14.4.2010 | 09:14
Einkavæðing bankanna brást í 11 af 11 lykilatriðum
Í viðauka rannsóknarskýrslunnar er athyglisverð tafla sem tekur saman lærdóm frá Seðlabanka Bandaríkjanna af eldri bankakreppum.
Það sem er athyglisvert er að í okkar kreppu höfum við fallið ofaní allar 11 gryfjurnar. Sagan hér er endurtekning á kreppum annarra, þess vegna var vanrækslan stjórnvalda hér svo sár og óþörf.
Lærdómar af fyrri bankakreppum
- Fylgjast þarf staðfastlega með hæfni þeirra sem ráða fyrir bönkum sem eigendur og stjórnendur. Því að menn með vafasama fortíð eða kunnáttu sækjast þar til áhrifa.
- Aldrei má slaka á settum reglum um mat á tryggingum og útlánaáhættu, engir forgangs viðskiptavinir eiga að vera til.
- Vakandi auga þarf að hafa með þeim sem eru fundvísir á leiðir framhjá reglum, skráðum og óskráðum, í leit að hagnaði.
- Innherjaviðskipti eru sérstaklega hættuleg afkomu banka.
- Þar sem innherjar eru að verki fylgja oftast önnur brot á starfsreglum í kjölfarið.
- Eftirlitsaðilar þurfa að vera vel upplýstir um allar ákvarðanir og eftirlit, bæði með kröfum um skýrslugjöf og virku eftirliti á staðnum.
- Þekkingarskortur og sofandaháttur, ekki síst af hálfu bankaráðsmanna, eru meðal helstu orsaka áfalla í rekstri banka.
- Séu lög og reglur varðandi rekstur og endurskoðun banka ófullnægjandi verða eftirlitsaðilar að hlaupa í skarðið og vera á verði gagnvart óheilbrigðri starfsemi.
- Mat á því hvort eigið fé sé nægilegt er ekki nóg. Athuga verður hvaða veikleikar í rekstrinum valda veikri stöðu eigin fjár.
- Skipulag banka með mikil og margbrotin viðskipti þarf að vera skýrt með ljósum starfsreglum um ábyrgð og starfssvið hvers og eins.
- Ekkert er mikilvægara en að eftirlitsaðilar séu óháðir og að heimildir þeirra og geta til að knýja aðila til að fylgja settum reglum séu ótvíræðar.
Catharine M. Lemieux: Conglomerates, Connected Lending and Prudential Standards. Lessons Learned. Emerging Issues Series. Supervision and Regulation Department. Federal Reserve Bank of Chicago, maí 1999.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Einkar athyglisvert og með ólíkindum!
Varðandi atriði nr 10 þarf einnig að yfirfæra á eftirlitsstofnanir hins opinbera. Það á ekki að vera mögulegt í neinum kringumstæðum að stofnanir geti vísað hver á aðra með ábyrgðarsvið.
Brynjar Jóhannsson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 16:05
Ja hérna hér. Þetta er eiginlega með því sorglegra sem ég hef lesið varðandi hrunið.
Allt þetta var hægt að uppfylla án mikillar fyrirhafnar.
Kama Sutra, 14.4.2010 kl. 17:04
En forseti vor fullyrti erlendis að hér á Íslandi byggi þjóðflokkur sem vegna einstaks erfðamengis hefði eðlislæga kunnáttu og hæfileika sem finndist ekki meðal annara þjóða. Hæfileikar þjóðarinnar á sviði fjármála væru einstakir.
Og hann verðlaunaði þá sem fremst fóru - skömmu fyrir efnahags og siðmenningarhrun Íslands.
Sævar Helgason, 14.4.2010 kl. 17:17
Ein spurning.
Af hverju er ekkert talað um að bankar eigi ekki að starfa með beina eða óbeina ábyrgð ríkisins?
Sem er grunnorsökin fyrir þessu öllu. Án þessarar ábyrgðar væri ekkert AAA rating og engin endalaus lán frá útlöndum. Þá væru þetta bara duglegir vitleysinga að reka lítin banka sem fer á hausinn á þeirra eigin ábyrgð.
Gunnar (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 20:41
Það er engu líkara en þetta hafi átt að fara allt saman til andskotans og ömmu hans. Hvílíkt er klúðrið.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 14.4.2010 kl. 21:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.