17.1.2010 | 13:49
Að bíða eftir að komast á biðlista
Ríkisútvarpið flutti þá frétt að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hafi styst verulega og nú þurfi aðeins að bíða í nokkra daga eftir plássi. Ekki er þetta vegna þess að þörfin hafi minnkað eða að rýmum hafi fjölgað, nei þessi viðsnúningur er vegna þess að vistunarmat er hert og skilgreining á biðlistum er breytt eftir þörfum hins opinbera.
Þetta þýðir einfaldlega að nú þurfa aldraðir að bíða eftir að komast á biðlista. Þetta er svipuð rökfræði og bankarnir og Seðlabankinn notuðu fyrir hrun til að útskýra að allt væri í himnalagi á þeim vígstöðvum.
Vistunarmatið er síðan heilög niðurstaða þeirra aðila sem að því vinna. Ef mistök eru gerð er ekki auðvelt að leiðrétta þau. Á heimasíðu Landlæknis er því vinnuferli lýst sem fólk þarf að fara eftir ef það er ekki sátt við niðurstöðu nefndarinnar. Það er ekki á færi nema fullfrísks fólks að standa í þeim bréfaskrifum og upplýsingagjöf sem Landlæknir krefst. Þetta er ferli sem hentar þeim sem eiga aðstandendur sem eru vanir að formúlera skriflegar kvartanir og vísa í gildandi lög, enda virðist það aðeins á færi heilbrigðisráðherra að snúa vistunarmati við, eftir því sem ég best gat skilið af vefsíðu Landlæknis? Einstæðingar sem eru aldraðir og heilsuveilir eiga enga möguleika á að sækja rétt sinn, praktískt talað. Þeim er haldi í gíslingu kerfis sem er hannað fyrir embættismenn.
Í okkar velferðarkerfi er enginn sem fylgist með einstæðingum eða berst fyrir þeirra rétti. Sú staðreynd að sjúklingar og aldraðir eiga sér engan umboðsmann segir sína sögu.
Hér hafa stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir brugðist, þó ekki vanti yfirlýsingarnar um nauðsyn þess að standa vörð um velferðakerfið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Enn eitt dæmi hvernig vinstristjórnin misnotar ríkisútvarpið til að dreifa rangupplýsingum sér til framdráttar.
Halldór Jónsson, 17.1.2010 kl. 14:41
Heita það rangupplýsingar að kona á hundraðasta aldursári sem á enga afkomendur, komist ekki á hjúkrunarheimili þó hún sé búin að beinbrotna oftar en einu sinni á undanförnum 2 árum.
Þarna er verið að taka dæmi sem er raunverulegt og satt. Það er líka auðvelt að stytta biðlistana, ef skilyrði þess að komast á þá eru verulega hert.
Vandi aldraðra er samt alls ekki jafn mikill hvar sem er á landinu. Af fréttum að dæma er hann áberandi mestur á Höfuðborgarsvæðinu og þá sérlega í Reykjavík. Skyldi það vera tilviljun að Sjálfstæðismenn hefi farið þar með völd áratugum saman
Hér í Húnaþingi vestra eru þessi mál í afar góðum farvegi. Heimaþjónusta er samfelld og góð bæði með heimsóknum hjúkrunarfræðings og heimilishjálp. Henti eigið heimili ekki, er viðkomandi er sá valkostur fyrir aldraða að leigja sér litla ódýra og hentuga íbúð í sérhönnuðu húsnæði nærri Heilbrigðisstofnuninni. Dagvist er á Heilbrigðisstofnun og þar eru síðan næg dvalar og hjúkrunarrými þegar hver og einn þarf.
Það eina sem vantar í þessa annars góðu keðju, er að fólki sem vill minnka við sig húsnæði á miðjum aldri, standi til boða nægilega mikið af hentugum íbúðum til kaups.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.1.2010 kl. 15:20
Hólmfríður,
Ég er viss um að það er rétt að þessi mál eru betri út á landi en í Reykjavík, en það þarf meira en hentugar íbúðir. Það þarf alvöru heimaþjónustu sem er örugg og ábyggileg. Þjónustu sem er sniðin að þörfum aldraðra en ekki skrifstofufólks í Reykjavík.
Flestir aldraðir vilja dvelja heima hjá sér, ef þeir geta en það verður að gefa fólki val. Sumir vilja fara inn á dvalarheimili en nú er búið að loka fyrir þann möguleika þar sem þeim var breytt í hjúkrunarheimili og nú hefur þeim verið breytt í sjúkradeildir fyrir þá sem eru alvarlega veikir.
Þessi mál eiga bara eftir að versna eftir því sem þjóðin eldist.
Andri Geir Arinbjarnarson, 17.1.2010 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.