Hinn hlýi norðanvindur

Þar sem norðanvindurinn er hlýr en sunnangolan köld, þar sem vindar blása réttsælis um lægðir og norðlægar strendur snúa á móti sól, þar er Ísland fjarlæg eyja.

Og þó.  Á einni paradísareyju í suðurhöfum þar sem sjórinn er alltaf ilvolgur og pálmar svigna yfir endalausum hvítum sandströndum, þar býr þjóð sem þekkir íslenskar raunir.

Þjóð sem á tímum Ingólfs Arnarsonar sigldi 3000 km yfir opið haf og nam land á fjarlægri eyju sem landnámsmenn nefndu Aotearoa.

Þjóð með mikla og merka fortíð, einhver mesta siglingaþjóð allra tíma sem vindar og straumar Kyrrahafsins gátu ekki grandað en var knésett af erlendum skuldum í lok síðustu aldar.

Þjóð sem lét glepjast af sterkum forsætisráðherra sem í krafti persónutöfra dreif í gegn fjárfestingarævintýri sem endaði með ósköpum.  Gjaldmiðilinn hrundi, opinber þjónusta var skorin niður um þriðjung og kaup lækkað um 65%.  Á næstu fimm árum á eftir flutti fjórðungur þjóðarinnar úr landi.  Stoðir heilbrigðiskerfis og menntakerfis hrundu.  Og nú 15 árum eftir hrunið er einn stærsti gjaldeyrisskapandi hluti hagkerfisins peningasendingar heim frá eyjaskeggjum sem fluttu úr landi. 

Íbúar og stjórnvöld á Aotearoa hafa reynst forfeðrum sínum vel.  Þeir hafa léð þeim sinn gjaldmiðil, reka nú innlenda og erlenda bankastarfsemi og hafa fjárfest gríðarlega í uppbyggingarstarfsemi síðustu 15 árin.  Hins vegar er menntakerfið ekki svipur hjá sjón og erfitt er að manna stöður lækna og hjúkrunarfólks.  En auðveldara hefur reynst að flytja inn láglaunafólk frá nágrannaeyjum til að manna sívaxandi ferðamannaþjónustu.

Íbúar á Rarotonga þekkja vel hvaða afleiðingar miklar erlendar skuldir geta haft fyrir lítið samfélag.  Saga þeirra er saga full af lexíum fyrir Ísland.  Saga hvernig lítil eyþjóð glatar sínu sjálfstæði smátt og smátt innan frá og hvernig erlend öfl, ill og góð fylla skarðið og skilja eftir þjóðfélag sem ekki er svipur hjá sjón. 

Rarotonga er stærst af svokölluðum Cook eyjum sem eru hluti af breska samveldinu og í frjálsu ríkjasambandi við Nýja Sjáland (Aotearoa) þar sem forfeður þeirra námu fyrst land fyrir meir en 1000 árum.  Samband þeirra við Nýja Sjáland bjargaði þeim frá algjöru gjaldþroti fyrir um 15 árum síðan.  En efnahagslegt hrun sem varð vegna ótæpilegra erlendra skulda hefur einnig stöðvað þeirra sjálfstæðisbaráttu og að mörgu leiti sett hana í bakkgír. 

Cook eyjar höfðu sinn eigin gjaldmiðil og seðlabanka en eftir hrunið neyddust þeir til að innkalla gjaldmiðilinn og taka upp nýsjálenskan dollar.  Í dag eru þeir algjörlega háðir frændum sínum í Nýja Sjálandi hvað varðar fjárfestingar og fjárhagsaðstoð. 

Cook eyjar hafa ekki enn treyst sér til að sækja um fulla aðild að Sameinuðu Þjóðunum.  Sumir álíta að það sé af ótta við að Nýja Sjáland skeri þá niður fjárhagsaðstoð til þeirra. 

Rarotonga er raunverulegt dæmi um hvernig skuldir skerða sjálfstæði lítilla eyja.

Verða mistökin á Rarotonga endurtekin í Reykjavík?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Andri Geir.

Sláandi líkt einhverju sem mér finnst ég kannast við.

Ingimundur Bergmann (IP-tala skráð) 7.3.2010 kl. 14:31

2 Smámynd: Kama Sutra

Ég er farin að sakna mjög góðu bloggpistlanna hérna á þessari síðu.  Það er orðinn verulegur hörgull á skynsömum röddum í íslenska þjóðfélaginu núna.  En offramboð á stæku þjóðrembuvæli.

Hjálp, Andri Geir!

Plís, ekki hætta að blogga!

Kama Sutra, 9.3.2010 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband