16.11.2009 | 11:18
Skattar og lág laun eru framtíðin á Íslandi
Miklar breytingar á skattakerfi breyta hegðunarmynstri fólks. Skattabreytingar geta breytt öllum rekstraráformum fyrirtækja og skapað óvissu um framtíðina, en óvissa er einmitt eitur í beinum fjárfesta. Hvernig þessar skattabreytingar eiga að hjálpa okkur til að laða að erlent fjármagn til atvinnuuppbyggingar er erfitt að svara. Líklega endum við upp með tvöfalt kerfi þar sem erlendri fjárfestar fá skattaafslátt eins og sjómenn en venjulegir Íslendingar borga brúsann.
Eitt er víst að framtíðin á Ísland eru skattar og lág laun. Þessir nýju skattar sem nú er verið að keyra í gegn á elleftu stundu, 6 vikum fyrir áramót eru aðeins byrjunin. Það þarf að hækka skatta í fjárlögum 2010, 2011 og líklega enn eina ferðina 2012.
Við höfum ákveðið að halda uppi norrænu velferðarkerfi en það er dýrt í rekstri og aðeins á færi ríkustu þjóða heims enda vorum við lengst af í þeim hópi og höfðum næsthæstar þjóðartekjur á mann af Norðurlöndunum á eftir Norðmönnum. En nú verður breyting á.
Samkvæmt spá AGS fyrir árið 2014 munu þjóðartekjur á mann* á Íslandi verða 55% af þjóðartekjum á mann í Danmörku en þetta hlutfall var 85% árið 2008 og 115% árið 2007 þegar Danir voru bara öfundsjúkir út í "velgengni" Íslendinga! Þessar tölur segja sitt.
Það er alveg ljóst að það verður erfitt að halda upp norrænu velferðarkerfi með þjóðartekjum á mann sem eru nær löndum eins og Grikklandi og Ítalíu en Danmörku og Svíþjóð. Til að svo megi verða, verða skattar að hækka hér langt yfir það sem þeir eru á hinum Norðurlöndunum, en það mun ekki duga til.
Vaxtabyrgði ríkissjóðs verður svo gríðarlega að afgangsskatttekjur munu vart duga til að halda uppi lágmarksþjónustu til borgaranna. Við erum því í hættu að enda upp í vítahringa hækkandi skatta, stöðnunar og síversnandi velferðarþjónustu.
Það er einfaldlega ekki hægt að sjá hvernig þetta dæmi gengur upp. Og þar liggur hinn óleysti vandi.
Metnaðarfull athafnafólk af ungu kynslóðinni mun sjá að það er ekkert vit í að búa á Íslandi og bjóða sínum börnum upp á svona kjör þegar ríkasta land heims, Noregur, er næsti nágranni. En 2014 er búist við að þjóðartekjur á mann á Íslandi verði 40% af norskum tekjum.
Já, spá AGS er svört, og mun verri en margir gera sér grein fyrir.
* e: GDP per capita, nominal
Nýir skattar inni í myndinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég held að þetta sé rétt mat hjá þér útlitið er ótrúlega svart og þarf að ganga harðar fram í niðurskurði. En það má setja inn að kostnaður vegna velferðakerfissins yrði mun ódýrari heima á Íslandi vegna veikrar krónu en á hinum norðurlöndunum. En hvað skattahækkanir varða þá ná Íslendingar ekki tánum þar sem Danir hafa hælana, en ég borga tæp 50% í tekjuskatt. Ef vel árar og árstekjurnar fara yfir 420000dkr þá borga ég 60% tekjuskatt af því.
Andrés Kristjánsson, 16.11.2009 kl. 12:10
Andrés,
2012 verður hæsta skattþrep á Íslandi um eða yfir 60% . Jú launakostnaður verður lægri en lyfi og tæki verða dýr. En það er einmitt málið, það verður ekki hægt að reka neitt velferðarkerfi nema með lágum launum. Ísland verður láglaunalandið í norður Evrópu.
Andri Geir Arinbjarnarson, 16.11.2009 kl. 12:29
Hvenær förum við að hagnast á öllum þessum "mannauði" sem þýtur út úr háskólum þessa lands ár hvert með halann sperrtan eins og kýr á vordegi? Ekki man ég til að ármenn þessarar þjóðar hafi á hátíðarstundum rætt um annað meira en allan þann mannauð sem búi í æsku þessa lands. Skilar allur þessi mannauður engum vöxtum eftir oll árin?
Árni Gunnarsson, 16.11.2009 kl. 13:17
Noregur hefur olíu. Svíþjóð, vopnaútflytjandinn, for næstum á hausinn út af eigin kerfi. Við missum besta fólkið jafn óðum eitthvert annað.
Það er ekki eins og það sé ekki hægt að redda pening án þess að skattleggja okkur á eitthvert afríkulevel. Það bara er ekki vilji til þess.
Ásgrímur Hartmannsson, 16.11.2009 kl. 13:47
Fólk er til í að taka á sig talsverðar byrgðar ef það trúir á prójektið og að harðindin séu því tímabundin, á sama hátt og fólk þolir lágan lifistandard á háskólaárum sínum vegna vonar um betri tíma. Þess vegna er svo afgerandi að búa til trúverðuga áætlun út úr núverandi stöðu.
Héðinn Björnsson, 16.11.2009 kl. 14:07
Héðinn,
Góður punktur en lítum á vinnubrögðin. Fjárlagahalli upp á 180 ma hefur blasað við nú í rúmt ár, sex vikum fyrir árslok eru skattatillögur ríkisstjórnarinnar ekki enn fastmótaðar. Hvað segir það okkur um hæfileika og getu til að gera trúverðuga áætlum til næstu 5 ára.?
Árni,
Já, þessi blessaður mannauður. Ekki gleyma að það var mannauður okkar sem kom okkur í þessa stöðu! Eins og staðan er í dag er afrakstur af okkar "mannauði" síðustu 20 árin líklega negatífur. Margt af okkar hæfasta fólki fer erlendis á topp háskóla en kemur aldrei til baka. Þeirra skatttekjur renna til erlendra ríkja. Það þýðir lítið að mennta fólk ef tækifærin eru öll veitt á pólitískum grundvelli en ekki eftir hæfileikum. Nú súpum við seyðið af þessari vitleysu og höldum henni áfram.
Andri Geir Arinbjarnarson, 16.11.2009 kl. 14:44
Nú ætla ég að brjóta bannhelgi. Ég ber fram þá tillögu að stórlega verði dregið úr framlögum til háskólastarfsemi á meðan við erum að takast á við brýnustu verkefnin sem glæpamenn í hvítum skyrtum hafa skilið eftir sig í formi ríkisábyrgðar. Við eigum nægar "birgðir" af stærðfræðingum, viðskiptafræðingum, hagfræðingum, stjórnmálafræðingum og guðfræðingum að fjölmörgum slíkum ónefndum, til margra ára, ef ekki áratuga. Ég hef ekki komið auga á þau ómissandi verðmæti sem þessir fræðimenn skapa þjóðinni.
Árni Gunnarsson, 16.11.2009 kl. 15:50
Marel, Össur, CCP,...
Magnús Stefánsson (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 15:54
Magnús,
En ef þú værir ungur athafnamaður í dag (sem þú kannski ert?) og værir að fara í að stofna fyrirtæki eins og Marel, Össur eða CCP myndir þú gera það á Ísland? Færðu aðgang af ódýru fjármagni til að koma fyrirtækinu á legg?
Andri Geir Arinbjarnarson, 16.11.2009 kl. 16:28
Kannski, kannski ekki. Það að það sé ekki hægt að fá fjármögnun (e. venture capital) á Íslandi er gamalt vandamál. En á móti kemur að það er mikið að mjög hæfu fólki á lausu núna.
Magnús Stefánsson (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 17:43
Eru þessar akademisku námsgreinar sem ég nefndi Magnús ómissandi í þeim fyrirtækjum sem ég tók dæmi af? Ég vil bæta því við að ég tel alla tæknimenntun sem og margar ótaldar raungreinar vera þjóðhagsleg verðmæti. Hitt eru einfaldlega gæluverkefni sem mér finnst vel koma til greina að nemendur greiði sjálfir fyrir að einhverju leyti í það minnsta. Við eigum að hætta að verðlauna mannleysur sem kunna fátt og geta fátt annað en að setja fram kröfur. Þarna er ég auðvitað ekki að alhæfa um viðkomandi nemendur.
Árni Gunnarsson, 16.11.2009 kl. 18:29
.... sem þú tókst dæmi af vildi ég sagt hafa.
Árni Gunnarsson, 16.11.2009 kl. 18:30
"Metnaðarfull athafnafólk af ungu kynslóðinni mun sjá að það er ekkert vit í að búa á Íslandi og bjóða sínum börnum upp á svona kjör þegar ríkasta land heims, Noregur, er næsti nágranni. En 2014 er búist við að þjóðartekjur á mann á Íslandi verði 40% af norskum tekjum."
Vinstri gramir skilja ekki að ef að þeir drepa allt með sköttum verður ekkert, og enginn eftir til að halda uppi velferðarkerfinu fyrir þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki flutt til útlanda.
Hörður Þórðarson, 16.11.2009 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.