Icesave afhjúpar vankunnáttu og getuleysi stjórnvalda

Maður stendur orðlaus yfir þessu nýjasta samkomulagi á afgreiðslu Icesave úr 2. umræðu.  Ég þurfti að kíkja á dagatalið til að vera viss um að þetta samkomulag væri frá 2009 en ekki 2008. 

Hér á elleftu stundu eftir nær eins árs þras virðast engar grundvallar skýringar og álit liggja fyrir um samninginn sem mark er takandi á:

1. Stenst Icesave stjórnarskrá Íslands?

2. Samningurinn er á ensku og um hann gilda ensk lög en enginn breskur lögfræðingur hefur gefið lögfræðilegt álit á innihaldinu?

3. Hvaða afleiðingar hefur það ef samningnum er hafnað?

4. Hvaða fjárskuldbindingar eru í samninginum?

Maður spyr sig hvað embættismenn ríkisins í þessu máli hafa verið að gera síðastliðið ár?  Hvers konar vinnubrögð eru viðhöfð í stjórnkerfinu og á Alþingi?

Greinilegt er að mikil gjá hefur myndast á milli Alþingis og kjósenda.  Undirskriftarlisti til Forseta Íslands sem senn nálgast 30,000 ætti að vera mikið áhyggjuefni þingsins.  Þar með er almenningur að lýsa sinni vanþóknun yfir vinnubrögðum stjórnvalda og þingsins.

Þessi gjá er miklu alvarlegri en Icesave og erfitt er að sjá hvernig hún verður brúuð.  Líklegt er að krafan um beint lýðræði muni aukast og að ný stjórnarskrá muni takmarka völd þingsins í meiriháttar málum.

Icesave hefur skaðað íslenskt þingræði og ólíklegt er að Alþingi muni nokkurn tíma bera þess bætur.  Því bera að fagna, enda hafa íslenskir Alþingismenn sannað og sýnt að þeir geta ekki tekið á stórum málum. 

 

 


mbl.is Samkomulag um afgreiðslu Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Akkúrat megininntak málsins Andri. Það að þessum spurningum hefur ekki verið svarað er ástæða þess að meirihluti þjóðarinnar hefur vit á því að vilja ekki að óútfylltur víxill verði samþykktur. Þjóðin hefur sagt stopp við svona vinnubrögðum, semja um eitthvað og vona hið besta. Það þarf að vinna heimavinnuna vel. Það væri glapræði að samþykkja samninginn meðan þessum spurningum er ósvarað.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 5.12.2009 kl. 12:50

2 identicon

Hvað með gjána sem virðist vera milli stjórnar og þings? Er hugsanlegt að ríkisstjórnin geti ekki tekið á" stórum málum"? Er hugsanlegt að ríkisstjórnin fylgi ekki málum eftir á þingi með rökum? Er hugsanlegt að sumir þingmanna horfi um of til flokkslínunnar?Er það gefið mál að "beint lýðræði" myndi vera töfrlausn á vanköntum núverandi stjórnarskrár? Hvað þýðir annars" beint lýðræði"?

Agla (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 13:21

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Beint lýðræði er oft notað yfir stjórnkerfi þar sem öll stór mál fara í þjóðaratkvæðisgreiðslu.  Fólkið kýs beint en ekki gegnum þingið.  Svisslendingar nota þetta kerfi einna mest í Evrópu. 

Nýjasta dæmið er þegar Svisslendingar felldu frumvarp um að leyfa bænaturna múslima. Það var eins konar Icesave fyrir þá.  Stjórnvöld vildu leyfa en ekki kjósendur.

Þetta hentar best í þjóðfélögum sem eru vel menntuð og upplýst.  Ætti vel við hér á landi þar sem mjög auðvelt er að koma upplýsingum til fólks hratt og vel.  Tölvutækni auðveldar þetta einnig mjög mikið og sjálfsagt að ræða þessi mál í sambandi við nýja stjórnarskrá.

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.12.2009 kl. 13:45

4 identicon

Andri,

Ég er þér sammála um getuleysi og vankunnáttu okkar manna sem er skammarleg og landi og þjóð til mikillar háðungar. Hverjum augum skildu kollegar Steingríms og Jóhönnu erlendis líta þau og skildu þau skötuhjúin nokkurn tímann hugsa til þess? Sennilega ekki, en stórlega efast ég um að Evrópumenn hafi átt mök við meiri aukvisa en þau tvö.

Ég er þér líka sammála að íslenskir ráðamenn geta ekki tekið á stórum málum sem þessum. Ég hef tönnlast mikið á því að engar hefðir eru í íslenskri stjórnsögu þar sem slík geta og kunnátta hefði getað myndast. Frelsisbarátta Íslands er einhver sú óverulegasta sem um getur og er það svo sem ekki okkur að kenna, en hins vegar hefðum við aukist af meiri baráttu á því sviði.

Málið er að Jóhanna stjórnast einvörðungu af því að troða Íslandi inn í ESB. Steingrímur stjórnast einvörðungu af því að halda Sjálfstæði og Framsókn frá völdum. Ekkert annað kemur þeim við.

Ég tel það algerlega lýsa Steingrími þegar hann sendi gamla allaballann til Englands til að hespa Icesavesamningnum af. Steingrímur lagði ekkert fyrir Svavar annað en að ljúka málinu. Ekkert, ekkert annað skipti máli. Þetta er ótrúlegt en satt!!!

Talandi um háðungu lands og þjóðar, bróðir minn, sem ferðast mikið vegna vinnu til Evrópu segir að nokkuð beri á attitúdi gagnvart Íslendingum þar vegna Icesave. Þess vegna þegar hann er spurður hvaðan hann sé, lítur hann í kringum sig, og ef allt er ókei, segist hann vera Færeyingur! Svona hálft í gríni, reyndar. Hann segir algerlega búið að eyðileggja vörumerkið Ísland. (svo sem ekki nýjar fréttir...)

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 15:32

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Andri, ég sé að þú ert að kveikja.

Vonandi verður bráðum hægt að bjóða þig velkominn í hóp ICEsave andstæðinga.

Þegar þú íhugar að einu heyranlegu rökin fyrir þessari 1.000 milljarða skuldbindingu eru þau að við ætlum að virkja nokkur háhitasvæði, sem við á þessari stundu höfum ekki hugmynd um hvort séu virkjanleg, og selja orkuna í álver sem eru í gríðarlegum taprekstri þessa dagana, sbr fréttir frá Noregi um Norsk Hydro, þá hlýtur þú að spyrja þig, til hvers er leikurinn gerður??

Ekki fellur fjármálakerfi ESB lengur, því þeir tóku allt í einu upp á því að lesa sínar eigin tilskipanir, og komust að því að aðildarríki voru ekki í bakábyrgð, og þess vegna settu þeir ný lög og reglur þar sem úr þessu var bætt, og hví ætti þá þessi lögleysa að halda áfram????

Hvaða skratta er verið að skemmta, þegar ekkert stenst í málflutningi stjórnvalda, og þeirra sem krefjast þessar ríkisábyrgðar með tilvísun í reglugerð sem þeir sjálfir hafa viðurkennt að taki ekki á bakábyrgð aðildarríkja?

Eða ertu ennþá á því Andri að það ríki þjófræði í Evrópu, ekki lýðræði????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2009 kl. 20:39

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ómar,

Ég hef aldrei verið sammála þessu Icesave. Þetta er hörmulegt mál.  Það verður aðeins útkljáð fyrir dómi eða með samningi.  Þjóðaratkvæði hentar ekki vel í alþjóðadeilum.

Hins vegar hef ég miklar áhyggjur að allt fari hér í bál og brand ef við fellum þennan ógæfusamning.  Við erum í hræðilegri stöðu, því miður.

Stundum verðum maður að samþykkja illt til að varna því versta.

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.12.2009 kl. 20:56

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaur Andri.

Já, vissulega þekki ég þessa afstöðu þína, en í þessa hógværa pistli þínum, þá heggur þú mjög nærri stjórnarliðum og vinnubrögðum þeirra.  Ef þetta væri vígvöllur, þá væru þeir illsárir á eftir.

En mundu bara það sem Churchil sagði, það er betra að eiga von í vonlítilli baráttu, en að sætta sig við vonleysi uppgjafarinnar, þó að uppgjafaskilmálarnir sem slíkir væru ekki óbærilegir.  

Í okkar uppgjöf dæmist allur vafi okkur í óhag, gæti endað yfir þúsund milljarða ef allt fer á versta veg, en af hverju ætti allt að fara í bál og brand núna þó við sækjum rétt okkar samkvæmt EES samningnum????  Það var stöðvun á  fjármagnsflutningum sem yfirbugaði síðustu stjórn, er slíkt líklegt núna?????  Og hverjir eru langtímahagsmunir ESB miðað við mikilvægi Norðurslóða????  

Þarf ekki þetta "bál" og þessi "brandur" að vera vel skilgreint en ekki eitthvað óljóst, eða huglægt eins og hræðslan við innrás Marsbúa, til að vera valkostur við þann grundvallarrétt þjóða að farið sé eftir alþjóðalögum og fullveldi þeirra sé ekki ógnað með ólöglegum fjárkröfum?  Því þó þær gætu átt sér lagastoð, þá krefst EES samningurinn að ESA og EFTA dómsstólinn fjalli um svona ágreiningsmál, og á meðan er þetta ólöglegt eins og aðrar kröfur sem eru  einhliða án atbeina dómsstóla.

Og ég hef ekki áhyggjur af "brandinum", tel meiri hættu á innrás Marsbúa (þó hún sé hverfandi) því í mínum huga þá er Evrópa lýðræðis og réttarsamfélag, og get fært fyrir því mörg rök.  En þar er ekki þjófræði og ofrikissamfélag.  Meira að segja Rússarnir héldu þessu aldrei fram í miðju Kalda stríðinu, og sögðu þeir þó margt um vestrænt þjóðskipulag.

En Andri, ég árétta von mína um skynsamlegt svar, því tilefni þessa vangavelta minna er mjög skynsamur pistill þinn.  Vissulega vona ég að þú stígir skrefið alla leið, en allavega þá verði ég einhverju nær um Af hverju þú gerir það ekki????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.12.2009 kl. 22:19

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ómar,

Þakka góðar athugasemdir.  Ef við ætlum að fella Icesave verðum við að ganga lengra og taka á heildarskuldsetningu þjóðarinnar.  Ég hef bent á að eftir hrun hefði Geir og co átta að kalla saman ráðstefnu allra helstu lánadrottna og ná fram samningi um skuldaniðurfellingu.  Þetta átti að setja fram þannig að annað hvort lýstum við yfir gjaldþroti eða við semdum.  Þar með hefði Icesave orðið einn hluti af mörgum og umfram allt jafnræðis hefði verið gætt.  Allir hefðu fengið segjum 50% upp í forgangskröfur.  

Vandamálið er að okkar misvitru stjórnmálamenn eru komnir með þetta allt í knút og nú erum við komnir í klærnar á AGS.  Ég get ekki séð að við getum snúið klukkunni til baka, þó óskandi væri.  

Ein mestu mistökin sem voru gerð eftir hrun var að gæta ekki jafnræðis í ákvarðanatöku og aðgerðum.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 6.12.2009 kl. 10:30

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Andri.

Einhver góður maður sagði að í húsi föður hans væru mörg  herbergi, og ætli það sé ekki eins með niðurstöður manna, sem ganga því sem næst út frá sömu forsendunum, að þær geti verið mismunandi.

En það sem er liðið er liðið, og við fáum ekki bætt.  Lokaspurning er svo alltaf sú hvernig fólk og þjóðir telja skynsamlegast að bregðast við kúgun.  Ég ítreka það aðeins að ég óttast ekki réttarríki Evrópu og hennar lokadóm þó Ísland krefjist þess að skriffinnar ESB fari eftir sínum eigin lögum og reglum.  

Og ég sæki mörg rök fyrir afstöðu minni til skrifa þinna. 

Það er því hrein og klár frekja að fara fram á meira.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.12.2009 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband