19.7.2009 | 08:09
Ríkisokur á Icelandair flugmiðum - 40% of dýrir!
Nú þegar Icelandair er komið í meirihlutaeigu ríkisins leið ekki langur tími þar til verð á flugmiðum rauk upp úr öllu valdi og Iceland Express fylgdi fast á eftir. Bæði flugfélögin eru að sökkva í skuldir og er í raun beint eða óbeint haldið uppi af ríkinu enda getur landið ekki verið samgöngulaust.
Lítum nánar á þau einokunarverð sem nú gilda á flugmiðum til og frá landinu. Þegar British Airways flaug hingað til lands var samkeppni í flugi. Þá kostuðu miðar frá Keflavík til London með BA álíka og flugmiðar frá Stokkhólmi til London enda flugleiðirnar álíka langar. Í báðum tilfellum voru ódýrust miðarnir þá um eða undir 10,000 krónur.
Hver eru verðin í dag? Ég kíkti á vefsíður BA, Icelandair og Iceland Express til að leita af ódýrustu miðunum fyrir vikudvöl í London í október frá Reykjavík og Stokkhólmi.
Frá Reykjavík kostar ódýrasti miðinn með Icelandair kr. 37,540 til Heathrow og kr. 36,990 til Gatwick með Iceland Express.
Frá Stokkhólmi kostar ódýrasti miðinn með BA kr. 26,925 til Heathrow (veitingar innifaldar). Svo geta Svíar auðvita flogið með Ryanair til Stansted fyrir kr. 7,500.
Flugmiðar frá Reykjavík til London eru nú um 40% dýrari en þeir ættu að vera með eðlilegri samkeppni, þrátt fyrir fall krónunnar. Því miður hefur fall krónunnar brenglað allt verðskyn og verið miskunnarlaust notað til að hækka verð. Enda ekki vanþörf á, til að reyna að fá sem mest upp í sligandi vaxtakostnað.
Hér er bara eitt dæmi um að íslenskur almenningur er látinn borga skuldir og vexti óreiðumanna í hækkuðu verði, jafnvel hjá fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins.
Já, hrunið hefur aldeilis glætt lífi í gömlu íslensku einokunina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Líkt og þegar ríkið átti hlut í félaginu og fyrir samkeppni þá var rækilega passað upp á að engin skilyrði væru gerð til Icelandair um að tryggja sanngjarnt verð.Þvert á móti þá keyptu m.a. ríkisstarfsmenn alltaf dýrustu miðana og voru hvattir til þess. Icelandair hefur alltaf okrað ef þeir gátu.Kunningi minn sem vann og vinnur hjá Icelandair hefur sagt að félagið hafi aldrei skilað hagnaði nema þau ár þegar félagið fær samkeppni ( BA, Go, Icelandexpress fyrir Pálma etc ). Því má samt ekki gleyma að verð hefur lækkað.Keypti flugmiða árið 1983 til Kaupmannahafnar og hann var pexaður í bak og fyrir og ég yngri en 26 en miðinn kostaði samt 33.000 kr þá. Í mínu minni lækkuðu verð Icelandair fyrst eftir 9/11. ( vetrarverð ) og þegar GO byrjaði.Það gerði Ísland að einhverju leiti byggilegt.
Einar Guðjónsson, 19.7.2009 kl. 10:36
Vandamálið í greiningu þinni er að þú gleymir að verð miðanna í evrum hefur lækkað. 30.000 kr. er helmingi lægri upphæð í ervum en áður. Icelandair verður að miða verð sitt við evrur vegna þess að annars þá myndu útlendingar geta keypt miðanna allt of ódýrt.
Egill (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 10:45
Varðandi þa að greiða óreiðukostnað félaga. Verðið er hærra m.a. vegna greiðslu starfslokasamninga forstjóra Icelandair.
Þá undraði mig það í góðærinu að verð skyldi ekki lækka; eða í það minnsta að neytendur fengju að njóta árferðisins. T.d. hefðu vextir banka og sparisjóða mátt lækka í ljósi stærðarhagkvæmni þeirra og umfangs. Allt gekk svo vel hjá þeim. Veislur voru haldnar og arðgreiðslur útgreiddar í milljarðatugum og laun toppanna námu hátt í milljarði á ári ; menn hlógu og dönsuðu og fengu hundruði milljóna fyrri það eitt að hætta (núna bara 15).
Neytendur borguðu brúsann og gera enn.
Ég þurfti að kaupa marga miða á hverju ári í Ameríkuflugið á árunum 2001 - 2006 og þá var aðeins eitt félag Icelandair sem ég gat verslað við. Tók þó eftir því að verðið var svipað yfir tímabilið. Sá að það voru tvö verð í gangi, eitt verð fyrir íslendinga og síðan fengu útlendingarnir á lægra verði. Þ.e.a.s. við hér nutum ekki stærðarhagkvæmninnar.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 10:50
Ég held að það sé líka eðlilegra að verðið á flugmiðunum sé í samræmi við rekstrarkostnað flugfélagsins auk litilsháttar hagnaðar fyrir eigendur, heldur en að flugfélögin séu að lækka verðið niður í rasgat og langt undir kostaðarverð til að berjast blóðugri baráttu í falskri "samkeppni" sem verður svo til þess að við greiðum mismunin að lokum (plús lögfræðikostnaður) gegnum bankakerfið og með skattgreiðslum.
Julius (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 10:51
Rekstrarkostnaður Icelandair er að mestu í krónum og dollurum sem hafa fallið í verði gagnvart evru. Verð á flugmiðum í Svíþjóð og Bretlandi hafa fallið mælt í evrum og ekki má gleyma að í evrulöndum hafa miðar fallið í verði í evrum vegna lækkandi eldneytisverðs og eftirspurnar. Fyrir jól kostaði ódyrustu miðar hjá Icelandair frá London til Keflavíkur 169 pund en núna 209 þótt pundið sé aðeins sterkara núna en það var í desember. Á sama hátt hafa skattar og gjöld hækkað á hvern miða til London úr 15,000 kr í desember 19,000 kr en evra er svipuð núna og hún var í desember? Hvaða skattar hafa hækkað svona mælt í evrum?
Hvað varðar rekstrarkostnað eru það lágfargjaldaflugfélög eins og Easyjet sem eru ekki í neinu fjárfestingarbraski sem standa sig best og geta boðið upp á verð sem er innan við helmingur hjá gömlu félögunum.
Nú er kjörið tækifæri fyrir erlenda aðila sem hafa aðgang að fjármagni á lægri vöxtum en íslenska ríkið að koma inn á íslenskan flugmarkað. Vélar og áhafnir fást á góðum kjörum og ekki hafa þessir aðilar vaxtakostnað íslenskara fyrirtækja.
Andri Geir Arinbjarnarson, 19.7.2009 kl. 13:45
Ég var að kaupa miða með Icelandair hér í New York, til Íslands, og þeir voru dýrir en ódýrari en í fyrra. Hinu má ekki gleyma að ekki voru það ríkisstarfsmenn sem hafa rekið Icelandair með gríðarlegu tapi sl. árin. Nei það voru refirnir í hænsnakofanum sem segja að ríkið sé vanhæft á alla kanta. Bjálkinn í augum mannskepnunnar er ansi stór.
Ég vildi óska þess að hafa fleiri kosti í stöðunni.Andri, geturðu ekki stofnað fugfélag milli NY ogREK?? ;-)
Ólafur Þórðarson, 19.7.2009 kl. 14:08
Ég keypti flugmiða frá Osló til Keflavíkur og til baka með Icelandair. Ódýrasta verðið var 96.000,-
Það þyrfti að leggja niður þessi íslenzku flugfélög, sem er hvort eð er haldið uppi af ríkinu og leyfa erlendum flugfélögum að millilenda hér.
Stebbi (IP-tala skráð) 19.7.2009 kl. 19:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.