Hver hefur dæmt þjóðina til fátæktar?

Það voru íslenskir kjósendur sem kusu Davíð Oddsson.  Hans stjórn færði óreiðumönnum gullegg þjóðarinnar á silfurfati.  Sú "litla þúfa" hefur velt þungu hlassi sem nú dæmir þjóðina til fátæktar, atvinnuleysis og landflótta.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur byrjuðu leikinn og Samfylkingin og Vinstri Grænir enda hann.  Frá upphafi til enda er þetta ein sorgarsaga, eitt allsherjar klúður þar sem vanþekking, reynsluleysi og spilling hafa á ótrúlega skömmum gjörsamlega rústað íslensku hagkerfi og fært auð landsins frá heildinni í nútíð og framtíð yfir á hendur örfárra einstaklinga.

Hinir gömlu fjórflokkar hafa sýnt og sannað að þeir ráða ekki við það verkefni að stýra og stjórna landinu á sama grundvelli og hin Norðurlöndin.  Við erum einfaldlega of fá til að ráða við svona flókið kerfi. 

Lexían fyrir ESB, er að aðildarríki með færri íbúa en 1,000,000 verða að fá sérstaka stjórnsýslu hjálp, og aðstoð þar sem óeðlileg tengsl geta mismunað hinum almenna borgara. Vonandi mun íslenska aðildarnefndin hafa þá visku að biðja ESB um hjálp þar sem hjálpar er þörf.


mbl.is Samningurinn dæmir okkur til fátæktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið er ekki fólksfjöldi heldur gegnumrotið og gerspillt stjórnkerfi sem er síðan stutt af fólki sem hefur ekki áhuga á að fylgjast með skrílnum sem fer með peningana þeirra.

Gulli (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 22:11

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gulli, Þetta er rétt en,

1.  Fámennið ýtir undir spillingartengsl

2.  Fámennið geri það næstum ómögulegt að brjótast út úr hinu ríkjandi kerfi þar sem nær allir eru beint og óbein bendlaðir við það

3.  Kínverjar geta stillt fram 320,000 manna hóp þar sem allir hafa greindarvísitölu hærri en sá sem hæst mælist á Íslandi.  Yfir langt tímabil skiptir það máli.

Andri Geir Arinbjarnarson, 4.8.2009 kl. 22:19

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Liður 3 er einhver sú heimskasta og lákúrulegasta fullyrðing sem ég hef á ævinni heyrt. Ekki bara vegna þess að þetta er rangt heldur er þetta minnisvarði um þann aumingjaskap og minnimáttarkennd sem hrjáir lítin hluta íslendinga eftir að bankarnir hrundu.

Guðmundur Jónsson, 4.8.2009 kl. 23:01

4 identicon

Kenning mín er sú að úrkynjun Íslendinga komi fram sem sljóleiki. Það er ákveðin greindarskerðing. Það hlýtur að vera -- við höfum látið yfir okkur ganga þvílík ósköp að það hlýtur að vera læknisfræðileg skýring á þessu.

Rósa (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 00:19

5 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sannleikurinn svíður.  Í íþróttum eiga aðrar þjóðir betra fólk.  Þau skipta þúsundum þau gullverðlaun sem hafa verið veitt á Olympíuleikunum en ekkert hefur lent hér á landi.  Við getur átt smá spretti á sumum sviðum, sem gefur okkur ofurbjartsýni, en yfir löng tímabil höfum við ekki sama "brainpower" og stærri þjóðir.  Við erum einfaldlega að sjá afleiðingar þess í dag og þetta Icesave er gott dæmi um það, ekki aðeins þessi samningur heldur hverning þetta varð til og hverjir studdu Icesave frá byrjun á röngum forsendum.  Það eru miklu meiri líkur á að fámenn þjóð verði fórnarlömb "Groupthinking"

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.8.2009 kl. 07:22

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er bara broddur í þessu hjá þér Andri Geir. Sumum svíður hann. En það er sannleikur í þessu.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 5.8.2009 kl. 09:45

7 identicon

Já, Andri Geri, litlar þjóðir skortir "brainpower" og geta því ekki skapað jafn góð og öflug samfélög og stórar þjóðir.

Það er nú einmitt ástæðan fyrir því að allt er í klessu í Sviss en í lukkunnar velstandi á Indlandi og í Kína. Svo ekki sé minnst á Indónesíu, Brasilíu og Pakistan. Sambandið á milli fólksfjölda og lífsgæða er óvéfengjanlegt! 

Það var klúðrað hérna á Íslandi en ekki í öllum smáríkjum heims.

Hvað þarf annars mikið "brainpower" til að skilja að almennar ályktanir er ekki hægt að draga af sértækum dæmum? 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 18:13

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hans,

Það er mikill munur tölfræðilega hvort við eru 300,000 eða 3,000,000.  Fyrir 50 árum síðan gátu 300,000 manns vel starfrækt nútíma lýðræðisþjóðfélag en í dag er þessi tala yfir milljón.  Stærðin er nauðsynlegt skilyrði en ekki nægjanlegt.  Þar stendur hnífurinn í kúnni. Undantekningin sannar regluna.

Andri Geir Arinbjarnarson, 5.8.2009 kl. 20:59

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Um tölur ætla ég ekki að deila við sérfræðing í Tölulegri greiningu með einhver hæstu próf sem tekin hafa verið á því sviði frá Kaupannarhafnarháskóla.

Hvað gerum við hins vegar í þessu máli:

"Hinir gömlu fjórflokkar hafa sýnt og sannað að þeir ráða ekki við það verkefni að stýra og stjórna landinu á sama grundvelli og hin Norðurlöndin."

Eigum við að fara saman í þetta hér: Norræni Íhaldsflokkurinn? Alltaf fjölgar ástæðunum fyrir því að hér eigi að vera annar hægri flokkur með 10% til 30% fylgi með áherslum norrænu borgaraflokkanna. Á annað hundrað manns hafa þegar skráð sig og spurning um að starta þessu starfi upp á ný.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.8.2009 kl. 01:00

10 identicon

Hvað þá með Lúxemborg, Andorra og San Marino?

Og hvað kom eiginlega til þannig að markið færðist upp í milljón? 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 01:34

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hans,

Ekkert af þessum löndum hefur sjálfstæðan gjaldmiðil og Seðlabanka.  Þau hafa alltaf unnið í samvinnu við sína nágranna en ekki öfugt.  Belgar halda í höndina á litla bróður Lúx enda kom það greinilega í ljós þegar Kaupþing Lúx var bjargað af belgískum skattgreiðendum.

Litlar þjóðir sem eiga góða vini og rækta þau sambönd eru auðvita í betri málum en hrokafull vinalaus þjóð.

Andri Geir Arinbjarnarson, 6.8.2009 kl. 07:36

12 identicon

OK. Fyrst var það hugmyndin að stór ríki gætu byggt upp betri samfélög en lítil vegna þess að þar er svo mikið mannaval og "brainpower" og þræðir samfélaganna ekki eins samtvinnaðir. Bent er á að þessi hugmynd er fáránleg. Það er ekkert samband á milli  stærðar ríkja og samfélagsgæða.

Þá verður hugmyndin sú að ein milljón íbúa séu einhverskonar krítískur massi sem nauðsynlegur er til þess að reka "vel starfrækt nútíma lýðræðissamfélag". Bent er á þrjú dæmi um sæmilega vel starfrækt nútíma lýðræðissamfélög með minna en eina milljón íbúa. Það fámennasta með 30.000 íbúa. 

Þá verður hugmyndin allt í einu sú að án milljón íbúa sé ekki hægt að vera með eigin seðlabanka. Hvers vegna er sú lína dregin við milljón?

Er það ekki líklegra að ófarir Íslendinga að undanförnu megi rekja til samverkandi þátta og að fámennið sé einn af þeim en ekki skaðlegur í sjálfu sér. Menn hafa fundið ýmsar leiðir til þess að eiga við hætturnar sem fámenni skapar. Í svissnesku kantónunum (sem eru mjög sjálfráðar, sjálfráðari en t.d ríki Bandaríkjanna) er stjórnsýsla t.d mjög opin og beinu lýðræði mikið beitt. San Marino búar hafa það fyrir reglu að ráða útlendinga sem dómara og í sum önnur valdamikil embætti, en það er arfleifð frá gullöld ítölsku borgríkjanna o.s.frv.

Samfélagsrekstur er töluvert flóknari en íþróttakeppni. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 07:58

13 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hans,

Smáríki geta auðvita minnkað áhættuna af fámenninu með því að hafa góð sambönd við stærri hagkerfi og ráða óháða útlendinga í viðkvæm störf. En til þess þarf nálægð við önnur ríki og helst sameiginlegt tungumál.

Milljón er valið af því að þjóðir undir 1,000,000 eru almenn kölluð örríki.  Sú tala er auðvita ekki heilög og ekki aðalmálið.  Það eru þessi tengsl og hagsmunaárekstrar sem fylgja fámenninu.  Ísland er stjórnað af klíku þar sem tengsl ráða öllu.  

Af hverju er starfsmannahald ríkisins ekki rekið hér eins og á hinum Norðurlöndunum?  Þegar kemur að stöðuveitingum og stöðuhækkunum er íslenska kerfið í sérflokki og ekki í neinu sambandi við það sem gerist í stærri ríkjum.  Þetta er heilög kýr sem ekki má hreyfa við hvað þá ræða. Aðeins eitt dæmi af mörgum.

Tungumálið og einangrunin er svo annað próblem.  Við tölum ekki sama nútímatungumál og okkar nágrannar og höfum engin landamæri við þá.  Okkar samskipti er því minni og yfirborðskenndari en hjá meginlandslöndunum.  

Þegar allt gengur vel getum við verið með hroka og stæla gagnvart okkar nágrönnum eins og Danir fengu að kenna á því. En þegar sígur á ógæfuhliðina vegna þess að íslenskur banki fór að taka sparifé frá okkar nágrönnum sem hann sóaði í rugl og við segjumst ekkert kannast við enda var bankinn prívat banki og alls óviðkomandi eftirlitsstofnunum ríkisins.  Ofan á það eru við í fýlu og kvörtum um að okkar nágrannar sýni okkur ekki vinarbragð af því þeir skaffa okkur ekki lán á spottprís og svo voga þeir sér að biðja um sparifé sinna borgara til baka frá okkur blásaklausu og fátækum Íslendingum.   

Við högum okkur eins og fordekraður unglingur sem aldrei hefur lært að hafa samskipti við annað fólk.  Er furða að enginn stendur með okkur.  Sú staðreynd segir meir en 1000 orð.

Andri Geir Arinbjarnarson, 6.8.2009 kl. 09:28

14 identicon

Ég fellst á það að hér var klúðrað hrikalega. Ég fellst líka á það að fámenni átti sinn hlut, í samspili við aðra þætti, að hér var klúðrað.

Hinsvegar eru klúður ekki sérstaklega bundin við smáríki eða örríki. Bandaríkin og Bretland fóru til dæmis í stríð  í Írak 2003 sem hefur leitt til óskapa. Þó var margbúið að vara við ágöllum hernaðaráætlunarinnar og varað var við mörgum röngum ákvörðunum sem teknar voru eftir innrás. Það klúður var fyrirsjáanlegt.

Það sem mér þykir vanta inn í þessa hugmynd þína er einhverskonar tilvísun til reynsluraka, þ.e að í smáríkjum eða örríkjum séu jafnan teknar verri ákvarðanir eða að þar sé jafnan við lýði verra samfélag.

Það eina sem ég fæ séð er að Íslendingar hafa ekki tekist á við þau vandamál sem fylgja fámenni með sama árangri og aðrar smáþjóðir. A.m.k liggur það beinast við ef við erum eitt smáríkja um að klúðra.

E.s Samband hagsældar og tungumáls hefur verið rannsakað ótal sinnum. Það er ekki hægt að greina neitt samband á milli stærðar þess málfélags sem þjóðir tilheyra og hagsældar. Tungumálið er bara einn faktor í aðstæðum sem hægt er að vinna vel úr eða illa, rétt eins og fámennið. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 6.8.2009 kl. 22:18

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ef Íslendingar töluðu jafnt íslensku og ensku (hliðstætt Írum) er ég viss um að klúðrið hefði verið minna og samskiptin við okkar nágranna betri og nánari. 

Það eru mörg vandamál sem fylgja fámenninu.  Er okkar æðsta dómstig sambærilegt við dómstóla í stærri löndum?  Hvað með Landlækni. Ef sérfræðingur gerir mistök hver á að rannsaka það?  Það eru oft bara 3-4 sérfræðingar hæfir og þeir þekkjast allir og vinna oft saman?   Þetta á við flestar eftirlitsstofnanir ríkisins.  

Stærð skiptir máli og sérstaklega á ákveðnum sviðum þar sem tengsl og hagsmunaárekstrar eru hættulegir.  Ég hef haldi fram að mistök Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni var stofnun Seðlabankans og Hæstaréttar.  Við hefðum átt að vera í samvinnu við Dani um okkar gjaldmiðil og æðsta dómstól.  

Þess vegna er innganga í ESB svo mikilvæg.  Myntsamstarfið og Evrópudómstóllinn eru bráðnauðsynleg.

Andri Geir Arinbjarnarson, 6.8.2009 kl. 22:38

16 identicon

OK. Skoðum læknadæmið. Ef mistök sérfræðinga væru meira vandamál hér en annarstaðar - eins og ætla mætti að væri ef hriðulausir sérfræðingar sættu síður viðurlögum- þá ættu þá áhrifin ekki að sjást einhverstaðar? Hvar eru þau? Æfilíkur, ungbarnadauði, lífslíkur eftir krabbameinsgreiningu, eftir hjartasjúkdóma o.s.frv. Allar þessar tölur eru með besta móti á Íslandi. 

Það er ekki nóg að finnast það rökrétt að vandamálið eigi að vera til staðar. Það þarf að vera áþreifanlega til staðar. Ef að kenningin þín segir að það ætti að vera til staðar en þess sér hvergi merki, er þá ekki hugsanlegt að það sé eitthvað að kenningunni?

Svipað gildir með dómskerfið. Hvar eru merkin um að dómskerfið sé spillt? Sýknurnar í Baugsmálinu? Dómarnir yfir embættisfærslu Björns Bjarnasonar og Árna Matthisen?

Eru yfirleitt til einhver dæmi þess að því hafi verið haldið fram að einhver ákveðin dómur íslenskra dómstóla hafi ráðist af spillingu?

Annars er rétt að halda því til haga að Evrópudómstóllinn kemur ekki í stað innlendra dómstóla og hefur aldrei átt að gera það. Hann er til þess eingöngu að skera úr um ágreiningsmál sem snúa að Evrópulöggjöfinni. Hann er m.ö.o  samræmingartæki.

Það er fyrst og fremst Mannréttindadómstóllinn sem veitir aðhald hvað varðar réttindi einstaklinga og fyrirtækja og að honum hafa Íslendingar þegar aðgang. 

Ég bendi sérstaklega á að Ísland sker sig ekki úr hvað varðar fjölda mála þar sem Mannréttindadómstóllinn hefur fundið að  úrskurðum innlendra dómstóla.

Það er út af fyrir sig áhugavert að þú skulir velja dómskerfið og heilbrigðiskerfið sem dæmi. Sumir hefðu haldið því fram að þessi kerfi væru nefnilega einmitt efst á listanum yfir það sem er í meira og minna í lagi.

Innganga í ESB mun hafa álíka mikil áhrif á þá spillingu sem hér er til staðar og hún hefur haft í Napólí og Sikiley. Myntbandalagið er svo önnur umræða. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 02:45

17 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Það er ekki hægt að afgreið rétt einstaklingsins með því að vísa í tölfræði. 

Þótt mikil hluti heilbrigðiskerfisins sé í góðu standi gerast hér mistök eins og annars staðar.  Hvernig þessi mistök eru rannsökuð og afgreidd skiptir máli.

Það hafa komið upp mjög sorgleg dæmi í heilbrigðiskerfinu þar sem sjúklingar hafa ekki fengið eðlilega rannsókn á mistökum. Dómur féll gegn Íslandi í mannréttindadómstóli Evrópu og því miður er ekki hægt að sjá að Landlæknir eða stjórnvöld hafi fylgt þessum dómi eftir.  Læknar á sama spítala rannsaka hvern annan og Landlæknir gefur ekki upp nafn á þeim sem leiðir rannsóknina eins og dómurinn krafðist nema sjúklingar fái sér lögfræðing sem vísar í dóminn.

 Evrópudómstóllinn mun verða mikil réttarbót.  Í krafti dóma sem hafa fallið þar geta sjúklingar í einu ESB landi fengið meðferð í öðru ef óháðir sérfræðingar meta að það sé nauðsynlegt.  Pólitískir biðlistar og lyfjaskömmtun verður erfiðari hér eftir ESB inngöngu.  

Hæstiréttur er mjög ófullkomið dómstig og tryggir ekki rétt sakborninga eins og krafist er í siðmenntuðum lýðræðisríkjum.  Við inngöngu í ESB verðum við líklega að endurskoða okkar dómskerfi og bæta við dómsstigi.  Það er nú einhver umræða um þetta en það er ekki nóg.   

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 07:03

18 identicon

Aftur: Exempla non probent. Það þarf að vera regla eða mynstur. Ef þú heldur fram almennri kenningu um að ríki með innan við milljón íbúa geti ekki haldið upp jafn góðu samfélagi en aðrar þá þarftu að geta sýnt að 1) þess sjáist merki í öllum ríkjum með minna en milljón íbúa, ekki bara sumum, hvað þá einu 2) að þess sjáist merki í öllum stofnunum samfélagsins en ekki bara sumum. Ísland er ekkert fjölmennara í dómsmálum eða heilbrigðismálum en í fjármálum.

Það sem hér (ATH. hér en ekki í öðrum ríkjum með minna en milljón íbúa) gerðist er að það varð hrun á einu sviði samfélagsins, fjármálalífinu. Af öðrum sviðum ert þú bara með anekdótal samtíning um slæma stjórnsýslu (og varla það) sem passar við kenninguna. Það er hægt að finna sértæk dæmi um slæma stjórnsýslu í best reknu ríkjum heims.

Út frá þessu fæ ég ekki séð hvernig hægt sé að færa rök fyrir því að fámennið sé bein orsök ófaranna. Orsakaþáttur er það líklega en hvað sem er getur verið orsakaþáttur á bak við hvað sem er ef þættirnir spila rétt saman. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 16:59

19 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Lítil þjóðfélög þurfa hjálp frá stærri þjóðfélögum og þetta mun aukast í framtíðinni. 

Bankahrunið er besta dæmið.  Við höfðum ekki mannafla og þekkingu til að halda upp lágmarkseftirliti með okkar bönkum. Krónan og Seðlabankinn taka sínu máli.  Í heilbrigðiskerfinu verðum við að fá hjálp erlendis frá, margar aðgerðir er ekki hægt að framkvæma hér vegna fámennis og læknar hér hafa ekki sömu reynslu af því þeir fá ekki nógu marga sjúklinga til að halda sér í þjálfun.  Sama á við háskólakerfið.  Að 300,000 reki 10 háskóla er jók.  Þetta eru engir háskólar sem standast samanburð við bestu háskóla í fjölmennari löndum.   Og auðvita á þetta við í dómskerfinu líka.  Ætli Bretar og Hollendingar hafi ekki haft reyndari samningsmenn en við.  

Réttlætisvitund krefst engrar reglna eða mynsturs.  Það er hættuleg gildra og hefur miskunnarlaust verið notuð til að halda fólki á mottunni og berja niður nýjungar og krítíska hugsun.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.8.2009 kl. 22:05

20 identicon

Þetta er svolítið eins og að segja að Sviss geti ekki verið sjálfstætt af því að þar eru engar olíulindir eða engir bílar framleiddir.

Svisslendingar einfaldlega kaupa olíu, bíla og allskyns nauðsynjar aðrar frá öðrum löndum. Rétt eins og við - og margar aðrar þjóðir - kaupum sjúkraþjónustu og menntun í öðrum löndum. 

Sjálfstætt ríki þarf ekki að stunda sjálfsþurftarbúskap.

Annars held ég að við höfum ekki síður mannafla til þess að stunda eftirlit með bönkum en Lúxemborg og jafn góða möguleika á að koma okkur upp þekkingunni. Íslenskir stjórnmálamenn hirtu hinsvegar ekki um að gera það eða vildu það ekki. Kerfið er gallað, ekki of lítið.

Varðandi mynstrin: Þú ert að reyna að færa rök fyrir orsakasamhengi ef ég skil þig rétt, að óréttlætið sé bein og óumflýjanlega afleiðing af ákveðnum þætti. Til þess þarf að sýna fram á mynstur eða reglu.  

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 8.8.2009 kl. 16:34

21 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hans,

Ég er ekki einn um þessa skoðun á fámenninu á Íslandi sbr. þessa frétt (Eyjan 090809)

Breski hagfræðiprófessorinn Anne Sibert segir í grein sem birtist í dag á fræðivefnum Vox, að erfitt sé að finna efnahagsleg rök fyrir því að smáríki eins og Ísland séu sérstök þjóðríki heldur geti því fylgt umtalsvert óhagræði (I argue that there is little economic justification for preferring small size and that there can be significant costs).

Sibert heldur því fram, að það hafi að líkindum ráðið úrslitum að Íslendingar gátu ekki komið í veg fyrir fjármálakreppuna hér, að Ísland sé smáríki. (’Iceland’s small size was probably a key factor in Iceland’s failure to stop its financial crisis.’).

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.8.2009 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband