4.9.2009 | 07:07
Íslensk menntamál í sjálfheldu
Tillögur OECD í menntamálum eru löngu tímabærar og snúast um ekki um pólitík heldur almenna skynsemi. Nágrannalöndin hafa 3ja ára menntaskóla og útskrifa stúdenta 18 ára sem geta farið út á vinnumarkaðinn 21 árs með BA eða BS gráðu. Á Íslandi tekur þetta 2-3 árum lengur að minnsta kosti.
Hvers vegna? Erum við tregari en útlendingar?
25 ára háskólamenntaður Íslendingur er ekki í góðir samkeppnisstöðu á alþjóðlegum vinnumarkaði. Hann eða hún er með BA eða BS gráðu og 1. árs starfsreynslu á meðan hinn erlendi umsækjandi er með sömu menntun og 3. ára starfsreynslu.
Svo megum við ekki gleyma að flestir af okkar útrásarvíkingum hlutu menntu á Íslandi. Varla er það mikill gæðastimpill fyrir íslenskar menntastofnanir og þeirra gildi, sérstaklega viðskiptafræðideildir háskólanna. Ætli margir erlendir stúdentar sækist eftir MBA námi á Íslandi í framtíðinni?
Doktorsnám á Íslandi er rugl nema í íslensku og jarðfræði, masternám á að takmarka eins og hægt er og leggja alla áherslu að bæta BA og BS námið. Sameina á alla "háskóla" hér á landi í tvær stofnanir sem eiga að hafa útibú út á landi.
Gífurlegir möguleikar eru til hér á landi að hagræða og bæta íslenskt menntakerfi ef viljinn er fyrir hendi.
Það sem mun standa umbótum fyrir dyrum í okkar menntakerfi og heilbrigðiskerfi er pólitísk hugmyndafræði VG sem byggir á gildum sem við höfum ekki efni á lengur.
Ábendingar snúast um pólitík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það má áreiðanlega stytta nám til stúdentsprófs og leggja niður einhverjar viðskiptafræðideildir því annaðhvort eru þær ákaflega illa í stakk búnar eða það nám liggur ekki fyrir okkur. En það er þetta með gildin og VG ? Eigum við þá að halda fast í gildin sem komu okkur á hausinn?
María Kristjánsdóttir, 4.9.2009 kl. 07:49
María,
Við verðum að fara að brjótast út úr þessu hugmyndafangelsi sem margir búa í á Íslandi. Heimurinn er ekki svart hvítur, annað hvort óbeisluð frjálshyggja eða óbeisluð ríkisumsjá. Svona er þetta ekki á hinum Norðurlöndunum, af hverju megum við ekki læra af þeim.
Danir búa við 3 ára menntaskóla, prívatspítala og prívatsjúkratryggingar sem val, ekki er þeirra þjóðfélag að sökkva í óbeislaða nýfrjálshyggju. Þetta snýst um að vera praktískur en ekki fastur í úreltri hugmyndafræði á vinstri eða hægri kantinum. Það eru þessar öfgar hér sem hafa komið okkur í þá stöðu sem við erum í.
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.9.2009 kl. 08:16
Veit ekki betur en að VG sé eini flokkurinn sem hefur talað fyrir því að sameina háskóla landsins.
Héðinn Björnsson, 4.9.2009 kl. 08:20
Annar liður í sparnaði og endurskipulagningu á íslensku menntakerfi. Hví í ósköpunum þurfum við að hafa 7 háskóla, í ca. 300.000 manna þjóðfélagi. Þetta hlýtur að flokkast sem heimsmet. Ég vinn mikið með útlendingum og þeir einfaldlega gapa þegar þeir heyra þessa staðreynd. Fækka þarf háskólunum niður í tvo, og það sem allra fyrst. Núverandi fjöldi skólanna eru einkenni útrásartímans þar sem mikilmennskubrjálæði Íslendinga tröllreið öllu.
Þórður Þ. Sigurjónsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 08:35
Takk fyrir þetta góð lesning - þarna væri hægt að spara hundruðir milljóna með þvi að breyta þessu kerfi og gera það jafnframt hnitmiðaðra, margt sem er kennt í íslendkum menntaskólum virðist frekar vera uppfyllingarefni heldur en nauðsynleg kennsla
Steinar Immanúel Sörensson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 08:46
Af hverju þarf allt að snúast um pólitík? Af hverju snúast hlutirnir ekki um það hvað er best fyrir Ísland og fólkið sem þar býr? Mér er alveg nákvæmlega sama hver kemur með góðar hugmyndir sem geta hjálpað okkur úr þessum vandræðum... við komumst aldrei úr þessu ef við hættum ekki að hlusta ekki á góðar hugmyndir bara af því þær komu úr hinum eða þessum flokki.
Ég er alveg sammála því að skoða megi breytingar í framhaldsskólakerfinu og þá helst styttingu á námi. Við erum eins og sagt er hér að ofan að klára skóla alltof seint. Núna á til dæmis að skylda leik- og grunnskólakennara í fimm ára nám þ.e. mastersnám sem þýðir að fólk er að klára í fyrsta lagi 25. Þetta er bara alltof seint.
Ég er á því að það megi líka alveg sameina einhverja háskólana en ég vill þó að það verði ekki gert eins og alltaf, þ.e. að háskólarnir í Reykjavík fái að standa ósnertir á meðan landsbyggðarháskólarnir eru allir settir undir þeirra hatt. Ég vill að t.d. Háskólinn á Akureyri fái að vera í núverandi mynd. Ég tel að Bifröst og HR ættu að sameinast þar sem þeir eru svipaðir hvað námsframboð varðar og síðan er hægt að sameina t.d. landbúnaðarháskólann undir HÍ og hann væri einhverskonar deild. Ég held að 3 skólar yrði flott. Það þarf bara að finna út hvar listaháskólinn á samleið sem deild, líklegast HÍ eða HR?
Auðbjörg (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 08:47
Ef ég pæli í því þá ætti landbúnaðarháskólinn heima inn í HA... HA er til dæmis með sjávarútvegsbraut þannig að það á alveg heima þar :)
Auðbjörg (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 08:48
Héðinn,
Það er gott að heyra að VG vilji sameina háskóla en það er bara fyrsta skrefið, betur má ef duga skal. Við skulum vona að Samfylkingin geti komið VG inn á miðjuna. ESB umsóknin var jú fyrsta skrefið. Kannski gelta VG menn meir en þeir bíta?
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.9.2009 kl. 08:48
Í nágrannalöndunum er herskylda, svo þar komast karlmenn ekkert fyrr út á vinnumarkaðinn.
--- (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 08:53
Herskylda, bíddu, eina lýðræðis þjóðfélagið sem ég man eftir þar sem er herskylda er ísrael.
Jóhann Hallgrímsson, 4.9.2009 kl. 09:00
Vandamálið liggur EKKI í einu ári lengur eða skemur í framhaldsskóla. Eða að kópíera eitthvað að utan, því gæðin liggja ekki í árafjöldanum heldur innihaldinu.
Fyrir þessu eru margar ástæður. Ein, svona til gamans, er sú að hraði er ekki það sem einkennir gott menntakerfi. Bætur á menntakerfi þurfa að snúast i kringum aðra umræðupóla.
Segi fyrir mitt leyti að þegar ég fór úr MH 1983 í Amerískann fylkisháskóla kom mér á óvart að hversu mörgu leyti menntunin í MH var framúrskarandi miðað við fyrstu tvö árin í viðkomandi háskóla. Sauðurinn er því misjafn og jafnvel erfitt að fullu meta gæði menntunar fyrr en áratugum seinna.
Ólafur Þórðarson, 4.9.2009 kl. 09:06
Menntamál á Íslandi eru í talsverðum ólestri og ég er sammála nær öllu sem þu segir.
Vil samt benda á að margir útrásarvíkingar voru menntaðir annars staðar.
Björgólfur Thor var í NYU, Sigurður Einarsson í háskóla í Köben, Hannes Smárason lærði á MIT og vann svo hjá McKinsey eins og þú sjaĺfur, Bjarni Ármansson tók MBA á fínu skóla í Sviss, Sigurjón Þ Árnason var í námi bæði í Bandaríkjunum og í Þýskalandi, osfrv.
Þessir gaurar ættu varla að hafa fáfræði sér til afsökunar. Svín fór yfir Rín og kom aftur svín segir máltækið. Sumir þeirra létu hreinlega glepjast en aðrir eru sennileg að eðlisfari dómgreindarlausir og illa innrættir og skiptir litllu máli hvar þeir hefðu setið á skólabekk, einhvers staðar hefðu þeir tekið skakka beygju fyrr eða síðar og gildir einu hvort þeir væru með flottar gráður í vasanum.
Sveinn (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 09:21
Sveinn,
Alveg rétt um hina erlendu menntun og mikil umræða hefur til dæmis verið erlendis um hvað sé kennt til MBA náms á Harvard og öðrum skólum. Þetta eru kannski áhættugen sem við fengum frá víkingum sem yfirgáfu Noreg.
Það er misjafn sauður í mörgu fé og menntun og starfsreynsla segir ekki alla söguna. Hins vegar eigum við að taka upp öfluga umræðu hvað er kennt í okkar skólum og hvort ekki eigi að breyta áherslum.
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.9.2009 kl. 09:33
Einhvern tíman las ég rökstuðning fyrir því að það ætti að skipta háskólum í tvennt. Annars vegar kennsluháskóla og hins vegar rannsóknarháskóla. Þeir ættu að finna sér hillu og einbeita sér að því sem lægi best fyrir þeim. Eftir þann lestur var ég sannfærður um að á Háskóli Íslands ætti að vera kennsluháskóli. Gæti ekki annað.
Grímur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 09:59
Ég hef oft bent á að kannanir í Bandaríkjunum sýna ótvírætt fram á að mesta svindlið er í viðskiptafræðideildum.
það er því rökrétt að álykta að vandamálið sé ekki bundið við ofangreinda einstaklinga.
Mér lýst illa á hversu mikil áhersla er lögð á þetta fag á Íslandi. En kannski ekki að undra því fjölmiðlar blása út að allt er til sölu fyrir 30 silfurpeninga, bara ef haldið er áfram að hagræða.
Ólafur Þórðarson, 4.9.2009 kl. 10:03
Af hverju er grunnskólinn 10ár þegar margir nemendur geti lokið því námi á 8-9árum? Nám fyrir grunnskóla er víða 12 ár þar á meðal í USA.
Best væri af afnema skólaskyldu og hafa í staðinn fræðsluskyldu. Hafa síðan samræmd próf í lok grunnskóla og lok menntaskóla. Nemendur hafi frjálst val hverning þeir undirbúi sig fyrir þessi próf.
Palli (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 10:10
Umræða um menntun og framhaldsmenntun þarf að innihalda Lánasjóðinn. Annars fer hún um víðan völl og endar alltaf á sama stað. Nám þarf að vera flokkað. Nemendur þurfa að hafa val miklu fyrr. Strax við 10 ára aldur eigum við að geta valið um 4 aðalfög (a level), 4 aukafög (b level) og 4 yfirlitsfög (c level). Með því væri hægt að stytta grunn- og miðmámið og hefja háskólanám í einu af sínu aðalfagi við 16-18 ára aldur. Hægt er að spara með því að hafa allt námsefni aðgengilegt á tölvutæku formi og skólana miðlæga gagnagrunna frekar en vinnustaði þar sem fólk er eins og rollur í réttum.
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 10:14
Ég skil ekki hvernig þú getur hengt þetta á VG. Það hefur enginn flokkur áhuga á að breyta menntakerfinu okkar. Vandamálið eru of margir sem lúra á þægilegum stöðum þar sem þeir eru æviráðnir í skólakerfinu. Þetta sama fólk kemur í veg fyrir að bátnum sé ruggað. Nú er, hins vegar, rétti tíminn til að rugga téðum bát. Eins og sagt er svo oft í MORFÍS: Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.
Sjálf reyndi ég að vekja athygli BB á þessu þegar hann var menntamálaráðherra. Hér er hægt að sjá viðbrögðin sem ég fékk: http://kolbrunh.blog.is/blog/kolbrunh/entry/932313/
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 4.9.2009 kl. 10:29
Kolbrún,
Ég er ekki að segja að aðrir flokkar séu með lausnir í menntamálum en þar sem VG fer bæði með menntamál og heilbrigðismál og Katrín afgreiðir OECD sem pólitík þá er eðlilegt að beina gagnrýninni þangað til að byrja með.
Hin pólitíska umræða um menntamál er á sorglega lágu plani hér á landi og svo virðist sem enginn stjórnmálamaður hafi neinar almennilegar skoðanir á þessum málaflokki.
Menntun á ekki að snúast um pólitík og það á Katrín að vita. Við þurfum praktískar lausnir þar sem við tökum mið af því besta erlendis og setjum nemendur í fyrirrúm. Við þurfum að beina sjónum okkar meir að gæðum en ekki einblína bara á hugmyndafræði og prósess.
Andri Geir Arinbjarnarson, 4.9.2009 kl. 10:54
"Menntun á ekki að snúast um pólitík og það á Katrín að vita. Við þurfum praktískar lausnir þar sem við tökum mið af því besta erlendis og setjum nemendur í fyrirrúm. Við þurfum að beina sjónum okkar meir að gæðum en ekki einblína bara á hugmyndafræði og prósess"
Þarna er ég algerlega sammála þér.
Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 4.9.2009 kl. 11:12
Finnland, maður, Finnland :-)
"It [Finland] has achieved all this by changing its entire system, delegating responsibility to teachers and giving them lots of support. There is no streaming and no selection; no magnet schools; no national curriculum; and few national exams. It is all, as that Finnish headmistress suggested, about getting good teachers - and then giving them freedom. If there is a lesson for EU leaders, it is: forget about multiple priority areas and action plans. European governments should go back to school. In Finland"
(Economist, 23.03 2006)
Svo er það sú staðreynd (allavega fyrir einhverjum árum) að Ísland var að koma ágætlega út varðandi fjárframlög í menntakerfið, en illa varðandi laun. Hvað segja þær upplýsingar okkur? Ofuráhersla á steinsteypu?
Af hverju eru svo leiðbeinendur orðnir að reglu á Íslandi, fremur en neyðarlegri nauðsyn sem ekki ætti að sjást? (ég var á sömu skoðun meðan ég vann sem slíkur).
Að síðustu má velta fyrir sér, nú þegar skólayfirvöld eru orðin stimpilklukkuóð, hvort ekki þurfi einmitt að hvetja kennara til að afþakka starfsaðstöðu í skólunum (fyrir þá sem sætta sig við slíkt) og jafnvel verðlauna fyrir. Því sparnaðurinn við slíkt hlýtur að teljast óumdeildur.
Beinn launakostnaður slíks aðila er í kringum 4,2 milljónir króna árlega sé ekki tekið tillit til starfsstöðvar og vinnuumhverfis, en sé allur kostnaður tekinn inn er sú tala nær 12,6 (stuðull til margföldunar er 3 og er þá tekið inn áætlaður kostnaður vegna rafmagns, hita, húsnæðis, starfsstöðvar, ræstingar, kaffi og veitinga og þannig fram eftir götunum).
(Fréttablaðið 19.12.2006)
baldur mcqueen (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 11:34
Sammála um að stytta námstímann í framhaldsskóla. Það þarf ekki að skerða námsinnihaldi. Íslendingar eru ekki tregir. Hraðbraut gefur Íslendingum kost á að klára framhaldskóla á tveim árum. Og þar er ekkert slakað á námsefni. Einnig er hægt að taka framhaldskóla á 3 árum ef maður velur bara aðeins fleirri einingar á hverri önn. 22-25einingar í staðinn fyrir 19einingar.
Þetta er alveg rétt þetta með samkeppnisstöðu Íslendingar erlendis. Þeir koma alltof seint á vinnumarkaðinn vegna þess að þeir eru of lengi á skólabekk. Er það hagkvæmt fyrir samfélagið?
En ég er ósammála með að allt doktorsnám er rugl nema jarðfærði og íslenska? Við eigum að efla doktarsnámið og stuðla að því að Háskóli Íslands verð meðal 100 bestu háskóla í heimi. Allar norðurlandaþjóðirnar eru með einn eða fleiri háskóla á þessum lista nema Ísland. Og þetta markmið er á stefnuskrá HÍ. Þessi árangur felst í því m.a að styrkja rannsóknarvinnu og phd nám. Ekki bara í Íslensku og Jarðfræði.
Einnig er ég ósammála að það á að leggja alla áherslu á BS og BA nám. Það á þvert á móti að styrkja MA og MS nám því þau vega meira en grunnámið þegar kemur að gæðum og jákvæðum ytri áhrifum fyrir samfélagði. BS og BA nám er frekar struktúruð á milli háskóla og sníst um grunndvallarkenningar.
Hawk, 5.9.2009 kl. 13:20
Ágætar athugasemdir um styttingu námsins. Sameining háskóla einnig augljós og nauðsynleg leið til þess að styrkja þá. En að halda því fram að hægt sé að reka sæmilega háskóla án doktorsnáms er glórulaust rugl. Það er skynsemi í því að velja út áherslugreinar til doktorsnáms; jarðfræði og Íslenska eru augljósir kostir en það sama mætti segja um erfðafræði, haffræði, vistfræði sjávar ofl. Án doktorsnáms er ekki hægt að halda í vísindafólk innan skólanna, ekki hægt að leggja samfélaginu lið í gegnum rannsóknarniðurstöður, kennslan á BA og BS stigum verður ekki sambærileg við kennslu í rannsóknarskólum, og búið að girða fyrir spin-off úr rannsóknarvinnunni. Reyndar er hæpið að kalla skóla sem er ekki með doktorsnám háskóla (ef orðið háskóli er notað í sömu merkingu og University).
Kalli (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 14:14
Andri.
Algjörlega sammála.
En, þar sem ég er nú dyggur talsmaður einkaframtaks þá er eitt sem ég hef aldrei skilið við alla hina mörgu og dýru háskóla á Íslandi. Þegar opnað var fyrir "einkavæðingu" með tilkomu HR, Bifrastar, ofl ofl., ásamt innheimtu þeirra sömu skóla á umtalsverðum skólagjöldum, hvernig stóð á því að kennarar þeirra séu á launum frá hinu opinbera í formi rekstrarframlags? Getur einhver útskýrt þetta undarlega "einkaframtak" fyrir mér? Er virkilega hagkvæmt fyrir samfélagið að reka svo margar einingar, og já ég segi samfélagið því einkaskólar með með núverandi sniði eru ekkert annað en ríkisreknir, önnur hlið á sama pening. Er þetta ekki málið, útþensla skóla sem bjóða nám í öllu og engu með ríkisábyrgð og greiðslum er heimskulegt bruðl sem takmörkuðum böndum er hægt að koma á? Höfum við efni á svona kerfi. Ef einkaskóli vill starfa þá starfar hann á eigin forsendum, eigin fé. Slíkur skóli þarf þá að vanda verulega til námsframboðs og skapa sér sérstöðu, bjóða eftirsóknarvert og praktískt nám. Hvað segja menn við því?
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 14:36
VG hefur ekki haft nein völd lengi eða allan þann tíma sem það hefur legið fyrir hve óhagkvæmt og fáránlegt séríslenska menntakerfið hefur verið. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem réð því að ekkert var gert til að stytta nám til stúdentsprófs þrátt fyrir meira en 10 ára gamalt ýtarlegt nefndarálit um hve nauðsynlegt væri að gera það og hvernig best væri að gera það.
HH (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 14:49
HH,
Ég get alveg verið sammála þér að hinir flokkarnir eru lítið betri en VG, en þar með er ekki sagt að við getum ekki bætt okkur og gert betur.
Við megum ekki setja mælistikuna þar sem íslenskir stjórnmálamenn eru, við verðum að gera meiri kröfur, næsta kynslóð á það skilið.
Andri Geir Arinbjarnarson, 5.9.2009 kl. 15:18
Afhverju segirðu að allt doktorsnám á Íslandi sé rugl? Hvað hefurðu fyrir þér í því? Afhverju er doktorsnám í jarðfræði eitthvað betra en doktorsnám í t.d. verkfræði? Það voru ekki námskeið á doktorsstigi, þannig að nemendur þurfa að leita út fyrir landssteinanna, er það það sem þú meinar?
Sonja (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 16:23
Dokorsnám er orðið svo sérhæft að það er erfitt að sjá hvernig við getum boðið upp á sömu tækifæri og aðrir skólar. Umhverfið skiptir miklu máli. Það að geta rætt við aðra stúdenta, haft aðgang að gögnum, tækjum og prófessorum með mikla reynslu og víðsýni er mikilvægt. Námið er ekki bara námsefnið eða ritgerðin. Sambönd og tengsl eru sérstaklega mikilvæg og þroskandi.
Það er stundum sagt að stunda nám við bestu háskóla heims sé eins og að drekka úr brunahana.
Að lokum er mjög einhæft að stunda nám á BS, MS og PhD stigi allt við sömu stofnunina. Fáir mæla með því.
Andri Geir Arinbjarnarson, 5.9.2009 kl. 21:17
Ég er sammála þessu með doktorsnámið. Það er bæði einstaklings- og þjóðarhagur að sem flestir íslenskir doktorsnemar stundi sitt nám erlendis. Að öðrum kosti verður inbreeding í íslenska vísindasamfélaginu - sem ég tel reyndar vera orðið nokkuð vandamál í sumum deildum háskólanna hérna.
Kama Sutra, 6.9.2009 kl. 03:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.