2.1.2010 | 21:45
Skaðinn er skeður
Það er rétt hjá Birni Vali að það er undarlegt að Ólafur Ragnar þurfi að taka sér tíma til að ákveða hvort hann sé með eða á mót Icesave. Þar er hann einstakur meðal Íslendinga þar sem yfirgnæfandi meirihluti virðist hafa myndað sér skoðun með eða á móti fyrir þó nokkru, enda hefur málið verið rætt fram og tilbaka líkt og fá mál í Íslandssögunni.
Þetta hik Ólafs er ekki traustvekjandi. Útlendingar hafa allt í einu áttað sig á að hér á landi ríkir ekki Norður-Evrópu þingræði eins og í Bretlandi, Hollandi eða Danmörku. Óhugsandi væri að þjóðhöfðingjar þessara landi neituð undirskrift eða tækju sér óeðlilegan tíma til umhugsunar enda er hefð í þessum löndum fyrir því að pólitískar ákvarðanir séu teknar að þjóðþingi enda ríkir þar þingræði.
Á hinn bóginn erum við ekki eins og Frakkar eða Bandaríkjamenn þar sem forsetinn hefur skýrt afmörkuð pólitísk völd. Við virðumst vera hvorki fugl né fiskur í þessu samhengi, haga seglum eftir vindi og gera akkúrat eins og okkur sýnist á skjön við venjur og hefðir í öðrum Evrópuríkjum.
Það er svo sem ekkert að segja við því, en þá eigum við ekki að sigla undir fölskum fána og gefa í skyn að ákvörðun Alþingis sé okkar síðasta orð. Framtíðar milliríkjasamningar verða okkur erfiðir, alla vega þar til við semjum nýja stjórnarskrá og skilgreinum okkar stjórnskipulag á skiljanlegan hátt.
Segir forsetann taka undarlegan pól í hæðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Því miður þykir mér það líklegt að Ólafur sé að reyna að leika eftir leik Vigdísar með flugfreyjuverkfallið, að sýna nærgætni með frestun undirskriftar.
Hitt er svo annað mál að synjunarvald forseta Íslands er ekki leyndarmál og fordæmi fyrir beitingu þess er þegar til staðar. Þessi rétt tæpu 100% mannkyns sem við köllum útlendinga skilja það örugglega ágætlega að í mismunandi löndum er mismunandi stjórnskipan enda tíðkast það ekki erlendis frekar en hér að öllu sé háttað eins og erlendis.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 22:06
Björn Valur er Stalínisti sem rekin var út af fundi stéttarfélags sem hann var í fyrir nokkrum dögum.En það besta sem gæti komið fyrir þá sem vilja þessa afætustjórn burt er að sjálfsögðu það að forsetinn skrifi undir, sem ég efast ekki um að hann geri,mannleysan,fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans.Þá verður auðveldara að koma mönnum eins og Birni Vali burt af þingi,manni sem laug sig inn á þing.
Sigurgeir Jónsson, 2.1.2010 kl. 23:03
Líka legg ég til að menn sem búa í öðrum löndum haldi sig við þau og láti okkur hin um Ísland.Ef þú hefur flúið til Íslands eða verið rekinn frá Bretlandi, þá finnst mér að þú ættir að hugsa þinn gang og reyna að styðja þína þjóð frekar en að liggja hundflatur fyrir gamla nýlenduveldinu og arðræningjunum.
Sigurgeir Jónsson, 2.1.2010 kl. 23:09
Það er rétt hjá Hans að margvíslegt stjórnskipulag er í útlöndum. Í Danmörku, Hollandi og Bretlandi er t.d. konungsstjórn og kæmi þar aldrei til greina að beita neitunarvaldi.
Við erum hins vegar með þjóðkjörinn forseta sem hefur aldrei haft hlutverk í ákvarðanatöku, enda embættið leifar af kóngsríkinu Ísland með bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944. Leikreglurnar eru því ekki til fyrir hann eða virkt hlutverk hans, hvorki hvað varðar hefðir né ákvæði stjórnarskrár. Erlendis, t.d. í Þýskalandi, Tékklandi, Póllandi og víðar þá er skýrt hvaða hlutverki forseti gegnir í stjórnskipuninni og ákvarðanatöku.
Núverandi ástand er óviðunandi. Ábyrgðina á því ber ÓRG ekki einn, heldur er hér við stjórnmálastéttina í heild að sakast frá upphafi lýðveldisins.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 23:17
Líka ættir þú að huga að því fífla snobbfyrirkomulagi sem er í stjórnskipun Bretlands.Það fyrirkomulag að að hafa kóng eða drottningu sem gengur í erfðir er ekki háttskrifað hjá heimsbyggðinni í dag, nema þá kanski í N-Kóreu.Ég legg til að þú byrjir á að bjóða Bretum og Hollendingum stjórnvisku þína.Það þarf að byrja að breyta þar.
Sigurgeir Jónsson, 2.1.2010 kl. 23:21
Annars er engin ástæða til að fara á taugum. Þegar allt kemur til alls þá er löng helgi og áramót í þokkabót.
Það er engin ástæða til að ganga frá undirskriftinni fyrr en á mánudag.
Dragist það hinsvegar fram yfir mánudag, þá er eitthvert leikrit í gangi sem ekki verður til álitsauka hvorki fyrir ÓRG né þjóðina.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 23:53
Þó þetta sé ekki svona annars staðar segir það ekkert um að þetta sé eitthvað vandamál.
Það á að vera erfitt að koma í gegn lögum í andstöðu þjóðar. Forsetinn er þjóðkjörin og hefur nú einstakan möguleika til að verða minnst í sögunni fyrir að auka áhrif beins lýðræðis á Íslandi.
Ef það er vandamál tja, væri það undarlegt! Það bera flestir virðingu fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum.
Jón Ásgeir Bjarnason, 3.1.2010 kl. 00:43
Vandamálið þarna, þ.e. vilji sumra til að fá efnið í þjóðaratkvæðagreiðslu, er að eins og almennt er talað td. á netinu og heyra má á fólki sem maður hittir í dagsins önn - að þá er engu líkara en fólk sé að fara að greiða atkvæði um það hvort Ísland eigi að borga icesave eða ekki. Að það eigi bara að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og ef td. sagt væri nei - þá væri icesave bara úr sögunni því þjóðin hefði jú ákveðið það.
Meina, veit ekki. Maður er bara farinn að hrista hausinn yfir þessari vitleysu.
Þetta nær ekki nokkurri átt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.1.2010 kl. 03:50
Nei, Ómar Bjarki, málið verður ekki þar með úr sögunni – Bretar og Hollendingar geta þá t.d. ákveðið að taka því tilboði, sem segja má að hafi falizt í Icesave-lögunum í ágúst, með því að samþykkja um leið alla fyrirvara þeirra, þá yrði ríkisábyrgð á þeim lögum virk um leið. Það yrði ærið mál – og auðvitað fullkomlega ósanngjarnt – fyrir okkur að borga af þeim tilætlunum, þó að efnahagslegu fyrirvararnir í þeim lögum myndu tryggja okkur, að það yrði ekki nándar nærri eins svínslega erfitt og þessir þjóðhættulegu pappírar, sem nú eru til skoðunar á Bessastöðum.
Eins eru aðrir úrkostir hugsanlegir; hef ég talið þá helztu upp í þessari grein minni: Hvað gerist, ef Icesave-frumvarpið verður fellt? – sbr. einnig þessa samantekt: Ástæðulaus er ótti kjarklítilla úrtölumanna við afleiðingar þess að hafna Icesave.
En Ómar Harðarson hér ofar skortir greinilega betri þekkingu á sögu forsetaembættisins. Ekki þarf að segja stjórnmálafræðingnum dr. Ólafi Ragnari Grímssyni það, að fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson, hafi ekki beitt valdi sínu í meira mæli en fyrir formsins sakir eingöngu. Það ER hefð fyrir íhlutunum forsetans í ýmis mál, og er skemmst að minnast neitunarvalds núverandi forseta í fjölmiðlamálinu 2004, en hann talaði þá um, að "gjá" hefði myndazt milli þings- og þjóðarvilja í því máli og tók þar mið af því, að í áskorun til Alþingis söfnuðust þá 31.752 nöfn þeirra sem mótmæltu fjölmiðlafrumvarpinu.
Og eins og Róbert Marshall, fv. formaður Baðamannafélagsins, nú þingmaður Samfylkingarinnar, minnti á, þegar fjölmiðlafrumvarpið var í umræðunni, þá er enn eitt fordæmið til í huga forsetans – orðrétt sagði Róbert: "Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin."
Við megum því sannarlega vera vongóð, að herra Ólafur Ragnar Grímsson geri það sama nú: að neita að staðfesta Icesave-lagasetninguna, hafandi hliðsjón af því, að í þessari mestu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar hafa yfir 60.000 manns (nú 61.579, nær tvöfalt fleiri en 2004) skorað á hann að láta bera lögin undir íslenzku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Að ástæðan sé ærin af öðrum ástæðum en þessum, má líka lesa um hér: Vitaskuld á þjóðin að fá tækifæri til að kjósa um Icesave.
Jón Valur Jensson, 3.1.2010 kl. 05:35
Afsakið, vefslóð vantaði.
... hef ég talið þá helztu upp í þessari grein minni: Hvað gerist, ef Icesave-frumvarpið verður fellt?
Jón Valur Jensson, 3.1.2010 kl. 05:41
Hvað gerist, ef Icesave-frumvarpið verður fellt?
Jón Valur Jensson, 3.1.2010 kl. 05:42
Þessi færsla snýst um okkar gömlu stjórnarskrá og hefðir. Við erum í grunninn með stjórnarskrá sem var samin fyrir konungsveldið Ísland. Við upphaf lýðveldisins var kóngi skipt út fyrir forseta og hefð skapaðist fyrir því að Forsetinn var ópólitískt sameiningartákn þar til Ólafur Ragnar varð Forseti og gerði embættið pólitískt.
Það sem ég er að gagnrýna er að það er þjóðin sem á að ákveða hvort forsetinn er pólitískur eða ekki. Það á að kjósa um þetta en ekki láta einn mann finna löglega smugu sem brýtur allar hefðir og umbyltir embættinu.
Sú staðreynd að við sem þjóð höfum ekki haft kjark eða getu til að semja og samþykkja okkar eigin stjórnarskrá segir margt um þær áherslur sem þessi þjóð setur sér.
Andri Geir Arinbjarnarson, 3.1.2010 kl. 11:05
Það hefur reyndar lengi verið deilt um þetta ákvæði - nánast frá byrjun.
Nú, það er nú ekki mörg ár síðan að lögspekingar sjálfstæðismanna vildu meina að Forseti í rauninni hefði ekki þetta vald - en allt er breitingum undirorpið eins og gengur. Núna virðist það orðið almennt samþykkt að Forseti hafi umrætt vald. En sleppum því.
Þetta mál hentar enganveginní þjóðaratkvæði.
Það að Forseti beiti málskotsrétti í umræddu máli, þýðir bara eitt: Málið uppí loft !
Sumir eru að segja að B&H "geta þá t.d. ákveðið að taka því tilboði, sem segja má að hafi falizt í Icesave-lögunum í ágúst"
Já já - eða að þeir geti bara ákveðið að gera það ekki ! Who knows.
Það er svo mikill misskilningur að Ísland sé í þeirri stöðu að geta skipað allri heimsbyggðinni að sitja og standa eina og íslendingar vilja. Menn verða að vera raunsæir og hafa skynsemina að leiðarljósi.
Hva - eigum við ekki bara að setja lög á þingi um að "við þurfum ekkert að borga"
En varðandi aðalatriði upphafspistils - þá er ég soldið sammála. Þetta er of laust í reypunum þetta ákvæði. Á sínum tíma var ég pínulítið hissa að Forsetinn skyldi beita því. Jú jú, Fjölmiðlalögin voru gölluð og allt það, en samt - Eg bjóst samt ekki við beitingu málskotsréttar.
Ekki vegna þess að Forseti hefði eigi vald til þess - heldur aðallega út af hefðinni. Vigdís td. hafði augljóslega þann skilning að ákvæðinu yrði ekki beitt þegr hún var Forseti - og allan lýðveldistíman var því ekki beitt.
Enda sýndi sig að það virkaði ekkert. Þjóðin fékk ekkert að kjósa, eins og kunnugt er.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.1.2010 kl. 12:10
Stjórnarskránni hefur margoft verið breytt, Andri Geir. Hún er í reynd hið mesta ágætis-réttindaskjal. Þeir, sem töluðu um að í búsáhaldabyltingunni, að fá þyrfti algerlega nýja stjórnarskrá, fóru fram í afar mikilli einfeldni og óvirðingu fyrir því, sem byggt hefur verið upp. En það má einmitt óttast það allra helzt, að það séu evrókratarnir, sem vilji finna hentuga smugu til að skófla út á einu bretti, án þess að mikið beri á, öllum þeim fullveldisréttinda-vörnum okkar, sem greyptar eru í margar greinar stjórnarskrárinnar. Það væri sannarlega stórslys.
Ert þú ekki samherji evrókratanna, og býr það ekki á bak við orð þín hér um þessa góðu stjórnarskrá lýðveldisins?
Jón Valur Jensson, 3.1.2010 kl. 13:12
Ómar Bjarki Evrópuyfirráðabandalags-aðdáandi var af veikum mætti að reyna að svara mér og ræðir m.a. það, hve mikill misskilningur það sé "að Ísland sé í þeirri stöðu að geta skipað allri heimsbyggðinni að sitja og standa eina og Íslendingar vilja."
Erum við að skipa sjálfri heimsbyggðinni fyrir?! Við – sjálfstæðir Íslendingar, sem vitum eins og flestir beztu lögspekingar okkar og lögfræðingar erlendis, að það hvílir engin lagaskylda á ríkissjóði okkar eða þjóðinni að borga fyrir óreiðuskuldir Björgólfsfeðganna vegna Icesave-reikninga Landsbankans – við erum hins vegar að benda grófum árásarmönnum í London og Amsterdam og vitorðsmönnum þeirra í Evrópubandalaginu, sem og hræðslugæða-vinum þeirra á Norðurlöndunum, á það, að því þjóðasamfélagi ber að virða sín eigin lög og reglur, m.a. það tilskipunarákvæði Evrópubandalagsins, 94/19/EC, sem sýnir og sannar sakleysi íslenzka ríkisins og þjóðarinnar í Icesave-málinu.
Ómar Bjarki og Andri Geir vilja láta ÞJÓÐINA borga fyrir Björgólfsfeðga, og sá fyrrnefndi virðist ekkert sjá því til fyrirstöðu að styðja á sama tíma Samfylkinguna, flokkinn með þann iðnaðarráðherra (Katrínu Júlíusdóttur) sem samþykkir að Björgólfur Thór fái að kaupa hlut í orkufyrirtæki hérlendis, þótt hann fái ekki einungis alveg að sleppa við að borga Icesave-reikningana, heldur kemst hann upp með það að eiga ENNÞÁ eftir að BORGA FYRIR sjálft lánið í Kaupþingi, sem hann og faðir hans tóku til að kaupa Landsbankann, sem öllum skaðanum olli! Næstu samskipti hans við stjórnvöld á undan þessu orkugeiramáli voru þau þegar hann í ófyrirleitni sinni óskaði eftir HELMINGS-AFSLÆTTI á þessari skuld sinni við Kaupþing (sem þá var komið í eigu ríkisins) !!!
Ég held að Ómar Bjarki ætti að finna gagnrýni sinni annan farveg og taka til endurskoðunar þessa stefnu sína að láta þjóðina borga, en frökkustu útrásarvíkingana komast áfram upp með sína óhæfu.
Jón Valur Jensson, 3.1.2010 kl. 13:34
Sæll Andri, gleðilegt ár.
"Skaðinn er skeður"? þú ert sjálfsagt að meina að töf ÓRG við að staðfesta lögin sé skaðinn, ef ég skil þig rétt. Auk þess að mjög erfitt verði að semja við erlend ríki þangað til við höfum skapað nýja stjórnarskrá.
Gunnar Skúli Ármannsson, 3.1.2010 kl. 14:39
Gunnar,
Því miður hefur þessi töf Ólafs dregið athyglina enn eina ferðina að vandamálinu Íslandi. Erlendis erum við enn hluti af vandamáli en ekki lausn. Við verðum að fara að sýna umheiminum að við getum leyst vandamál en ekki bara sett allt í háaloft.
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.1.2010 kl. 21:07
Að "leysa" vandamál með þvi að búa til risavaxnara vandamál en þig getur sjálfan órað fyrir, Andri Geir – er það rétta leiðin?! Og hvað ert þú að kalla landið okkar vandamál, eða áttu við þjóðina? Ertu ekki vandamál sjálfur, ef þú tekur þátt í því að láta í meðvirkni leiða land okkar og þjóð í þrælkunaránauð?
Jón Valur Jensson, 4.1.2010 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.