Aðför að öldruðum

Það var ömurlegt og lítilmannlegt að eitt fyrsta skref stjórnvalda til að auka tekjur ríkisins var að ráðast á ellilífeyrisþega, þann hóp sem síst má sín.  Nú koma allar fjármagnstekjur til frádráttar en aðeins helmingur var dreginn frá á síðasta ári.  Ekki nóg með það heldur koma fjármagnstekjur maka til fulls frádráttar.  Ekki er mér kunnugt um að fjármagnstekjur maka komi að fullu til frádrátta við ákvörðun atvinnuleysisbóta.  Er þetta jafnræði?

 

Ellilífeyrisþegar eiga engan þátt í efnahagserfiðleikum þjóðarinnar.  Þetta er sú kynslóð sem hefur unnið hörðum höndum alla sína ævi við að búa í haginn fyrir afkomendur sína.  Þetta er sú kynslóð sem hefur lagt grunninn að því velferðarþjóðfélagi sem Ísland er í dag.  Þetta er sú kynslóð sem nú á að fá að eyða ævikvöldinu í friði og njóta ávaxta erfiðis síns.  Flest af þessu fólki er hagsýnt og hefur farið vel með fé sitt, borgað sína skatta og skuldir og safnað í litla sjóði til elliáranna.  En í staðin fyrir að leyfa foreldrum sínum að njóta síns sparnaðar með reisn og virðingu ákveða börnin eftir að hafa spilað rassinn úr buxunum eina ferðina enn, að ráðast á banka mömmu og pabba, eina banka landsins sem enn stendur fyrir sínu.   Er von að foreldrarnir spyrji hvor börn þeirra munu nokkurn tíma komast til vits og ára.  Þjóðfélög eru oft dæmd eftir því hvernig þau koma fram við elstu borgara samfélagsins.  Ísland fær ekki háa einkunn þar.

 

Með því að draga allar fjármagnstekju frá ellilífeyri eru stjórnvöld í raun búin að hækka fjármagnstekjuskattþrepið fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp, á meðan aðrir njóta 10% þrepsins.  Er þetta jafnræði?  En ekki nóg með það.  Á meðan erfðafjárskattur til barna er aðeins 5% setja þessar nýju reglur óeðlilegan þrýsting á ellilífeyrisþega að borga út skuldlausar eignir sínar sem fyrirframgreiddan arf til barna sinna.  Þannig getur arðrakstur af þessu eignum komið að fullum notum til barna eða foreldra, t.d. í formi vasapeninga.  En af hverju setur þjóðfélagið svona lög og reglur sem beinlínis þröngva ellilífeyrisþega að gera sig eignalausa?   Eru þetta mannréttindi?  Viljum við koma svona fram við foreldra okkar?  Því miður sýnir þetta viðhorf til gamla fólksins þann siðferðisskort sem enn tröllríður miklum hluta af íslensku samfélagi.  Þetta er smánarblettur á íslensku samfélagi og núverandi valdakynslóð til háborinnar skammar.  Og það sem sorglegast er að allir stjórnmálaflokkar virðast styðja þetta hörmulega kerfi. 

 

Nú eru að koma kosningar og þá rennur upp sá tími er stjórnmálamenn gera hosur sínar grænar fyrir eldri borgurum þessa lands og lofa öllu fögru.  Á kosningardag munu stjórnmálaflokkarnir smalað fólki af öldrunarstofnunum á kjörstaði.  Þá er hægt að heimsækja gamla fólkið og keyra það til að kjósa.  Skilaboðin eru: við tökum spariféð ykkar en þið skuluð ekki voga ykkur að kjósa aðra flokka en nú sitja á Alþingi.  Þetta er íslenskt lýðræði í hnotskurn og myndin sem birtist er ekki falleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband