjabandalagið þessa stöðu mála alvarlega."
Enginn rís upp þegar kjör ellilífeyrisþega og öryrka eru skert en þegar talið berst að sjómannafslætti eða fæðingarorlofi ætlar allt að verða vitlaust og mjög sterkir hagsmunahópar rísa upp og berjast með kjafti og klóm til að verja sína hagsmuni og ríkisstjórnin hlustar yfirleitt á þá sem hafa hæst.
Þetta er vandamál gamla fólksins. Á Íslandi fæst ekkert nema með frekju, hávaða og suði.
Virðingar- og afskiptaleysi þjóðfélagsins til eldri borgar segir margt um þau gildi sem ríkja í þessu landi. Sem þjóðfélagshópur eru ellilífeyrisþegar annars flokks fólk sem flestir vilja helst fela. Lítil sem engin umræða er um stöðu eða meðferð á þessum þegnum okkar. Fjölmiðlar vilja frekar fjalla um gæludýr en gamla fólkið.
Stjórn sem kalla sig félagshyggjustjórn er ekki stætt á að stunda svona misræmi og fótum troða rétt þeirra sem minnst mega sín og geta oft ekki talað sínu máli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fyrsta niðurskurðarverk þessarar ríkisstjórnar var að skerða niður kjör aldraða og öryrkja- í júní - strax eftir stjórnarmyndun.
Enginn annar niðurskurður er kominn á framkvæmdastig.
Eftir að félagsmálaráðherra hafði lokið sér af með gamlafólkið og öryrkjana- þá réð hann til sín sem frumvarpahönnuð- einn af aðal bankahrunsstráknum, Yngva Örn Kristinnsson, núverandi 250 milljónakröfuhafa í hræ Landsbankans
Hans hlutverk var semja frumvarp sem gekk undir dulnefninu "Skjaldborg um heimilin"
Þar átti að smygla inn skattauppgjöf fyrir kúlulánliðið og fleiru til hagsbóta fyrir auðfólkið- en var á ögurstundu í þinginu stoppa af.
Það er reisn yfir þessu....
Sævar Helgason, 6.12.2009 kl. 12:52
Ég skora ykkur einnig á að kynna ykkur hve mikið aldraðir þurfa að greiða þegar þeir leggjast inn á hjúkrunar- og dvalarheimili. Í slíkum tilvikum er allt reynt til að hafa sem mest að aldröðum þannig að þáttaka þeirra í dvalarkostnaðinum verði sem mestur.
Hámarksdvalarkostnaður er í dag um 260.000 en þó aldrei það mikið að ekki verði eftir um 62000; VASAPENINGAR. Þessa upphæð í dvalarkostnaði borga margir þar sem allar tekjur eru tíndar til svo sem:
*Lífeyrisgreiðslur (vægi 100%)
*Fjármagnstekjur (vægi 50%)
*Tekjur maka (vægi 25%)
o.s.frv.
Virðing okkar Íslendinga fyrir öldruðum hefur aldrei verið til að stæra sig af.
Við höfðum t.a.m. af þeim sparnaðinn á áratugunum 1975-1985, síðan með eignasköttum (Eknaskattur) og nú með neikvæðum innlánsvöxtum. Til að kóróna allt leggst síðan fjármagnsskatturinn á verðtryggingu þannig að hækkun skattsins þýðir enn og aftur neikvæða eignamyndum á sparifé.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 13:26
Það er líkt og alveg sé búið að snúa við hver er að sinna velferð aldraðra og sjúkra. Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar stefndi á að auka kaupmátt þessara aðila og auka möguleika á tekjum án skerðinga á bótum. Svo kemur hreinræktuð vinstri stjórn sem byrjar á að draga það til baka og gott betur. Í ofanálag hækkar þessi stórn fjármagnstekjuskatt á innistæður þeirra, eykur áhrif innistæða í tekjutengingu og skerðingu bóta svo að nú fer að verða hvati til þess að öryrkjar og aldraðir hafi ekki innistæður sínar í fjármálastofnunum. Þá er aftur reynt að hindra aldraða og öryrkja frá að taka einhvern þátt í atvinnulífinu með því að auka áhrif tekna á möguleika á bótum. Nú fer aftur að verða eftirsótt að ná 75% örorku til að fá bætur. Þetta er allt afturför. Líkt og Ríkistjórnin vilji frekar láta ungt fólk hanga heima í depurð og þunglyndi og festast í kerfinu en hvetja það til einhverrar þáttöku í atvinnulífinu eftir getu og mögulega styrkjast í trú sinni að það geti starfað meira. Þannig losað þjóðina við áratuga greiðslum og þeim vandamálum sem svo oft fylgja með langvarandi félagslegum takmörkunum. Þetta veldur því að komin er hvatning til svartraratvinnustarfsemi, mikil mannauð þarf í eftirlit og stóribróðir þarf að mæta á staðinn. Þessi stjórn horfir á alla öryrkja og bótaþega með tortryggni í stað þess að nota hvatningu. Ofan á gríðarlegan kostnað sem sumir þurfa að bera við að fara á hjúkrunarheimili verður oft til vandamál hjá maka sem situr eftir heima. Oftast konan sem aldrei hefur unnið sér inn lífeyrissjóðsrétt hjá þessari kynslóð og þannig verður til mikið tekjutap til heimilisins til rekstrar íbúðar og til annars lífs en fátæktar.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 6.12.2009 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.