13.4.2009 | 08:19
Grýla og jólasveinar um páska
Það er grunur farinn að læðast að manni að AGS sé sú Grýla sem íslenskir stjórnmálaflokkar hræðist mest þessa dagana.
Ekki má minnast á Grýlu og hennar ráð. Hurðaskellir kom jólakettinum í Seðlabankann og svo virðist sem Grýlu hafi líkað það vel og að jólasveinarnir hafi nú Grýlu góða fram að kosningum.
Hins vega mun Grýla vera orðin óþolinmóð og óánægð með leti og úrræðaleysi sinna Sveinka. Vöndurinn verður tekinn upp í maí og þá verða lítil og skuldug börn að fara að passa sig.
Grýla mun heimta að jólasveinarnir samþykki neyðarfjárlög til þess að það verði nú alveg öruggt að hún og Leppalúði hafi úr nógu að bíta og brenna og að óþekkir krakkar lendi umsvifalaust í jólakettinum.
En hvað er til ráða? Aumingja jólasveinarnir þora ekki að segja krökkunum frá fyrirætlun Grýlu og ekki getur Leppalúði með sín aumu krónubréf heldur hjálpað.
Og nú styttist í að krakkar fái að kjósa sinn uppáhaldsjólasvein. Sumir lauma einhverju góðgæti til síns jólasveins og oft launar Sveinki með góðu gotti í skóinn næsta desember. En hver þeirra getur haldið Grýlu í skefjum svo góðir krakkar geti haldið áfram að leika sér með fínu leikföngin sín?
Framhald í næsta mánuði.
Lentu allir krakkarnir í potti Grýlu?
Náði Leppalúði að skipta krónum yfir í evrur og þar með halda Grýlu góðri?
Hvað er jólakötturinn að bralla?
Voru jólasveinarnir flengdir af Grýlu?
Var Hurðaskellir kosinn uppáhaldsjólasveinn krakkanna?
Hvað varð um Kertasníki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.