Töluverðar líkur á greiðsluþroti og stöðnun

Minnihlutaálitin sem fylgja Icesave frumvarpinu eru athyglisverð.

Lilja og Ögmundur benda á að erlend skuldastaða þjóðarbúsins muni nema 310% af landsframleiðslu 2009 sem er mun hærri tala en 240% sem AGS hefur sagt að sé óviðráðanlegur baggi.

Þór Saari bendir á að Seðlabankinn geri ráð fyrir 163 ma afgangi af viðskiptum við útlönd á ári, næstu 10 árin.  Fyrstu sex mánuði þessa árs var jöfnuður vöru og þjónustu við útlönd jákvæður um 38.5 ma eða 77 ma á ársgrundvelli.  Ennfremur bendir Þór á að Seðlabankinn geri ráð fyrir að viðskipti við útlönd verði 50% af landsframleiðslu næstu árin en hefur hingað til numið 1/3.

Páll Blöndal og fleiri benda á að vaxtakjör á Icesave séu okurvextir upp á 5.5% og þar með 170 punktum fyrir ofan fjármagnskostnaðar Breta og Hollendinga.

Hér er komið gott efni í einfaldan reikning.  Byrjum á greiðslugetunni.  Ef við trúum Seðlabankanum og gefum okkur að útflutningstekjur á næstu árum verði svipaðar og nú en að við drögum enn meir úr innflutningi á vörum og þjónustu sem nemur 16% eða um 86 ma, þá náum við jöfnuði upp á 163 ma.

Erlendar skuldir upp á 310% af landsframleiðslu nema 4,340 ma kr.  Gefum okkur að meðalvaxtakostnaður af þessum lánum sé 4.5% (100 punktum fyrir neðan Icesave).  Hreinn vaxtakostnaður er þá um 195 ma á ári.

Vaxtakostnaður er því um 32 ma hærri en viðskiptajöfnuður okkar við útlönd.  Til að þetta gangi upp á sléttu þurfa meðalvextir að vera 3.75%.  Það er kannski sú tala sem Seðlabankinn notar.  En miðað við vextina á Icesave og öll þau lán sem þarf að endurfjármagna á næstu árum er ansi mikil bjartsýni að nota svo lága tölu.

Það er alveg ljóst að allt veltur á vaxtakjörum sem við fáum í framtíðinni hvort hér verður greiðsluþrot eða ekki.  Eitt er víst, ekki má mikið út af bera til að illa fari.

 

PS.  

Forsendur Seðlabankans um útflutning sem hlutfall af landsframleiðslu eru athyglisverðar.  Ef þetta hlutfall verður um 50% næstu árin og 5 ára spá AGS um flata landsframleiðslu á mann í dollurum gengur eftir eru litla sem engar líkur á að krónan styrkist að neinu marki a.m.k. ekki næstu 5 árin.  Ef krónan styrkist þá má búast við að innflutningur aukist og þá riðlast þessi hlutföll og forsendur Seðlabankans hrynja eins og spilaborg.  Lágt og stöðugt gengi er því mikilvæg forsenda fyrir þessu plani.  Þar með er séð til þess að lífskjör Íslendinga er haldið niðri miðað við nágrannalöndin til að skapa afgang til að borga útlendingum vexti.  Eina ráðið til að komast út úr þessari úlfakreppu er að auka útflutningstekjur okkar. Aðeins þegar þær fara að aukast getur krónan rétt úr sér. En þá vaknar spurningin hvar á fjármagnið að koma til að byggja upp nýjan stofn útflutningstekna? 


mbl.is Ekki hætta á greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir góðan pistil!

Þarf ekki að taka tillit til þeirra peninga sem seðlabankinn notar til að jafna gengið?

Mér finnst sumir þínir pistlar styðja tillögur Gunnars Tómassonar um að við þurfum að fara Parísarleiðina.

HF (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 16:27

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

HF,

Þú er að tala um lánið frá AGS er það ekki?  Það á að vera inn í þessum 310%, annars er það að æra óstöðugan að halda utan um allar þessar skuldir.  Seðlabankinn á enga peninga þeir eru allir teknir að láni  Hann er búinn að nota um 14 ma til að "styrkja" krónuna á þessu ári!  Það er álíka og allur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu!

Hvaða Parísarleið ertu að tala um?  Ég tek undir margt með Gunnari Tómassyni.   

Andri Geir Arinbjarnarson, 17.11.2009 kl. 17:27

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það eru rúmir 4 mánuðir síðan að ég benti á þetta í færslu á blogginu mínu í júlí.  Hér eru þrjár:

Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið

31. mars voru heildarskuldir 4.483 milljarðar

Tölur Seðlabankans geta ekki staðist

Líkt og þú, Andri, þá fæ ég tölurnar ekki til að ganga upp.  Það getur vel verið, að einhverjar eignir séu í útlöndum, en þær nýtast ekki nema sami aðilinn eigi eignirnar og skuldirnar. 

Ég reiknaði í einni af þessum færslum að skuldir þjóðarbúsins, sem við ætlum að greiða, höfum í huga að þarna vantar skuldir gömlu bankanna, væru um 306% af VLF.  Það er ekki fjarri þeim 310% sem talað er um í dag. 

En þó svo að við ætlum ekki að greiða skuldir bankanna umfram eignir, þá hefur komið í ljós að nota á hluta af innlendum lánasöfnum bankanna til að greiða erlendum kröfuhöfum.  Það kostar líka gjaldeyri.

Það er sama hvernig litið er á þessar tölur, þær eru svartari en allt svart.  Ísland á ekki gjaldeyri til að borga þetta og er ekki með gjaldeyristekjur til að borga þetta.  Það er sama hvaða reiknikúnstir eru notaðar, niðurstaðan er einfaldlega sú, að á meðan við þurfum að eignast gjaldeyri (hvort heldur með lánum eða útflutningi) til að borga skuldir þjóðarinnar, þá er nokkurn veginn vonlaust að það takist.  Ef við værum aftur með gjaldmiðil, sem væri gjaldgengur alls staðar, þá ráðum við við þetta, þó það verði seint léttilega.

Marinó G. Njálsson, 17.11.2009 kl. 18:10

4 identicon

Andri Geir:

Takk fyrir svarið. Ég á við að ef SÍ ætlar að nota 10-20 milljarða á ári til að styrkja krónuna þá þarf það að koma inn í myndina.

Gunnar Tómasson hefur sent alþingismönnum bréf þar sem hann bendir á að mikil hætta sé að þjóðarbúið komist í greiðsluþrot. Það myndi þýða að landið þyrfti að fara til Parísarklúbbsins og fá þar gjaldþrotameðferð.

HF (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 19:04

5 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Þess vegna er eina praktíska leiðin að ganga inn i EB og láta Seðlabanka Evrópu tryggja krónuna gagnvart evru inna ákveðinna marka. Þar með fáum við að borga hluta af okkar lánum í krónum.  Annars gengur þetta ekki upp.    

Andri Geir Arinbjarnarson, 17.11.2009 kl. 19:05

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Gagnlegar umræður. En erum við að átta okkur á þessum ógnarupphæðum eða er ég kannski bara svo mikill sveitamaður?

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 17.11.2009 kl. 21:22

7 identicon

Ein örstutt spurning. Þegar þú segir 'skuldir þjóðarbúsins', áttu þá við ALLAR skuldir Íslendinga (skuldir heimilanna, skuldir fyrirtækja, skuldir gömlu bankanna o.s.frv.) eða áttu við skuldir ríkissjóðs?

Samanber http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/973776/?t=1257113491

Pétur (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 23:08

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Pétur,

Allar erlendar skuldir Íslendinga eins og kemur fram í áliktun þingmanna.

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.11.2009 kl. 09:23

9 identicon

Takk fyrir athugasemdina.

Mig langar þá að benda á að skuldir Exista, Actavis, Flugleiða og allra hinna einkafyrirtækjanna falla ekki á ríkið og er eitthvað sem ríkið þarf ekki að standa undir.

Sjá http://www.amx.is/vidskipti/10973/ (Actavis)

Sjá http://www.m5.is/?gluggi=frett&id=68295 (Exista)

Samkvæmt athugasemdum á blogginu sem ég 'linkaði' hér að ofan kemur fram eftirfarandi:

"SÍ [Seðlabanki Íslands] brást vel við beiðni minni um sundurliðun á heildarskuldum þjóðarbúsins (310%) þar sem fram kæmi brúttó og nettó skuldastaða opinberra aðila annars vegar og einkageirans hins vegar." Þetta ritar Tómas Gunnarsson (sem google segir vera hagfræðing).

Það er afar hættulegt að setja fram þá fullyrðingu að þjóðabúið skuldi 310% af landsframleiðslu án þess að gera grein fyrir því að hugtakið 'þjóðarbúið' merkir brúttó skuldir allra kennitalna á Íslandi.

Sem dæmi má nefna að skuldir Actavis, sem eru 70% af landsframleiðslu þjóðarbúsins falla EKKI á ríkið. Hinu er ekki að neita að staðan er erfið.

Pétur (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 09:45

10 identicon

Mér varð á, tilvitnun er eftir Gunnar Tómassson, ekki Tómas Gunnarsson. Afsakið það.

Pétur (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 09:46

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Pétur,

Það er alveg rétt en þessar skuldir eru allar í erlendri mynt svo þurfa að greiðast af gjaldeyrisöflun okkar þar sem við getum ekki lengur borgað vexti með nýjum lánum eins og við höfum gert.  Það er ekki góð leið að leysa skort á gjaldeyri með því að setja fyrirtæki og einstaklinga á hausinn.  Það hefur keðjuverkandi áhrif og ríkið getur ekki einangrað sig frá fyrirtækjum og einstaklingum landsins sem eru jú skattstofn þjóðarinnar. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.11.2009 kl. 09:58

12 identicon

Pétur (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 09:45

Það er rétt að skuldir einkafyrirtækja falla ekki á ríkið svo fremi sem ekki sé ríkisábyrð á skuldunum. Þetta segir hins vegar aðeins hálfan sannleikann. Blogg Vilhjálms er þannig rétt upp að vissu marki en takmarkað að því leiti að það tekur ekki til þess greiðsluflæðis sem þarf að vera til staðar af erlendum gjaldeyri til að standa straum af afborgun lána.

Tekjuöflun Íslands í erlendum gjaldeyri dugir ekki til að standa straum af afborunum af erlendum skuldbindinum ríkis og einkafyrirtækja ásamt þeim innflutningi sem er okkur nauðsynlegur. Þetta er kjarni málsins.

Til að meta fjárþörf Íslands í erlendum gjaldeyri verður auðvita að skoða hver er heildarskuldin til að meta greiðsluflæðið. Það hefur hins vegar ekkert með hvar skuldin lendir heldur er slíkt nauðsynlegt til að sjá heildarfjárþörf landsins í erlendri mynt.

Rök Andra (sem ég er sammála) eru þau að miðað við núverandi peningastjórnun þá getur þjóðarbúið ekki staðið undir þeirri afborgunarþörf í erlendri mynt sem fyrir liggur. Ef hins vegar væri tekin upp erlendur gjaldmiðill, EUR eða önnur mynt sem hefði góða fylgni við EUR (t.d. SKR eða DKR), þá væri staða okkur önnur og betri.

Við höfum því ekki náð að laga gjaldeyriskreppu okkar, við erum í þvingaðri stöðu.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 10:03

13 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Björn,

Þakka fyrir athugasemdina.  Eins og alltaf þegar kemur að fjármálastjórnun hvort sem er hjá einstaklingum, fyrirtæjum eða hinu opinbera er það sjóðsflæðið sem skiptir mestu máli.  Maður kaupir ekki í matinn með "excel spreadsheet"

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.11.2009 kl. 11:27

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Úpps, ég lagði óvart inn athugasemd loggaður inn á annan bloggvef en minn. Vinsamlega bið þig að taka hana út, um leið og ég legg hana hér inn aftur og þá án tveggja ásláttarvillna:

Hvernig dettur þér í hug, Andri Geir, að leggja til innlimun okkar í Evrópubandalagið til þess eins að "láta Seðlabanka Evrópu tryggja krónuna gagnvart evru inna ákveðinna marka"? Var þetta kannski fléttan og agniðð sem Össuri og Þórunni Sveinbjarnardóttur var lofað í Brussel? Hvernig færðu þig – án athugasemdar um þessa pólitísku innlimun – til að gera fullveldi okkar og eigin yfirráð yfir auðlindum okkar að skiptimynt og gjaldi fyrir eina og aðeins eina umhugsun: um ríkisfjárhaginn?

Af hverju dettur þér ekki frekar í hug, hafandi þessar hrikalegu þjóðhagsstærðir allar fyrir augunum, að hvetja eindregið til þess, að sjálfur Icesave-svikasamningurinn, sem yrði okkur þungbærari en Þjóðverjum Versalasamningurinn, verði felldur?

ÁFRAM ÍSLAND! – EKKERT ICESAVE! – EKKERT ESB!

Jón Valur Jensson, 18.11.2009 kl. 14:21

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón Valur,

Þetta er bara ein af mörgum leiðum sem við verðum að skoða.

Það sem er í vali er:

1. Auka útflutning

2. Minnka innflutning

3. Bæta vaxtakjörin

Það er auðveldast og fljótlegast að minnka innflutning en þá dregst auðvita einkaneyslan saman og það er hætta á stöðnun í mörgum atvinnugreinum.

Best er ef við aukum útflutning en það tekur tíma og fjármagn.  Við höfum hvorugt. Auðveldast er að auka ferðamennsku alla vega tímabundið.  Við kaupum ekki aðföng, vélar og tól með krónum.  Önnur leið er að fá erlent fjármagn hingað til lands til atvinnuuppbyggingar en erlendir fjárfestar bíða margir eftir að við förum inn í EB.  Þeir treysta EB en ekki íslenskum stjórnvöldum.

Þriðja leiðin er að bæta okkar lánstraust en það verður ekki gert nema með aðstoð Evrópska Seðlabankans  samfylgjandi EB inngöngu.

Að fella Icesave er engin lausn það bara lengir vandann.  Þá verðum við alla vega um tíma að taka upp haftabúskap eins og um 1960.  Tölurnar tala sínu máli.  Þetta er auðvita valkostur en hættan er að við missum stóran hluta af næstu kynslóð úr landi og inn í EB.  

EB innganga er engin töfralausn en opnar meiri möguleika fyrir okkur.   

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.11.2009 kl. 16:19

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér svarið, Andri Geir, og ómakið umbeðna fyrir mig.

1) "... en erlendir fjárfestar bíða margir eftir að við förum inn í EB. Þeir treysta EB en ekki íslenskum stjórnvöldum," segir hér í svari þínu.

Hvaða erlendu fjárfestar eru það? Ég hef ekki heyrt um neina. Áttu kannski við einhverja í sjávarútvegi?!

2) "Þriðja leiðin er að bæta okkar lánstraust en það verður ekki gert nema með aðstoð Evrópska Seðlabankans samfylgjandi EB-inngöngu." – En ábyrgjast þeir hag Letta, Ungverja og Íra? Hefur evrubindingin farið vel með fjárhag Lettanna? Kemur Seðlabanki EB þeim til bjargar í hugsanlegu greiðsluþroti, ætla EB-menn um leið að afsanna það, að æ sjái gjöf til gjalda?

3) "Að fella Icesave er engin lausn það bara lengir vandann. Þá verðum við alla vega um tíma að taka upp haftabúskap eins og um 1960. ... EB innganga er engin töfralausn en opnar meiri möguleika fyrir okkur." En hvaða sönnun hefur þú fyrir þessum staðhæfingum? – vinsamlegast!

Jón Valur Jensson, 18.11.2009 kl. 17:05

17 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Erlendir fjárfestar hata óvissu, þeir vilja vita að hverju þeir ganga.  Það þarf ekki annað en að líta til landa í suður og austur Evrópu til að sjá hversu erlend fjárfesting jókst um leið og EB umsókn var samþykkt.  Ég hef heyrt að erlendir fjárfestar hafa áhuga á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum en ekki fyrr en við göngum inn í EB.

EB hefur vissulega stutt við Ungverjaland og Lettland.  Það væri óhugsandi að Lettar gætu viðhaldið sínu fasta gengi nema með hjálp ECB.  Það er síðan fyrir Letta að ákveða hvort þeir vilji fella gengið eða ekki.  

EB aðild og samningur við ECB myndi opna möguleika fyrir erlenda fjármögnun bæði fyrir nýjar fjárfestingar og endurfjármögnun.  Endurfjármögnunin er jarðsprengja framtíðarinnar.  Ef okkur tekst ekki að bæta okkar lánstraust verður endurfjármögnun svo dýr að það setur okkur í greiðsluþrot.

Það er nokkuð ljóst að ef við ætlum að komast úr þessari kreppu án erlendra hjálpar verður að taka upp hér haftabúskap.  Takmarka innflutning og gjaldeyri, alveg eins og um 1960.  Þá mun blómstra alls konar gjaldeyrissparandi iðnaður en þau störf verða láglaunuð.   Landflótti háskólamenntaðs fólk verður líklega mikill.

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.11.2009 kl. 20:35

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Ég hef heyrt að erlendir fjárfestar hafa áhuga á að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum en ekki fyrr en við göngum inn í EB," segir þú, Andri Geir. HVAÐA fjárfestar eða HVERS LENZKIR? Fjárfestar frá EB hafa getað nýtt sér frelsi hér lengi til fjárfestinga, en ekki gert það. Hins vegar komu hingað fjárfestar frá Sviss (Swill Aluminium), Noregi (Elkem Spiegelverket), Bandaríkjunum og Kanada – sem sé víða að, en ekki frá þessu EB með uppdráttarsýkina. (Bara í dag var að fréttast um eitt danskt, gott fyrirtæki, sem var bara tekið niður sisona og flutt til Kína – í miklu betra umhverfi þar fyrir eigendurna.

Þessu með Lettana á ég bágt með að trúa – brilljeraðu nú, Gunnar minn Rögnvaldsson, ef þú ert einhvers staðar á varðbergi!

Ísland er ekki ennþá sambærilegt við Austur-Evrópu, Andri Geir, en verður það kannski, ef Ísklafa-settið fær að ríkja nógu lengi.

Mér finnst ég ekki hafa fengið næg svör og nógu skýr. Vantar t.d. sönnun fyrir fullyrðingum þínum um orsakasamhengi hlutanna varðandi Icesave, sjá 3. lið innleggs míns hér á undan!

Jón Valur Jensson, 19.11.2009 kl. 02:55

19 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Betra að fara á hausinn í evrum? 

Andri Geir heldur kannski að það sé betra að verða gjaldþrota í evrum.

"Landflótti háskólamenntaðs fólk verður líklega mikill."

Takið eftir orðinu "líklega". Það væri sennilega í lagi eins og er því það er allt of mikið af því á Íslandi núna. Menntun er ekki lengur ávísun á gott starf. Hún aðeins aðgöngumiði að vinnumarkaðinum. Án hennar eru þér allir vegir bannaðir í .t.d. ESB því þar þarf menntun til að stýra kústskafti. Þetta er sama sagan hér í Evrópu. Of mikið af háskólamenntuðu atvinnulausu fólki. En það mest menntaða (PHD) fer mikið til Bandaríkjanna, því þar er það metið að verðleikum og miklar rannsóknir eru stundaðar þar í sjálfum fyrirtækjunum.  

Það endaði þó ekki sérstaklega vel síðasta verk hámenntaðra manna á Íslandi: fjármálin! Er það? En auðvitað er alls ekki gott að missa fólk. Það er mjög slæmt. En núna getur fólk ekki flúið neitt. Ástandið erlendis er það slæmt og fer versnandi með hverri vikunni og mun halda áfram að versna næstu mörg árin. 

Það sem Andri veit ekki að hann veit ekki 

En ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil þá er ég 100% viss um að Ísland myndi mjög hratt verðleggja sig út úr myntbandalaginu og reyndar heiminum öllum - og hætta að geta selt svo mikið sem einn sporð af fisk til útlanda sökum innri verðbólgu sem ekki væri lengur hægt að lagfæra í gegnum gengið. Þetta hefur verðið reynslan á:

  • Írlandi
  • Spáni
  • Grikklandi
  • Ítalíu
  • Lettlandi
  • Eistlandi
  • Litháen  

Myntbandalagið kom og bjó til "boom-bust-dead" ástand í mörgum ríkjum þess ásamt brenndum holum í botni ríkissjóða margra landa. Nú er flest frosið fast í þessum löndum og lánafyrirgreiðsla virkar ekki. Fjármagnsleg fjara þurrkvíar ríkir eftir allt innflóðið. Já, þetta gerist þrátt fyrir að löndin séu í myntbandalagi Evrópusambandsins. 

Að búa við ranga og oft neikvæða raunstýrivaxtastefnu seðlabanka Evrópusambandsins hefur skapað þetta boom-bust-dead ástand á Spáni og Írlandi. Þessi lönd eru history núna. sjá: Hugleiðing um raun-stýrivexti

Það er mikið í húfi fyrir Ísland 

Hér er ekki um að ræða 77 sardínur í $28 dós á mann eða 2000 tonn á ári. Hér er um að ræða 1,3 milljón tonn af afla á hverju ári. Þetta eru þeir fjármunir sem notaðir eru til að byggja restina af íslenska hagkerfinu með. Þetta er grunnur efnahagslegrar tilveru Íslendinga.

Eina leiðin til að nýta landhelgi og auðæfi sjávar Íslands væri þá að láta útlendinga um að veiða fiskinn okkar. Þeir einir gætu keppt á mörkuðunum með því að borga lág laun, lítinn kostnað, miklu lægri skatta og með því að sigla um í ryðhrúgudöllum. Öðru nafni: þrælakistum.

Þetta yrði ekki skínandi falleg útgerð, heldur þrælakista. Þá myndu Íslendingar þurfa að flytja inn fisk sér til matar. Einungis vegna ógæfulegrar útópíu vissra kjána stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka sem myndi banna Íslendingum að fella gengið, því þá væri ekki lengur til neitt gengi sem hægt væri að fella. Það væri nefnilega horfið. Horfið um alla eilífð til Þýskalands og kæmi aldrei þaðan aftur.

Það er því virkilega mikið í húfi hér fyrir okkar góða land og okkur þjóðina. Mjög mikið í húfi. Sjálf tilvera þjóðarinnar er hér í húfi.

Var það þetta sem árið 1944 snérist um? Snérist það um afsal á framtíð fyrir Ísland? Afsal á nýfengnu fullveldi Íslands? Það er ekki svo langt síðan 1944 var dagurinn í dag. Margir muna þann dag mjög vel ennþá.  

Vextir og lán 

Núna eru t.d. raunvextir á húsnæðislánum í mörgum evrulöndum miklu hærri en á Íslandi. Í júní í sumar (samkvæmt könnun ECB) voru lægstu fljótandi húsnæðislánavextir (spot price) í Slóvakíu á 5,48% vöxtum og verðbólgan þar var núll. Á sama tíma voru samskonar vextir á Írlandi 2,46% og verðbólgan mínus 5% => 7,5% raunvextir. Ef þú festir húsnæðislánavextina til 10 ára á Írlandi núna þá eru raunvextir á þeim lánum 11,2%. Lán með veði til 5 ára (22.000 evrur)  bera núna 16% raunvexti á Írlandi.   

Það er meira en 300% mismunur á vöxtum húsnæðislána innan evrusvæðis núna. Lánafyrirtæki munu alltaf horfa til verðbólgusögu landa og jafnvel héraða innan landa og stilla áhættuþóknun sína samkvæmt því (risk peremium) 

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 19.11.2009 kl. 05:03

20 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hver er bestur pappír? Hver er með bestu greiðslugetuna? 

Svo er hægt að bæta því við hér að skuldatryggingaálag og vaxtakrafa á ríkisskuldabréf landa sem hafa ekkert gengi mun hækka og er að hækka því markaðurinn veit að svoleiðis lönd eru verri skuldarar en þau lönd sem geta stillt af gengið hjá sér sjálf. Markaðurinn er ekki heimskur. 

Þetta er svona því líkurnar á að greiðslugeta (skattatekjur) landa sem hafa ekkert gengi til að fella (þegar þess þarf) muni þorna upp sökum massífs atvinnuleysis þegnana vegna ömurlegrar samkeppnishæfni, eru miklu stærri innan myntbandalagsins en utan þess.

Afkoma fyrirtækja er líka mörgum sinnum verri innan myntbandalagsins en utan þess. Þetta, ásamt skattatekjum frá launþegum, eru þeir peningar sem mynda greiðslugetu ríkissjóða, plús náttúruauðæfin. Þess vegna hefur Svíþjóð noti betri vaxtakjara en öll löndin innan myntbandalagsins og sjálft Þýskaland hefur gert í kreppunni, því markaðurinn er ekki heimskur.

Markaðurinn veit að Svíþjóð er miklu betri pappír því það getur stundað vika peningastefnu og lagfært gengið þegar á þarf að halda: ergo: greiðslugeta Svíþjóðar er betri => lægri vextir og betri vaxtakjör en hjá öllum löndum myntbandalagsins. 

Markaðurinn er ekki heimskur

Það minnist enginn á að samdráttur í Finnlandi er núna mun meiri og verri en þegar Sovétríkin hrundi ofan á Finnland. Nú er það myntin evra sem er hrunin ofan á Finnland.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 19.11.2009 kl. 05:23

21 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Svo er það demógrafían.

Vinnuafl Þýskalands mun sennilega minnka frá 50 milljón manns árið 2005 niður í 35 milljón manns árið 2050. Hagvöxtur mun ekki sjást þar næstu margar kynslóðir. Neytendurnir urðu útdauðir og gamalmenni finna mun síður upp mikilvægar nýjungar sem eru svo lífsnauðsynlegar í samkeppninni við öll önnur lönd heimsins. Frá árinu 2004 til og með ársins 2007 fækkaði Þjóðverjum um tæplega 350.000 manns. Það er bara byrjunin á hnignun Þýskalands 

Er svona land góður pappír? 

Hvað haldið þið að gerist með mynt og vexti myntar og skulda svona lands? Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að hinir vísu menn í "de Ølonomiske Råd" í Danmörku geta ekki mælt með evru. Þeir eru hræddir við skuldastöðu svona landa innan myntbandalagsins. Þýskaland er svona. Líka Ítalía, Spánn, Grikkland, Portúgal, öll Austur Evrópa og allt fyrir botni Eystrasalts. Framtíðarhorfur myntbandalagsins eru mjög slæmar.

Ágætis tilraun 

Þess vegna var seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, svona vingjarnlega "hógvær" þegar hann sagði að myntbandalagið og evran væri a “great experiment”.

Vilt þú verða tilraunadýr?  

Gunnar Rögnvaldsson, 19.11.2009 kl. 05:45

22 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það má öllum vera ljóst, að þegar Icesave-stjórnin talar ítrekað um væntanlega styrkingu Krónunnar er um blekkingar að ræða. Styrking Krónunnar vegna ESB-umsóknarinnar var blekking. Styrking Krónunnar vegna samþykktar Icesave-klafans var blekking. Styrking Krónunnar vegna efnahagsmats Alþjóða gjaldeyrissjóðsins var blekking.

 

Eins og Gunnar Rögnvaldsson orðar málið: “markaðurinn er ekki heimskur”. Þeir sem starfa á peningamarkaði eru ekki auðblekktir og láta ekki fólk eins og Svika-Móra og Jóhönnu villa um fyrir sér. Þetta fólk getur samt gert mistök og gerir það þráfaldlega, en ástæðan er óvæntir atburðir.

  Styrking Krónunnar er því útilokuð ef Icesave-klafinn er lagður á þjóðina. Styrking Krónunnar er líklega einnig útilokuð þótt Icesave-klafinn komi ekki til sögunnar. Ástæðan er nauðsyn á gjaldeyri, til að greiða alla þá vexti sem falla á erlendar skuldir landsins. Það eru ekki bara skuldir ríkisins, heldur allar erlendar skuldir sem greiða þarf vexti af í erlendum myntum. Hér liggur einmitt ein af ástæðum þess, að við verðum að taka upp nýjan gjaldmiðil til hliðar við Krónuna. Við ráðum ekki við skuldasúpuna, en við verðum að koma efnahag landsins á þurrt land. Með “fastgengi undir stjórn Myntráðs” getum við aðskilið heilbrigða hluta efnahagskerfisins, það er að segja þann sem er sjálfbær, og hinn hlutann sem við ráðum ekki við. Þennan aðskilnað verðum við að framkvæma strax, á meðan við höfum til þess svigrúm.  Evran er sannkallað glópagull í þessu sambandi. Bæði tekur fjölmörg ár að taka upp Evruna og Evran er líka bara samskonar sýndarpeningur (fiat money) og Krónan. Að auki er framtíð Evrunnar mjög óviss, eða eins og Gunnar orðar þetta: “Framtíðarhorfur myntbandalagsins eru mjög slæmar”.  

Ég verð að vara alvarlega við þeirri hugsun, að Krónan sé af hinu góða og hjálpi efnahagnum. Þessi hugmynd hefur verið fordæmd af bókstaflega öllum sem hugsað hafa um málið af alvöru og skilningi. Hægt er að líkja “góðum” áhrifum Krónunnar við, að maður sé sleginn með hnefa í andlitið til blóðs og síðan er sama “líknandi” hönd boðin til að þurrka blóðið.

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 19.11.2009 kl. 13:33

23 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Já það er munur að búa á Íslandi þar sem krónan reddar öllu.  Ekkert "boom eða bust"  þar sem gengisfellingar sjá um að halda "lífskjörum mældum í krónum" þeim bestu sem um getur í heimi.  Merkilegt að lönd skuli ekki flykkjast til Íslands til að fá að taka upp þennan undragjaldmiðil sem er betri en evra, dollar, jen og svissneskur franki.

Það er munur að hafa gjaldeyrishöft og geta ekki fjárfest sinn sparnað nema í því sem íslenska ríkið segir manni að gera. 

En eitt er ég sammála Gunnari, Ísland er ekki land fyrir háskólamenntað fólk, það er betra fyrir það að leita sér vinnu erlendis og best er að fara strax að námi loknu.  Starfsferill á Íslandi er lítils metinn erlendis.  Á Íslandi er aðeins ein atvinnustétt sem blífur og það eru sjómenn.  Alltaf verið svo og mun verða.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 25.11.2009 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband