2.10.2009 | 13:15
Samkeppni um heilbrigðisstarfsfólk
Fá einkasjúkrahús á vesturlöndum munu hafa aðgang að jafn vel menntuðum og ódýrum starfskrafti og hér á landi. Það munu geta valið úr besta fólkinu og það verður ómögulegt fyrir ríkið að keppa um kaup og kjör við erlenda aðila.
Hverjir eiga að framkvæma liðskiptaaðgerðir á Landspítalanum þegar þessi stofnun hefur ryksugað allt besta fólkið burt? Nýútskrifaðir læknastúdentar?
Nei, Landspítalinn verður þjálfunarskóli fyrir þennan nýja spítala. Nýir skurðlæknar spreyta sig á Íslendingum áður en þeim er hleypt í að skera útlendinga. Ef þetta verður ekki mismunun þá veit ég ekki hvað.
Þessi framþróun verður ekki stoppuð og það er vita gagnlaust að halda að ríkið geti bannað Íslendingum að fara á einkaspítala í eigin landi. Það verður að aðskilja tryggingarþáttinn frá spítalarekstri. Ef fólk vill fara á einkaspítala getur það borgað mismuninn úr eigin vasa eða með prívatsjúkratryggingu. Þar með flytjum við okkur úr okkar breskættaða heilbrigðiskerfi yfir í franskt kerfi.
Einkasjúkrahús í Mosfellsbæ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:22 | Facebook
Athugasemdir
Bretar eru raunar með tvöfalt kerfi, annars vegar almenna kerfið og hinsvegar tryggingakerfi þar sem fólk getur keypt sér aðgang.
Hvumpinn, 2.10.2009 kl. 13:28
Þjóðverjar eru einnig með tvö kerfi í gangi. Þeir sem þéna yfir ca. 63.000 evrur á ári komast í einkatryggingakerfið. Hinir ekki.
áhugasamur (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 13:37
Hvumpinn,
Það er alveg rétt hjá þér, það eru flest lönd með tvöfalt kerfi. Ég er hér að vísa til NHS sem er fyrirmynd Norðurlandanna í opinberum heilbrigðisrekstri. Breska ríkiskerfið, NHS, byggir á að ríkið sjá bæði um tryggingarþáttinn og spítalarekstur ólíkt franska kerfinu þar sem ríkið sér um tryggingarþáttinn en spítalarekstur er að mestu í höndum einkaaðila og góðgerðastofnanna.
Það er því oft talað um breskt, franskt og svissneskt módel í heilbrigðisþjónustu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 13:42
NHS í UK er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, þykir það versta á Vesturlöndum enda fer enginn breti þangað sem ekki getur borgað sig inn á privat klínik.
Guðrún Árnadóttir (IP-tala skráð) 2.10.2009 kl. 13:43
Það má bæta við að þau lönd sem tóku upp breska ríkismódelið á síðustu öld lögðu ekki af einkaspítala nema Ísland. Því eru einkaspítalar enn í Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi svo dæmi séu tekin.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 13:48
Sæll Andri Geir
Ég var bæði í einkatrygginga og almenna kerfinu í Þýskalandi og þau reyndust bæði góð, þótt þjónustan væri betra í því einkarekna, sem ég reyndar var bara í 1-2 ár, því þá eignaðist ég fjölskyldu!
Ég er hins vegar ekki sammála þér að við þurfum endilega að breyta fyrirkomulaginu hér, þótt hér spretti upp 2-3 einkaspítalar. Þetta mun hins vegar skapa mikinn gjaldeyri fyrir þjóðina og verða gróðalind fyrir þá sem vinna í heilbrigðiskerfinu!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.10.2009 kl. 14:00
Guðbjörn,
Eina breyting sem ég er að fara fram á er að sjúklingar hafi val um spítala. Ef þeir vilja fara á einkaspítala þá borgi almennar sjúkratryggingar þann hluta sem væri borgaður á Landspítalanum en sjúklingurinn mismuninn.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 15:11
Það ber að fagna því sérstaklega að á þessum tíma skuli rísa hér spítali sem ætlað er fyrst og fremst að bjóða erlendum aðilum sína þjónustu.
Það er síðan annað mál hvernig þessi spítali mun passa inn í okkar ríkisrekna heilbrigðiskerfi. Fyrirmyndina að slíku samstarfi ríkisins og ríkisspítalana annarsvegar og einkaspítala hins vegar er víða hægt að fá t.d. í Danmörku.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 2.10.2009 kl. 15:12
Guðbjörn,
Svo má líka spyrja sig hvort ekki væri skynsamlegt að færa rekstur nýja hátæknispítalans yfir á hendur lífeyrissjóðanna í formi góðgerðarfélags. Þar með væri bygging og rekstur þess færður frá ríkinu. Tekjur hins nýja spítala væru þá almennar sjúkratryggingar og greiðslur frá prívattryggingum sem almenning stæði til boða fyrir þá þjónustu sem almennar tryggingar borga ekki eða borga ekki að fullu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 15:16
Sú leið sem Danir fara er að þeir eru óhræddir við að prófa ný rekstrarform og láta einkaaðilum eftir að sinna ákveðnum verkum innan heilbrigðisþjónustunnar. Verði reynslan að því góð þá semja þeir áfram um slíka þjónustu. Hafi reynslan ekki verið góð þá kippa þeir þessum verkum aftur inn á ríkisspítalana.
Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi þá væri sjálfsagt að semja við slíkan einkarekinn spítala til 3 eða 5 ára að hann tæki að sér í stóran hluta þessara aðgerða sem þarf að framkvæma á Íslendingum.
Þá yrði það samninganefnd á vegum ríkisins/ríkisspítalans sem semdi fyrir hönd þessara sjúklinga og tryggingastofnunar um verð fyrir slíkar aðgerðir. Einkaaðilum er aldrei hleypt í vasa sjúklingsins. Þannig gera Danir þetta.
Þannig viljum við í Norræna íhaldsflokknum gera þetta, sjá hér.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 2.10.2009 kl. 15:28
Friðrik,
Það eru til mjög marga útgáfur til af rekstrarformi þar sem bæði einkarekin og ríkisrekin sjúkrahús starfa saman.
Það sem er hættulegt er að aðgreina þetta alveg og skipta sjúklingum upp í hópa eftir búsetu. Þá er hætta á að við endum uppi með fyrsta flokks þjónustu fyrir útlendinga og annars flokks þjónustu fyrir Íslendinga.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 15:42
Ég held, að mikilvægast sé að halda fólkinu á landinu, þ.e. þessu hæfa starfsfólki.
Miklu mun erfiðara, er að sækja það aftur til útlanda, en til innlends einkasjúkrahúss.
Við vitum, að hundruðum manna verður sagt upp störfum, á næsta fjárlagaári, og ef engin önnur störf eru í boði fyrir það fólk, þá fer það úr landi.
Þannig, að í ljósi þessa, þá sé ég þessa þróun sem "the lesser evil" - þannig séð.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 2.10.2009 kl. 16:54
Einar,
Vandamálið er að það er ekki fólkið sem sagt verður upp sem einkaaðilar hafa áhuga á, það er besta og afkastamesta fólkið sem einmitt þarf að halda í til að hægt sé að reka spítalana með minna fjármagni.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.10.2009 kl. 18:47
Á hvaða forsendum eiga læknar að styðja ríkisrekið kerfi? Hvort myndir þú vilja ef þú værir læknir og hefðir möguleika á að velja gott starfsumhverfi og góð laun eða lélegt starfsumhverfi og lágt tímakaup? Þú ert kannski mikið sjálfmiðaður, sem er skiljanlegt. En þú ert allavega ekki læknir.
Hvað ert/varst þú með á tímann þegar þú varst ráðgjafi? Afhverju varstu ekki ráðgjafi hjá íslenska ríkinu til að tryggja almenningshagsmuni? Þetta eru kannski heimskulegar spurningar en það þarf samt að gefa þeim gaum.
skröggur (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 00:54
Skröggur,
Þú hefur ekki lesið bloggið mitt reglulega. Ég hef einmitt skrifað um að einkaspítalar séu algjör forsenda fyrir því að skapa samkeppni um heilbrigðisfólk og munu verða mjög örvandi fyrir heilbrigðisstéttina. Þar með er ekki sagt að það sama eigi við um núverandi heilbrigðiskerfi. Okkar almenna kerfi gerir ekki ráð fyrir samkeppni eða vali. Það er vandamálið og það verður að leysa og þess vegna bendi ég á franska kerfið sem yrði líklega betra fyrir bæði heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga en líklega dýrara fyrir ríkið.
Hins vegar er óábyrgt gagnvart íslenskum sjúklingum að fara að innleiða prívatspítala fyrir útlendinga sem Íslendingar hafa ekki kost á að nota. Hér er ég einfaldlega að setja sjúklinga ofar læknum. Er það ekki í anda Hippókratesar?
Andri Geir Arinbjarnarson, 3.10.2009 kl. 01:13
Ég held að ég skilji núna hvað þú átt við.
En ég er ekki viss um að þú leggir réttan skilning í eið Hippókratesar og etv ekki rétt að nota hann í röksemdafærslu á rekstri heilbrigðiskeris.
Grundvallaratriðið er "primum non nocere" eða "að gera ekki skaða" þegar meferð er hafin. Ef við túlkum Hippókrates eins og þú að ofan væri hægt að taka hann alla leið: ókeypis læknisþjónusta og heilbrigðisstarfsfólk í sjálfboðavinnu. Er það ekki draumsýn?
Skröggur (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 13:02
Ég hef ekki Hippókrates eiðinn á íslensku en í enskri þýðingu segir
I will apply dietic measures for the benefit of the sick according to my ability and judgment; I will keep them from harm and injustice.
Ég er ekki sammála að þetta eigi ekki við þegar heilbrigðiskerfi eru rædd enda setti ég þetta fram sem spurningu. Ég tel það í anda Hippókratesar að setja sjúklinga fyrst en ekki lækna eða embættismenn þegar heilbrigðiskerfi eru borin saman. Auðvita er þetta oft túlkunaratriði. Það er enginn að tala um ókeypis læknisþjónustu en mér finnst oft eins og á Íslandi og víðar sé pólitísk hugmyndafræði sett ofar þörfum sjúklinga.
Dæmi. Það er enginn umboðsmaður sjúklinga á Íslandi en það eru 3 umboðsmenn í bönkunum til að sjá um viðskiptavini þar. Eru peningar mikilvægari en heilsa landsmanna?
Andri Geir Arinbjarnarson, 3.10.2009 kl. 13:26
Ég held að ég verði að ítreka mín fyrri orð, að aukið framboð af störfum fyrir heilbrigðisstarfsfólk, sé sennilega af því góða - á heildinga litið.
Þó svo, að eitthvað að besta fólkinu fari þangað, þá væntanlega losna þá í staðinn einhver stöðugildi hjá ríkinu í staðinn.
Til lengdar, getur það sjálfsagt, stuðlað að því að opinber þjónusta versni. En, til skamms tíma, meðan kreppan stendur yfir - sem getur verið nokkur ár í viðbót - held ég að tilkoma þessa spítala geri meira gott heldur en slæmt.
Síðan, eftir það, þarf að hugsa þessi mál að nýju.
T.d. finns mér koma til greina, að gera St.Jósefsspítala, að einkareknum spítala - sem alternatív við að leggja hann alveg niður.
Einnig, finnst mér alveg koma til greina, að hefja sambærilegar aðgerðir og fara eiga fram á þessum einkaspítala, hjá ríkisspítölunum, til að fá erlendan gjaldeyri í kassann. Tilgangurinn væri sá, að heildardæmið kæmi þannig út, að fleiri aðgerðir á íslendingum myndi vera hægt að framkvæma en ella.
----------------
Ég er að tala um varnarbaráttu, til að koma í veg fyrir stórfelldan brottflutning fólks í heilbrigðisgeiranum, úr landi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 3.10.2009 kl. 17:56
Sammála að það mætti vera til umboðsmaður sjúklinga.
En Hippokratesareiðurinn er svarinn af læknum og varðar samband læknis og sjúklings. Hann er ekki svarinn af embættismönnum sem byggja einkasjúkrahús og ég efa að hann sé lagður til grundvallar þegar kemur að einkarekstri.
Góð læknisfræðileg meðferð byggist m.a. á þekkingu og samhygð (empathy) en hefur í raun ekkert með undirritun eiðsins að gera. Góð læknismeðferð er góð sama hvort eiðurinn hefur verið svarinn eða ekki.
Er það réttlætanlegt að gera þær kröfur til læknis að hann velji að vinna við lélegri kjör og aðstæður á ríkisreknu sjúkrahúsi af því að hann hefur svarið eið sem varðar samband læknis og sjúklings? Hefur læknirinn ekki val? Er starf læknis á einkareknu sjúkrahúsi "verra" en starf hans á ríkissjúkrahúsi - jafnvel þó svo að hann framfylgi eiðum og lögum um góða læknisfræðilega meðferð í einu og öllu?
Þetta eru spurningar sem við verðum að spyrja okkur. Er hægt að búast við því að sjúklingur, læknir og heilbriðgður einstaklingur sem ekki vinnur í heilbrigðiskerfinu séu sammála um þessi atriði? Allir þessir aðilar eru mannlegir og hafa þarfir sem leitast verður að fullnægja.
Skröggur (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 18:15
Skröggur,
Ég get verið sammála því sem þú segir. Ég hef kannski ekki orðað þetta vel, en ég er að benda á að sjúklingar eiga að hafa val og það er ekki rétt að neyta þeim um að leita til þess læknis eða sjúkrahúss sem þeir vilja. Ef ég þarf á mjaðmaaðgerð að halda þá vil ég geta valið þann skurðlækni sem á að skera og ef hann vinnur á einkaspítala þá vil ég geta farið þangað.
Síðan kemur spurningin hef ég ráð á þessu og hver borgar? Þar er ég að leggja til að við förum yfir í franska kerfið þar sem almennar tryggingar borga sinn hlut jafnt fyrir alla en þeir sem vilja fara annað en á Landspítalana geta borgað sjálfir mismuninn.
Þetta er málið. Það er ekki hægt að neyta fólki um aðgang að læknum í eigin landi út af pólitískri hugmyndafræði. Þetta hefur ekki verið vandamál hingað til en verður það um leið og einkaspítali fyrir útlendinga er opnaður.
Ég held að við séum enn með lög sem gefa sjúklingum rétt á að fá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Hvað ef sú þjónusta er á einkaspítala?
Andri Geir Arinbjarnarson, 3.10.2009 kl. 19:15
Ok, ég skil þig núna.
Svo er það spurningin hvort besta þjónustan (t.d. hvað varðar árangur skurðaðgerða) verði svo raunverulega á einkaspítala. Það þyrfti að fara fram rannsókn/úttekt á því til að geta svarað þeirri spurningu. Eflaust yrðu á reiki sögusagnir um betri þjónustu á einkaspítala. En þannig er það bara. Það eru alltaf til betri sjúkrahús annars staðar. Íslendingar geta t.d. farið til USA í mjaðmaskiptaaðgerð en það kostar bara meira en að láta gera það hérna heima.
Kannski yrði nýtt einkarekið sjúkrahús ekki skilgreint innan þeirra marka sem "völ er á" og því væri það ekki möguleiki að láta ríkið greiða mismuninn.
Skröggur (IP-tala skráð) 3.10.2009 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.