2.1.2010 | 10:51
Þjóð án sameiningartákns
Ólafur Ragnar hefur gert embætti Forsetans pólitísk og þar með breytt stöðu Forsetans frá því að vera sameiningartákn yfir í pólitískan varðhund. Fyrst lagði Ólafur til atlögu við þingið til að verjast ágangi frá Davíð og nú er líklegt að Steingrímur og Jóhanna fái að kenna á Bessastaðabóndanum.
Eitt er víst, og það er að Forsetaembættið verður aldrei hið sama, og þær hefðir og gildi sem voru byggð upp af fyrrum forsetum Lýðveldisins er búið að kasta fyrir róða. Sú tilraun að hafa hér stjórnarskrá byggða á þingræðislegu konungsveldi og skipta konungi út fyrir kjörinn Forseta hefur runnið sitt skeið á enda.
Nú verður að stokka upp á nýtt, og semja nýja stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland. Hér þarf að koma til breið samstaða frá landsmönnum líkt og á þjóðfundinum. Í nýtt stjórnlagaþing þarf að velja fólk alls staðar af landinu og úr öllum þjóðfélagshópum. Valið á að vera í höndum hagstofunnar en ekki stjórnmálamanna. Sérstaklega ber að varast að velja menn í stjórnlagaþing með prófkjöri, þá mun ekkert breytast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég tel að hugmyndafræðin og framkvæmdin að baki þjóðfundinum í Laugardagshöll hafi sýnt að stjórnlagaþing gæti allt eins farið fram á áþekkan hátt. Almenningur verður að hafa meira að segja um framgang mála. Sá háttur sem er á framkvæmd lýðræðis hér á landi er kominn að endimörkum. "Black box voting" gengur ekki lengur. Vandi Íslendinga er hins vegar ekkert sér fyrirbæri. Hann er landlægur í hinum vestræna heimi.
Stjórnmálamenn hér á landi geta ekki í eina höndina sagt að almenningur sé nógu viti borinn til að kjósa þá en sé svo viti skorpinn að honum sé fyrirmunað að hafa skoðanir né vit á "flóknum málum".
Stjórnmálamenn geta heldur ekki sagt í aðra höndina að þjóðin sé svo menntuð og kraftmikil en hafi á engan hátt getu til að hafa skoðanir né vit á "flóknum málum".
Ég hvet fólk til að koma fram með róttækar hugmyndir um hvernig við getum endurbætt framkvæmd á lýðræði hér á landi. Ég hvet hins vegar þá sömu til að hugsa sömu hugmyndir í víðara samhengi því það eru fleiri lönd á hliðarlínunni sem þurfa áþekka "lækningu" og við á Íslandi.
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 11:52
Nú er ég ósammála þér, Andri. Ef 70% þjóðarinnar (samkvæmt skoðanakönnunum) er mótfallin breytingum á Icesave. Hvort er forsetinn sameiningartákn með því að verða við vilja þessara 70% eða með því að verða við vilja þeirra 20% (samkvæmt skoðanakönnunum) sem vilja samþykkja breytingarnar. Það er ekki til nein leið til að þóknast báðum, þannig að forsetinn verður að velja hvorn hópinn hann styður.
Það er hlutverk forsetans að vernda þjóðina fyrir órétti, ef hann metur stöðuna vera þannig.
Höfum í huga að Icesave lögin frá því í haust voru nógu óhagstæð okkur. Hvað var í þeim lögum sem sagði að Íslendingar ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar? Gerð var sú sjálfsagða krafa að lögsaga í málinu væri fyrir íslenskum dómstólum. Sett var þak á ábyrgð ríkisins, enda er ríkisábyrgð á tryggingasjóði innstæðueigenda ólöglegur samkvæmt tilskipunum ESB. Írsk stjórnvöld voru klöguð fyrir ESB eftir að þau lofuðu 100% tryggingu innistæðna, þar sem það var álitið ólögleg ríkisafskipti.
Ef þú ert með einhverjar upplýsingar, sem ekki hafa birst, um hvers vegna gangast við Icesave skuldbindingunni, þá bið ég þig um að koma þeim á framfæri. Þó þú hafir skrifað mikið um þetta mál, þá hefur ekkert komið fram hjá þér sem eru afdráttarlaus rök fyrir því að við eigum að gangast undir kröfur Breta og Hollendinga.
En aftur varðandi Ólaf Ragnar, þá lít ég þannig á, að hann hafi tækifæri núna til að verða sameiningartákn þjóðarinnar upp á nýtt með því að hafna Icesave lögunum.
Marinó G. Njálsson, 2.1.2010 kl. 12:39
Óháð öllu þá sýnir að 60% af þjóðinni er sé andvíg Icesave samkomulaginu.
Á aldursbilinu 18-55 ára má reikna með um 180.000 þúsund manns.
Væntur fjöldi andvígra á þessu bili er því um um og yfir 100.000 ef við gerum ráð fyrir jafnri dreifingu á skoðun gagnvart Icesave.
Það má örygglega gera ráð fyrir að einhver hluti skráninga á listanum sé “falsaður”.
Jákvætt að fólk er hins vegar farið að vakna aðeins til vitundar um breytingar er þörf á fulltrúalýðræðinu hér á landi.
Verðum samt að gæta okkar á að umræðan og ákvarðanir okkar endi í lýðskrumi.
Við gætum “óvart” verið þessa dagana að kjósa yfir okkur þær breytingar að forsetaembættið verði hápólitískt – værum að kjósa yfir okkur bandaríska módelið. Er það staðan sem við viljum ?
Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 14:52
Marinó,
Þegar við eru í þeirri stöðu að Forseti landsins, einn maður, eigi að bjarga landinu frá Alþingi, þá er spurning hvort ríki fulltrúaþingræði hér á landi? Hér er búið að gera Forsetann að pólitísku afli en á sama tíma getur hann ekki verið ópólitískt sameiningartákn þjóðarinnar líkt og t.d. Danadrottning. Þessi færsla snýst ekkert um innihald Icesave heldur hvernig búið er að breyta forsetaembættinu. Engum datt í hug að forsetinn skrifaði ekki undir þegar Ísland gekk í Nató á sínum tíma.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.1.2010 kl. 15:58
Án þess að maður leggi blessun sína yfir þá aðferð sem viðhöfð er við val á fulltrúum almennings á löggjafarþingið, þá vill maður halda því á lofti að hér er þingræði. Þau mál sem ná í gegn um afgreiðslu hjá (mis-vitrum) meirihluta á Alþingi, eiga að taka gildi.
Við kusum þessa samsetningu þingmanna til fjögurra ára vegna þess að við treystum þeim til að vinna vel að því að tryggja hagsmuni allra landsins barna. Við verðum að treysta því að samsteypustjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sé ekki viljandi að kalla yfir okkur óáran til þess eins að skora stig gegn "vondasta manni lýðveldissögunnar" og sporgöngumönnum hans.
Þeir sem vilja að forsetinn hafni lagasetningu Alþingis núna eru væntanlega einnig fylgjandi því að stjórnarskipti skuli fara fram hvert eitt sem sem nógu margir ólátabelgir eru móbíliseraðir til að kasta saur, þvagi og öðrum skotvopnum að Alþingishúsinu.
Flosi Kristjánsson, 2.1.2010 kl. 17:43
Ertu málpípa Egils Helgasonar, Andri Arinbjarnarson?
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.1.2010 kl. 17:46
Flosi,
Þetta er einmitt málið, okkar þingræði er byggt á skandínavískri fyrirmynd sem þarlendir hafa fengið frá konungsveldinu Bretlandi. Okkar stjórnarskrá gerir ekki ráð fyrir pólitískum völdum forsetans eins og í Frakklandi eða Bandaríkjunum. Í raun má segja að franska og bandaríska fyrirkomulagið henti lýðveldum betur eins og er að koma í ljós hér. En ef það er vilji þjóðarinnar að við tökum upp franskt/bandarískt stjórnskipulag þá verður að kjósa um það. Það er ótækt að fá þetta bakdyramegin vegna þess að kóngur á 19. öld sá ekki fyrir vandamál á 21. öld.
Andri Geir Arinbjarnarson, 2.1.2010 kl. 21:00
Það er mikilvægt að endurskoða stjórnskipulagið, einkum með það í huga að laga eftirlit og jafnvægi milli hinna þriggja þátta valdsins (checks and balances). Þá verður að hafa skýrar reglur um aðkomu þjóðarinnar að mikilvægri stefnumótun. Ég er sammála Andra Geir að það er ekki heppilegt að forseti lýðveldisins getið upp á sitt eindæmi breytt systeminu. Því verður þjóðin að fá að ráða með stjórnlagaþingi og atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 21:38
Ég er bæði sammála þér og ósammála. Stjórnskipun þróast. Bandaríska stjórnarskráin hefur t.d breyst mjög lítið á þeim tíma sem Bandaríkin hafa þróast frá landeigendaveldi og þrælasamfélagi til nútíma lýðræðisríkis. Bretland hefur alls enga stjórnarskrá heldur byggir þeirra stjórnskipan á blöndu af lögum, réttindagjöfum konunga (t.d Magna Carta) og hefð.
Fyrri forsetar hafa vissulega helst litið til konunga og drottninga í Skandinavíu sem fyrirmynda um sína embættisfærslu en það breytir því ekki að þjóðkjörin forseti hefur allt aðra möguleika á að móta sitt embætti en arfakóngur. Ólafur Ragnar hefur viljað stilla sér upp sem varðmanni þjóðarsamtöðu utan við flokkapólitík frekar en sameiningartákni eingöngu og honum er stætt á því bæði hvað varðar bókstaf stjórnarskrárinnar eða almenn lýðræðisleg gildi.
Hitt er svo annað mál hvort að þetta sé heppilegt fyrirkomulag. Sjálfur tel ég það nauðsynlegt að málskotsréttinum verði þannig fyrir komið að það velti ekki á neinum innan stjórnmálstéttarinnar hvort honum sé beitt. Eins vil ég annað hvort taka upp franskt forsetakerfi eða kjósa forsætisráðherra beint eins og tíðkast t.d í Ísrael en til þess þarf að breyta stjórnarskrártextanum (það væri raunar hægt að komast langleiðina að frönsku kerfi með því að breyta 13 gr. örlítið).
E.s Þú ert að eigna Bretum fullmikið með því að gera þá að höfundum þingræðisins þótt þeir hafi vissulega verið leiðandi í mótun þingræðishefða. Stjórnarformið byggir á V-Evrópskum hefðum sem teygja sig allt aftur til forn-Germana og tilbrigði við það þróuðust víða um Evrópu. Raunar má færa rök fyrir því að kerfið hafi orðið jafn útbreitt í Evrópu og raun ber vitni að hluta vegna þess að því máti koma á með endurmótun og endurvakningu gamalla hefða frekar en með því að kynna nýjungar til sögunnar.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 21:47
11. gr. stjórnarskrárinnar átti það að vera.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.