23.8.2009 | 13:38
Steingrímur J., Kjartan og Hannes Hólmsteinn sammála?
Steingrímur J. skrifar í janúar 2009 eftirfarandi:
"...Icesave-málið svokallaða og þá 700 milljarða króna skuld sem ríkisstjórnin hefur nú nánast tryggt að lendi að miklu leyti á íslensku þjóðinni."
Kjartan Gunnarsson skrifar 21. ágúst í Morgunblaðið:
"Í janúar var ég í meginatriðum sammála Steingrími og er það enn að frádregnum pólitískum upphrópunum hans ..."
og Hannes Hólmsteinn ritar á bloggsíðu sína, daginn eftir, um grein Kjartans:
"Ég get tekið undir hvert einasta orð í henni."
Hins vegar í júní 2009 segir Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans við RÚV:
"... [Sigurjón] er sannfærður um að Icesave-skuldirnar verði ekki fjárhagsleg byrði á íslensku þjóðarbúi í framtíðinni. Hann telur að eignir Landsbankans í Bretlandi dugi fyrir skuldum ..."
Mér finnst athyglisvert að fyrrverandi bankaráðsmaður Landsbankans og Hannes Hólmsteinn virðast sammála Steingrími J. um að Icesave skuldir lendi að miklum hluta á íslensku þjóðinni, þvert á fullyrðingu Sigurjóns fyrrverandi bankastjóra sem telur að eignir Landsbankans dugi fyrir Icesave skuldum?
Hver ætli hafi rétt fyrir sér hér og hvers vegna eru fyrrverandi bankaráðsmaður og bankastjóri ekki sammála um svona veigamikið atriði?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Steingrímur gaf sér, að þáverandi ríkisstjórn myndi semja (af sér) um greiðslu icesave-skuldanna. Það er aðeins, ef samið er á þann veg (eins og hann gerði síðan), að þær falla á Íslendinga (umfram það, sem fellur eftir réttum lögum og samningum á Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta). Spurningin er ekki, hvort ríkisábyrgð sé á innstæðum, því að svarið er já: Tryggingasjóðurinn ábyrgist innstæður. Spurningin er, hvort ríkisábyrgð sé á Tryggingasjóðnum, reynist hann ófær um að gegna skuldbindingum sínum. Þar segi ég nei (og Kjartan og Janúar-Steingrímur), en þar segir Ágúst-Steingrímur já.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, 23.8.2009 kl. 13:55
Þú kannt ekki að skammast þín Hannes?
Hvernig gengur annars með næstu bók "Hvernig getur Ísland orðið fátækasta þjóð í heimi?".
Þar getur þú lýst því hvernig fer fyrir samfélagi ef fámennri klíku eiginhagsmunaseggja tekst með skipulögðum hætti að ná alræðisvaldi yfir fámennri þjóð með því yfirtaka stjórnmálaflokka og landstjórnina án sýnilegs ofbeldis og koma ríkiseignum til klíkuvina í skjóli bankaleyndar og spillingar.
TH (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 15:15
Leitt að hér skuli koma inn nafnlaus hjáróma rödd og hallmæla þeim merka manni doktor Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, sem stígur loks úr hásæti sínu og ávarpar fjöldann í bloggheimum. Vei þessari nafnlausu bleyðu.
Niðurstöður áralangra rannsókna Dr. Hannesar náðu loks eyrum sauðsvarts almúgans í margumræddu viðtali á Baugsmiðlinum Stöð 2 þar sem hann jós úr ótæmandi viskubrunni sínum.
Þvílík blessun - að geta setið undir visku og útsjónasemi prófessorsins. Eitt smá dæmi t.d. þegar hann lýsti því hvernig einkavæða mætti auðlindirnar og búa þannig til fjármagn. Fjármagn sem hafði legið dautt. Ég endurtek “dautt”. Hvernig búa má til til auðæfi úr engu. Auðævi úr lofti einu saman. Þvílík snilld, þvílíkur vísdómur. Ein afurð þessara snilldar, bara til að nefna örlítið dæmi er "skuldabréfavafningur". Maður á ekki orð yfir þetta. Maður fellur í stafi; hvenær hef ég næst tækifæri á því að sitja við fætur Meistarans og læra ?
Því miður tóku nokkrir hann á orðinu og settu landið á hausinn; en “TH” – allt hefur sitt gjald - í guðanna bænum ekki kenna fræðimanninum um það. Það er ekki sanngjarnt að vega að manninum hér að ósekju.
Þessu mikilmenni , mannvitsbrekku og óskasyni þjóðarinnar, séu þau hógværu orð notuð, ber að sýna tilhlýðilega virðingu og umburðalyndi á þessum erfiðu tímum.
"Ábyrgðarmaðurinn" (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 17:54
Hannes,
Gott og vel, en spurningin er hversu langt ganga eignir Landsbankans upp í skuldina?
Það skiptir máli í hinum endanlega útreikning á hvað þjóðin borgar þegar upp er staðið.
Ef eignirnar ganga upp í höfuðstólinn eins og Sigurjón vill láta þá snýst Icesave skuldbindingin um vaxtakostnað ríkisins á þessu láni þar til uppgjöri er lokið. Þessi upphæð er mun lægri tala en 700 ma.
Því er mikilvægt að vita hvort Kjartan sem fyrrverandi bankaráðsmaður býr yfir einhverjum upplýsingum sem ganga á skjön við það sem Sigurjón heldur fram.
Andri Geir Arinbjarnarson, 23.8.2009 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.