31.3.2009 | 09:17
Allt vanmetið eða ofmetið
Ísland er að verða land öfga, allt er annað hvort vanmetið eða ofmetið:
Hér er smá listi yfir vanmetið ástand:
Skuldir einstaklinga
Skuldir atvinnuveganna
Ríkishallinn
Erlendar skuldir
Icesave
Fátækt
Spilling
Atvinnuleysi
Staða atvinnuveganna
Fúsk hér og þar og alls staðar
Hið ofmetna er hins vegar:
Hæfni stjórnmálamanna til að ráða við ástandið
Lýðræðisleg vinnubrögð á öllum stigum þjóðfélagsins
Reynsla og þekking skilanefnda og annarra ráða og stjórna ríkisins
Krónan sem framtíðargjaldmiðill
Staða Íslands utan ESB
Eftirliststofnanir ríkisins
Fjórflokkakerfið
Hraði og öryggi í ákvarðanatöku
O.s.frv.
Við verðum að fara að ná áttum í þessu landi og hreinsa út öfganna.
Fjöldinn sem þarf greiðsluaðlögun vanmetinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, þessi upptalning sýnir kannski vel að hin rétta leið er vandfundin og að í kreppu er enginn kostur augljós eða beinlínis góður.
Ef IceSave skuldir vanmetnar og vera utan ESB ofmetin, þá er spurning hvort ekki sé slæmt að ganga inn í bandalagið ef aðgöngumiðinn er allur IceSave pakkinn eins og hann leggur sig. Mér sýnist Samfylkingin tilbúin að greiða það gjald. Það leggur þungan skuldaklafa á næstu þrjár kynslóðir að minnsta kosti.
Ef hinn kosturinn er krónan og AGS, þá kennir sagan okkur að kreppur taka enda og AGS fer. En við förum ekki svo létt úr Evrópusambandinu aftur. Tölur Eurostat fyrir síðasta áratug segja okkur líka að innan þess getum við reiknað með viðvarandi atvinnuleysi, umfram það sem við eigum að venjast. Og með IceSave á bakinu er erfitt að komast hjá niðurskurði með því atvinnuleysi og fátækt sem af honum leiðir.
Kannski er bara þjóðráð að reyna bara að standa í lappirnar, bæta lagarammann, efla eftirlitsstofnanir og treysta sjálfum okkur til að læra af reynslunni. Spilling er eitthvað sem örugglega minnkar ekki við að ganga í Evrópusambandið, ekki hjá okkur frekar en t.d. Ítölum.
Haraldur Hansson, 31.3.2009 kl. 10:24
Andri, er kominn heimsendir?
Hjartveikir ættu ekki að lesa þetta, en sennilega hefur þú rétt fyrir þér, fyrir utan ESB tálsýnina. Hana kaupi ég ekki og tek undir með Haraldi Hanssyni. Spillingin í sumum endum þjóðfélagsins gæti hugsanleg orðið minni, en skriffinnskan mun ríða okkur að fullu.
Frekar smá spillingu, takk, en deyðandi skammt af skriffinnsku. En kannski er þetta hægt? Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að 20.000 nýjum störfum. Einhverjir þurfa að standa við ljósritunarvélarnar - og gera við þær, þegar við eru kominn inn í "sæluríki" ESB.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 31.3.2009 kl. 13:34
Það er auðvitað krísuástand í þjóðfélaginu en það mátti alveg búast við því eftir eftir andvaraleysi stjórnvalda síðustu ára. Það eina sem við getum gert er að ganga til kosninga, sjá hvað kemur út úr þeim og halda síðan áfram með það sem við höfum. Ég vona að sótt verði um ESB aðild sem fyrst því það mun auka lífsgæði almennings og gera okkur kleift að búa hérna áfram. Ef vextir lækka ekki, matvælaverð lækkar ekki og verðtrygging verður ekki afnumin munu fjölmargir Íslendingar hreinlega flytja úr landi. Með áframhaldandi stefnu verða fátækt og einangrun frá öðrum þjóðum okkar hlutskipti. Kannski er það einmitt það sem Íslendingar vilja?
Ína (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 14:39
Ína, takk fyrir innlitið. Það eru ekki margir ESB sinnar á þessum bloggsíðum. Ef bloggarar greiddu atkvæði um ESB yrði það kolfellt? Kannski sýnir þetta að það er minni stuðningur við ESB en margir halda.
Haraldur og Vilhjálmur, ESB er engin töfra lausn frekar en engin aðild, margir ofmeta báða möguleika!. Við megum ekki heldur vanmeta völd útlendinga og lánadrottna sama hvort við erum innan eða utan ESB. Það að halda að betra verði að semja við erlenda kröfuhafa (eða hlaupa frá þeim) fyrir utan ESB og að það gefi okkur meira lánstraust og betri vaxtakjör dreg ég stórlega í efa. Hugmyndir útlendinga um Ísland eru gjörbrenglaðar og við breytum ekki þeirra viðhorfum svo auðveldlega. Hins vegar er ESB gæðastimpill sem mun hjálpa okkur. Hver á að fjármagna 20,000 ný störf?
Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 15:22
Sæll aftur Andri Geir.
Ef til væri töfralausn þá væri engin kreppa.
Ég veit ekki hvernig þú hugsar, en orð þín hljóma eins og að við stöndum frammi fyrir afarkostum; efnahagslegri kúgun. Annað hvort göngum við inn og fáum betri vaxtakjör, eða stöndum fyrir utan og verðum háð erlendum lánadrottnum um alla framtíð. Svo kemur á móti að til að ganga inn þarf líklega að kokgleypa allan IceSave pakkann svo þar með eru báðir kostir afleitir.
Hvort er þá meiri reisn yfir því að vera barður þræll eða feitur þjónn?
Það er hægt að komast undan valdi lánadrottna með því að gera upp skuld sína. En það er ekki svo auðvelt að endurheimta vald sem einu sinni hefur verið framselt yfirþjóðlegri stjórn. Það er sama hve svart útlitið er það má aldrei snúast um skuldir og vexti eingöngu.
Þó ástandið sé vissulega svart held ég að það sé óþarfi að fara á taugum. Við erum ekki ein í kreppunni. Allur heimurinn er að breytast og enginn veit hvernig fjármál heimsins verða eftir tvö eða þrjú misseri. Að rjúka til í einhverri panikk og skríða inn í ESB í miðri kreppu er glapræði. Sér í lagi ef þú telur að útlendingarnir í klúbbnum hafi gjörbrenglaðar hugmyndir um Ísland.
Við siglum hvort sem er ekki út úr kreppunni nema fyrir eigin vélarafli.
Þegar kreppunni linnir kemur í ljós hverjir þurfa að afskrifa hvað og hvaða þjóðir eiga mesta möguleika til að byggja sig upp aftur. Okkar staða er hreint ekki slæm í þeim efnum.
Haraldur Hansson, 31.3.2009 kl. 17:34
Haraldur,
Aðild að ESB hefur alltaf snúist um lífskjör. Þjóðir hafa yfirleitt gengið inn í ESB til að bæta eða viðhalda lífskjörum. Þegar þjóðartekjur á mann á Ísland falla niður fyrir meðaltekjur í ESB mun þrýstingur á ESB aðild aukast. Hvernig ætla VG og D að ná saman um framtíðarefnahagsstefnu utan ESB? Einhver verður að gefa eftir annars erum við á leið í stjórnmálakreppu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 18:09
Mikið rétt. En drifkrafturinn er alltaf kreppa.
Að frátöldum stofnríkjunum hefur engin þjóð gengið í Evrópusambandið nema í kreppu. Bretar í efnahagskreppu, Svíar í bankakreppu, A-Evrópu þjóðir í tilvistarkreppu eftir fall kommúnismans og Spánn í Portúgal í stjórnmálakreppu eftir fall einræðisins.
Aðeins ein þjóð hefur sótt um kreppulaust og það voru Norðmenn. Aðild var felld af þjóðinni í tvígang. Hvers vegna gengur enginn í þennan klúbb nema krepptur?
Ef við viljum ganga þarna inn eigum við ekki að gera það í kreppu. Standa upp fyrst, dusta af okkur rykið, taka okkur saman í andlitinu og ganga svo inn hnarreist ef vilji er til. Og við eigum ekki að óttast framtíðarstefnu í efnahagsmálum og nota það réttlætingu á uppgjöfinni. Enn síður að hengja það á tvo flokka, sem vill svo til að eru nokkurn veginn sammála í Evrópumálum í augnablikinu. Hlutirnir breytast hratt.
Þessu öllu til viðbótar er fráleitt að sækja um aðild og hefja viðræður á meðan algjör óvissa ríkir um örlög Lissabon samningsins. Það er ofar mínum skilningi að sá samningur, ígildi stjórnarskrár sem breytir grunnsamningum ESB, skuli aldrei rata inn í Evrópuumræðuna hér á landi.
Haraldur Hansson, 31.3.2009 kl. 18:42
Haraldur,
Punkturinn um Lissabon er góður. Við verðum ekki tekin inn fyrr en það er komið í höfn. Það breyti þó ekki því að við getum byrjað aðildarviðræður. Á endanum verður þetta ákveðið í þjóðaratkvæði. Eina leiðin fyrir ESB andstæðinga að loka á ESB aðild er að sækja um aðild og kjósa síðan í þjóðaratkvæði og fella inngöngu. Allir flokkar hafa samþykkt að ESB aðild verði ákveðin í þjóðaratkvæði. Ekki svo auðvelt að stoppa þetta ferli nú.
Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.