19.7.2009 | 15:11
Peningamálastefna Seðlabankans hunsuð eða dulbúinn skattur á sparifé?
Svo virðist vera sem ríkisstjórnin hafi misst þolinmæðina við Seðlabankann og tekið peningamálastefnuna í sínar eigin hendur og skipað ríkisbönkunum í gegnum pólitísk bankaráð að lækka vexti niður fyrir stýrivexti Seðlabankans.
Landsbankinn auglýsir nýja útlánsvexti (en vill ekki auglýsa nýja innlánsvexti!) sem hafa margir hverjir næstum helmingast frá 26.5% niður í 14%. Á sama tíma hafa stýrivextir lækkað úr 18% niður í 12%.
Í sumum tilfellum virðast vextir Landsbankans komnir langt undir stýrivexti. Landsbankinn auglýsir að vextir á yfirdráttarláni Náman hafi fallið úr 22.45% eða 445 punkta yfir stýrivöxtum (18%) niður í 9.25% eða 275 punkta undir stýrivöxtum (12%). Hvernig er þetta hægt? Varla eykur þetta trú manna á Seðlabankanum eða ríkisstjórninni? Hvert er hlutverk Seðlabankans þegar viðskiptabankarnir setja vexti óháð verðbólgu eða stýrivöxtum?
Þetta er einnig enn önnur aðförin að ellilífeyrisþegum og sparifjáreigendum. Þeirra sparifé er nú farið að brenna á báli verðbólgunnar enda hæstu óverðtryggðir innlánsvextir um 7% langt undir verðbólgu sem nú mælist yfir 12%. Svo virðist sem ríkisbankarnir lifi í sínum eigin heimi þar sem verðbólga mælist 4.3% og stýrivextir eru um 6%.
Það er alveg ljóst að gjaldeyrishöftin erum komin til með að vera þar til við fáum evruna ef af því verður enda færi allt innlent sparifé úr landi við þessar aðstæður.
Í raun má segja að þessi aðferð ríkisstjórnarinnar sé ekkert annað en lymskuleg eignartilfærsla frá sparifjáreigendum til skuldara, m.ö.o dulbúinn eignarskattur á sparifé borgaður beint til skuldara.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.7.2009 kl. 11:55 | Facebook
Athugasemdir
Skal ekki segja hvort þetta er skipun að ofan. Hins vegar er ljóst að Landsbankinn stendur verst af bönkunum þremur, t.d. ekki verið í umræðunni að hann verði tekinn yfir af kröfuhöfum. Getur ekki verið að Landsbankinn sé að reyna að skapa sér jákvæða ímynd með þessum vaxtalækkunum - og reyna að halda í viðskiptavini?
Hrafnkell (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 15:21
Hrafnkell,
Landsbankinn heldur ekki í sparifjáreigendur með þessu móti, aðeins skuldara og þeir sem skulda mest eru þeir bestu viðskiptavinirnir?
Andri Geir Arinbjarnarson, 19.7.2009 kl. 15:38
Ef ég þekki þennan banka rétt þá er þetta ekki nema hálf sagan.Við bætist örugglega eitthvað sem þeir kalla heimildagjald og það er örugglega 5 000 kr af hverjum hundraðþúsundkalli.Örugglega klassísk íslensk neytendasvik.
Einar Guðjónsson, 19.7.2009 kl. 16:37
Skoðaði heimasíðu Bankans áðan og skv. henni er um að ræða s.k. fréttatilkynningalækkun en hana er ekki að finna í verðskránni og svo bætist 3.5% heimildagjald. Þetta er alveg í takt við verk Ríkisstjórnar Vg banka og Samfylkingar
en verk hennar eru aðallega fréttatilkynningar. Vaxtalækkunin er því bara að finna í
fréttatilkynningunni. Ekki í raunheimum eða hjá viðskiptavinum L Í
Einar Guðjónsson, 19.7.2009 kl. 16:50
http://www.landsbanki.is/Uploads/documents/UmLandsbankann/vaxtaakvordun_090701.pdf
Skv. þessu eru innlánsvextir eitthvað hærri en þau 7% sem þú talar um í grein þinni. Varðan er þarna með 9,55% til dæmis.
En það er nú svosem enn undir ársverðbólgu svo rök þín standa þrátt fyrir það.
Björn I (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 17:21
Björn,
Varðan er með 9.55% núna en á að lækka um 2-2.5%! Það er ekki búið að tilkynna þessa vaxtalækkun enn svo 7% er góð ágiskun.
Andri Geir Arinbjarnarson, 19.7.2009 kl. 20:00
Góð ábending, verið er (enn einu sinni) að verðlauna skuldara á kostnað þeirra aðhaldssömu. Það eina sem heldur sparnaði innanlands eru gjaldeyrishöft. Það er verið að misnota tilgang þeirra með þessu móti.
Már Wolfgang Mixa, 19.7.2009 kl. 22:15
Takk fyrir þetta Andri Geir
Gunnar Rögnvaldsson, 20.7.2009 kl. 09:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.