Pólitískt heilbrigðiskerfi

Við stöndum frammi fyrir mikilli vá í okkar heilbrigðisþjónustu.  Atgervisflótti og úreld hugmyndafræði á eftir að valda miklum skaða og skerða þjónustu við sjúklinga.

Fáar þjóðir eiga jafn marga færa lækna og Íslendingar miðað við höfðatölu og þegar kemur að því að "framleiða" heilbrigðisfólk á heimsmælikvarða eru við í fremstu röð.  Hins vegar þegar kemur að því að bjóða þessu frábæra fólki starfsaðstöðu og tækifæri erum við bundin niður á klafa úreltrar hugmyndarfræði og pólitískrar hagsmunagæslu sem hefur ekkert með heilbrigðisþjónustu að gera.

Morgunblaðið tekur þetta mál loksins upp og viðtal við Jón Atla lækni segir allt sem segja þarf:

„Stundum hefur verið sagt að við höfum besta heilbrigðiskerfi í heimi. En það er ekki þannig,“ segir Jón Atli. Honum hafi lengi virst að til að fá áhugaverða vinnu hér á landi verði læknar að njóta persónulegrar velvildar yfirmanna.

Það sem Atli segir hér hefur hingað til verið algjört "tabú" og ef einhver heilbrigðisstarfsmaður hefur vogað sér að gagnrýna heilbrigðisyfirvöld hefur sá sami fengið skertan starfsframa.  Við höfum að mörgu leyti rekið eins konar Austur-Þýskalands starfsmannahald á íslenskum spítölum undanfarna áratugi.

Nú er sú gamla hugmyndafræði að ekki megi reka einkaspítala við hlið ríkisrekinna spítala að koma okkur í koll.  Við verðum að fara að spyrja okkur hvers vegna erum við eina Evrópulandið sem ekki rekur tvöfalt kerfi í heilbrigðisþjónustu.  

Auðvita mismunar tvöfalt kerfi sjúklingum.  En sá munur felst aðallega í þjónustuhraða en ekki klínískum gæðum ef rétt er staðið að málum.  Er ekki skynsamlegra að reyna með öllum ráðum að standa vörð um klínísku gæðin en sætta sig við mismundi þjónustuhraða en að fórna öllu á altari útópískra hugmyndafræði þar sem allir verða að fá sömu þjónustuna á sama hraða jafnvel þó það þýði að þjónustan rýrni?

Hér er um langtímavandamál að ræða.  Ef við nú missum okkar bestu lækna úr landi sem setja sjúklinga framar pólitísku framapoti er það eitt vandamál.  Hitt er hvernig ætlum við að laða unga lækna sem nú stunda sérfræðinám erlendis til Íslands að námi loknu? 

Mjög fáir læknar fara í nám til að stunda pólitík þegar heim kemur.  Og í raun er pólitíkin hættulegri en lágu launin. 

Mannauður á heimsmælikvarða er eins og gjaldeyrir, lekur auðveldlega til þeirra landa þar sem tækifærin eru best.  2010 verðu líklega "annus horribilis" hvað varðar spekileka frá Íslandi.  Mjög fáir stjórnmálamenn munu skilja hvað hér er á ferðinni enda er eftirspurn eftir íslenskum stjórnmálamönnum takmörkuð erlendis.


mbl.is Atgervisflótti lækna er rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Sælir

Hef búið erlendis í næstum tuttugu ár og hef aldrei heyrt þess getið að íslenskir læknar væru einhverjir sérstakir snillingar í sinni grein.

Það er líka alveg dæmigert að ein hæst launaðasta stéttin á Íslandi skuli vera sú fyrsta til að hóta öllu illu ef þeir ekki fá að halda sínum forréttindum og háu launum.

Jón Bragi Sigurðsson, 2.12.2009 kl. 07:01

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón,

Í flestum löndum er læknaskortur en við höfum alltaf getað menntað og þjálfað fleiri lækna en þörf er fyrir eða við höfum geta veitt störf.  Það sem gerir íslenska lækna eftirsóknarverða er að margir þeirra eru menntaðir við topp háskóla og sjúkrahús í Bandaríkjunum.  Þetta snýst um framboð og eftirspurn.  Auðvita er misjafn sauður í mörgu fé og það á við lækna eins og aðra.  

Læknar þurfa ekkert að hóta neinu, þeir einfaldlega ganga út og flytja úr landi.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.12.2009 kl. 07:38

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Frábær grein hjá þér Andri Geir. Ég gerði meistararitgerð í sumar um möguleika Íslands til lækningatengdrar ferðaþjónustu og niðurstaða mín var að helsta ógnin væri pólitísk andstaða. Ekki frá almenningi, ekki frá heilbrigðisstarfsfólki heldur pólitískri rétthugsunaráráttu stjórnmálamanna sem telja sig eiga heilbrigðisstarfsfólk okkar og geta haldið því í ósamkeppnishæfu limbói þar sem öll sjálfstæð tekjuöflun er bönnuð á einn eða annan hátt. Engar aðrar stéttir búa við viðlíka takmarkanir og möguleikum þess að nota menntun sína til tekjuöflunar. Það sem er öllu verra er að hægt væri að breyta heilbrigðiskerfinu á þann hátt að það fari að skapa miklar tekjur en ekki bara vera kostnaður. Möguleikar Íslenskrar lækningatengdrar þjónustu eru gríðarmiklir ef brugðist er hratt og vel við og meðan gengið er hagstætt fyrir markaðssetninguna.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 2.12.2009 kl. 07:51

4 Smámynd: Teitur Haraldsson

Undarlegt að engum finnst skrítið að bankastjórar og framkvæmdastjórar hafi svimandi laun, en þegar kemur að mönnum sem annast það mikilvægasta sem við eigum sem væri líf og heilsa barna og ástvina, þá þarf að spara, þá verða þeir sko að vinna fyrir laununum sínum. 

Heilbrigðis starfsfólk þarf svo sannarlega að bera alvöru ábyrgð, sem til dæmis fjármála "snillingarnir" okkar hafa alls ekki þurft að gera

Teitur Haraldsson, 2.12.2009 kl. 08:05

5 identicon

Jón,

Grunnlaun venjulegs læknis eru 250 þús ISK á mánuði.  Hin háu laun lækna stafa einfaldlega af því að þeir eru meira og minna alltaf í vinnunni eða á bakvakt.
Ofan á það er læknanámið mjög langt og gífurlega strembið - og lítill tími er fyrir einkalíf eða fjölskyldu.

Það fer enginn í læknanám með dollaramerki í augunum.  Slíkt er mikill misskilningur.

Gunnar Gíslason (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 08:14

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég hef alltaf haft þá tilfinningu, hvort sem um er að ræða lækna eða hjúkrunarfræðinga, að verið sé að passa upp á að þessar stéttir verði ekki of fjölmennar inn á vinnumarkaðinum. Eflaust í pólitískum tilgangi. Sbr. margumrædda háskólasíu osfrv. Að auki er læknum beint í sérfræðinám, hvort sem það er kerfislægt vegna launa eða annars.

Ég get ekki séð að það vanti fleiri sérfræðinga. Það vantar lækna með breiðan grunn, hefur mér fundist.  Eflaust jafn mikið tabú að ræða þetta eins og það sem komið er fram hér að ofan.

Sindri Karl Sigurðsson, 2.12.2009 kl. 08:30

7 identicon

Gunnar, reyndar eru grunnlaun unglæknis yfir 300.000 kr á mánuði. Það þykir manni þó lágt ef miðað er við laun annarra stétta.

Sindri, sían er tilkomin vegna takmörkunar kerfisins til að mennta heilbrigðisstarfsfólk. 

María (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 08:43

8 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Takmarkanir inn eru vegna þess að við höfum bara eitt háskólasjúkrahús og það þarf að anna starfsmenntun án þess að íþyngja sjúklingunum of mikið. Við höfum ennþá fleiri lækna per íbúa en samkeppnislöndin sem eru á höttunum eftir læknum menntuðum á Vesturlöndum. Mikill yfirvofandi skortur er á heilbrigðismenntuðu fólki í Kanada og Bandaríkjunum og þessi lönd eru þegar í gírnum til að auðvelda hraða afgreiðslu þessara aðila inn á vinnumarkað sinn. Því er mikilvægt að nýta tekjumöguleika okkar meðan við höfum umframgetu í kerfinu auk þess sem mikilvægt er að þjálfa sérhæft starfsfólk með miklu streymi sjúklinga. Ef við færum t.d. að flytja inn sjúklinga í hjartaaðgerðir og gerfiliðaaðgerðir væri kominn grundvöllur til þess að sérmennta skurðlækna hér í þeim greinum þó að vissulega sé hér mikill plús á því hversu víða Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er menntað og kemur með marga ólíka strauma til landsins. Við gætum látið heilbrigðisstofnanir sem eru vannýttar starfa í þessu umhverfi meðfram skyldustörfum sínum til þess að skapa tekjur og halda starfsfólki og góðri mönnun.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 2.12.2009 kl. 08:51

9 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Pólitísk ástæða þess að heilbrigðisstarfsfólk býr við allar þessar takmarkanir eru faldar undir ýmsum  öðrum formerkjum sem allar lúta í sömu átt hjá mörgum flokkum þ.e. verja lág laun og einokun ríkisspítalanna. Þeir vita sem er að meiri eftirspurn eftir fólki yfir í einkageirann myndi þrýsta launum upp og þeir gætu tapað fólkinu yfir í þann geira. Þeir átta sig ekki á því núna að það er orðið mjög auðvelt fyrir þetta eftirsótta starfsfólk að flytja erlendis og þar fær það mun hærri laun og betri lífsskilyrði. Því þarf að auka samkeppnishæfni stofnana með því að heimila þeim að starfa í samkeppni við einkareksturinn og þannig getum við sem þjóð hindrað brottflutning og mikinn og dýrmætan spekileka.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 2.12.2009 kl. 08:56

10 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Til þess að forðast misskilning varðandi samkeppnisgrundvöll ríkisstofnana; ég tel að ekki eigi að skipta máli hvort stofnun sé einkarekin eða ríkisrekin. Sömu lög og reglur eiga að gilda um báðar stofnanirnar og best væri að ríkisreknar heilbrigðisstofnanir væru allar sjálfseignarstofnanir sem þyrftu að reka sig á hagkvæman hátt á sama samkeppnisgrunni og einkareknar. Ég vil taka Singapore og Taiwan til skoðunar og innleiða ýmislegt þaðan.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 2.12.2009 kl. 09:00

11 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Andri Geir.

Ég hef ekki séð neinar sannanir eða einu sinni vísbendingar um að íslenskir læknar séu eitthvað spes miðað við lækna allmennt.

Og Gunnar Gíslason. Laun uppá 250 þúsund á mánuði eru ekki til fyrir lækna á Íslandi. Ekki einu sinni fyrir ný útskrifaða kandídata. Það geturðu sjálfur gengið úr skugga um.

Jón Bragi Sigurðsson, 2.12.2009 kl. 09:10

12 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Adda,

Takk fyrir innlitið og góðar ábendingar.  Það er rétt að við þurfum að líta til fleiri landa en Bretlands og Norðurlandanna þegar kemur að endurskipulagningu á okkar heilbrigðiskerfi.  Franska kerfið er athyglisvert þar sem tryggingarhlutinn er á hendi ríkisins en sjúkrahús eru í einkaeign eða sjálfseignarstofnanir undir eftirliti ríkisins.

Andri Geir Arinbjarnarson, 2.12.2009 kl. 09:13

13 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ef þessi setning er einhver rök: "Takmarkanir inn eru vegna þess að við höfum bara eitt háskólasjúkrahús og það þarf að anna starfsmenntun án þess að íþyngja sjúklingunum of mikið."

Það eru þrjú önnur fjórðungssjúkrahús á landinu, á þau vantar alltaf lækna og hjúkrunarfólk. Ef það er hægt að halda því fram að starfsfólkið þar geti ekki tekið við nemum í verknámi, þá er að sjálfsögðu verið að segja að menntunin þeirra sé óásættanlegt. Háskólasjúkrahús er fallegt orð en við það eru mörkin dregin. Því stend ég fyllilega í báðar fætur þegar ég segi að það búi pólitiískur vilji á bakvið stýringu á menntun, sbr. síuna og ofuráherslu á sérfræðimenntun.

Sindri Karl Sigurðsson, 2.12.2009 kl. 17:32

14 identicon

Sæll Andri og aðrir bloggarar.Þar sem nafn mitt hefur verið nefnt í þessari umræðu vildi ég gjarna leggja orð í belg.  Það er rétt eftir mér haft að ég tel að íslenskt heilbrigðiskerfi sé ekki eitt það besta í heimi – þó það sé e.t.v. eitt það dýrasta.  Það líka er alveg rétt sem Jón Bragi segir að íslenskir læknar eru „ekkert spes“, allavega ekki svona í það heial tekið.   Sumir íslenskir læknar eru þó hins vegar alveg nógu „spes“ til þess að fá góða vinnu við kennslu, rannsóknir og lækningar við bestu háskólasjúkrahús heims, jafnvel þótt þeir teljist ekki nógu „spes“ til að geta fengið viðunandi vinnu á Íslandi, því þeir sem ráða ríkjum innan sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnanna eru viðkvæmir fyrir  hugmyndum og vinnubrögðum sem eru þeim framandi.Það er líka rétt að grunnlaun lækna á Íslandi eru  svipuð launum annarra háskólamenntaðra,  en e.t.v. aðeins lægri ef tillit er tekið til lengdar námsins – ef það skiptir einhverju máli.  Hins vegar er ekki hægt að stunda lækningar án þess að vinna mikið og lengi og þar með verða heildarlaunin oft há.  Það er þó ekki útaf peningavandræðum eða óánægju með laun sem flyt  til Bandaríkjanna heldur til að geta stundað gott læknisstarf við góðar aðstæður með fólki sem er mér sammála um að hagur sjúklinganna sé það sem skiptir mestu máli.  Þá sameiginlegu hugsjón vantar á Íslandi.

Jón Atli Árnason (IP-tala skráð) 2.12.2009 kl. 19:16

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón Atli,

Ég þakka innlitið og athugasemdina.  Gangi þér vel í Bandaríkjunum.

Andri Geir Arinbjarnarson, 4.12.2009 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband